Flokkur og samfylking; Ráð Brynjólfs Bjarnasonar

18. júní, 2018 Þórarinn Hjartarson
Andlitsmynd af Brynjólfi Bjarnasyni
Brynjólfur Bjarnason dró lærdóma af áratuga baráttu.

Ris og hnig í stéttabaráttunni

Ef litið er til baráttu íslensks verkalýðs og alþýðu blasir við að sú barátta á sér langa stígandi og ris en líka hnig sem nú hefur staðið lengi. Það unnust mikilvægir sigrar á 20. öldinni, stig af stigi, í kjarabaráttu alþýðu, réttindabaráttu, húsnæðismálum… Í harðvítugum verkföllum og átökum jókst líka stéttarvitund og samstaða meðal launþega. Verkalýðshreyfingin var pólitísk lengi vel, andfasísk, krafan um sósíalisma stóð sterkt og launþegasamtök beittu sér m.a. mjög gegn bandarískri hersetu og inngöngunni í NATO.

Þegar kom fram yfir 1970 varð ljóst að veður höfðu skipast í lofti. Frá þeim tíma hefur ASÍ naumast staðið fyrir einu einasta verkfalli síns fólks. Verkalýðshreyfingin hætti að nefna sósíalisma. Hún fór að miða kröfur sína við „greiðslugetu atvinnuveganna“. Svokallaðir verkalýðsflokkar gengust inn á að tryggja íslenskri eignastétt „ásættanlega arðsemi“ ef þeir kæmust í ríkisstjórn, en verkalýðshreyfingin sjálf batt starf sitt við krónupólitík og hætti afskiptum af stjórnmálum.

Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi: Hvenær og hvernig urðu slík umskipti?

Frá verkalýðsflokki til kosningaflokks

Brynjólfur Bjarnason, helsti „strategisti“ íslenskra byltingarsinna og róttæklinga á síðustu öld segir í viðtali upp úr 1970: „Ég tel alveg tvímælalaust að mikil hnignun hafi orðið í íslenskri verkalýðshreyfingu og stjórnmálasamtökum hennar… einkum eftir miðja öldina.“ (Með storminn í fangið III, 133). Þegar hann lítur til baka í samtalsbók þeirra Einars Ólafssonar staldrar hann mjög við tímann upp úr 1960, þegar Sósíalistaflokkurinn var lagður niður í áföngum og þegar Alþýðubandalagið – stofnað 1956 sem kosningabandalag ólíkra hópa um „brýnustu nauðsynjamál“ – var í hans stað smám saman gert að stjórnmálaflokki. Margir „frjálslyndir vinstri menn“ og aðrir hópar í því bandalagi leituðu fast eftir að gera það að flokki og brátt urðu flokksbatteríin tvö, einn verkalýðs- og stéttabaráttuflokkur en annar kosningaflokkur. Allt ríkjandi stjórnmálalíf landsins beindi höfuðathygli fólks að kosningaflokknum og svo fór að nýi flokkurinn át þann gamla. Samruninn var endanlega fullnustaður 1968.

Brynjólfur segir í samtalsbókinni: „Ég hefði aldrei trúað því að flokkur sem átti sér jafn glæsilega fortíð og Sósíalistaflokkurinn myndi ekki hafa styrk til þess að koma heill út úr þeirri samfylkingu sem við stofnuðum til á sjötta áratugnum… Það voru því geysimikil vonbrigði fyrir mig þegar ég sá að svo reyndist ekki.“ Spurður um það í hverju hnignun flokksins hafi legið svaraði Brynjólfur: „Sósíalistaflokkurinn var ekki heilsteyptur flokkur lengur. Þeir innviðir hans voru nú brostnir sem höfðu gert hann sterkan og sigursælan.“ (Brynjólfur Bjarnason. Pólitísk ævisaga. 1989, 131). Hann hafði oft talað um ónóga skólun og einingu um grundvallaratriði sósíalismans: „heildarstefnan og hin langsýnni markmið eru ekki nægilega ljós“ (bls. 57).

