Bókartíðindi: Undir fána lýðveldisins

16. maí, 2019 Þórarinn Hjartarson



Í febrúar sl. gaf nýtt forlag, Una útgáfuhús, út bókina Undir fána lýðveldisins. Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni eftir Hallgrím Hallgrímsson kommúnista. Þetta er endurútgáfa bókar sem kom út í takmörkuðu upplagi árið 1941. Var löngu gleymd bók.

Þetta er bæði góð bók og gagnmerk. Hún er fyrsta og eina bók höfundar en hann hefur verið stórvel ritfær og texti hans sannfærir fljótt lesandann um að hér sé sögð mikilvæg saga. Ég er enginn bókagleypir en þessa drakk ég nánast í einum teyg. Við bætist svo prýðilega unnin eftirmáli, „Ævintýralegt lífshlaup baráttumannsins Hallgríms Hallgrímssonar“ eftir Einar Kára Jóhannsson og Styrmi Dýrfjörð.

Af bókinni verður ljóst að Hallgrímur Hallgrímsson er ekki aðeins merkilegur rithöfundur heldur líka afar vel valinn fulltrúi íslenskra pólitískra alþýðumanna af sinni kynslóð. Foreldrar hans voru þingeysk vinnuhjú í sveit. Faðirinn drukknaði frá eiginkonu og 3 börnum og því fjórða, Hallgrími, á leiðinni. Með miklu harðfylgi tókst móðurinni einhvern veginn að halda hópnum sínum saman, og Hallgrímur lauk m.a.s. gagnfræðaprófi á Akureyri og kynntist þar líka sósíalismanum. Hann fluttist suður og vann fyrir sér með stopulli hafnarvinnu en einkum var það köllunin sem stýrði skrefum hans upp frá því. Hann var einn yngsti stofnandi Kommúnistaflokks Íslands 1930. Sérstaklega gerðist hann leiðandi í samtökum ungkommúnista.

Verkalýðshetja.

Hann fór í flokksskóla í Moskvu og kom þaðan tvíefldur í því að berjast við atvinnurekendavald, afturhald og fasisma. Hann gekk í gegnum pólitíska „barnasjúkdóma“ en náði sér af því aftur. Hann hélt til Spánar og barðist þar við fasista í eitt ár. Heim kominn hélt hann áfram pólitísku starfi og varkalýðsbaráttu í Reykjavík (ein athugasemd: að Hallgrímur hafi náð því að verða varaformaður Dagsbrúnar, sbr. bls. 209, hlýtur að vera rangt). Dagsbrún setti á verkfall m.a. í Bretavinnunnni 2. janúar 1941 og breska herstjórnin svaraði með því að setja hermenn í störf verkamanna. Þá dreifðu sósíalistar dreifibréfi á ensku meðal hermanna. Hallgrímur var af því dæmdur fyrir „landráð“ og honum stungið inn á Litla Hraun. Þar olli hann skjótt uppsteyt meðal fanga sem tóku að heimta betri aðbúnað. Fyrir vikið tók fangelsisstjórnin þá geðþóttaákvörðun að loka Hallgrím í einangrunarklefa þar sem hann mátti dúsa í 52 daga. Hann slapp úr fangelsinu á aðventu 1941. Haustið eftir rak hann erindi Sósíalistaflokksins á Austurlandi og Norðurlandi, og fórst þá í sjóslysi sem líklega stafaði af tundurdufli, 32 ára gamall.

Hallgrímur Hallgrímsson var sem sagt verkslýðshetja. Hann hafði þessa óþrotlegu orku handa málstaðnum sem einkenndi rauðliða þessara ára, og óvenju stóran skammt af henni. „Íslensk verkalýðshreyfing hefur ekki eignast mörg foringjaefni lík Hallgrími Hallgrímssyni“, skrifaði Sigurður Guðmundsson ritstjóri um hann í Þjóðviljann 1951.

