Bjarnargreiði Vesturlanda við Úkraínu

21. mars, 2023 Jón Karl Stefánsson

Áróður getur valdið miklum hörmungum ef nógu margir falla fyrir honum. Í Úkraínustríðinu kemur áróður úr öllum áttum. Einn hluti af áróðursherferðinni frá báðum bógum tengist velgengni eða mannfalli hvors aðila fyrir sig. Stríðandi fylkingar reyna ætíð að gera lítið úr mannfalli úr eigin röðum og ýkja skaðann sem þeir valda andstæðingnum. Eins og bandaríski stjórnmálaskýrandinn Bradley Devlin benti á: „Ríki ljúga um fjölda látinna hermanna í þeim tilgangi að láta líta út fyrir að staða þeirra sé sterkari en hún er í raun og veru“. Að sögn Cédrics Mas, hernaðarsagfræðings, er þetta, að ljúga til um fjölda fallinna úr eigin röðum og svo ýkja þann skaða sem veittur er andstæðingnum, beinlínis elsta dæmi um áróður sem vitað er um. Fortíðin geymir ótal sögur um hugdjarfan her sem berst við ofurefli, missir nærri enga hermenn og gjörsigrar andstæðinginn. Sjaldnast reyndust þær sögur sannar.

Mjög lýsandi dæmi um birtingarmynd þessa elsta form áróðurs varð í lok september í fyrra. Varnarmálaráðherra Rússlands, tilkynnti á blaðamannafundi 21. september s.l. að heildarfjöldi fallinna rússneskra hermanna væri 5.937. Daginn eftir tilkynnti varnarmálaráðuneyti Úkraínu að fjöldi fallinna rússneska hermanna væri um 55.000, en fallnir Úkraínumenn væru um 9000.

Forseti Úkraínu, Volodimir Zelinski, sagði nýlega í viðtali við BBC að Úkraína hefði misst alls 13.000 hermenn og sagði að sigur væri í sjónmáli. Svipaðar fréttir hafa reglulega komið upp í íslenskum fjölmiðlum og íslenskir fjölmiðlar hafa tekið þann pól að birta þessa hlið áróðursstríðsins.

En þessar tölur frá Kænugarði stangast mjög á við tölur sem erlendir sérfræðingar hafa velt upp. New York Times greindi frá því þann 2. febrúar s.l. að líklega hefðu um 120 þúsund úkraínskir hermenn fallið og nærri 200 þúsund rússneskir. Þann 30. nóvember 2022 tilkynnti forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, á Twitter-reikningi sínum að áætlað væri að um 20 þúsund almennir borgarar og 100 þúsund úkraínskir hermenn hefðu verið felldir í átökunum. Eftir hörð mótmæli frá ríkisstjórn Úkraínu var tístið tekið niður.

Fullyrðingar Zelinskis stangast einnig á við aðrar frásagnir frá sama BBC, en í nóvember var greint frá því að „virtasti herforingi Bandaríkjanna áætlar að um 100.000 rússneskir og 100.000 úkraínskir hermenn hafi verið drepnir eða þeir særst í stríðinu í Úkraínu. Mark Milley, hershöfðingi og formaður herforingjaráðs Bandaríkjanna (US Joint Chiefs of Staff) hefur einnig áætlað að um 40 þúsund almennir borgarar hafi látið lífið eftir að hafa lent í eldlínu bardaganna“.

Varnarmálaráðherra Noregs, Erik Kristoffersen, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var af frönsku sjónvarpsstöðinni LCI í lok janúar að um 180 þúsund hermenn Rússlands væru fallnir eða særðir, og um 100 þúsund úkraínskir hermenn. Hann bætti því við að líklega hefðu um 30 þúsund almennir borgarar fallið í átökunum. Hann sagði ekki hvaðan hann fékk þær heimildir.

