Frásögn af 1. maí fundi Stefnu og kröfugöngu á Akureyri

4. maí, 2018 Bjarmi Dýrfjörð

Stefna, félag vinstri manna á Akureyri hélt morgunfund 1. maí í 20. sinn. Fundurinn var öflugur, 50 manns voru mættir og ríkti baráttustemning. Ólafur Þ. Jónsson flutti ávarp en ræðumaður dagsins var Ósk Helgadóttir, varformaður Framsýnar – stéttarfélags Þingeyinga. Hún kallaði eftir harðari verkalýðsbaráttu og fagnaði nýjum vindum sem blása um verkalýðshreyfinguna. Að loknu máli hennar risu fundarmenn úr sætum og klöppuðu fyrir þeirri nýju baráttueiningu (nú Framsýn, VLFA, Efling og VR) sem vex fram innan hreyfingarinnar. Ekki spilti að Ösp Eldjárn og Örn Eldjárn sáu um söng og hljóðfæraslátt til stuðnings baráttunni. Alþýðufylkingin á Akureyri stillti sér að baki Stefnu.
Stefna hefur haldið morgunfundi 1. maí óslitið síðan 1999. Frá byrjun hefur félagið markað sér baráttustefnu í stéttabaráttunni – mótaða í kjörorð – gegn heimsvaldayfirgangi, fyrir fullveldi og fyrir sósíalisma. Að þessu sinni viku voru kjörorð Stefnu sem hér segir:

  • Styðjum baráttuöflin í verkalýsðhreyfingunni!
  • Aðeins samtakaaflið færir okkur sigra!
  • Gegn okurvöxtum og verðtryggingu!
  • Verjum velferðarkerfið – gegn einkavæðingu! Félagsvæðum fjármálakerfið!
  • Jafnrétti kynjanna!
  • Íslenskt fullveldi 100 ára – aldrei ESB-umsókn!
  • Gegn stríðsvæðingu NATO-velda í austur – Ísland úr NATO!
  • Fordæmum stríð Vesturvelda gegn Sýrlandi – og stuðning Íslands við það!
  • Auðvaldskreppa, auðvaldsrányrkja og auðvaldsstríð… Svarið er sósíalismi!

Að fundi loknum var haldið í kröfugöngu þar sem kröfunum var haldið á lofti, bæði bókstaflega og myndrænt.


Mynd af göngunni
Skiltamenn í röð fyrir utan Hof
Efri mynd: af vef Einingar-Iðju