Covid og starfsmenn í velferðarmálum

21. apríl, 2020 Jón Karl Stefánsson



Um dánartíðnina og framkomu við starfsfólk í velferðar- og umönnunarstörfum

Nú er orðið ljóst að dánartíðni af völdum smits af SARS-CoV-2 veirunnar er langtum minni en óttast hafði verið í byrjun árs. Hún virðist auk þess vera mun lægri á Íslandi en í öðrum Evrópuríkjum. Framámenn í heilbrigðisgeiranum hafa átt erfitt með að svara því hvers vegna dánartíðnin hefur reynst svo lág hér á landi.

Augljósasta ástæðan fyrir meintri lágri dánartíðni á Íslandi er sú að Íslendingar hafa einfaldlega látið taka miklu fleiri sýni en flestar aðrar þjóðir. Bæði Landspítalinn og Íslensk Erfðagreining hafa náð mjög góðu yfirliti yfir raunverulega útbreiðslu smits á þessari veiru, og eiga heiður skilið fyrir það. Tölur um dánartíðni af völdum sýkingar af þessari veiru frá ríkjum sem hafa ekki skimað jafn kröftuglega eru því litaðar af þessu: Nefnarinn í deilingardæminu er allt of lág tala og niðurstaðan verður allt of há miðað við raunveruleikann.

En önnur ástæða sem hefur nánast ekkert verið rætt um er vel unnið starf þeirra sem eru á gólfinu í umönnunar- og velferðarmálum. Þessi hópur hefur alltaf átt við það vandamál að stríða að geta lítið sem ekkert tjáð sig um vinnu sína á opinberum vettvangi. Þeir vinna eftir ströngum trúnaði til að vernda skjólstæðinga sína og mega einfaldlega ekki tjá sig óvarlega. Þetta hefur ævinlega þau áhrif að við heyrum einungis frá starfseminni á þessum starfsstöðum þegar eitthvað bregður út af, en sjaldan eða aldrei þegar verkið er vel unnið.


Farsótt í skugga kjarabaráttu

Álag á þessa starfsstaði hefur verið mikið síðustu misseri. Flestir virðast þegar vera búnir að gleyma erfiðri og slítandi kjarabaráttu Eflingarstarfsfólks sem vinnur einmitt við þessi störf meðal annarra. Stór hópur starfsfólks í velferðar- og umönnunarmálum hafði árum saman verið haldið í lágum launum og áhrifaleysi og fékk ekki samning fyrr en rétt áður en covid-krísan kom upp. Enn hafa ekki náðst samningar við mörg sveitafélög á landinu. Loftið á starfsstöðunum var því þegar lævi blandið þegar ljóst var að grípa þyrfti til umfangsmikilla aðgerða til að vernda notendahópinn. Þeir starfsmenn sem þurftu ekki að standa í kjarabaráttu þurftu að taka á sig aukna vinnu á meðan því stóð og voru því margir orðnir þreyttir þegar covid-krísan kom upp.

Velferðarsstarfsstaðir lengi þurft að búa við þann veruleika að kerfisbundið hefur verið komið í veg fyrir að hægt sé að ráða fagfólk til starfa, og einnig að fagfólk sem er ráðið sem almennir starfsmenn fái að nota hæfni sína og um leið fá hana metna til launa og áhrifa. Ýmsar tylliástæður hafa verið notaðar til að réttlæta það að starfsfólki sé haldið niðri hvað laun og áhrif varðar og takist ekki að ná almennilegri starfsþróun þrátt fyrir að hafa viðað að sér mikilli reynslu og þekkingu á störfum sínum. Það er ekki hægt að skipta út góðum, vönum, starfsmanni og búast við sömu niðurstöðu. Ef starfsfólk sem hefur hæfni og áhuga á starfinu færi ekki almennileg tök á því að þróast í starfi er ómögulegt að halda í það til lengri tíma.


Að vernda hina viðkvæmustu skiptir öllu máli

Þetta þarf að hafa í huga til að skilja hversu gott starf hefur í raun verið unnið á þessum fjölmörgu starfsstöðum til að vernda viðkvæma skjólstæðinga frá smiti. Þetta eru t.d. þjónustuíbúðir fyrir aldraða, gistiskýli fyrir heimilislausa, búsetukjarnar fyrir fatlaða, skammtímavistir, mötuneyti o.s.frv. Það verður hreinlega að teljast kraftaverk að á sama tíma og gríðarlega auknar vinnukröfur til að tryggja aukið öryggi skjólstæðinganna komu fram, og að fjöldi starfsfólks datt úr störfum eftir að hafa lent í sóttkví eða farið í veikindafrí vegna undirliggjandi sjúkdóma, hafi langflestir þessara staða haldið þjónustu gangandi og náð að koma í veg fyrir útbreitt smit hjá sínum hópi.

