Fyrsti hluti: Hvernig CIA stal fréttunum

22. júlí, 2021 Jón Karl Stefánsson

Hér er sú fyrsta í greinasafni um ítök bandarísku Leyniþjónustunnar í opinberri umræðu á Vesturlöndum. Hér verður stiklað á stóru um það hvernig hún laumaði sér inn í fjölmiðlana og náði með tímanum gríðarlegum áhrifum á fréttaflutningi og sögumótun á heimsvísu. Skipulagðar aðgerðir CIA til að hafa mótandi áhrif á fjölmiðla hófust með undarlegu verkefni sem hafði starfsheitið MOCKINGBIRD, en dreifðu svo úr sér. Undir lok 20. aldarinnar stærði Leyniþjónustan sig sjálf að því að vera með tögl og hagldir í öllum helstu fjölmiðlum Vesturlanda. Þó mjög margt sé enn á huldu um leynilegar fjölmiðlaaðgerðir CIA hefur nógu margt komist upp á yfirborðið sem sýnir að Leyniþjónustan er líklega sú einstaka stofnun á heimsvísu sem hefur mest áhrif allra á efnistök fjölmiðla. Því er full ástæða er til að vera tortrygginn á uppruna þeirra frétta sem berst okkur almenningi.

Áróðursstarf bandarísku Leyniþjónustunnar

Bandaríska leyniþjónustan, CIA, varð til þann 18. september 1947 þegar þáverandi forseti Bandaríkjanna, Harry S. Truman, skrifaði undir lögin „National Security Act“. Stofnunin tók óbeint við af „Office of Stratetic Services“ (OSS) sem starfaði frá 13. júní 1942 til 20. september 1945, en OSS sameinaði margar smærri njósnastofnanir á meðan Heimsstyrjöldinni seinni stóð.

Leyniþjónustan hefur ætíð verið gríðarlega fjársterk og innan hennar rúmast margar deildir sem hafa hver sín meginverkefni. Hvað áróður varðar voru nokkrar stofnanir meira virkar en aðrar á upphafsárum sínum. Office of Special Operations (OSO) var þannig sú deild innan CIA sem sá um njósnir og aðra upplýsingasöfnun. Fyrsta stóra verkefni hennar var að hafa áhrif á þingkosningarnar í Ítalíu árið 1948 til að tryggja að kosningabandalag undir forystu kristilegra demókrata myndi örugglega sigra, og þótti það verkefni heppnast einstaklega vel (Callanan, 2009, bls. 37-39). Árið 1948 hóf the Office of Policy Coordination (OPC) störf sem sú deild innan leyniþjónustunnar sem sá um svokallaðar leynilegar aðgerðir (Saunders, 1999). Fyrsti forstjóri OPC var Frank Wisner sem var áður yfirmaður OSS.

Herská utanríkisstefna gegn Sovétríkjunum

Þann 7. apríl 1950 lagði Utanríkis- og Varnarráðuneyti Bandaríkjanna fram til samþykkis til þáverandi forseta, Harry S. Truman, útlistun á framtíðarstefnu ríkisins undir nafninu United States Objectives and Programs for National Security, en þessi stefna bar skammstöfunina NSC 68. Í 66 blaðsíðna skýrslu sem lá til grundvallar stefnunni var ákveðið að auka gríðarlega fjárframlög til varnarmála. Þetta var hið raunverulega upphaf Kalda stríðsins. Áhersla var lögð á þróun vetnissprengjunnar og mikinn stuðning við ríki sem þóttu vinveitt Bandaríkjunum. Skýrt var ákveðið að í stað þess að stunda vinsamleg samskipti við Sovétríkin, eins og George F. Kennan hafði lagt til árið 1947, skyldi framvegis stunda herskáa stefnu sem miðaði að því að binda endi á kommúnismann hvar sem hann fyndist. Styrkja ætti hernaðarmátt vinveittra ríkja, byggja upp herstöðvar og herfylki um heim allan, skipuleggja hernaðaraðgerðir sem miðuðu að því að veikja mátt Sovétríkjanna og setja af stað leynilegar aðgerðir með aðstoð stofnana á borð við CIA. Hernaðarútgjöld Bandaríkjanna ættu að þrefaldast í það minnsta, en það fé ætti að nást með því að skera niður í öðrum ríkisútgjöldum. Áróður yrði öflugasta vopnið gegn kommúnismanum og þar, eins og annars staðar, mátti beita öllum tiltækum ráðum. Hér átti CIA eftir að gegna lykilhlutverki.

