Áramótakveðja Alþýðufylkingarinnar
—
Félagar.
Nú á síðasta degi ársins 2017 við ég óska öllum félagum Alþýðufylkingarinnar, og fjölskyldum þeirra gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það sem er að ljúka.
Margt hefur borið við á nýliðnu ári, og mörg verkefni blasa við okkur á komandi ári. Þó að kosningaúrslit yrðu okkur ekki í hag nú í haust, segir það ekki alla söguna um stöðu okkar og möguleika. Það var í sjálfu sér mikill sigur að við skyldum geta tekið þátt í osningum með svo stuttum fyrirvara, og kom mörgum í opna skjöldu. Einnig er margt sem bendir til að sjónarmið okkar hafi náð til margra og fengið meiri undirtektir en áður þó það hafi ekki skilað sér í kjörkassana.
7. nóvember söfnuðust á annað hundrað manns saman í Iðnó og um 30 á Akureyri til að fagna Októberbyltingunni á 100 ára afmæli hennar. Þar ríkti sannur byltingarandi og ég hygg að skilningur á mikilvægi byltingarinnar hafi aukist við þessi tímamót.
Á árinu hélt fátækt áfram að aukast þrátt fyrir fjálglegar yfirlýsingar um einstakt góðæri. Í kapítalismanum er talað um góðæri þegar auðvaldinu gengur vel að græða, þó á sama tíma safnist fátækt og húsnæðislaust fólk saman í vaxandi hjólhýsabyggð í Laugardalnum, það sem þó hefur tök á því.
Við stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum. Framundan eru átök um kaup og kjör í mörgum stéttarfélögum. Mikilvægt er að okkar félagar auki áhrif sín innan verkalýðshreyfingarinnar, og berjist þar fyrir auknum baráttuvilja og stéttarvitund.
Við þurfum einnig að tengja baráttu okkar við húsnæðislaust og annað fátækt fólk, og fá það til liðs við okkar sjónarmið. Það á eftir að sýna sig skýrar en áður, að orðavaðll einstakra flokka um fátækt er innistæðulaus, þar sem þeir vilja ekki vinna gegn arðráni auðstéttarinnar, og þar með heldur fátæktin áfram að vaxa, hversu sem menn hneykslast á því. Ennfremur á fátækraherinn eftir að margfaldast innan fárra ára þegar kreppan veldur næsta hruni.
Það verður okkar hlutverk að taka forystu fyrir þeirri baráttu sem nauðsynleg er til að hringekjan endurtaki sig ekki í nýrri endurreisn auðvaldsins úr hverju hruni.
Verkefnin eru mörg og stór. Til að kikna ekki undan þeim er best að við skipuleggjum okkur sem best, dreifum verkefnum, og fáum fleiri í lið með okkur.
Gleðilegt ár.
Valdi