Hér þarf aftur að skoða tölfræði. Fyrir flesta má segja að sú veira sem herjar á heimsbyggðina sé frekar meinlaus. En fyrir áhættuhópana er hún ekkert grín. Í rannsókn sem unnin var á vegum bandaríska heilbrigðisráðuneytisins sem birt var 26. mars sl. (CDC, 2020) kom fram að aldur þeirra sem veikjast af covid-19 skiptir höfuðmáli. Dánarhlutfall þeirra sem voru eldri en 85 ára gamlir var áætlað á milli 10 til 27 prósentum, hjá þeim sem voru á milli 65 til 84 ára var dánarhlutfallið 3% til 11%, í aldursbilinu 55-64 ára var hlutfallið á milli 1 og 3% og hjá þeim sem voru á aldursbilinu 20-54 ára var dánarhlutfallið minna en 1%. Engir yngri en 19 ára höfðu látist af sjúkdómnum. Mögulega hafa tvö börn í heiminum nú látist af sjúkdómnum en hlutfallið er þá svo lágt að það er nærri óhætt að segja að engar líkur séu á því að börn og unglingar látist af þessum sjúkdómi. Einungis 1% af þeim sem þurftu að leggjast á sjúkrahús vegna smits af þessari veiru voru yngri en 19 ára og allir komust til góðrar heilsu aftur. Miðgildi aldurs þeirra sem hafa látist í Ítalíu af völdum covid-19 er 81 ár, í Noregi er miðgildið 84 ár. Sagan er svipuð um allan heim. Þeir sem eru í hættu vegna þessa sjúkdóms eru fyrst og fremst aldraðir og einstaklingar sem eru í ákveðnum áhættuhópum. Þetta eru meðal annars þeir sem hafa alvarlega hjarta- og öndunarfærasjúkdóma, fólk með sykursýki alvarlega háan blóðþrýsting, og svo fólk með veikt ónæmiskerfi. Skýrsla alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um það hvernig sjúkdómurinn kom fram í Kína sýndi að í heildina hafa einungis 1,4 prósent hinna látnu ekki verið í áhættuhópunum eða verið yngri en 65 ára (WHO, 16.-24. febrúar 2020). Þar eð miklu fleiri eru í þessum síðastnefnda hópi ætti að vera ljóst að ungt og heilsuhraust fólk virðist ekki vera í mjög mikilli hættu sýkist það af þessari veiru.

Hér gætu einhverjir stoppað og bent á fréttir um heilsuhraust fólk sem lét samt lífið vegna þessarar veiru. En þannig er það með tölfræðina að ef nógu margir sýkjast, þá leiðir það til dauða einhverra í jafnvel smáum hlutföllum. Þeir sem eru duglegir að finna þessi dæmi eru svo fjölmiðlar. Slíkar sögur fá mikla útbreiðslu, sem er fjölmiðlinum til góða. Nákvæmar fréttir af einstaklingum sem birtast í fjölmiðlum geta svo virkað mun meira sannfærandi en þurr tölfræði. Fjölmiðlarnir ná lesendum á þennan hátt, en allegoríurnar eru jafn blekkjandi fyrir það. Ungt og heilsuhraust fólk virðist ekki þurfa að vera áhyggjufullt. Þetta þýðir einnig það að því betur sem tekst að vernda áhættuhópana, þeim lægri verður dánartalan vegna sjúkdómsins. Það skiptir því öllu máli að vel takist að verja þessa hópa fyrir smiti.


Óþarflega aukið álag og neikvæð umfjöllun

Er það þá ekki undarlegt að á sama tíma sem það veltur svo mikið á því að varnir velferðar- og umönnunarstarfsstaða séu tryggar að við hugum ekki betur að því starfsfólki sem vinnur þar? Þetta starfsfólk á nú að taka á sig aukna vinnu á meðan skortur er á vönum samstarfsmönnum, viðunandi hlífðarbúnaði sem frátekinn er í spítalana, aðstöðu til sóttvarna og auk þess vantar enn örugga samninga frá mörgum sveitarfélögum. Ofan á þetta bætist það að starfsstaðirnir sjálfir eru jafnan hafðir ábyrgir fyrir því sem miður fer á þessum stöðum, þrátt fyrir að hafa ekki fullt vald til að skipuleggja starfsemina frá grunni; mestur hluti þeirrar vinnu er unnin á skrifstofum sem eru aðskilin frá kjarnastarfseminni. Tilfinning starfsmanna fyrir því að þeir geti borið ábyrgð á veikindum og jafnvel dauða skjólstæðinga þeirra er yfirþyrmandi og veldur enn aukinni streitu.

