Hálf milljón fallin í „stríði gegn hryðjuverkum“

12. nóvember 2018 — Þórarinn Hjartarson


unclesamiwantu

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ sem hófst 2001 hefur kostað hálfa milljón mannslífa. Stríð Bandaríkjanna með NATO í eftirdragi. Það er Watson Institute for International and Public Affairs við Brown University (á Rhode Island, USA), virt bandarísk stofnun sem nýlega sendi frá sér tölur yfir látna í umræddu stríði. RÚV gerði skýrslunni raunar allgóð skil. Sjá nánar hér

Tölurnar eru sláandi og þær vaxa enn hratt. Nærri tvöfaldur fjöldi Íslendinga. Tölurnar byggja á opinberum gögnum frá þessum löndum. En skýrslan sjálf segir að mannfallið sé að öllum líkindum vantalið. Sem eitt dæmi nefnir skýrslan sprengjuhernaðinn gegn Mosul í Írak þar sem væntanlega aldrei var talinn (eða fundinn) nema hluti fallinna borgarbúa.

Svo er á það að líta að skýrslan takmarkar sig við þrjú lönd: Afganistan, Pakistan og Írak. Það er aðeins hluti af „stríðinu langa í Stór-Miðausturlöndum“ sem Bandaríkin og NATO hófu eftir 11. septembewr 2001. Hér eru ekki meðtalin stríðin gegn Líbíu og Sýrlandi sem Bandaríkin voru/eru höfuðaflið á bak við (íhlutun Bandaríkjanna í Sýrlandi kallast „stríð gegn ISIS“) ellegar stríðið gegn Jemen sem Bandaríkin líka styðja með fé og vopnum.

Ennfremur er þess að gæta að tölurnar ná fyrst og fremst yfir fallna í beinum hernaðarátökum, ekki yfir það fólk sem látið hefur lífið af óbeinum afleiðingum stríðsins eins og sjúkdómum og eyðilögðum innviðum samfélaganna.

En meginniðurstöður skýrslunnar um fallna í þessum þremur löndum eru eftirfarandi: í Afganistan 147 000, í Pakistan 65 000, í Írak 280 000, samanlagt 480-507 þúsund. Almennir borgarar eru um helmingur fallinna (240 þúsund). Tíu milljón manns hafa verið reknar á flótta. Sjá skýrsluna hér. Skýrsla

Aðeins Bandaríkjunum leyfast slík fjöldamorð vítt um veröldina. Yfirskriftin er fín: „stríð gegn hryðjuverkum“. En her og leyniþjónusta Bandaríkjanna eru öflugustu hryðjuverkasamtök heims.