Mockingbird

Það voru þáverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar, Allen Dulles, og samstarfsfélagi hans, Edward Hunt, sem leiddu stofnun fjölmiðlaverkefnis sem átti eftir að hljóta nafngiftina „MOCKINGBIRD“. Þetta verkefni hafði það háleita markmið að verða stærsta áróðursherferð allra tíma sem skyldi breiða út fagnaðarerindi kapítalisma og bandarískrar utanríkisstefnu. Dulles hafði þá þegar langa reynslu af bæði opinberum og leynilegum fjölmiðlaaðgerðum. Hann hóf feril sinn sem yfirmaður þeirrar deildar OSS, forvera CIA, sem hafði aðsetur í Sviss á dögum seinni heimstyrjaldarinnar. Þessi deild hafði meðal annars yfirumsjón með því að flytja hundruð þýskra vísindamanna og embættismanna til Bandaríkjanna og Suður-Ameríku. Sú aðgerð varð fræg undir nafninu „Operation paperclip“. Dulles var auk þessa tíður pistlahöfundur hjá tímaritinu „Readers Digest“ og hafði því góða innsýn inn í heim blaðamennsku og útgáfustarfsemi. Starfsemin sem rúmaðist innan MOCKINGBIRD verkefnisins var fjölbreytt, en aðaláhersla var ætíð að finna leiðir til að hafa áhrif á almenningsálitið á tilteknum málefnum. Dulles notaði sjálfur hugtakið „hugarstjórn“ (mind control) fyrir markmið verkefnisins.

Congress for Cultural Freedom

Meðal verkefnanna var að koma á fót stofnuninni „Congress for Cultural Freedom“ (CCF). Tilgangur hennar var meðal annars að fjármagna útgáfustarfsemi um allan heim í áróðursskyni. CCF hafði yfir að ráða miklu magni af skattfé (og öðru fé) sem það notaði til að útdeila til fjölmiðla og útgefenda víðsvegar um heiminn sem töldust vinveitt kapítalisma, Bandaríkjunum og hinum ýmsu utanríkisverkefnum CCF og leyniþjónustunnar. Þetta gerði samkeppnisstöðu slíkra fjölmiðla og útgefenda gríðarlega sterka, og gaf leyniþjónustunni betra færi á að nota þessa fjölmiðla og útgáfur beint í að dreifa áróðri. CCF notaði einnig fjárstuðning til þess að hafa áhrif á fjölmiðla sem töldust almennt ekki fylgjandi bandarískri utanríkisstefnu. Þannig ætti að ná til jafnvel stækustu sósíalista og hafa áhrif á það hvernig vinstrihreyfingar þróuðust.

Starfsmenn leyniþjónustunnar voru einnig sendir út af örkinni til að gerast starfsmenn fjölmiðla, gjarnan sem blaðamenn eða jafnvel ritstjórar. Einnig stóðu framámenn í Mockingbird-verkefninu fyrir stofnun fjölmiðla sem komu fram undir fölsku flaggi. Dæmi um þetta var tímaritið „The Helsinki Youth News“. Tímarit þetta kom fram sem róttækt blað sósíalista og átti að höfða til ungra vinstrisinna í Finnlandi. Raunverulegur tilgangur þess var að möndla með hugmyndir og skoðanir áhrifagjarnra unglinga svo þeir yrðu á endanum hliðhollir verkefnum leyniþjónustunnar. Ritstjóri Helsinki Youth News var Clay Felker, en hann var á launaskrá hjá Leyniþjónustunni (Lector, 1985).

