Bannið á Rétttrúnaðarkirkju Úkraínu er ógnvekjandi nýtt skref í átt til alræðis
—
Þann 24. ágúst s.l. samþykkti ríkisstjórn Úkraínu að úkraínska rétttrúnaðarkirkjan skyldi lögð af. Ástæðan sem gefin var fyrir því að banna þessa aldagömlu stofnun er sú að sú stofnun hefur ekki slitið tengsl sín við hina rússnesku rétttrúnaðarkirkju, að minnsta kosti ekki hver einasti meðlimur hennar. Samkvæmt lögunum er hverri af hinum fjölmörgu (9.107) sóknum kirkjunnar skipað að lýsa hollustu við rétttrúnaðarkirkju sem sett var á laggirnar af stjórnvöldum árið 2018. Þeim sem gera það ekki innan 9 mánaða verður refsað. Í ávarpi um lögin fagnaði Zelenski forseti þessum lögum sem leið til að styrkja „andlegt sjálfstæði“ landsins. Páfinn í Róm hefur fordæmt ákvörðunina, eins og rétttrúnaðarkirkjur um allan heim og svo Sameinuðu þjóðirnar, en Vesturlönd virðast veita þessu blessun sína með þögninni.
Þessi lög eru ekki fyrsta árás Úkraínustjórnar á Rétttrúnaðarkirkjuna. Í fyrra flæmdu hersveitir þeirra munka út úr klaustri þeirra í Kænugarði. Klaustur þetta hafði staðið í heil 980 ár og er elsta kirkjustofnun landsins. Borgaryfirvöld enduðu árið svo með því að neita að framlengja leigusamninginn við gömlu kirkjuna, en leyfðu sóknarfólki í hinni nýju kirkju stjórnvalda að fagna jólunum á þessum fornfræga stað.
Rétttrúnaðarkirkjan gamla hefur legið undir miklum árásum frá 2014. Hópar þjóðernissinna hafa gert ítrekaðar árásir á kirkjur og fylgjendur hennar. Leyniþjónusta Úkraínu (SBU), sem hefur sterk tengsl við hreyfingar þjóðernissinna, hefur einnig framkvæmt fjölda skyndiáhlaupa á kirkjur í þeim tilgangi að leita að „and-úkraínskum“ skjölum, sett viðskiptabann á biskupa kirkjunnar og dregið fjölda presta fyrir rétt fyrir hinar ýmsu, mis-sannfærandi sakir. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur fengið meira en 68 mál á sitt borð sem varða árásir á meðlimi Rétttrúnaðarkirkjunnar, þar með taldar 44 líkamsárásir á presta. Ríkisstjórn Úkraínu hefur ekkert gert til þess að hjálpa því fólki að leita réttar síns.
Þetta áhlaup á Rétttrúnaðarkirkjuna er því miður einungis nýjasti kaflinn í því sem er einungis hægt að kalla vegferð stjórnvalda í Úkraínu í átt til alræðis. Þetta er ógnvekjandi þróun sem við hreinlega verðum að skoða og reyna að hafa áhrif á, ekki síst í ljósi þess að við tökum þátt í fjármögnuninni sem leiðir til þessa. Það er helst alþýða Úkraínu sem sýpur seyðið af þessu og þessi þróun mun dreifa úr sér ef hún fær að vera óáreitt.
Algjört niðurrif stjórnarandstöðunnar og afnám gagnrýnnar umræðu
Árið 2022 samþykkti Zelinski forseti lög sem tóku völdin yfir öllum sjónvarpsfjölmiðlum landsins og heftu tjáningarfrelsi. Lögin kallast á ensku „unified information policy“ og voru sett undir því yfirskyni að berjast gegn rússneskum rang-upplýsingum (disinformation). Um 11 fréttastöðvar voru lagðar niður með valdi í krafti laganna og stjórnvöld hafa nú fullt vald yfir þeim upplýsingum sem berast landsmönnum.
Á sviði stjórnmálanna hefur ríkisstjórnin einnig skorið upp herör gegn flokkum sem henni geðjast ekki að. Meðal þeirra stjórnmálaflokka sem hafa beinlínis verið bannaðir eru „Опозиційна платформа“ eða „Vettvangur fyrir andstöðu – Fyrir lífi“, en flokkurinn hafði fengið 37 þingsæti í síðustu kosningum sem hann tók þátt í. Þrátt fyrir að flokkurinn fordæmdi innrás Rússlands árið 2022 var flokkurinn bannaður vegna gruns um að einhverjir þar hefðu tengsl við rússneska stjórnmálamenn. Fjölmiðlar tryggir stjórnvöldum tilkynntu í september að flokkurinn, sem hefði tekið þátt í „eyðileggjandi athöfnum“ og sýnt stuðning við Rússa, hefði „loksins“ verið lagður af.
