Ályktun um innflutning á kjöti


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar haldinn 16. 3. 2019 fordæmir áform um að leyfa óheftan innflutning á kjöti, frosnu sem ófrosnu, og öðrum ógerilsneyddum matvælum. Þessi áform skapa margvíslega hættu fyrir lýðheilsu í landinu, heilbrigði búfjárstofna, fæðuöryggi og matvælaöryggi.

Víða um heim eru notuð sýklalyf að staðaldri, í miklum mæli, til að auka vöxt dýra. Það er hins vegar bannað hér á landi. Íslenska búfjárstofna skortir ónæmi og þeir eru því berskjaldaðir fyrir sýklum sem landlægir eru í mörgum Evrópulöndum. Innflutningur hrás kjöts mun því í senn skapa stórfellda áhættu fyrir íslenska búfjárstofna og vaxandi sýklalyfjaónæmi. Þetta er samdóma álit þeirra sérfræðinga, sem um hafa fjallað, þó að einstaka þingmenn kalli það„innantóman hræðsluáróður“.

Látið er í veðri vaka aðþessi áform séu almenningi til hagsbóta þar sem matarverð muni lækka. Hagsmunir almennings liggja þó fyrst og fremst í því aðtryggja fjölbreytta og heilbrigða matvælaframleiðslu í landinu til að tryggja fæðuöryggi. Margar leiðir eru til að tryggja að fólk hafi efni á að kaupa holl innlend matvæli. Innflutningur á matvælum, sem gnægð er af í landinu fyrir, stuðlar að matarsóun og offramleiðslu, auk þess sem það stækkar vistspor, sem ekki er á bætandi. Hagsmunir innflutnings liggja hins vegar í auknum gróða braskaranna, með því að selja meira af ósjálfbærri innfluttri framleiðslu.

Þó að EFTA-dómstóllinn úrskurði gegn innflutningshöftum og taki ekki mark á lýðheilsusjónarmiðum, er nú mál að linni. Þá er skynsamlegra að EES-samningurinn víki og fullveldi þjóðarinnar verði eflt. Undanfarna áratugi hefur markaðshyggja og viðskiptahagsmunir auðvaldsins haldið mannlegu samfélagi í helgreipum á kostnað alþýðuhagsmuna og umhverfisgæða. Því verður að snúa við.