Bókartíðindi: Það sem allir umhverfisverndarsinnar þurfa að vita um kapítalisma

26. maí, 2019 Guðmundur Beck


kapabokarinnar

Höfundar: Björgvin R. Leifsson og Guðmundur Már Beck.

Út er komin á íslenzku bókin: Það sem allir þurfa að vita um kapítalisma. Handbók alþýðu um kapítalisma og umhverfismál. Höfundar: Fred Magdoff og John Bellamy Foster. Þýðandi: Þorvaldur Þorvaldsson. Útgefandi: Skrudda.

Fyrir alþingiskosningarnar 2016 og 2017 spurði loftslag.is flokkana um stefnu þeirra í loftslagsmálum og öðrum umhverfismálum. Alþýðufylkingin, einn flokka, lagði í svörum sínum áherslu á að til að ná einhverjum alvöru, viðvarandi árangri yrði fyrst að hverfa af braut markaðsvæðingar með tilheyrandi hagvaxtarkröfum en þessi sjónarmið skoruðu ekki mjög hátt hjá síðuhöldurum. Á landsfundi flokksins 2018 var stefnan áréttuð með ályktun, sem bar yfirskriftina "Kapítalisminn er stærsta umhverfisógnin":

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Reykjavík 6.-7. október 2018, áréttar að meðan þjóðfélagið er keyrt áfram af gróðadrifnu markaðskerfi, sem gerir endalausar kröfur um síaukinn hagvöxt sé tómt mál að tala um uppfyllingu markmiða Parísarsamkomulagsins og annarra skuldbindinga Íslendinga hvort sem er hérlendis eða á alþjóðavettvangi. Fundurinn hafnar öllu daðri við olíuvinnsluhugmyndir og mengandi þungaiðnað og hvetur stjórnvöld til fara raunhæfar leiðir til að minnka losun koltvísýrings en þá þarf að koma til félagsvæðing þjóðfélagsins þar sem hagsmunir samfélagsins en ekki auðmanna eru hafðir í fyrirrúmi.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að undið verði ofan af umhverfisógninni og komið á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Landsfundurinn hvetur íslenskan almenning til þess að taka umhverfismálin föstum tökum og vinna að því að gripið verði til viðunandi viðbragða við þeim vanda sem óbilgirni markaðshyggjunnar hefur skapað í heiminum. Til þess að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi, bæði hjá almenningi og innan umhverfishreyfinga, á því að kapítalisminn verður aldrei grænn."

Í bókinni "Það sem allir umhverfisverndarsinnar þurfa að vita um kapítalisma" eru þau sjónarmið, sem Alþýðufylkingin hefur haldið á lofti, rökstudd á einkar auðskilinn hátt og sýnt fram á hvernig "grænar lausnir" undir kapítalískum formerkjum eru í raun fyrirfram dauðadæmdar. Undirritaður las þýðinguna yfir í handriti og mælir óhikað með þessari bók fyrir alla, sem láta sig loftslagsmál og önnur umhverfismál nokkru varða. Í rauninni ætti bókin að vera skyldulestur í framhaldsskólum um allan heim því að það er mannkyni lífsnauðsynlegt að hverfa frá helstefnu kapítalismans ef það á að eiga einhverja framtíð hér á jörð.

Björgvin R. Leifsson, sjávarlíffræðingur.


Bókin kom út á ensku 2011. Hún skiptist í sex meginkafla, auk þess formála þýðanda, viðauka og sautján blaðsíðna heimildaskrá. Hér skal reynt að kynna innihald þeirra lítillega.

1. kafli nefnist: Hnattræn vistkreppa. Þar er fjallað um helztu hættur sem steðja að vistkefum Jarðarinnar. Þau liggja nú undir meiri áföllum en nokkru sinni fyrr af völdum mörg þúsund ára afráns mannkynsins. Birtingarmyndir vistkreppunnar eru einkum þessar: 1) loftslagsbreytingar 2) súrnun sjávar 3) minnkun ósons í háloftunum 4) takmörkun á jarðefnaflæði 5) ferskvatnsnotkun á jörðinni 6) breytingar á landnýtingu 7) tap líffræðilegrar fjölbreytni 8) efnaúði í andrúmslofti og 9) efnamengun. Rakin er staða þessara þátta eins og hún birtist vísindamönnum 2011 og bent á ,,að loftslagsbreytingar verða ekki í jöfnum skrefum, með jöfnum breytingum ár frá ári, heldur taka stökkbreytingum vegna magnandi áhrifa sem geta flýtt fyrir breytingum og afleiðingum þeirra.‘‘ (bls. 20) Í viðauka við fyrsta kafla (skrifaður fyrir íslensku útgáfuna) er svo bent á hina ógnvekjandi þróun frá 2011 til 2019: Hækkandi hita með fellibyljum, skógareldum, vatnsskorti og hraðri útrýmingu tegunda.