Undir fána lýðveldisins er skrifuð af sjónarvotti og þátttakanda í Spánarstríðinu. Hallgrímur var þar liðsmaður í Alþjóðasveitunum sem Komintern átti frumkvæði að og sem börðust með lýðveldinu 1936-38. Hann var í 11. brígaða. Alls um 35.000 erlendir sjálfboðaliðar tóku þátt, flestir kommúnistar. Höfundurinn er óbreyttur hermaður í flóknu borgarastríði í stóru landi í eitt ár, lítt skiljandi mál innfæddra. Samt skilar bókin bæði heillegri, og trúverðugri mynd af þessu stríði. Og frásögnin er grípandi, lifandi og sterk. Íslensk verkalýðshreyfing hefur ekki heldur eignast marga slíka rithöfunda. Manni dettur helst í hug Tryggvi Emilsson til samjöfnuðar.

Tími Hallgríms í borgrastríðinu, frá ársbyrjun og fram í nóvember 1938, var örlagaþrunginn tími í Evrópu: Þýskaland og Ítalía lágu undir stjórn fasista. Fasískt og hálffasískt einræði komið um nær alla Austur-Evrópu. Og nú sótti fasisminn fram á Spáni, stærsta landi Vestur-Evrópu, eftir uppreisn meginhluta hersins gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn Alþýðufylkingarinnar. Sú uppreisn fasista fékk frá byrjun gríðarlegan stuðning utanlands frá í vopnum, mannskap og lofthernaði (Ítalía ein sendi 75.000 hermenn auk gríðarlegs magns vígtóla) á meðan vopnaskortur var helsti veikleiki lýðveldishersins.

Borgarastríðið var annars vegar stéttabarátta og hins vegar innrásarstríð (eins og Hallgrímur réttilega kallar það). Spánn var köflótt land. Iðnaður var bundinn við nokkur svæði, helst kringum borgirnar Madríd, Barcelona og Bilbao og þar lét verkalýðurinn mjög til sín taka í nokkrum ólíkum fylkingum. Á svæðunum þar fyrir utan réðu landeigendaaðall og kaþólska kirkjan ríkjum í kompaníi við yfirmenn hersins. Lýðveldisstjórnin í Madrid hafði einmitt hafið uppskiptingu stórra landeigna, snúist gegn sérréttindum kirkjunnar og byrjað að endurskipuleggja herinn. Uppreisn fasismans á Spáni var svar hins svarta afturhalds við þessu og beindist þó sérstaklega gegn verkalýðshreyfingu og hvers kyns sósíalisma. Eins og staðan var orðin í Evrópu: fyrir sósíalíska hreyfingu og fyrir róttæka verkalýðshreyfingu álfunnar varð Spánarstríðið að táknmynd, það var skriftin á veggnum, það var barátta lífsins og dauðans. Sjá aðeins meira um Spánarstríðið. sjá meira.

Vesturveldin og „ekki-íhlutunin“.

Hvað gerðu „lýðræðisveldin“ fyrir lýðræðið á Spáni meðan Hallgrímur barðist þar? Bretar og Frakkar beittu sér innan Þjóðabandalagsins fyrir samþykkt um „ekki-íhlutun“ sem fól í sér alhliða vopnasölubann á Spán. Sá samningur gerði löglegum stjórnvöldum Spánar ókleift að verða sér úti um vopn, en hafði lítil sem engin áhrif á stuðning fasistaríkjanna við uppreisnina. Spánarstjórn var vinstristjórn með aðkomu sósíaldemókrata (róttækra reyndar) og kommúnista, og auðvald Vesturveldanna óttaðist einfaldlega sósíalismann miklu meira en fasismann. Svik Vesturveldanna við Spán voru stórbrotin. „Ekki-íhlutunin“ fól jafnframt í sér að stöðva skyldi för hinna alþjóðlegu sjálfboðaliða til Spánar í lýðveldisherinn. Sjálfboðaliðarnir fóru samt, með leynd. Ef þeir komust aftur heim á lífi voru þeir í flestum auðvaldsríkjum meðhöndlaðir sem brotamenn.

