Friðarvonin í Miðausturlöndum

30. júní, 2019 Þórarinn Hjartarson


Valdahlutföll í heiminum eru að breytast. Írandeilan sýnir það skýrt. Bandaríkin sögðu sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Íran 2018 og settu viðskiptaþvinganirnar aftur á landið, enn harðari en fyrr. Síðan boðaði Pompeo Íran til samningaviðræðna, ekki bara um kjarnorkusamninginn heldur einnig um skotflaugaeign þeirra og mannréttindi o.fl., til að tryggja að Íranir myndu örugglega hafna boðinu. Íranir sáu ekki ástæðu til að svara. Frú Merkel sendi Maas utanríkisráðherra sinn til Teheran til að fá Írani að samningaborðinu með USA, en Íranir sendu Maas heim. (Merkel brást við með því að segja að „miklar líkur“ væru á að Íranir hefðu staðið að árásunum á olíuskipin á Omanflóa!). Trump tísti: „Það eina sem Íranir skilja er styrkur og máttur, sem bandaríski herinn hefur nóg af… Öllum árásum þeirra gegn Bandaríkjunum verður svarað af hörku og í einhverjum tilfellum með gjöreyðingu.“


Íran í herfræðilegri lykilstöðu

En Íranir hrökkva ekki undan slíkum hótunum og beygja sig ekki neitt. Þeir segjast geta lokað Hormuz-sundi samdægurs ef til átaka kemur – og margt bendir til að þeir séu einmitt færir um það.Sjá nánar Um sundið fer 40% af olíuútflutningi heimsins. Ef þessi olíustraumur verður stöðvaður fer efnahagskefi heimsins á hliðina. Hinn þekkti heimsmálagreinir Pepe Escobar á Asia Times Online segir að enginn sendi olíuskip inn á stríðsátakasvæði. Í greininni „Iran goes for “maximum counter-pressure”“ skrifar hann: „Jafnvel áður en neistarnir fara að fljúga gæti Íran lýst Persaflóa sem stríðssvæði, lýst yfir að Hormuzsund sé stríðssvæði; og bannað síðan alla fjandsamlega umferð á sínum helmingi sundsins. Án þess að hleypt væri af einu skoti mundi öll flutningaskipafélög á hnettinum hætta að senda olíuskip um Persaflóa.“ Meira um það hér.

Bandarísku stríðsherrarnir hafa átt upptök að allnokkrum styrjöldum í Austurlöndum nær frá 2001 (öllum þeim stærstu). En þeir hafa þar alltaf átt í höggi við miklu veikari andstæðinga en nú. Þeir hafa t.d. getað sent skotflaugar á skotmörk í Sýrlandi, Írak eða Afganistan án þess að reikna með gagnárás. Gagnvart Íran gildir það ekki lengur. Íran mun svara af fullum styrk, og trúlega fá aðstoð bandamanna sinna (Hizbolla, Sýrlands, Rússlands, Kína…). Sem sagt árás sem hefur afleiðingar fyrir árásaraaðilann. Þetta blasir við og þetta sjá bandamenn Bandaríkjanna í NATO, ESB og víðar. Það er auðséð að árás mun hafa gríðarlegar afleiðingar – svo það hillir undir þriðju heimsstyrjöldina. Í þessu samhengi er auðskilið að það er herstyrkur Írans sem helst tálmar árásarstríði, íhlutunum og valdaskiptaaðgerðum heimsvaldasinna í Austurlöndum nær. Það haggar ekki þeirri staðreynd þótt klerkaveldið í Íran sé ólýðræðislegt auðræði. Íranska byltingin hefur til þessa beinst gegn heimsvaldastefnunni.


„Andspyrnuöxullinn“ hefur styrkst

Annað er það sem hefur breyst á síðustu 5 árum. Sýrlandsher er kominn langt með að vinna stríð sitt gegn innrásarherjunum. Að lama og eyðileggja Sýrland (líkt og Líbíu) eða mögulega að sundurlima ríkið var í herstjórnarlist heimsvaldasinna hugsað sem nauðsynlegt skref í því að einangra og umkringja höfuðbandamann Sýrlands, Íran – sem aftur er liður í enn stærra heimsvaldatafli – og að brjóta um leið upp „andspyrnuöxulinn“ (Axis of Resistance) í Miðausturlöndum: Íran, Sýrland, líbanska Hizbolla. Af því að „leiðin til Teheran liggur gegnum Damaskus“. Sjá nánar

Þessi áform þóttu líta vænlega út framan af staðgengilsstríðinu gegn Sýrlandi (háð af broguðum her málaliða og jíhadískra vígamanna, vopnuðum og fjárhagsstuddum af USA, NATO, ESB, Sádum, Ísrael, Tyrkjum…). En frá 2015 hefur Sýrlandsher í samvinnu við meðbræður sína frá Íran og Hizbolla og með lofthernaðarðastoð frá Rússlandi snúið dæminu við og frelsað aftur meirihluta þess lands sem tapast hafði. Stríðið sem átti að slá út „andspyrnuöxulinn“ í Miðausturlöndum hefur orðið til að styrkja hann stórlega. Og síðustu misserin hefur Írak mikið til gengið til liðs við sama „andspyrnuöxul“. Þannig að markmið heimsvaldasinna að umkringja og grafa undan Íran hefur færst heldur fjær en hitt. Þess vegna má slá því föstu – þótt einhverjum friðarsinna sýnist það þversögn – að herstyrkur Sýrlands, hefur verið mikilvægasta aflið í því að hindra enn miklu stórfelldari átök í Miðausturlöndum. Sjá hér nánar um átökin í Austurlöndum nær í samhengi heimsvaldastefnunnar: Sjá hér


Vestrið klofið

Vestrið er nú klofið í afstöðu sinni til Írans. Mikilvægasta ástæða þess er áðurnefnt mat á hernaðarlegum styrk Írans, að hernaðaríhlutun gegn landinu sé afar áhættusöm og útkoman óviss. Við það bætist svo að bandamenn BNA (ekki síst í Evrópu) áttu þegar mikla viðskiptahagsmuni í Íran þegar BNA sagði sig einhliða frá kjarnorkusamningnum við Teheranstjórnina. Samanlögð útkoma þessara þátta er að þeim Trump og Pompeo gengur nú bölvanlega að safna í nýtt „bandalag viljugra“ gegn Írönum. Helsta von okkar hinna er þá sú að í stað einangrunar Írans komi vaxandi einangrun Bandaríkjanna. Gallinn er sá að þar í landi er það hernaðar-iðnaðarsamsteypan sem ræður ríkjum, „the military–industrial complex, USA“.