Hannes Hólmsteinn og söguskoðun síonista um rætur Palestínuátakanna

8. nóvember, 2024 Tjörvi Schiöth


Stuðningsmenn Ísraelsríkis eins og Hannes Hólmsteinn Gissurarson halda uppi þeirri vafasömu söguskoðun að Arabaríkin hafi byrjað stríðið 1948 til þess að „kyrkja hið nýstofnaða Ísraelsríki í vöggunni“. Þeir ganga jafnvel stundum svo langt að líka Aröbum saman við nasista og segja að markmiðið hafi verið að „útrýma öllum gyðingum“ og „framkvæmda aðra Helför“.


Vandamálið við þessa ofureinfölduðu, slagorðakenndu og áróðurskenndu söguskoðun er bara að hún passar einfaldlega ekki við staðreyndir málsins. Sagnfræðingar eins og Benny Morris, Ilan Pappé og Avi Shlaim (hinir svokölluðu „new historians“ í sagnfræði Ísrael-Palestínu) hafa skrifað margar bækur og greinar um þetta þar sem þeir hafa sýnt fram á — á óvéfengjanlegan hátt með víðtækri rannsókn á frumheimildum og skjölum Ísraelsmanna sjálfra — að það voru hersveitir síonista í Palestínu sem byrjuðu stríðið í nóvember 1947, sex mánuðum áður en Arabalöndin (Jórdanía, Egyptaland, Sýrland o.s.frv.) urðu þátttakendur í stríðsátökunum þann 15. maí 1948.


Stríðið 1947-1948 var í tveimur fösum


Það er vel þekkt að stríðið 1947–1948 var í tveimur „phases“ (eða fösum). Fyrsti fasinn var „borgarastyrjöld“ milli síonista og Palestínumanna í „Mandatory Palestine“, sem stóð yfir frá 30. nóvember 1947 til 15. maí 1948. Seinni fasinn var síðan milliríkjastríð þegar Arabaríkin gerðu hernaðaríhlutun í borgarastyrjöldinni, og voru í beinu stríði við Ísraelsríki eftir stofnun þess þann 14. maí 1948, en sá fasi varði til 20. júlí 1949.


Stríðið byrjaði sem sagt 30. nóvember 1947, daginn eftir að ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 181 hafði verið samþykkt á allsherjarþinginu, sem fjallaði um skiptingu „Mandatory Palestine“ í tvö ríki milli gyðinga og Palestínumanna. Gefnir voru 6 mánuðir til að framkvæma þessa áætlun sem átti að taka gildi þann 15. maí 1948, dagsetningin sem var sett fyrir brottför Breta frá Palestínu.


Nakba

Vígasveitir Yishuv (gyðingasamfélagsins í Palestínu): Haganah, Palmach, Irgun og Lehi, byrjuðu strax árásir á Palestínumenn þann 30. nóvember 1947, daginn eftir að ályktun SÞ hafði verið samþykkt. Það var m.a. til að ná sem mestu landsvæði á sitt vald og hrekja eins marga Palestínumenn á brott áður en skipting Palestínu í tvö ríki og stofnun Ísraelsríkis myndi eiga sér stað.

Í árslok 1947, mörgum mánuðum áður en Arabaríkin urðu þátttakendur í stríðinu, höfðu þessar vígasveitir síonista þegar framið 33 fjöldamorð á Palestínumönnum (heimild: Baud, 2024, bls. 30). Þann 10. mars 1948 samþykktu leiðtogar síonista hernaðaráætlunina „Plan Dalet“ og fóru í mikla sókn í apríl samkvæmt þeirri áætlun. Þetta „Plan D“ snérist um að undirbúa Palestínu fyrir stofnun ríkis gyðinga með því að ná sem mestu landsvæði á sitt vald fyrir dagsetninguna 15. maí þegar ályktun SÞ nr. 181 um skiptingu Palestínu (og brottför Breta frá landinu) átti að taka gildi.

Frá 1. apríl til 15. maí 1948 framkvæmdu vígasveitir síonista eftirfarandi hernaðaraðgerðir sem snéru að því að hrekja Palestínumenn á brott, eyðileggja þorp og bæi þeirra, eða beinlínis drepa þá, í því skyni að undirbúa stofnun Ísraelsríkis:
operation NACHSHON (1. apríl)
operation HAREL (15. april)
operation MISPARAYIM (21. apríl)
operation CHAMETZ (27. apríl)
operation JEVUSS (27. apríl)
operation YIFTACH (28. apríl)
operation MATATEH (3. maí)
operation MACCABI (7. maí)
operation GIDEON (11. maí)
operation BARAK (12. maí)
operation BEN AMI (14. maí)
operation PITCHFORK (14. maí)
operation SCHFIFON (14. maí)
(heimild: Baud, 2024, bls. 31).

Frá 30. nóvember 1947 til ársloka 1948 höfðu síonistar hertekið 80% af öllu landsvæði Palestínu, lagt 500 þorp og bæi Palestínumanna í eyði, drepið 15.000 óbreytta borgara og hrakið 800 þúsund þeirra á flótta. Þann 9. apríl frömdu síonistar hrottalegt fjöldamorð á konum og börnum við Deir Yassin, þar sem hátt í 140 manns voru drepnir, en þetta ódæðisverk var framið af vígasveitunum Irgun og Lehi, sem voru leiddar af Menachem Begin (sem seinna varð forsætisráðherra Ísrael).