Umskiptin frá Sósíalistaflokki til Alþýðubandalags urðu mikil. Sósíalistaflokkurinn, eins og Kommúnistaflokkurinn áður, var mikið til vaxinn upp úr verkalýðsstéttinni. Hann hafði miklu sterkari stöðu innan verkalýðshreyfingarinnar en Alþýðuflokkurinn, og sú verkalýðshreyfing var skipuleg og virk. Sósíalistaflokkurinn var stéttabaráttuflokkur. Hann var framan af agaður flokkur og hugmyndalega samstæður á marxískum grundvelli. Alþýðubandalagið var hins vegar sundurleitur klíkuflokkur, reikull og hentistefnusinnaður í hugmyndalegum efnum. Alþýðubandalagið byggði afl sitt ekki á starfinu í verkalýðshreyfingunni eins og fyrirrennarinn. Við það veiktist verkalýshreyfingin og þar með aflið á bak við flokkinn. Starf hans snérist fyrst og fremst um þingpallabröltið og ýmis pólitísk hrossakaup þar.

Árið 1962

Ég leyfi mér að tiltaka eitt ár sem vendipunkt, þó auðvitað sé um langt þróunarferli að ræða. Árið er 1962. Það voru tímar andstreymis og umbreytinga fyrir sósíalista á heimsvísu. Þetta var einmitt ár Kúbudeilunnar og kalda stríðið svo kalt að það var næstum heitt. Kommar glæpkenndir. Austur í Moskvu hafði Krúsjoff nokkrum árum fyrr „afhjúpað glæpi Stalíns“ og því var fylgt eftir þegar 22. þing Kommúnistaflokks Sovétríkjanna boðaði nýjar áherslur: Vegna „samkeppni þjóðfélagskerfanna“, og vegna styrkleika sósíalísku landanna væru „friðsamleg umskipti“ og „þingræðisleg leið“ til sósíalismans möguleg. Flokkar Moskvusinna héldu hver af öðrum inn á þá braut að færa þungamiðju starfsins inn í þjóðþingin, en kínverski og albanski flokkurinn sögðu skilið við Moskvu.

Aftur til Íslands. Í Sósíalistaflokknum árið 1962 og næstu ár á eftir stóð ágreiningurinn einkum um skipulagsmál. Samfylking eða samruni? Skyldi Alþýðubandalagið vera áfram kosningabandalag ólíkra hópa og samtaka með félagsaðild að bandalaginu ellegar einfaldlega stjórnmálaflokkur byggður á einstaklingsaðild? Aftur og aftur varaði Brynjólfur við því að ekki megi „rugla saman samfylkingu og flokki“. Fyrir honum var tvískiptingin skýr: a) annars vegar þarf heilsteyptan sósíalískan flokk og b) hins vegar samfylkingu, „margháttuð samfylkingarform sem ákvarðast af hinum tilteknu verkefnum“ (grasrótarsamtök og fjöldahreyfingar..). Hann nefndi í því sambandi Samtök hernámsandstæðinga, „samfylkingu í ýmsum launþegasamtökum“ og svo „kosningasamtök eins og Alþýðubandalagið“ þ.e.a.s. bandalag um helstu „nauðsynjamál íslenskrar alþýðu“ (vitnað í tillögu hans, flutta hjá Sósíalistafélagi Reykjavíkur 1963).

Forustuhæfni flokks mikilvægari en stærð

Brynjólfur Bjarnason var byltingarsinni æfina á enda. Þegar hann 76 ára að aldri hélt mikla ræðu um „Stjórnlist sósíalískrar byltingar“ var hann enn skýr á þessari tvískiptingu: „Loks þarf íslensk alþýða á forustuflokki að halda, sem er fær um að leiða baráttu hennar til sigurs, marxískum flokki, er kann að beita stjórnlist og réttum baráttuaðferðum við íslensk skilyrði. … Allir þeir hópar I þjóðfélaginu, sem á einhvern hátt verða fyrir barðinu á auðvaldinu… eru hugsanlegt byltingarafl á einhverju stigi baráttunnar. Það er verkefni flokksins að sameina þessi öfl í sem viðtækastri samfylkingu.“ (Réttur 1/1975. bls 52 og 55)