Annað dæmi um útgáfufyrirtæki sem naut fjárframlaga frá CCF var breska tímaritið „Encounter“. Upphaflega var það gefið út til að höfða til and-stalínískra vinstrisinna í Bretlandi en fjármögnunin hafði þann tilgang að gera álit lesenda þess jákvætt í garð bandarískrar utanríkisstefnu (Sounders, 1999. Sjá nánar hér). Önnur tímarit sem CCF gat stært sig af að hafa náð stjórn yfir voru Preuves í Frakklandi, Tempo Presente í Ítalíu, Forum í Austurríki, Quadrant í Ástralíu, Jiyu í Japan og Cuadernos og Mundo Nuevo í Rómönsku Ameríku.

Leyniþjónustan náði til ýmissa frammámanna í grasrót vinstrihreyfinga af ýmsu tagi. Ein þeirra var Gloria Steinem. Hún stofnaði eitt öflugasta tímarit femínismans, „Ms. Magazine“ og þáði aðstoð og fjárframlög frá Leyniþjónustunni fyrir (skjöl sem leynd hefur verið létt af í krafti „Freedom of Information Act“ löggjafarinnar sýna tengsl Steinems við Leyniþjónustuna, sjá Lofton, 1975). Steinem hóf samvinnu við Leyniþjónustuna þegar hún tók þátt í því að undirbúa hóp bandarískra ungmenna til að taka þátt í sumarbúðum sósíalista í Vínarborg og Helsinki árin 1959 og 1962 sem báru nafnið „World Youth Festival“. Hún var þá í vinnu fyrir stofnunina Independent Research Service sem var beinlínis stofnuð Congress for Cultural Freedom á laun, einmitt til að afvegaleiða vinstrihreyfingar víða um heim (sjá nánar hér). Hún lét hafa eftir sér að henni hafi fundist leyniþjónustumennirnir „frjálslyndir og framsýnir og opnir fyrir skoðanaskiptum“ og bætti við að „Leyniþjónustan“ væri eina stofnunin sem „þyrði og sæi nógu langt til að skilja að málefni ungdóms og stúdenta væru mikilvæg“ (Lector, 1985).

Verkefni sem rúmuðust innan MOCKINGBIRD voru mörg og fjölbreytt og náðu meir að segja til listar og menningar. Þannig lagði CCF sérstaka áherslu á að styðja svokallaðan abstrakt expressíonisma í allri list. Listamenn á borð við Jackson Pollack og William de Kooning, auk Louie Armstrong og Dave Brubeck voru sérstaklega styrktir og sendir út sem „listrænir sendiherrar“. Ýmsar ástæður voru fyrir því að styrkja einmitt þessa tegund listar. Henni var þannig stillt upp gegn list með pólitískum og þjóðfélagslega gagnrýnum undirtóni og sló að einhverju leiti vopnin úr höndum andstæðinga bandarískrar utanríkisstefnu.

Upp komast svik

Þó að Leyniþjónustan kynni ýmislegt til að bera nafn með rentu láku smátt og smátt upplýsingar til fjölmiðla og á endanum komst upp að minnsta kosti hluta af leynilegum fjölmiðlaaðgerðum hennar.

Í fundargerð frá Leyniþjónustunni sem lak til New York Times árið 1967 var rætt um hvernig mætti að sporna við efasemdarröddum um réttmæti Warren-skýrslunnar, sem var opinbera skýrslan um morðið á John F. Kennedy. Í fundargerðinni segir meðal annars að bregðast skyldi við með því að „ræða við tengiliði okkar og vinsamlegt tengslanet í efri lögum samfélagsins, sérstaklega stjórnmálamenn og ritstjóra“. Einnig átti að „virkja áróðurstengla [propaganda assets] til að svara og véfengja árásum gagnrýnenda okkar… Bókagagnrýni og tímaritsgreinar eru sérstaklega viðeigandi í þessu sambandi“. Gagnrýnendur átti að útmála sem „fasta í kenningum sem komu fram áður en skýrslan var birt“ og væru með fjárhagslega og pólitíska hagsmuni við að draga skýrsluna í efa og væru „hroðvirknislegir eða ónákvæmir í rannsóknum sínum, eða ofurseldir eigin kenningum“ (New York Times, 1967).

