Brotaforðakerfið knýr verðbólgu og ójöfnuð

5. nóvember, 2024 Jón Karl Stefánsson

Það eru ýmsar ástæður fyrir verðbólgunni sem er að éta okkur að innan. Það er samt ekki eðlilegt að ræða hana án þess að taka með í reikninginn áhrif þess að hafa einkabanka sem geta aukið peningamagn í umferð í gegnum lánveitingar sem byggja á brotaforðakerfi með æ minni eiginfjárkröfu. Bankarnir leggja á okkur falinn skatt sem þeir hafa sannfært okkur um að sé eina leiðin til að stjórna hagkerfinu, þrátt fyrir að það ýti undir verðbólgu og auki á skuldir almennings og beinlínis skapi sívaxandi ójöfnuð.

Brotaforðakerfi bankanna, sem á ensku kallast „fractional reserve banking“, er kerfi þar sem bankar geyma aðeins lítinn hluta af peningum innstæðueigenda í forða og lána út það sem eftir er. Það magn sem bönkunum er skylt að halda eftir, þ.e. eiginfjárkröfur, er ákvarðað af Seðlabankanum og kallast bindiskylda, eða „skylda banka til að eiga lausafjáreignir í ákveðnu hlutfalli af skuldbindingum þeirra“ (Seðlabankinn). Þessi bindiskylda hefur lækkað gríðarlega frá því sem áður var. Árið 1980 var hún um 28%, en í dag er hún komin niður í einungis 3%.

Þetta fyrirkomulag eykur peningamagn í umferð í gegnum það ferli sem kallað er „lánamargföldun“. Þetta virkar þannig: Segjum að þú leggir 1.000 kr. inn á bankareikninginn þinn. Bankinn geymir ekki alla upphæðina heldur geymir aðeins lítinn hluta, á Íslandi eru það 3%, eða 30 kr., og getur lánað restina, eða 970 kr., til annarra viðskiptavina. Þetta þýðir að á meðan þú sérð enn 1.000 kr. á reikningnum þínum, hefur einhver annar fengið 970 kr. frá þinni innstæðu. Í raun eru því nú 1.970 kr. í umferð í hagkerfinu út frá upphaflegu innstæðunni þinni.

Þetta lánveitingarferli heldur áfram þar sem hver nýr lántaki leggur lánsfjárhæðina aftur inn í bankakerfið. Bankinn heldur síðan aftur eftir litlum forða og lánar það sem eftir er. Þessi hringrás heldur áfram og skapar í hvert sinn meira af „bankapeningum“ í hagkerfinu en upphaflega voru til. Frá upphaflegu 1.000 kr. innstæðunni getur kerfið margfaldað þessa upphæð í gegnum síendurtekna lánveitingu og endurinnlagnir.

Niðurstaðan er sú að heildarpeningamagn í umferð, eða upphæðin sem birtist á innláns- og útlánareikningum, stækkar umfram raunverulegt reiðufé sem var lagt inn. Þessir nýju peningar bætast við hagkerfið en eru ekki studdir af nýjum vörum eða þjónustu, heldur aðeins loforðum um að þeir verði endurgreiddir. Þetta getur ýtt undir verðbólgu, þar sem eftirspurn eykst án þess að framboð fylgi með.

Þegar meira fé er í umferð hafa einstaklingar meira til að eyða. Ef hagkerfið heldur ekki í við þessa auknu eftirspurn með framleiðslu á meira magni af vörum og þjónustu, byrjar verðlag að hækka því eftirspurnin er meiri en framboðið. Verðhækkunin sem af þessu leiðir er verðbólga, sem rýrir virði sparnaðar almennings.

Ofan á þetta leggjast svo vextirnir. Vaxtagjöld á lán belgja enn út peningamagnið í hagkerfinu. Þegar bankar leggja vexti á lán, eykur það skuldbindingar lántakenda, sem þurfa þá að afla meiri tekna eða taka fleiri lán til að standa undir vaxtagreiðslum sínum. Þetta getur leitt til enn frekari lánveitingar og þar með aukins peningamagns í hagkerfinu. Einnig getur vaxtabyrðin leitt til þess að fyrirtæki hækka verð á vörum sínum til að mæta auknum kostnaði, sem síðan ýtir undir frekari verðbólgu. Þessi vítahringur veldur stöðugri verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Almenningur þarf þannig að greiða sífellt hærra verð fyrir vörur og þjónustu á meðan bankarnir njóta góðs af vaxtatekjum sínum.

Veisluborðið

Eigendur bankanna hagnast vel á þessu kerfi og leggja á almenning tvöfaldan, óbeinan skatt í formi vaxta og verðbólgu. Með því að auka lánveitingar hækka þeir peningamagn í hagkerfinu, sem rýrir verðgildi krónunnar og eykur skuldir almennings. Þar að auki safna bankarnir hagnaði sem þeir dreifa til eigenda sinna, frekar en að þessi hagnaður renni til almennings eða samfélagslegra verkefna.