Flokkurinn „Партія Шарія“, undir forystu fjölmiðlamannsins Anatoly Shariy, kenndi sig við frjálslyndi og gerði þau mistök að gagnrýna ríkisstjórn Úkraínu og fjölmiðlalög landsins. Flokkurinn var bannaður af þinginu 16. júní 2022. Flokksmenn mótmæltu banninu, en hæstiréttur landsins staðfesti bannið í októbermánuði sama árs.
Flokkurinn Прогресивна соціалістична партія України, eða frjálslyndir sósíalistar, var bannaður í lok árs 2022. Hann naut helst stuðnings í suðurhéröðum landsins og þótti of sósíalískur og Rússlands-vinsamlegur.
Kommúnistaflokkur Úkraínu, sem hafði verið starfræktur frá árinu 1918, hafði fengið 32 þingsæti í síðustu kosningunum sem flokkurinn fékk að taka þátt í. Hann var bannaður strax árið 2015 og meðlimir hans hundeltir af þjóðernissinnum.
Stærsti flokkurinn sem var bannaður var svo Партія регіонів, eða Héraðsflokkurinn. Hann var stærsti stjórnmálaflokkur Úkraínu allt þar til Maidan-valdaránið átti sér stað árið 2014. Flokkurinn fékk 185 af 450 þingsætum í kosningunum árið 2012 og forsetaframbjóðandi þeirra, Viktor Yanukovych, sá sem steypt var á stóli í febrúar 2014 af þjóðernissinnum, sigraði forsetakosningarnar árið 2010 með tæplega 50 prósent atkvæða. Flokkurinn naut aðallega stuðnings í austur- og suðurhluta landsins, þeim héruðum sem neituðu að viðurkenna ný stjórnvöld í kjölfar Maidan-atburðanna. Stríð hefur ríkt meðal þessara héraða og svo hersveita úkraínustjórnar alla tíð síðan.
Nokkur fjöldi háttsettra meðlima flokksins hafa látist á dularfullan hátt á síðustu árum. Meðal þeirra eru Oleksandr Peklushenko, héraðsstjóri Zaporizhshia, sem fannst látinn með skotsár árið 2015. Mykhailo Chechetov, forseti þingnefndar flokksins, var hent út af svölum á heimili sínu sama ár og Stanislav Melnyk, atvinnurekandi og meðlimur í borgarstjórn Donetsk-borgar, fannst einnig látinn með skotsár. Öll þessi dauðsföll voru úrskurðuð sem sjálfsmorð af stjórnvöldum í Kænugarði.
Aðrir stjórnmálaflokkar sem hafa verið bannaðir og mætt ofsóknum í Úkraínu frá árinu 2014 eru kommúnistaflokkur verkafólks og bænda, samtök kommúnista í Úkraínu, Stjórnarandstöðublokkin, Sósíalistaflokkur Úkraínu, Derzhava flokkurinn, Samfylking vinstriflokka, Vinstri stjórnarandstaðan, flokkur Volodymyr Saldo og svo flokkurinn sósíalistar. Allar hreyfingar sem ríkið telur tengjast kommúnisma og sósíalisma eru bannaðar í Úkraínu. Á sama tíma er sértaklega kveðið á í lögum að stjórnmálahreyfingar og félagssamtök sem lýsa yfir stuðningi við þjóðernissinna sem stunduðu þjóðernishreinsanir á dögum seinni heimsstyrjaldar geti starfað óáreittar (sjá frétt frá the Guardian).
Almennir borgarar í Úkraínu hafa ekki sloppið við pólitískar ofsóknir. Síðan 2014 hafa mannréttindasamtök eins og Human Rights Watch (HRW) og Amnesty International (AI) skjalfest ýmis ofbeldisverk sem framkvæmd hafa verið af úkraínskum stjórnvöldum og þjóðernishópum gegn óbreyttum borgurum. Þessar skýrslur innihalda tilvik um aftökur án dóms og laga, handahófskenndar handtökur og pyntingar. Til dæmis hafa hópar þjóðernissinna átt þátt í hatursglæpum gegn Rómafólki, LGBT einstaklingum og aðgerðarsinnum gegn spillingu, oft án viðeigandi viðbragða eða verndar frá löggæslu. Þeir sem verða fyrir mestu hatri eru þó þeir sem hafa rússnesku sem móðurmál, en það eru tæplega 18 prósent landsmanna. Þetta er einnig fyrir utan hernað stjórnvalda gegn íbúum í Donbass héruðunum sem neituðu að viðurkenna Maidanstjórnina, en það stríð kostaði þúsundir mannslífa á árunum milli 2014 og 2022.
Herör skorin upp gegn verkalýðshreyfingum og stéttafélögum
Frá árinu 2014 hefur úkraínska ríkisstjórnin gripið til ýmissa aðgerða sem hafa verulega takmarkað réttindi og starfsemi verkalýðsfélaga. Þessar aðgerðir hafa sérstaklega aukist undir stjórn Volodymyr Zelensky forseta, sem hefur fylgt eftir vinnumarkaðsumbótum sem hafa verið gagnrýndar af verkalýðsfélögum og alþjóðlegum eftirlitsaðilum fyrir að grafa undan réttindum launþega og veikja vald verkalýðsfélaga.