Hallgrímur telur ekki að vestrænt auðvald hafi þarna breytt í góðri trú: „Myndi Evrópu- og Ameríkuauðvaldið hafa slegið „hlutleysishringinn“ um Spán – hafa tekið að sér hlutverkið að halda fótum lambsins meðan fasisminn skar það niður við trog – ef það gengi ekki vitandi vits að því verki að koma spænska lýðveldinu fyrir kattarnef?“ Sjálfur hlýddi Hallgrímur kalli spænskrar alþýðu og tók undir með Jóhannesi úr Kötlum: „Til allra þjóða þeirri spurn er beint/ og þar er enn á göfgi mannsins reynt:/ Hver hjálpar Spánar dýru frelsisdáð/ í dag? Á morgun verður það of seint.“ („Spánn kallar“, 1939)

Eina ríki Evrópu sem studdi Spánarlýðveldið í stríðinu við fasismann voru Sovétríkin. Jafnframt reyndu Sovétmenn ákaft að koma á skuldbindandi samningum við Breta og Frakka (og Pólverja) um „sameiginlegt öryggi“ í Evrópu, hernaðarlega samvinnu og samstilltar aðgerðir gegn yfirgangi Hitlers, ekki síst gagnvart Tékkóslóvakíu. Vesturveldin svöruðu með Munchen-samkomulaginu þar sem samið var um stóran hluta Tékkóslóvakíu til handa Hitler, Sovétmönnum var haldið utan við samkomulagið og þar með fékk Hitler i raun frjálsar hendur til austurs. Svo seint sem 15. águst 1939 bauð Stalín Vesturveldunum milljón manna her til samstilltra aðgerða gegn Hitler, en fékk enn og aftur neitun. Þá snéri hann kápunni um síðir – og gerði griðarsamning við Hitler til að „kaupa tíma“. Sá tími nýttist Sovétmönnum vel en var auðvitað afar beiskur bikar, m.a. fyrir Spánarfarana. Bókin er einmitt skrifuð

á þeim erfiða tíma, og höfundur lauk henni á Litla Hrauni. Í verðlaunabók sinni Milli vonar og ótta (Íslensku bókmenntaverðlaunin 1996) lýsir Þór Whitehead íslenskum kommúnistum á tíma griðarsamningsins sem „talsmönnum nasista“! Það væri skrýtinn „talsmaður“ sem skrifaði eins og Hallgrímur.

Stríð í návígi.

Hallgrímur gefur okkur mynd af grimmu stríði. Af hernaðaraðgerðum í miklu návígi. Mynd af hörmungum og dauða en líka af stéttvísi og samstöðu með spænskri alþýðu. Af væntumþykju og hrifningu á gagnlegum vopnum, ef það eru „okkar vopn“. Af mikilvægi hetjuskapar en þó enn frekar mikilvægi pólitískrar vitundar. Og svo var það siðferðisþrekið: Hann sýnir okkur vel pendúlsveifluna milli baráttuandans annars vegar og hins vegar stríðsþreytunnar og vonleysisins. Á seinni hluta hermennsku sinnar hafði Hallgrímur sjálfur stöðu stjórnmálafulltrúa og sendiboða í bataljóninni og fór á milli „kompaníanna“, ekki síst til að styrkja „bardagamóralinn“.

Þetta var á seinni helmingi Spánarstríðsins og lengst af var Hallgrímur í varnarbaráttu gegn fasistaherjunum. Við Ebrofljót læsti bataljónin hans sig fasta vikum saman í tvær hæðir kenndar við „Hestafell“. Þetta var bara fótgöngulið. Sprengjuflugvélar fasista voru einráðar í loftinu og andstæðingurinn hafði „15-20 fallbyssur á móti einni hjá okkur“. Í lýsingu Hallgríms verða hæðirnar táknrænn „hluti fyrir heild“: „Það færðist yfir okkur hugarástand sem er sljótt fyrir öllu – nema vörninni. Þessar tvær grýttu og hrjóstrugu hæðir voru orðnar hluti af okkur sjálfum. Við lágum í skauti þeirra, hjúfruðum okkur að þeim. Þær höfðu vökvast blóði svo margra félaga okkar og umluktu þá í hinsta sinn. Hér stóðu þær fastar og öruggar; að vísu með óteljandi skellum, holóttar og sundurflettar. Pinjukjarr þeirra upprifið og ausið skít; trén brotin og sundurmarin. En þær stóðu hér eins og vörslugarðar spænsku þjóðarinnar, skulfu reyndar lítið eitt við stærstu sprengingarnar en jöfnuðu sig um leið. Þær geymdu okkur í holum sínum eins vel og kostur var á. Og því skyldum við yfirgefa þær og fá þær í hendur glæpalýð Mussolinis? Nei, hér var okkar staður og hér berjumst við til þrutar. Við yfirgefum ekki hæðirnar okkar.“