Langflestir þessara staða hafa samt sem áður staðið sína plikt og verndað sitt fólk að fremsta megni. Þeir vinna náið með skjólstæðingum sínum og aðstandendum þeirra við að halda uppi eins óskertri þjónustu og mögulegt er, auka þjónustu mikið hvað sóttvarnir varðar og reyna að vera bæði félagar og starfsmenn á sama tíma. Miklar framfarir hafa orðið í mannréttinda- og lífsgæðamálum síðustu ár á velferðarstöðum sem hafa valdið því að starfsemin er líklega mjög ólík því sem þeir sem einungis þekkja til í gegnum gamlar bækur og kvikmyndir. Starfsemin á flestum slíkum stöðum er til fyrirmyndar.

En þetta kemur sjaldan fram í fjölmiðlum. Nánast daglega koma fréttir af starfsstöðum einhvers staðar í heiminum sem ekki voru að standa sig. Þessar sögur eiga eru sannarlega fréttnæmar, en vandamálið er að þeim fylgja ekki sögur af stöðum þar sem menn stóðu sína plikt. Þegar einungis slæmar sögur koma fram gefur það þá mynd að allt sé í ólestri á öllum svipuðum stöðum. Svo er, sem betur fer ekki.

Velferðarsstarfsstaðirnir og svo heilbrigðisstarfsstaðirnir eru á vissan hátt á sínum hvorum endanum í framlínustarfsseminni á krísutímum og hafa að hluta til ólíka hagsmuni. Þannig er það heilbrigðiskerfinu til góða að krísan taki sem lengstan tíma Þetta gefur því tækifæri á að vera undirbúið fyrir það sem koma skal. Fyrir velferðarstaði er aðeins öðruvísi farið. Þeim lengri tíma sem krísan varir, því verra. Skjólstæðingar upplifa lengri tíma af meiri einangrun, vinna þeirra, frístund og heilsuefling liggur niðri og tilbreytingarleysi er meira. Þetta eitt og sér veldur bæði verri heilsu og líðan, og eykur einnig líkurnar á því að þeir smitist. Þetta er vegna þess að jafnvel þegar allar varúðarráðstafanir eru framkvæmdar til hins ítrasta er alltaf ákveðin hætta á að smit berist inn. Fyrir starfsfólk er þetta enn verra. Þegar skólar, leikskólar og frístundaheimili liggja niðri er erfitt að finna tíma til vinnu, starfsmenn geta að jafnaði ekki alfarið lokað sjálfa sig af á milli vakta; þeir þurfa að fara heim, versla inn o.s.frv. Þeir geta aldrei verið fullkomlega öruggir um að þeir séu ekki að bera á milli smit, sama hvað þeir vanda sig. Ef vel gengur munum við samt aldrei heyra frá því, ef illa fer er öruggt að það rati í fréttirnar. Má bjóða þér vinnu á slíkum stað?


Uppgjör er nauðsynlegt

Þegar öllu þessu líkur þarf að endurskoða hvernig komið er fram við fólk í framlínunni og hefur tekist, þrátt fyrir allt, að halda uppi þjónustu við viðkvæmustu þjóðfélagsþegnanna. Höfum í huga að fengju áhættuhóparnir og starfsmennirnir sem þjónusta þá fullkomið öryggi frá því að smitast væri dánartíðni mjög lág jafnvel þótt allir aðrir sýktust. Þetta þýðir að því betur sem við komum fram við þennan enda framlínunnar, þeim betur kemur samfélagið úr því í heildina litið.

Næstu misseri verða gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðina. Við getum staðið saman í því að láta þetta allt hafa einhver jákvæð áhrif þegar á líður. Þessir góðu hlutir geta verið sterkari samheldni starfsstéttanna, aukin valdadreifing og ábyrgð. Við þurfum að skoða uppstokkun á skipulagi velferðar- og umönnunarmála svo starfsmenn séu vel undir búnir þegar reynir á. Þessar starfsstéttir geta minna tjáð sig en margar aðrar og geta því síður varið sig fyrir árásum, það er mikilvægt að ganga ekki á lagið með það eða gleyma störfum þeirra í opinberri umræðu. Þessar starfsstéttir þurfa, og eiga, svo að fá meiri tök á því að skipuleggja starfsstaðina sína sjálf svo þekking þeirra og reynsla verði tekin með. Ef við viljum að varnirnar haldi í framtíðinni verður að vera búið að gera þetta uppgjör og tryggja að þetta starfsfólk fái það sem þeir þurfa til að verja sína skjólstæðinga.


Heimildir

Center for Disease Control and Prevention (CDC). 26. mars 2020. Severe Outcomes Among Patients with Coronavirus Disease 2019 (COVID-19) — United States, February 12–March 16, 2020. MMWR Morb Mortal Wkly Rep 2020;69:343-346. DOI: http://dx.doi.org/10.15585/mmwr.mm6912e2external icon.

WHO. 16.-24. febrúar 2020. Report of the WHO-China Joint Mission on Coronavirus Disease 2019 (Covid-19). Sótt af: https://www.who.int/docs/default-source/coronaviruse/who-china-joint-mission-on-covid-19-final-report.pd