Þetta var meðal fyrstu skipta sem opinberað var að Leyniþjónustan átti svokallaðar „eignir“ (assets) innan fjölmiðlastéttarinnar. Síðar kom það betur í ljós að þetta var lykilþáttur í starfsemi hennar. Leyniþjónustan hafði fjölda blaðamanna, ritstjóra og aðra áhrifamenn í fjölmiðlaheiminum á sínum snærum og þetta tengslanet fór sístækkandi.

Leyniþjónustan hafði þá þegar lengi stundað þá iðju að dreifa nafnlausum fréttum í fjölmiðla til að koma málstaði sínum til góða (McGehee, 1983). Sumar þessara frétta voru hreinar lygasögur. Árið 1973 greindi Los Angeles Times frá því í greininni „U.S. journalists doubling as CIA agents, paper says“ að Leyniþjónustan hefði ráðið til starfa meira en 30 Bandaríkjamenn sem unnu erlendis sem blaðamenn. Þetta kom fram í innanbúðarskjali merktu yfirmanni Leyniþjónustunnar, Williams E. Colby, sem lak í fjölmiðla.

Church-skýrslan

Í skýrslu sérstakrar þingnefndar um störf Leyniþjónustunnar erlendis, undir forystu þingmannsins Frank Church, kom fram að stofnunin réði yfir neti mörg-hundruð erlendra starfsmanna í fjölmiðlum sem veittu henni upplýsingar og nýttust til að hafa áhrif á almannaálitið með áróðri. Þessir einstaklingar gæfu leyniþjónustunni „beinan aðgang að miklum fjölda dagblaða og tímarita, fjölda fréttaveitna og fjölmiðlafyrirtækja, útvarps- og sjónvarpsstöðva, bókaútgefenda og annarra erlendra fjölmiðla“ (Church-nefndin, 1976, bls. 455).

Leyniþjónustan hefði ekki síður áhrif innanlands. Í skýrslu Church-nefndarinnar kemur fram að „Um 50 tengiliðar [Leyniþjónustunnar í fjölmiðlum] eru Bandarískir blaðamenn eða starfsmenn bandarískra fjölmiðlastofnana. Af þessum eru færri en helmingurinn skráðir sem slíkir í fjölmiðlunum… Hinir eru einstaklingar sem eru ekki kynntir [sem starfsmenn Leyniþjónustunnar] heldur sem frjálsir blaðamenn og blaðafulltrúar erlendis… Á annan tug bandarískra fréttstöðva og útgefenda veittu Leyniþjónustunni aðstöðu fyrir Leyniþjónustustarfsmenn erlendis. Sumar þeirra vissu ekki að þeir veittu slíka þjónustu (skýrsla Church-nefndarinnar, bls 455, sjá einnig Keane og Warner, 2007).

Þessi skýrsla Church-nefndarinnar fjallaði um mun fleiri stórmerkileg málefni tengdum störfum Leyniþjónustunnar sem ekki verður farið í hér, en áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér.

Grein Bernsteins

Það var svo árið 1977 sem MOCKINGBIRD var endanlega afhjúpað almenningi þegar blaðamaðurinn Carl Bernstein komst á snoðir um lista af 400 blaðamönnum og ritstjórnum sem voru í raun að vinna fyrir leyniþjónustuna og tóku þátt í þessari gríðarlega umfangsmiklu áróðursstarfsemi undir yfirskini blaðamennsku. Grein Bernsteins birtist í Rolling Stone tímaritinu og vakti mikla athygli. Hér var ekki um að ræða neina aukvisa í fjölmiðlum. Meðal þeirra sem reyndust vera áróðursmenn fyrir Leyniþjónustuna voru Henri Luce hjá Life Magazine, William Paley hjá CBS, Arthur Sulzberger og Charles Bartlett hjá New York Times og James Copley sem rak hina stóru fréttaveitu Copley New Service. Einn heimildarmanna Bernsteins hjá Leyniþjónustunni sagði að „einn blaðamaður“ væri „jafnvirði 20 leyniþjónustumanna“ (Bernstein, 1977).