Í tilfelli Úkraínu þarf að hafa í huga að það er einnig áróðurslega mikilvægt fyrir þá sem hafa notað fjármuni sinna þegna til að halda styrjöld gangandi að ýkja árangur þeirra sem styrktir eru á kostnað mótaðilans. Bandaríkin ein og sér hafa notað í það minnsta 75 milljarða Bandaríkjadala til að keyra áfram stríðið Úkraínu á síðustu 12 mánuðum. Evrópusambandið hafði þegar notað meira en 50 milljarða Evra í stríðið í Úkraínu. Nú síðast bættu ríkin við milljarðavopnasendingu til Úkraínu, svo stríðið verði nú örugglega eins blóðugt og mögulegt er. Það er því mikilvægt fyrir þessi ríki að halda uppi þeirri ímynd að stríðið gangi eins og í sögu og að sigur sé yfirvofandi til að réttlæta slíka blóðtöku. Fyrir Rússa sem líta nú á stríðið beinlínis sem baráttu fyrir tilvist sinni, stríð sem Aleksander Dugin sagði að mætti fyrir enga muni tapast, er ekki síður mikilvægt að halda baráttuþrekinu uppi. Því verður að grafa dýpra til að reyna að komast að hinu sanna en að hlusta einungis á aðra hlið málsins.

Kannski eru áreiðanlegustu heimildirnar því að finna hjá heimildarmönnum sem eru minna tengd stríðinu sjálfu. Tyrkneska dagblaðið Hurseda Haber greindi frá því þann 25. janúar s.l. að Leyniþjónusta Ísraels, Mossad, hefði upplýsingar um heildar tap bæði rússneska og úkraínska hersins í það tæpa ár sem innrás Rússlands hefði þá staðið. Samkvæmt þeim höfðu þá um 18.480 rússneskir hermenn látið lífið, 323 hefðu lent í höndum andstæðingsins og 44.500 særst. Rússneski herinn hefði misst 889 skriðdreka, 23 flugvélar, 56 þyrlur, 200 brynvarða bíla, 427 sprengivagna og 12 loftvarnarkerfi.

Hvað Úkraínu varðar, þá áætlaði Mossad að 157.000 úkraínskir hermenn hefðu þá þegar fallið, 234.000 slasast og 17.230 teknir höndum. Auk þeirra hefðu um 2.458 NATO hermenn sem börðust fyrir Úkraínu fallið, auk 234 leiðbeinenda úr NATO ríkjunum. Meira en 3000 málaliðar frá ýmsum löndum sem börðust fyrir Úkraínustjórn hefðu fallið. Úkraínuher hefði svo misst 6320 skriðdreka, 302 flugvélar, 212 herþyrlur, 2750 brynvarða bíla, 7360 árásarbíla og 497 loftvarnarkerfi.

Ef þetta er rétt þá þýðir þetta að fyrir hvern rússneskan hermann sem fallið hefur, hafa átta úkraínskir hermenn fallið. Getur þetta verið?


Einhliða áróður

Það er vandasamt verk að kynna sér mikilvægustu hliðar málsins og greina áróður frá góðum heimildum. Íslenskir fréttamiðlar og álitsgjafar hafa almennt valið að taka trúanlegan einhliða áróður frá stjórninni í Kænugarði og Bandaríkjunum. Óskrifað samþykki ríkir um að afskrifa fjölmiðla í Rússlandi, í aðskilnaðarhéruðum Úkraínu, og alla sjálfstæða blaðamenn sem koma með upplýsingar fara á skjön við þá heildarlínu sem tekin hefur verið upp. Blaða- og stjórnmálamenn sem sendir eru til Úkraínu til að vera á staðnum ræða eingöngu við stuðningsfólk Kiev stjórnarinnar og halda sig að mestu á yfirráðasvæðum þeirra. Aldrei er rætt við íbúa Donbass eða Krím og talsmenn þeirra sem telja að valdarán hafi farið fram árið 2014.

Þetta er ekki hlutlægur fréttaflutningur. Það sem verra er, þessar sögur hafa mikilvæg áhrif á þá stefnu sem ákveðin er um framhaldið. Sagan um að Rússland hafi opinberað sig sem veikt og að Úkraína sé á barmi þess að sigra það í stríði hefur verið hefur verið síendurtekin frá því í mars í fyrra. Þá var rætt um að rússneski herinn hafi skotið sig í fótinn og hafi komið sér í kjötkvörn. Ósigur hans væri óumflýjanlegur og Pútín yrði líklega steypt af stóli eftir glæstann hernaðarsigur Úkraínu, ef hann dræpist ekki úr krabbameini fyrir þann tíma. Þessi söguskilningur hefur hleypt kappi í kinn þeim sem telja að rétta, og eina, leiðin til þess að koma á friði, sé að dæla sem mestum vopnum og fé í hernaðaraðgerðir Úkraínu. Gott dæmi um þennan velgengni- og sigursældaráróður er grein Vals Gunnarassonar í Heimilidinni í sl mánuði: "Úkrínustríðið í fimm þáttum undir lok fyrsta ársins" sem endar á niðurlaginu „Í bili virðast flestir sammála um að besta leiðin til að binda enda á stríðið sé að hjálpa Úkraínumönnum að vinna það“. Stríð er friður. Þeir sem tala fyrir friðarsamningum eru úthrópaðir í þessu áróðursstríði. Þeir eru annað hvort vitleysingar sem gleyptu rússneskan áróður, eða friðþægingarmenn sem skilja ekki að Pútín er hinn nýji Hitler.