2. kafli nefnist: Óbreyttir hættir. Þar er sýnt fram á hvernig helmingur jarðarbúa sóar auðlindum jarðar svo stefnir í útrýmingu vistkerfanna. Hinn helmingurinn lifir við SKORT og þarf að mestu að taka á sig fyrstu afleiðingar vistkreppunnar í formi fellibylja, flóða, þurrka og jarðvegseyðingar.

Í 3. Kafla,Vaxtarkrafa kapítalismans, er fjallað um hvernig hagvaxtarkrafan kallar á aukið afrán á auðlindum jarðar og takmarkalausa auðsöfnun. Höfundarnir útskýra á einfaldan hátt hvernig þenslan er kerfinu lífsnausyn. Upphleðsla auðmagns, auðsöfnun, er hreyfiafl framleiðslukerfisins. Þeir setja þeir fram almenna reglu fyrir viðskiptum í kapítalismanum, sótta til Karls Marx: „P – V – P', þar sem peningar eru notaðir til að kaupa það sem til þarf til framleiðslu á vörum sem síðan eru seldar fyrir meiri peninga“ (bls. 46). Málið er að P' sé stærra en P, og mismunurinn á P' og P, þ.e.a.s. gróðinn, er sjálfur tilgangur framleiðsluferlisins. Notagildi framleiðslunnar V er bara aukaafurð og skiptir kapítalistann engu meginmáli. Hins vegar: „Auðsöfnun! Auðsöfnun! Það eru Móses og spámennirnir.“

Afleiðingin af samkeppni, samþjöppun og þenslu er svo risavaxin einokunar- og fákeppnisfyrirtæki sem engu eira í sókn sinni eftir auðlindum og hluthafagróða. Slíkar samsteypur eyða milljörðum í auglýsingaherferðir til þess að halda við eftirspurn og gylla samfélag ofneyzlunnar. Almenningur er orðinn að auðsveipum neytendum hins kapítalíska kerfis. Til þess að halda uppi fullri atvinnu í slíku afætukerfi þarf mikinn vöxt. Þegar hægir á vexti og á krepputímum eru laun og réttindi fólksins skert og arðránið hert. Ríkistjórnir eru orðnar vanmáttugar að fást við auðhringana sem flakka með arðránstæki sín á milli heimsálfa í skjóli tollabandalaga þangað sem vinnuaflið er ódýrast. Tíðar kreppur velta kostnaði af auðhringunum yfir á verkafólk.

Fjórði kaflinn ber heitið Umhverfið og kapítalisminn. Þar er m.a. bent á hvernig rík auðvaldsríki eins og Bandaríkin sóa ekki einungis eigin auðlindum, heldur soga til sín auðlindir annara ríkja þar sem umhverfissjónarmið eru lítilsvirt. Auðhringarnir eru í kapphlaupi um hráefni, ódýrt vinnuafl og nýja markaði um allan hnöttinn og oft hafa Evrópuríkin og Bandaríkin beitt hervaldi til þess að leggja undir sig auðlindir fátækra þjóða. Þótt ört gangi á takmarkaðar náttúruauðlindir horfa hin kapítalísku fyrirtæki aðeins á tækifæri til skammtímagróða í allri starfsemi sinni. Þegar ein náma tæmist er einfaldlega reynt að finna aðra gróðalind. Bent er á hvernig olíufyrirtækin hafa bætt sér upp þverrandi lindir með vinnslu úr tjörusandi með skelfilegum umhverfispjöllum. Ýmis önnur dæmi nefnd um hvernig auðlindagræðgin hefur valdið óbætanlegum skaða á lífríkinu s.s. eyðing regnskóga og stórfelld olíumengun í Mexíkóflóa og óshólmum Niger. ,,Framleiðsla mannsins er ekki aðeins að nálgast þau mörk sem auðlindir setja, heldur er jafnvel komið að mörkum þess sem umhverfið getur tekið við af úrgangi frá framleiðslunni og rof vistfræðilegra hringrása blasir við.‘‘(bls. 78). Af hinu kapítalíska auðsöfnunarkerfi leiðir að ,,hnignun umhverfisins kemur sérstaklega niður á fátækum.‘‘(bls.84) Fólk sem ekki á næga peninga í auðvaldskerfinu hefur engan rétt á neinum vörum, hvort sem það eru lúxusvörur eins og demantsarmbönd eða stórhýsi, eða lífsnauðsynjar eins og heilbrigt umhverfi, örugg fæðuöflun, hreint drykkjarvatn eða góð heilbrigðisþjónusta.‘‘ (bls. 86) Auðmenn stýra voldugustu fjölmiðlum heimsins, múta stjórnmálamönnum og fjármagna ,umhvefisverndarhópa‘.