Árið 2023 skiluðu bankarnir á Íslandi miklum hagnaði. Landsbankinn skilaði 33,167 milljörðum króna í hagnað og greiddi eigendum arðgreiðslur upp á um 16,535 milljarða króna (sjá hér).  Íslandsbanki skilaði 24,6 milljörðum króna í hagnað og greiddi eigendum 12,3 milljarða króna í arð. Arion banki skilaði 25,7 milljörðum króna í hagnað og greiddi eigendum 13 milljarða króna í arð. Útlán bankanna jukust um samtals 134 milljarða króna á árinu. Lánveitingar og hagnaður bankanna bættu við peningamagn í hagkerfinu á kostnað almennings, og eigendur fá ríflega borgað fyrir að skapa verðbólguna.

Ef við myndum reikna hvað þessar tölur þýða fyrir hvern skattgreiðanda mætti segja að hagnaður bankanna árið 2023 næmi um 307 þúsund krónum á hvern skattgreiðanda, auk þess sem aukning lána væri um 494 þúsund krónur á hvern skattgreiðanda og arðgreiðslur til eigenda bankanna um 154 þúsund krónur. Ef þessi hagnaður hefði runnið í sameiginlega sjóði, hefði hann getað nýst samfélagslega til að bæta almannaþjónustu.

Bankarnir þurfa reyndar að borga fyrir rekstrarkostnað sinn, og því er þessi hagnaður ekki alveg ókeypis fyrir bankaeigendur. En kerfið tryggir að mikil fjármunauppsöfnun verði á fárra hendur. Til að réttlæta þetta „fræða“ bankarnir almenning um mikilvægi einkarekinna banka. Það þarf að minna okkur, og ráðafólk okkar, á að bankakerfið megi sko alls ALLS ekki vera í eigu almennings á nokkurn hátt. Bankarnir verða að vera í einkaeigu, og hananú! Og við þurfum heila þrjá stóra banka til að veita út lán hér fyrir þessar 300 þúsund sálir sem búa hér. Minna má það ekki vera. Ímyndið ykkur bara ef þessi hagnaður rynni í sameiginlega sjóði. Hvar stæðum við þá! Nei, ríkið má ekki standa í gróðastarfsemi.

Auðvaldið hefur ýmsar leiðir til að arðræna fjöldann. Brotaforðakerfið og lánveitingar einkabankanna eru ein þeirra. Höfum í huga að í hvert skipti sem bankarnir gefa út lán auka þeir á verðbólguna og rýra raunvirði launanna okkar. Þetta er lykilhluti í kapítalismanum og á meðan við búum við hann munum við búa við hinar ótal leiðir fjármagnseigenda til að arðræna okkur.

Uppskrift að hruni

En þetta er ósjálfbært kerfi. Þegar bankar leggja vexti á lán og safna arði af útgáfu skulda verður til hringrás sem viðheldur efnahagslegum ójöfnuði og eykur skuldir almennings. Þrátt fyrir að kerfið hafi innbyggðar sveiflujöfnunarleiðir, svo sem stýrivexti og útlánareglur, leiðir það óhjákvæmilega til aukinnar verðbólgu og skuldasöfnunar. Þetta getur aðeins gengið upp ef við hömumst við að búa til meiri peninga. Við skulum vinna okkur til hlúðar og finna sífellt fleiri uppsprettur fjár til að borga verðbólguna og vextina. Þangað til við getum það ekki lengur. Þegar við höfum mergsogið auðlindir okkar, nýtt síðasta blóðdropann í fátækara vinnuafli erlendis, eða hættum að ná að finna fleiri ónýtta neytendur og sannfæra þá um að kaupa drasl, þá getum við ekki borgað upp verðbólguna.

Hvað er t.d. planið á Íslandi ef (þegar) síðasta hálmstráið okkar, ferðamannaiðnaðurinn, hættir að vaxa, eða hrynur jafnvel? Við höfum þegar fullnýtt fiskinn og rafmagnið. Hvernig höldum við bólunni við? Hvernig bregðumst við við næsta hruni?

Hagkerfið byggir á sívaxandi lánum og skuldum skapar beinlínis ójafnvægi sem leiðir til efnahagslegra erfiðleika og óróa. Þegar almenningur áttar sig á þessum áhrifum er mikilvægt að umræða um breytingar á fjármálakerfinu taki mið af því að hagnaður af fjármálastarfsemi renni í auknum mæli til almannaheilla fremur en til hagsbóta fyrir fáa fjármagnseigendur.

Spurningin er sú hvort áróðursvél fjármagnseigenda sé það sterk að hún nái enn og aftur að koma í veg fyrir ekki aðeins byltingu við næsta hrun sem ójöfnuðarkerfið leiðir óhjákvæmilega til, heldur meir að segja spurninga um hvernig hægt er að byggja kerfi þar sem almenningur á hluta af þessari hagnaðarvél. Munum við aftur lúffa, gráta tapaðar eignir og halda áfram að þræla fyrir einkageirann?