Leyniþjónusta Bandaríkjanna var þá, eins og nú, með umfangsmikla starfsemi um allan heim og var önnum kafin við að steypa ríkisstjórnum af stóli, taka fólk af lífi og kynda undir vargöld og skæruliðahernað í „óvinveittum“ löndum. Hluti af þessum herferðum fólst í að hafa áhrif á- og jafnvel stjórna alfarið hvaða skoðun almenningur hefði á hinum og þessum óvinum sínum. Bernstein komst til dæmis á snoðir um fundargerð frá International Telephone and Telegraph Corporation (ITT) til Charles Bartletts, stjörnublaðamanns hjá New York Times. Fundargerðin var frá árinu 1970 og í henni er því lýst að leggja ætti kapp á að koma í veg fyrir að Salvador Allende næði kjöri sem forseti Chile. Bartlett stóð við sitt, eins og svo margir og áróðursstríðið gegn Allende stóð þar til hann var myrtur þann 11. september 1973.

Skipt um taktík

Í kjölfar þessara uppljóstrana barðist Leyniþjónustan af hörku gegn því að nokkur yrði lögsóttur vegna þeirra upplýsinga sem komið höfðu fram. Þáverandi yfirmaður CIA, George Herbert Walker Bush (síðar forseti), lofaði hins vegar að stofnunin hætti að spila svona með fjölmiðla í framtíðinni. Það stóðst ekki að fullu, en í kjölfar þessarar hraðahindrunar breytti Leyniþjónustan um taktík og úr urðu stofnanir á borð við National Endowment for Democracy (NED) sem í raun unnu svipuð störf fyrir opnum tjöldum. Þetta átti eftir að reynast jafnvel enn árangursríkari leið til að ná sömu markmiðum en Leyniþjónustan hafði beitt.

Þrátt fyrir tilkomu slíkra risaverkefna sem NED er hætti Leyniþjónustan aldrei að stunda undirróðursstörf og áróður. Endrum og eins sáust fingraför CIA í „virtum“ fjölmiðlum. Tveimur áratugum eftir að grein Bernsteins hristi upp í Mockingbird verkefninu komst t.d. hollenski blaðamaðurinn Abe deVries hjá Trouw dagblaðinu að því að Cable News Network (CNN) væri með ólaunaða starfsmenn í sínum röðum sem væru í raun á launaskrá hjá Leyniþjónustunni. Sama var upp á tengingnum hjá útvarpsrisanum National Public Radio (NPR). Þetta var á dögum átakanna í Júgóslavíu og starfsmennirnir unnu þá við að bera út þá mynd af þeim átökum sem hentaði stefnu bandarískra yfirvalda.

Leyniþjónusta hersins

Bandaríski herinn hefur sína eigin Leyniþjónustu og hún er einnig umfangsmikil í fjölmiðlum. Sú deild Bandaríkjahers sem hefur umsjón með áróðursstarfsemi sem beinist að hefðbundnum fjölmiðlum og sér m.a. um að veita stórum fjölmiðlum ókeypis starfsfólk af þessu tagi heitir Fourth Psychological Operations Group. Í þeirra augum er það að koma völdum upplýsingum í mikilsvirtra fjölmiðla einfaldlega hluti af sálfræðihernaði og aðferð við að ná hernaðarmarkmiðum (Myers, 2017). Hjá þessari sálfræðihernaðardeild unnu árið 1999 um 1200 starfsmenn við að dreifa „völdum upplýsingum“ (selected information) til almennings og hermanna (Gerth, 2005). Þessi fjölmiðlaarmur Bandaríkjahers er í raun miklu betur tækjum og fjármagni búinn en nokkur fjölmiðill og framleiðir, auk tilbúinna frétta sem fréttaveitur heimsins sjá svo um að dreifa, annað margmiðlunarefni á borð við myndbönd og jafnvel tónlist.