Dauði og eyðilegging

Hver sannleikurinn er í áróðursstríðinu, um það hver er að „vinna“ og hver er að „tapa“ í talnaleiknum sem stundaður er í fjölmiðlum, eins og um fótboltaleik sé að ræða, þá er eitt ljóst: Því lengur sem stríðið varir, þeim meiri verður dauðinn, eyðileggingin og þjáningin fyrir Úkraínu.

Bæði Úkraína og Rússland eru að tapa hræðilega á hverjum degi. Það að þessar frændþjóðir hafi lent í þessari stöðu er martraðakennt. Hver svo sem sannleikurinn er, hvort Rússland eða Úkraína hafi misst fleiri syni og dætur, hvers vegna ætti það að skipta máli? Mannslíf í Rússlandi og Úkraínu er jafnmikils virði; það virði er óendanlegt. Þeir sem blása í herlúðra frá sófum sínum á Vesturlöndum ættu hreinlega að skammast sín.

Staðan í Úkraínu nú er þegar orðin skelfileg. Samkvæmt nýjustu tölum frá UNHCR hafa um 8.1 milljónir Úkraínumanna flúið úr landi og búa nú víðsvegar um Evrópu. Þetta eru rúmlega 18 prósentur af þeim 43 milljónum sem bjuggu í Úkraínu árið 2021. Innviðir landsins, þar á meðal raforkukerfi, vegakerfi og vatnsveitur, eru í molum. Á annað hundruð milljarða Bandaríkjadala tjón hefur orðið á innviðum Úkraínu. Úkraína sekkur æ dýpra í fátæktar- og skuldafen þrátt fyrir að Bandaríkin og önnur NATO-ríki hafi dælt tugum milljarða í ríkið til að halda stríðinu gangandi. Úkraína er þegar fátækasta ríki Evrópu og það mun taka áratugi að byggja upp landið, og það ef friður næst nú í dag. Viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi hafa snúist í höndunum á Vestur Evrópu sem hefur misst aðgang að ódýru hráefni úr austri. Mikil verðbólga og efnahagskreppa vofir nú yfir heimsálfunni. Evrópa er á barmi efnahagslegs hruns, að hluta til vegna efnahagsþrýstiaðgerða gegn Rússlandi og svo fádæmalauss vopna- og fjárausturs til Úkraínustjórnar í þeim tilgangi að knésetja Rússland.

Það allra versta sem komið hefur úr stríðinu er dauði. Hundruð þúsundir mannslífa eru töpuð. Flest þessara mannslífa voru ungir, lofandi menn frá Úkraínu og Rússlandi, hermenn sem voru sendir á vígstöðvar til að deyja í stríði sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Almennir borgarar, þar á meðal börn, hafa einnig látið lífið; langflest í Donbass. Heildarfjöldi látinna gæti verið að nálgast hálfa milljón frá 2014. Eru íslenskir friðarsinnar einnig tilbúnir til að berjast til síðasta Úkraínumanns úr fjarlægð?

Áróður fyrir stríðinu hefur varað mjög lengi og hann beinist ekki einungis að okkur svo við samþykkjum áframhaldandi stríðsrekstur. Hann hefur einnig beinst gegn almenningi í Úkraínu og Rússlandi. Óprúttnir aðilar hafa sáð fræjum haturs milli þjóðernishópa og fólks með mismunandi stjórnmálaskoðanir árum saman. Hatrið mun einungis magnast á meðan þessi herskáa stefna ríkir og við hellum bensíni á bálið í Úkraínu. Niðurstaðan gæti orðið endalok Úkraínu og viðvarandi hatur og sársauki í Austur Evrópu. Slíkt kallast bjarnagreiði, í besta falli.