En á 7. áratugnum á Íslandi var hins vegar leið samrunans valin, samruni sósíalista við ýmsa einbeitta ekki-sósíalista s.s. Hannibalista og „þjóðvarnarmenn“. Leið einstaklingsaðildar að Alþýðubandalaginu varð ofan á og samfylkingin var gerð að flokki. Grautarflokki. Alþýðubandalagið lagði aldrei mikið upp úr því að skipuleggja samfylkingar og grasrótarbaráttu. Í staðinn „eignaði“ hann sér einstök baráttumál alþýðu, gerði þau að flokksmálum, t.d. herstöðvarmálið, andstöðu við erlenda stóriðju eða EES-samning og notaði þau einkum til atkvæðaveiða. Seinna notaði VG stóriðjuandstöðuna á sama hátt. Slíkir flokkar sjúga blóðið úr fjöldahreyfingum frekar en leiða þær og efla eins og stéttabaráttuflokkar eiga að gera. Þungamiðja stéttabaráttunnar var færð inn á þing, inn í þá farvegi sem íslensk borgarastétt kýs að heyja baráttuna í.

Þá er þess að geta að sameining kommúnista við vinstri sósíaldemókrata hafði áður verið gerð á Íslandi, þegar Sósíalistaflokkurinn var stofnaður 1937. Sumt var þá hliðstætt seinni sameiningunni, annað ekki. Árið 1937 hurfu menn frá lenínismanum, einkum í flokksskipulagi. Ekki var krafist viðlíka virkni af flokksmönnum í Sósíalistaflokknum eins og í Kommúnistaflokknum. Ég er samt ekki tilbúinn til að segja að það hafi verið rangt að sameina 1937. Til varð stór og öflugur flokkur með byltingarsinnaða stefnuskrá, ennþá verkalýðsflokkur, stéttabaráttuflokkur. Fyrsta áratuginn á eftir styrkti þessi sameining afl og baráttugetu verkalýðs og alþýðu, gegn fasismanum og gegn auðvaldinu. Íslenskir kommúnistar og róttæklingar forðuðust þá einangrun sem varð hlutskipti þeirra víða á Vesturlöndum. En í samrunanum 1968 var horfið frá marxismanum í prinsipplausri sameiningu, bara fyrir breiddina og atkvæðafjöldann.

Gagnlegt að spegla sig í sögunni

Það getur verið gagnlegt að spegla verkefni dagsins í sögunni. Enn sem áður þarf alþýða 21. aldar þetta tvennt: samfylkingu og flokk. A) Alþýðan þarf fjöldahreyfingar með samfylkingarsniði þar sem menn og hópar sameinast um einstök brýn mál, kjarabaráttu, réttindamál, heimsvaldaandstöðu, verndun fullveldis. Kosningabandalög um afmörkuð hagsmunamál geta vel verið málstaðnum þénanleg. Aðeins í krafti fjöldasamtaka byggist upp „mótaflið“ í samfélaginu gegn valdi auðsins. B) Alþýðan þarf ekki síður byltingarsinnaðan flokk eða flokka. Helst flokk með traustar rætur hjá alþýðu, flokk sem setur sér að efla og leiða baráttu hennar, flokk sem er sameinaður um þá langtímastefnu að bylta auðvaldskerfinu og koma á sósíalisma. Við þurfum að hugsa strategískt eins og Brynjólfur – og þessi tvö framantöldu atriði eru líklega tvær mikilvægustu forsendur sósíalískrar byltingar. En fyrir alla muni ekki rugla þessu tvennu saman!

Ennþá hefur alþýðan hvorugt. En spírur eru til. Aftur er farið að tala um harðari stéttabaráttu, um kapítalisma, sósíalisma, byltingu. Hreinskilin skoðanaskipti og baráttueining meðal alþýðusinna geta farið saman og eru nauðsynleg. Fólk þarf að ræða um og rífast um hin þjóðfélagslegu langtímamarkmið og leiðirnar að þeim (stjórnlist/strategíu) og reyna að byggja upp forustuafl. En þó að róttækt fólk og flokka greini á um þessi mál verða þeir að starfa saman að sameiginlegum málum í stéttabaráttunni.