Áðurnefndur Abe deVries greindi síðar frá samráðsfundi á vegum deildar „sérstakra aðgerða“ (Special Operations) Bandaríkjahers sem haldin var í Arlingtonborg í Febrúarmánuði árið 1999. Á þeim fundi var samstarf hersins við CNN sérstaklega mært sem úrvalsdæmi um það hvernig samstarf herinn vildi eiga við fjölmiðla. Einnig voru þar rædd áform um það hvernig best mætti handvelja upplýsingar sem fengju að koma fram í fjölmiðlum og einnig hvaða upplýsingar rötuðu ekki á síður fjölmiðlanna. Hefjast átti handa við að ná stjórn yfir internetinu og hefja stafrænan hernað gegn óhlýðnum fjölmiðlum.

Algjör stjórn yfir fjölmiðlum

Það kann að hljóma eins og brjáluð samsæriskenning að áróðursmenn í Bandaríkjunum og vinveittum ríkjum stjórni öllum helstu fjölmiðlum Vesturlanda, en af þessu stærðu áróðursmenn hersins sig sjálfir. Fundargerð frá 20. desember 1991 sem bar heitið „Task Force on greater CIA openness“ kom upp á yfirborðið eftir kröfu á þinginu frá lögfræðingnum Daniel Sheehan. Minnisblaðið var unnið að beiðni þáverandi forstjóra CIA, Robert Gates (Director of Central Intelligence, 1991). Fundinn sóttu „háttsettir stjórnendur“ (senior officials) í fjölmiðlum, stjórnmálum, einkageiranum og í háskólasamfélaginu, auk stórlaxa í Leyniþjónustunni. Fundurinn var opinn umræðu-, samstarfs- og vinnufundur um hvernig mætti samþætta aðgerðir við að koma áróðri á framfæri og bæta ímynd stofnunarinnar út á við. Í fundargerðinni kemur eftirfarandi meðal annars fram:

PAO [Public Affairs Office] hefur nú tengsl við blaðamenn í öllum helstu fréttaveitum, dagblöðum, tímaritum og sjónvarpsstöðvum í landinu. Þetta hefur gert okkur kleift að breyta „mistökum“ leyniþjónustu hersins í „sigra“ hennar… Í mörgum tilvikum höfum við sannfært blaðamenn um að bíða með-, breyta, geyma og jafnvel kæfa sögur sem hefðu haft slæm áhrif á þjóðaröryggið eða skaðað heimildarmenn og aðferðir. Talsmenn PAO byggja og viðhalda tengslum við blaðamenn með því að svara daglegum fyrirspurnum frá þeim í síma (3369 árið 1991), með því að láta þeim í té aðgang að lokuðum upplýsingafundum í stjórnstöðinni (174 árið 1991), og gefa þeim aðgang að viðtölum við … háttsetta embættismenn í stofnuninni (164 árið 1991)“ (Bls. 8).

Þessi skýrsla bendir til gríðarlega umfangsmikillar stjórnar Leyniþjónustu Bandaríkjanna á upplýsingaflæðinu í heimunum. Hver sá sem les þetta áttar sig fljótlega á að það að einhverjar upplýsingar birtist í „virtum“ fjölmiðlum er engin trygging fyrir sannleiksgildi eða hlutlægi þeirra.

Falsfréttir?