Þetta var Nakba, sem hafði byrjað og átti sér stað af stærstum hluta ÁÐUR en Arabalöndin (Jórdanía, Egyptaland, Sýrland o.s.frv.) urðu þátttakendur í stríðinu þann 15. maí 1948. Ein af ástæðunum fyrir hernaðaríhlutun þessara ríkja í borgarastyrjöldinni í Palestínu var einmitt út af þessum þjóðernishreinsunum vígasveita síonista á Palestínumönnum, sem höfðu þegar staðið yfir mánuðum saman.


Voru Arabaríkin að reyna að „kyrkja hið nýstofnaða Ísraelsríki í vöggunni“ og drepa alla gyðinga?

Þá var einnig þannig, eins og sagnfræðingurinn Avi Shlaim hefur fjallað um í bókinni Collusion Across the Jordan: King Abdullah, the Zionist Movement and the Partition of Palestine (1988), þar sem hann sýndi fram á með vísan í frumheimildir að konungur Jórdaníu, Abdullah, var í leynilegu samráði við leiðtoga síonista, þ.á.m. David Ben-Gurion, um að skipta landsvæðinu á milli sín. Jórdanía átti að fá að hertaka og innlima Vesturbakkann (og koma þannig í veg fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna). En ein af ástæðunum fyrir því að hin Arabaríkin: Egyptaland, Sýrland o.s.frv. gengu í stríðið, var vegna deilna þeirra við Abdullah, konung Jórdaníu, en þau vildu koma í veg fyrir að Jórdanía myndi hertaka Vesturbakkann. Þannig að Arabaríkin voru alls ekkert samstíga í þessu og það voru deilur og átök þeirra á milli.


Ástæðurnar fyrir þátttöku Arabaríkjanna stríðinu 1948 voru þess vegna flóknar og margslungnar. En ekki eins og þessi ofureinfaldaða, svarthvíta og áróðurskennda söguskoðun síonista og stuðningsmanna Ísrael nú á dögum, um að þetta hafi verið samstillt allsherjarinnrás Arabaríkjanna á hið nýja ríki gyðinga til að „kæfa Ísraelsríki í vöggunni“. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Staðreyndirnar sýna annað.

Mýtan um Davíð gegn Golíat

Þetta með að stríðið hafi verið „Davíð gegn Golíat“ eins og Hannes Hólmsteinn segir í athugasemdinni, er einnig önnur gömul og þreytt klisjukennd mýta síonista. Raunveruleikinn var sá að Yishuv, samfélag gyðinga í Palestínu, og Ísraelsríki þar á eftir (eftir stofnun þess 14. maí 1948), voru allan tímann með talsvert stærra og öflugra herlið heldur en Palestínumenn og öll Arabalöndin í kring (sem tóku þátt í stríðinu eftir 15. maí). Síonistar voru með gríðarlega marga „paramilitary“ hermenn í þessum skæruliðahreyfingum: Haganah, Palmach, Irgun og Lehi, þannig að samtals var herlið þeirra stærra heldur en herlið allra Arabaríkjanna samanlagt. Eða um 115.000 gegn 75.000. Þess vegna unnu Ísraelsmenn líka stríðið… Vegna þess að þeir voru sterkari. Þetta var ekkert „Davíð gegn Golíat“ dæmi.

Önnur ástæða fyrir því hvers vegna Ísraelsmenn voru svona sterkir í þessu stríði var sú að herlið þeirra var leitt af herforingjum sem höfðu verið í breska hernum og höfðu mikla reynslu af því að berjast, enda nýbúnir að taka þátt í hernaðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Það má segja að Ísraelsríki hafi verið nokkurskonar arftaki breska heimsveldisins. Arabaríkin höfðu aftur á móti ekki þessa miklu hernaðarreynslu eða þekkingu. Þau voru flest fyrrverandi nýlendur Breta og veikburða og voru einnig með talsvert fámennara og veikara herlið. Þau voru heldur ekki sameinuð eða samstillt, heldur áttu í deilum og átökum sín á milli (eins og Avi Shlaim sýndi fram á í Collusion Across the Jordan, 1988). Þess vegna töpuðu þau þessu stríði.

Heimildir:
Baud, Jacques. (2024). Operation Al-Aqsa flood: The Defeat of the Vanquisher. Max Milo.
Flapan, Simha. (1987). The Birth of Israel: Myths and Realities. Pantheon Books.
Morris, Benny. (1987). The Birth of the Palestinian Refugee Problem. Cambridge University Press.
Morris, Benny (2008). 1948: The First Arab-Israeli War. Yale University Press.
Pappé, Ilan. (1988). Britain and the Arab-Israeli Conflict, 1948–51. Palgrave Macmillan.
Shlaim, Avi. (1988). Collusion Across the Jordan: King Abdullah, the Zionist Movement and the Partition of Palestine. Columbia Uniuversity Press.
Shlaim, Avi (1995). „The Debate about 1948“. International Journal of Middle East Studies. 27 (3): 287–304. doi:10.1017/S0020743800062097
Shlaim, Avi, og Rogan, Eugene L. (ristj.). (2007). The War for Palestine: Rewriting the History of 1948. Cambridge University Press.