Getum við farið að tala um covid á eðlilegan hátt?

6. desember, 2021 Jón Karl Stefánsson

Þreyttasta umræðuefni í heimi um þessar mundir er covid. Hver einn og einasti fréttatími hefst á fréttum um fjölda smita, nýjum afbrigðum, og ekki síst um bólusetningu. Gefið er í skyn að óbólusettir fylli nú sjúkrarými og valdi gríðarlegum skaða, svo miklum að til eru fylgismenn þess að neyða fólk til að láta sprauta sig.

Það er kominn tími á að staldra við og skoða raunveruleikann. Þegar þær tölur sem liggja fyrir hjá Landspítalanum um covid, bólusetningar o.s.frv. frá 10. ágúst til dagsins í dag eru skoðaðar kemur þessi niðurstaða fram:

covidtafla

Svona lítur hin kalda tölfræði um hættuna af covid út fyrir bólusetta og óbólusetta. Þessar tölur gera ekki ráð fyrir skuggatölum (smit sem ekki greinast), en gefa einhverja mynd af raunverulegri ógn sem bólusettum og óbólusettum stafar af þessum sjúkdómi. Hvað getum við lesið úr þessum tölum?

Þeir sem eru bólusettir eru auðvitað bæði miklu fleiri í heildina, og auk þess eldri. Hinir óbólusettu eru oftar yngra og hraustara fólk. Bólusetningin ver gegn covid-19, en við vitum ekki hversu miklar aukaverkanir eru af þessum efnum. Hún tefur fyrir smiti, þ.e.a.s. þau mótefni sem koma af þessum bólusetningum. En hjá þeim sem smitast er samt sem áður sannleikurinn sá að mjög lítill munur er á þessum tveimur hópum þegar þeir eru skoðaðir hrátt.

Ef við útvíkkum tölfræðina fyrir óbólusetta og gerum ráð fyrir því að allir þeir óbólusettu sem enn hafa ekki smitast myndu smitast á næstu misserum, munu bráðadeildir og líkgeymslur landsins fyllast og það valda öngþveiti í samfélaginu?

Staðfest smit á Íslandi eru nú 18.333 í heild. Af þeim eru líklega um 10 þúsund óbólusett, enda teljast þá öll smit í fyrra með. Reikna má með að um 10 þúsund smit hafi farið fram hjá greiningu (m.v. rannsóknir ÍE í fyrra á skuggasmitum náðist einungis að greina um þriðjung smita frá upphafi til september 2020). Einungis um 25 einstaklingar hafa fengið endursmit svo vitað sé á Íslandi, og voru síðari smitin oftast væg, svo náttúrulegt ónæmi virðist mjög sterkt enn sem komið er. Mannfjöldi á Íslandi er nú um 370 þúsundir og af þeim hafa um 286 þúsund verið bólusettir, 84 þúsund eru óbólusettir. Það þýðir að um 64 þúsund óbólusettir Íslendingar geta mögulega smitast á næstu misserum. Ef svo illa skyldi fara, allir smitast, versta mögulega niðurstaða, þá hljóðar útkoman meðal óbólusettra svona: Rúmlega 59 þúsund munu jafna sig heima hjá sér, rúmlega 4800 munu þurfa að fara á bráðadeild, tæplega 650 munu lenda á gjörgæslu og 17 munu deyja.

Til að setja þetta í samhengi við aðra almenna tölfræði á Íslandi þá þurfa 95 þúsund manns að leita til bráðadeilda á venjulegu ári, 2600 manns deyja ár hvert. Óbólusettir covid-19 sjúklingar geta því í versta falli tekið 5% plássa í bráðadeildum og náð 0,6% allra dauðsfalla á ársgrundvelli.

Jafnvel þótt allur þessi hópur yrði bólusettur myndi það samt ekki þýða að 17 mannslíf myndu sparast, eða að enginn þeirra lenti á gjörgæslu. Bólusettir lenda á gjörgæslu og geta dáið af völdum covid. Þeir sem ekki láta bólusetja sig fá heldur ekki aukaverkanir, en allnokkur fjöldi bólusettra hefur þegar tapað heilsu vegna aukaverkana. Ómögulegt er því að fá nákvæma tölu yfir áhrif þess að bólusetja alla, en ef við segjum sem svo að það komi í veg fyrir helming innlagna og andláta af völdum covid, þá þarf enn að reikna með því hvaða heilsufarsleg áhrif geta orðið af því að lama samfélagið um of vegna sóttvarnaraðgerða. Getur það t.d. valdið heilsuskaða að missa tekur og atvinnu, hægir á nauðsynlegri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins ef hið opinbera verður af tekjum, veldur kvíði vegna óttaboða heilsufarsvanda o.s.frv? Það vitum við ekki.

Það sem við getum slegið föstu er það að það er kominn tími til að hætta öllu ofstæki í kringum covid-19 hjá óbólusettum. Langflestir munu jafna sig heima og þeir sem þurfa að leggjast á sjúkrahús hafa fullan rétt til þess. Það er enginn tilgangur með frekara ofstæki og áróðursherferðum. Ekkert sérstakt mun nást með því héðan af.