Mikilvægar aðgerðir fela í sér lög sem veikja sameiginlegan samningsrétt, takmarka fjölda verkalýðsfélaga sem leyfðir eru á vinnustað, og svipta verkalýðsfélög eignum sínum án lögbundins ferlis. Ein umdeildustu lögin sem samþykkt voru árið 2022, dregur verulega úr vinnuvernd fyrir starfsmenn í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem hafa áhrif á allt að 70% vinnuaflsins. Þessi lög hafa verið fordæmd af úkraínskum verkalýðsfélögum og alþjóðlegum stofnunum, þar á meðal Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), fyrir að brjóta alþjóðlega vinnumarkaðsstaðla.
Auk þess hefur úkraínska ríkisstjórnin leitast við að taka yfir eignir sem verkalýðsfélög hafa haft í sinni vörslu og hefur sett lög sem gera verkalýðsfélögum erfiðara fyrir að starfa sjálfstætt. Þessar aðgerðir, gerðar undir yfirskini þess að samræma úkraínska löggjöf við reglugerðir ESB eða neyðarástand vegna stríðs, hafa leitt til umfangsmikilla mótmæla og lögfræðilegra áskorana frá verkalýðshreyfingunni í Úkraínu (sjá fréttir frá Human Rights Watch).
Í heildina séð hefur tímabilið eftir 2014 í Úkraínu einkennst af verulegri rýrnun vinnuréttinda, þar sem verkalýðsfélög hafa orðið fyrir bæði lagalegum takmörkunum og þrýstingi frá stjórnvöldum, sem vekur alvarlegar áhyggjur af framtíð verkalýðshreyfingarinnar í landinu.
Engar kosningar og landið selt erlendum auðhringjum
Þingkosningar sem fara áttu fram árið 2023 hafa enn ekki verið skipulagðar. Forsetakosningunum sem áttu að eiga sér stað nú á þessu ári hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Meir að segja sveitastjórnarkosningar hafa verið settar á frest, allt undir yfirskyni þjóðaröryggis.
Á undanförnum mánuðum hafa, í þessu pólitíska myrkri, úkraínsk stjórnvöld gert gríðarstóra samninga við alþjóðleg fjármálafyrirtæki, einkum BlackRock, til að styðja við endurreisn efnahags Úkraínu í miðju áframhaldandi átaka við Rússland. Í nóvember 2022 skrifaði Úkraínska efnahagsráðuneytið undir viljayfirlýsingu við BlackRock Financial Markets Advisory. Samkomulagið gerir BlackRock kleift að veita ráðgjafarþjónustu við að skapa umgjörð fyrir Úkraínuþróunarsjóðinn, sem miðar að því að laða að opinbert og einkafjármagn fyrir stórfelld uppbyggingarverkefni. Áherslan er á lykilgeira eins og orku, innviði, landbúnað og upplýsingatækni, með það að markmiði að laða að verulegar fjárfestingar til að endurreisa og nútímavæða efnahag Úkraínu.
Samstarfið við BlackRock felur einnig í sér önnur stór fjármálafyrirtæki, eins og JPMorgan Chase, og er talið vera mikilvægur áfangi í því að „bæta fjárfestingarumhverfi“ Úkraínu. Samstarfið er ætlað að tryggja að Úkraína verði aðlaðandi staður fyrir alþjóðlega fjárfesta, með því að nýta bæði einkafjármagn og opinbert fé til uppbyggingar eftir stríð. Það að verkalýðsfélög hafa að mestu verið kramin í duftið í landinu mun auðvelda þessum fyrirtækjum að endurskipuleggja efnahag landsins.
Nú er mikilvægt að hafa nokkuð í huga. Ef einstaklingur er ekki hliðhollur hinni miklu þjóðernishyggju sem ríkir í Úkraínu um þessar mundir, styður t.d. einhverja af hinum bönnuðu stjórnmálaflokkum, saknar fjölmiðlanna sem lagðir voru niður, vill vera í stéttafélagi, eða er trúr hinni bönnuðu Rétttrúnaðarkirkju, hvaða möguleika á slíkur einstaklingur nú að hafa á því að hafa áhrif á samfélagið? Hvað verndar slíkt fólk frá ofbeldissveitunum og Leynilögreglunni sem virðist geta barið fólk og jafnvel drepið án þess að eiga í nokkurri hættu á því að hljóta fyrir það refsingu? Í slíku samfélagi eru slíkir einstaklingar dæmdir til að annað hvort halda sér saman og láta lítið fyrir sér fara, þykjast fylgja hinni hörðu þjóðernisstefnu, eða freistast til að flýja land. Þau munu aldrei upplifa öryggi. Ekkert við þetta er lýðræðislegt. Það er algjört lágmark að við krefjum stjórnvöld í Úkraínu að virða rétt til stjórnarandstöðu, kosninga, trúarsannfæringar, frjálsrar fjölmiðlunar og verkalýðsréttinda. Annað er glæpur gegn alþýðu Úkraínu.