Það endaði samt með því að Spánarstjórn sendi allar Alþjóðasveitirnar heim aftur til að reyna að bæta diplómatíska stöðu sína gagnvart stórveldunum og Þjóðabandalaginu, hugsandi sem svo: Ef við fylgjum strangt reglunum um „ekki-íhlutun“ mun það skapa þrýsting á að fasistaríkin hætti innrás sinni! Alþjóðasveitirnar fóru heim í nóvember 1938. Af 11. brígaðanum sem barðist við Ebrofljót og taldi í byrjun 3000 manns snéru 500 tilbaka. En þetta diplómatí breytti engu um stuðning fasistaríkjanna, stríðið tapaðist nokkru síðar sem bara jók landvinningahungur úlfanna (líkt og hvert valdaskiptastríðið Í Miðausturlöndum á 21. öld leiddi af sér annað – allt að Sýrlandi, þ.e.a.s meðan úlfarnir komust upp með það).

Hinn kommúníski andi.

Bókin Undir fána lýðveldisins er merkilegt innlegg í íslenska hugarfarssögu, þó að hún gerist á Spáni. Hún sýnir hið kommúníska hugarfar, hinn kommúníska anda fjórða áratugarins sem Hallgrímur Hallgrímsson er góður fulltrúi fyrir. Steinn Steinar skrifaði eitt sinn um róttæklingana í Reykjavík: „[Reykjavík] kom okkur að minnsta kosti í sálrænt samband við hinn stríðandi lýð veraldarinnar. Og við stóðum ævinlega réttu megin í þeirri baráttu, þótt það væri kannski ekki á margra vitorði. Okkur dreymdi jafnvel þann stóra draum að fara sjálfir í þá styrjöld og fórna lífinu til lofs og dýrðar því sem góðir menn nefna sannleika og réttlæti. Auðvitað fórum við hvergi, en það var ekki okkur að kenna.

Við vorum svo fátækir. Við áttum ekki fyrir fargjaldinu til aftökustaðarins“ (ritgerðin „Reykjavík“ 1949). Hallgrímur átti svipaða drauma – og hann fór.

Það er alveg hugsanlegt að Steinn Steinar hafi í raun og veru hugsað og dreymt um slíka ferð. Hann var dæmdur og fangelsaður (einn af fjórum) fyrir að skera niður þýska fánann á húsi vararæðismannsins á Siglufirði í ágúst 1933. Mánuði síðar skar Hallgrímur Hallgrímsson niður þýska fánann af þýsku skipi í Reykjavíkurhöfn (var ekki gripinn þá). Það fóru aðeins þrír Íslendingar í Spánarstríðið, en t.d. 550 Danir og álíka margir Svíar. Að ekki fóru fleiri héðan skýrist af afskekktri stöðu landsins og einmitt fátækt, því þetta voru fátækir verkamenn. Þeir þurftu því sterkan vilja til að lifa eftir hugsjóninni og hlýða „kalli Spánar“.

Bókin Undir fána lýðveldisins er merkileg og óvænt útgáfa, gjörsamlega úr takti við tísku dagsins og vekur örugglega ekki þá athygli sem hún verðskuldar. En hún vekur athygli á merkilegum höfundi og er jafnframt vitnisburður um hugarfar og baráttuanda sem minna ber á nú um stundir en á tíma fyrstu útgáfunnar, en á samt engu minna erindi nú en þá.