Síðustu ár hefur mikið verið rætt um svokallaðar „falsfréttir“ og misvísandi upplýsingar í fjölmiðlum. Þá er einkum bent til Rússlands, Kína og annarra samkeppnisaðila Vesturlanda, auk lítilla innlendra hópa. Lýðræðinu er sagt stafa mikil ógn af afskiptum rússneskra „nettrölla“ og annarra óprúttinna aðila sem afvegaleiða saklausan almenning hér í vestri. En af einhverjum ástæðum er Leyniþjónusta Bandaríkjanna sjaldan ef nokkurn tíman nefnd í samhengi við falsfréttir og áróður. Átak Leyniþjónustunnar um að bæta ímynd sína hefur greinilega virkað nokkuð vel. En að blaða- og fræðimenn hér í vestri reyni að halda því fram að ötulustu áróðursmennirnir í dag komi frá Rússlandi eða úr einstaka bloggsíðum er annað hvort dæmi um vitleysishátt eða óheiðarleika. Þegar fjölmiðlaverkefni Leyniþjónustunnar eru skoðuð, þó ekki sé nema gróflega, ætti að vera ljóst að engin stofnun getur haft tærnar þar sem Leyniþjónustan hefur hælana þegar kemur að því að hafa áhrif á efnisval og inntak fréttanna sem berast Vesturlandabúum dag hvern. Starfsemi hennar er svo umfangsmikil, fjármagnið sem notað er svo mikið og reynslan svo löng að engin rússnesk nettröll geta keppt við þessa miklu áróðursvél sem Leyniþjónusta Bandaríkjanna er. Á meðan hún kemst upp með slíka starfsemi nánast óáreitt af „varðhundum“ lýðræðis okkar verðum við að vera mjög tortrygginn á uppruna þeirra frétta sem berast okkur hverju sinni.

Í þessari grein var saga afskipta Leyniþjónustunnar af fjölmiðlum einungis rakin gróflega til loka 20. aldarinnar. Á þeirri 21. jókst einungis starfsemi hennar, sérstaklega eftir 11. september 2001. Um þá þróun verður fjallað síðar. Næst verður þó fjallað um það hvernig Leyniþjónustan náði áhrifum í mörgum af helstu „vinstrihreyfingum“ Vesturlanda. Sú saga er ekki síður forvitnileg.


Heimildir

Bernstein, C. 1977. The CIA and the Media. Rolling Stones. Uppfærða útgáfu af greininni má finna á heimasíðu Bernsteins á slóðinni http://www.carlbernstein.com/magazine_cia_and_media.php

Church Committee. 1976. The Select Committee to Study Governmental Operations with Respect to Intelligence Activities, Foreign and Military Intelligence. Church Committee report, no. 94-755, 94th Cong., 2d Sess. Washington, D.C.: United States Congress. CIA. (1991, 20.12). Task Force on Greater CIA Openness: Memo for D/PAO fr DCI, dtd 18 nov. Allt skjalið má nálgast á https://www.cia.gov/library/readingroom/docs/DOC_0005524009.pdf

De Vries, A. (2000, 21.02). CNN hat militairen in dienst. Trouw. Sótt af https://www.trouw.nl/home/cnn-had-militairen-in-dienst~ae872705/

Director of Central Intelligence. 1991 (20. desember). Task force on greater CIA openness. Fundargerð sem gerð var opinber í krafti „Freedom of Information Act“ löggjafarinnar. Sótt þann 17.07.2021 frá https://www.cia.gov/readingroom/docs/DOC_0005524009.pdf

Gerth, J. 2005. Military‘s information war is vast and often secretive. The New York Times. Sótt þann 17.07.2021 frá https://www.nytimes.com/2005/12/11/politics/militarys-information-war-is-vast-and-often-secretive.html

Lector, C. 1985. Inside the CIA with Gloria Steinem. Úr bókinni „Blacklisted news: Secret histories from Chicago, ´68, to 1984. Youth International Party Information Service, Bleecker Publishing. Sótt þann 17.07.2021 frá https://www.mail-archive.com/ctrl@listserv.aol.com/msg02217.html

Lofton, J. D. 1975 (10. maí). Ms. Steinem‘s CIA connection. Sótt þann 17.07.2021 frá https://www.cia.gov/readingroom/docs/CIA-RDP88-01315R000300380009-2.pdf

Myers, M. 2017. The Army‘s psychological operations community is getting its name back. Army Times. Sótt þann 17.07.2021 frá https://www.armytimes.com/news/your-army/2017/11/06/the-armys-psychological-operations-community-is-getting-its-name-back/

Sounders, F. S. (1999, 12.06). How the CIA plotted against us. New Statesman. Sótt af https://web.archive.org/web/20141010045414/http://www.newstatesman.com/node/135185