Hernaðaryfirgangur Bandaríkjanna á heimsvísu og Rússagrýlan

3. ágúst, 2019 Jón Karl Stefánsson



Árið 2018 eyddu Bandaríkin 649 milljörðum Bandaríkjadala í hermál. Þá eyddu þau ríki sem næst komu hvað hernaðarútgjöld varðar (Kína, Sádí Arabía, Indland, Frakkland, Rússland, Bretland og Þýskaland) 609 milljörðum Bandaríkjadala samanlagt (Tian o.fl., 2019).


Bandaríkin stunda umfangsmestu hergagnaframleiðslu heims. Fimm af tíu stærstu vopnaframleiðslufyrirtæki heims eru bandarísk, þar af þau þrjú stærstu. Meira en helmingur allra vopna heims eru framleidd af bandarískum fyrirtækjum. Bandaríki stunda einnig mesta útflutning á hergögnum allra ríkja, en þar er Rússland í öðru sæti. Vestur- og Mið Evrópuríki juku eyðslu sína í hermál á síðasta ári og beittu þar fyrir sér því að þau óttuðust hernaðarumsvif Rússlands. Sá ótti endurspeglast ekki í hernaðarútgjöldum Rússlands, enda eyða Frakkar meiru í hernað en Rússland og bæði Bretland og Þýskaland fylgja fast á eftir. Rússland hefur í þrjú ár í röð minnkað útgjöld sín til hermála; í fyrra um 3,5 prósentustig. Rússland, landið sem okkur hefur verið kennt að óttast allt frá árinu 1917, eyddi að andvirði rúmum 61 milljarði Bandaríkjadala í sín hermál.


Bandaríkin hafa tengst flestum hernaðarátökum á heimsvísu frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Auk beins árásarhernaðar, t.d. gegn Kóreu, Víetnam, Panama, Írak og Afganistan hafa Bandaríkin tekið þátt í ólöglegum stjórnarskiptaaðgerðum (t.d. í Íran, Líbíu, Chile, Jamaíka, Haítí, Indónesíu og Gvatemala), fyrst í gegnum leyniþjónustuna, CIA, og síða arftaka hennar í alþjóðlegum aðgerðum, National Endowment for Democracy. Þessi átök hafa kostað tugi milljóna mannslífa og lagt ríki í rjúkandi rúst. Bandaríkin hafa stutt gríðarlega hættulega alþjóðlega öfgahópa á borð við Libyan Islamic Fighting Group (fyrirrennara ISIS) í Norður Afríku, en uppgangur þessara afla hafa skapað vargöld í Malí, Líbýu, Nígeríu, Níger og Chad, auk vígahópa tengdum Al Kaída í Sýrlandi og yfirlýsta nýnasistahópa í Úkraínu á borð við Right Faktor. Bandaríkin hafa einnig stutt ógnarstjórnir á borð við Indónesíu og Sádí Arabíu og stutt einkarekin herlið víðsvegar um heim. Á þessari stundu taka Bandaríkin einhvern þátt í flestum vopnuðum deilum sem enn hafa ekki verið útkljáð á heimsvísu. Hér má nefna stuðning við hernað Sádí Arabíu í Jemen, þátttöku í eiturlyfjastríðunum í Mið-Ameríku, stuðning við uppreisnaröfl í Sýrlandi, stuðning við stríð Indónesíu gegn frumbyggjum í Papúa og Tímor og stuðning við landnemabyggðauppbyggingu Ísraela í Palestínu.


Bandaríkin starfrækja nærri því 800 herstöðvar í meira en 70 ríkjum (Vine, 2015). Til samanburðar starfrækir Rússland alls 8 herstöðvar utan eigin landamæra. Þær eru flestar í ríkjum sem tilheyrðu Sovétríkjunum, en einnig eru birgðastöðvar Rússa í Sýrlandi og Víetnam. Bandaríkin hóta nú árásarhernaði gegn Íran og Venesúela og hafa ýjað að hernaði gegn Rússlandi, Sýrlandi og Kína.

Ofan á þetta allt eru Bandaríkin ekki einungis mesta kjarnorkuveldi heims, heldur eina ríkið sem hefur beitt þeim hrikalega ógnvekjandi vopnum í hernaði gegn óvinum sínum. Heiminum stafar enn gríðarleg hætta af kjarnorkuvopnum, en ófáir telja þau vera mestu núverandi ógnina við tilvist mannkyns.

Sama hvernig litið er á málin er augljóst að Bandaríkin eru herskáasta og hættulegasta ríki heims. Skaðinn sem hlotist hefur af aðgerðum Bandaríkjanna, beinum og óbeinum, síðustu mannsæfi er slíkur að erfitt er að ná utan um hann.

Nú á aftur að hleypa þessu stórhættulega ríki í landið okkar. Bandaríkjaher ætlar að „fjárfesta“ milljörðum í að gera Ísland hluta að heimsyfirráðastefnu sinni. Enn á að nota hina ímynduðu hættu af hernaðarumsvifum Rússlands. Þjóðina á ekki að spyrja, við eigum einfaldlega að láta sem ekkert sé. Við gerum okkur meðsek með öllum frekari hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna og þiggjum blóðpeninga fyrir. Hræsni okkar, sem höfum beitt ýmis ríki efnahagsþvingunum fyrir meintar aðfarir að heimsfriðnum verður algjör.


Heimildir

Tian, N., Fleurant, A., Kuimova, A., Wezman, P. D. og Wezman, S. T. 2019. Trends in world military expenditure, 2018. Stockholm International Peace Research Institute. Sótt 29. Júlí 2019 af https://sipri.org/sites/default/files/2019-04/fs_1904_milex_2018_0.pdf

Vine, D. 2015. Where in the world is the U.S. military? Politico. Sótt 29.07.2019 af https://www.politico.com/magazine/story/2015/06/us-military-bases-around-the-world-119321