Bandarísk heimsvaldastefna kemur aftur fram í dagsljósið

20. desember 2017 — Nafnlaus

Trump að faðma bandaríska fánann
Nýja bandaríska þjóðaröryggisstefnan lýsir því opinberlega yfir sem hefur verið raunveruleg afstaða Bandaríkjanna um árabil; Bandaríkin koma fyrst, og aðrir mega eiga sig.

Í skjalinu er bæði Rússlandi og Kína lýst sem ógnum við efnahagslegt öryggi Bandaríkjanna, að þessi ríki séu að þróa tækni sem ógni Bandaríkjunum og séu keppinautar Bandaríkjanna á alþjóðagrundvelli.

Það felst í því hættuleg breyting að þessar staðhæfingar (sem eru í sjálfu sér sannar) skuli vera farnar að rata í opinberar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar. Enn fremur lýsir skjalið því yfir að Bandaríkin muni treysta hagsmuni sína á alþjóðlegum grundvelli með öllum nauðsynlegum leiðum og "með því að sýna fram á yfirburðarstyrk“.

Mun næsta yfirlýsing Bandaríkjastjórnar einfaldlega verða: „Stríð er friður, fáfræði er viska.“ ?

Þetta ríki sem gagnrýnir gjörðir Rússlands og Kína og fordæmir eldflaugaáætlun Norður-Kóreu; Sem segist vera mikilvægasti liðurinn í að viðhalda friði á alþjóðavísu, er á sama tíma ríki sem lýsir því opinberlega yfir að það muni gera allt til að framfylgja sínum hagsmunum og lítur bersýnilega á hernaðarvald sem tól í þá áttina.

Skjalið minnist ekki á lofstlagsbreytingar sem ógn, þrátt fyrir að Obama-stjórnin hafi gert það og að Kína, sem er svo harðlega gagnrýnt af Bandaríkjastjórn, hafi sett lofstlagsbretingar í fyrirrúm og náð miklum árangri á því sviði.

Þá gagnrýnir skjalið Rússland og Kína sérstaklega fyrir að „vera ákveðin í því að gera efnahagi sína ófrjálsari, að stækka heri sína, og stjórna upplýsingaflæði til að kúga sín eigin samfélög og útvíkka áhrifasvæði sín.“ Þessi gagnrýni kemur frá ríki sem hefur ríkisstjórn í vasa auðmanna, hefur útfært löggjöf sem heimilar og framkvæmir netnjósnir á nánast öllum jarðarbúum, getur fangelsað fólk án dóms og laga og sett í fangabúðir sem eru ólöglega á erlendri grundu, og sem á óumdeilanlega stærsta her veraldar. Svo ekki sé minnst á óteljandi opinberar jafnt sem fyrrum leynilegar íhlutanir í öðrum löndum; Leynimorð á erlendum stjórnmálamönnum, kosningasvindl og hreinar og beinar innrásir. Allt er gert í þeim tilgangi að útvíkka áhrifasvæði BNA og tryggja efnahagslega velferð þeirra.

Með útgáfu þjóðaröryggisstefnunnar eru bandarísk stjórnvöld í raun að segja að þau þurfi ekki að fara leynt með þetta lengur. „Bandaríkin höfðu misst sjónar á örlögum sínum“ segir Trump, og með er hann að segja: „Við þurfum ekki að leyna alþjóðlega ruddaskapnum lengur, við höfum allan rétt til að gera það sem okkur sýnist með heiminn. Öllum sem standa í vegi fyrir bandarískum yfirburðum verður útrýmt.“

Bandaríkin eru heimsveldi á hverfanda hveli, og tekur því illa.

Þessir alþjóðlegu „friðarboðar“ hafa löngum verið álitnir af íslenska ríkinu sínir stærstu bandamenn, og hafa verið nánustu samstarfsmenn þess innan Nató. Með þeirri stjórn sem nú er við völd í Bandaríkjunum er orðið löngu tímabært að Íslendingar hætti að samræma hagsmuni sína þessum alþjóðlegu böðlum, sem eru kanski ekki þeir verstu sinnar tegundar, en eru vissulega þeir víðtækustu og virðast einungis ætla að gerast svæsnari með tímanum.