Í 5. kafla er spurt: Getur kapítalisminn orðið grænn? Því er hafnað með því að ítreka eðlisþætti hins markaðsvædda kapítalisma sem þjónar þröngum hagsmunum auðsöfnunar og styrkir völd hinna ríku. Innan hans er bezta nýting auðlindar eða vöru ekki sú sem nýtist almenningi í heild heldur sú sem þjónar þeim sem mestan hafa kaupmátt. Bent er á að í dag ríkir auðræði fremur en lýðræði þar sem ,,markaðurinn í kapítalismanum þýðir yfirráð auðvaldsins, með auðvaldinu og fyrir auðvaldið.‘‘(bls. 98) Auðhringar reyna að kaupa sér ,,græna‘‘ ímynd með auglýsingarherferðum og telja neytendum trú um að þeir séu að kaupa grænar vörur sem oftar en ekki reynist tóm blekking. Samkvæmt markmiðum frjálshyggjunnar er það frumskylda hvers forstjóra að skila hluthöfunum hámarksgróða með sem minnstum kostnaði. Allar svokallaðar ,,nýjar tæknilausnir‘‘ kalla á nýjar framleiðslulínur með tilheyrandi auðsöfnun og auðlindasóun í stað endurheimtra vistkerfa. Hinir veikburða loftslagssáttmálar hafa leitt af sér brask auðhringa með losunarheimildir á CO2 í stað raunverulegs samdráttar á útblæstri. Bent er á hversu gífurlega orku þurfi til þess að framleiða ný orkuver án brennslu ef draga á hratt úr loftmengun. Engin lausn sé möguleg innan hins gróðadrifna kapítalisma á umhverfisvandamálum á Jörðinni – umbreyta þurfi samfélagsgerðinni og síðan gera vistbyltingu.

6. kafli heitir: Vistbylting er ekki bara möguleg – hún er lífsnauðsyn. Taldar eru upp brýnar aðgerðir í 22 liðum sem nauðsynlegt sé að ráðast í til þess að bjarga vistkerfum frá tortímingu. Kjarni nýs kerfis verði að byggja á ,,skynsamlegu og lýðræðislegu regluverki í hagkerfinu á þann hátt að (1) það skapi raunverulegan jöfnuð; (2) það uppfylli efnislegar og óefnislegar grunnþarfir fólksins nú og fyrir kynslóðir framtíðarinnar; (3) það leiði til öndvegis félagslega (í stað einka-) nýtingu náttúrunnar þannig að leiði til eflingar og verndunar umhverfissins; (4) það skapi félagslegt andrúmsloft þar sem fólk lætur sig varða hag hvers annars og samfélagsins.“ (bls. 131) Baráttan verði að beinast gegn sóunarkerfi auðvaldsins og koma verði á áætlanagerð um hvernig uppfylla megi efnislegar grunnþarfir í hverju samfélagi án þess að kollvarpa vistkerfinu. ,,Rányrkja auðvaldsþjóðfélagsins á umhverfinu á rætur sínar í arðráni á vinnuaflinu.‘‘(bls. 139) Vistbylting þýðir að rjúfa vítahring arðráns, bæði á fólki og náttúru.

Bókin endar á Viðauka sem er SÁTTMÁLI ÞJÓÐANNA. Samþykktir á Heimsráðstefnu þjóðanna um loftslagsbreytingar og rétt Móður Jarðar, 22. apríl 2010 í Cochabamba í Bólivíu. Inntak hans er: ,,Mannkynið stendur frammi fyrir örlagaríku vali: Að halda áfram á braut kapítalismans með rányrkju og dauða eða velja leið samstillingar við náttúruna og virðingar fyrir lífinu.‘‘(bls.142)

Vart þarf að efa hversu brýnt erindi bókin á þegar vistkerfi Jarðarinnar eru á heljarþröm vegna rányrkju mannkynsins. Það er þakkarvert að koma þessari bók í hendur íslenzkra lesenda þótt seint sé og á þýðandinn heiður skilinn fyrir verk sitt sem er vel af hendi leyst.

Guðmundur Már Beck