Al-Aqsa flóð – þáttur í réttlátu þjóðfrelsisstríði

15. október, 2024 Þórarinn Hjartarson

Gazastríðið er ársgamalt – ár liðið frá óvæntri og harkalegri árás Hamas á mörgum stöðum inn í Ísrael. Stríðið hefur breiðst út til Líbanon. Andspyrnuöxullinn tekur vaxandi þátt. Ísrael stefnir á Miðausturlandastríð með þátttöku Bandaríkjanna, sem sem virðast vera til í slaginn með einhverjum skilyrðum. Hvern styður þú? Engan?

Al-Aqsa flóð, aðgerð hersveita Hamasliða o.fl, varð 7. október 2023 – og kveikti sem andsvar þjóðarmorðsstríð Ísraels gegn Palestínumönnum, og kveikti fleira. Spyrjum fyrst, hvers eðlis var þessi aðgerð og hverjar kringumstæður hennar? Skömmu eftir að stríðið hófst, í desember 2023, setti ég fram litla greiningu á þessu. Þar segir: 

Ástandið á Gaza er ekki bara mannúðarkrísa og slátrun í sláturhúsi – og „endanleg lausn Palestínuvandamálsins“ samkvæmt kynþáttahugmyndum síonista. Það er líka stríð. Stríð Ísraels og Hamas. Hvers eðlis er það stríð? Joe Biden setur það í flokkinn „stríð gegn hryðjuverkum… En þetta er rangt. Stríðið í Palestínu er þjóðfrelsisstríð. Í flokki með stríðinu í Víetnam eða í nýlendum Frakka, Breta, Portúgala o.fl. í Afríku og Asíu.

Andstæðar herbúðir í Gazastríði eru þannig að annars vegar stendur Ísrael með sinn mikla hernaðarlega/efnahagslega bakmann og verndara Bandaríkin (sem sér nánast alveg um að vopna og vígbúa Ísrael) ásamt Vesturlöndum (Bretlandi og ESB/NATO), þ.e.a.s. stjórnvöldum þeirra. Hinum megin stendur Hamas, framvörður palestínskrar þjóðfrelsisbaráttu. Hamas á nánustu bandamenn í því sem kallað hefur verið „Andspyrnuöxullinn“ (The Axis of Resistance) í Miðausturlöndum… Þar á bak við, Palestínumegin í stríðinu, standa Arabaríkin, miseinarðlega að vísu, og ennfremur – eins og smám saman verður skýrara – hið hnattræna Suður.

Í ögn einfaldaðri mynd eru það vestrænir heimsvaldasinnar á móti rest – og birtist dável í vopnahlés-atkvæðagreiðslunni hjá SÞ þar sem Ísland sat hjá… Í húfi er meira en staða Palestínu, líka staða og vald Bandaríkjanna í heimshlutanum.

Svo vitnaði ég í grein í The Nation sem líkti Al-Aqsa við Tet-sókn þjóðfrelsisaflanna í Víetnam árið 1968 og ályktaði sem svo að „Israel will loose this war.“

Ég tel að þessi greining standist enn í öllum meginatriðum. Þróunin síðan hefur fylgt þeim línum sem þarna eru upp dregnar.  

Það kemur alltaf betur í ljós að hernaður og þjóðernishreinsanir Ísraels á Gaza eru um leið þáttur  i vestrænni heimsvaldastefnu og  Bandarístreðikjanna  við að viðhalda hnættrænni stöðu sinni. Til Ísraels sem landnemanýlendu var stofnað af breskum heimsvaldasinnum sem vildu með því tryggja sína hagsmuni á efnahagslegu/strategísku lykilsvæði. Eftir seinna stríð tóku Bandaríkin við stöðu Breta. Þegar Ísraelsríki var stofnað 1948 höfðu Bandaríkin drottinvald í SÞ og þurftu að tryggja drottinvald sitt í Miðauxturlöndum. Nýlendustefnan var enn við lýði. Að miklu leyti má skoða Ísrael sem staðgengil Bandaríkjanna á svæðinu, sem útvörð og virki bandarískra/vestrænna hagsmuna (þó að Ísrael hafi vissulega sína sjálfstæðu hagsmuni líka). Hernaðarlegt vald Ísraels er meginþáttur í því að viðhalda bandarískum yfirráðum á þessu auðlindaríka svæði og heimsverslun og flutningsleiðum þar um.

Baráttan gegn nýlendu- og heimsvaldastefnu, friðsamleg?

Hinum megin víglínunnar er háð frelsisbarátta Palestínu – og barátta annarra Arabaþjóða til að losa sig úr greipum Bandaríkjanna, Ísraels og vestrænnar heimsvaldastefnu. Barátta sú hefur í tímans rás alið af sér Hamas og fleiri andspyrnuhópa í Palestínu sem og hinar andspyrnuhreyfingarnar innan Andspyrnuöxulsins í Miðausturlöndum (Axis of resistance).

Eftir fall Sovétríkjanna hafa Bandaríkin haft forustu um samhangandi styrjaldir („stríð án enda“) í Austurlöndum nær undir merkjum „stríðs gegn hryðjuverkum“ eða „mannúðaríhlutana gegn harðstjórum“ m.m. en raunverulegt markmið hefur verið að tryggja full bandarísk/vestræn yfirráð í heimshlutanum eftir lok Kalda stríðsins. Þessu brölti fylgdi t.d. uppbygging 125 bandaríska herstöðva í Austurlöndum nær, aðallega byggðar eftir fyrra Íraksstríðið 1990. Stærsta ljónið í veginum hefur verið hið andheimsvaldasinnaða Íran og áhrif þess.

Frelsis- og andspyrnuhreyfingin Hamas er fjölhliða hagsmunasamtök (og félagsmálastofnun) með rætur í palestínskri þjóðfrelsishyggju, með traustan grasrótarstuðning (sigraði í síðustu kosningum í allri Palestínu 2006), og að hluta til er barátta hennar vopnuð.

Harkaleg undirokun vekur harkalega andspyrnu, það er grundvallartilhneiging. Hamas er sprottin upp undan hrottalegri og vopnaðri undirokun á Palestínumönnum. Hreyfingin varð til gegnum svikult Óslóar-samkomulag árið 1993 (samið undir stjórn Bill Clintons) að undangenginni afvopnun Frelsissamtaka Palestínu, PLO, og einnig gegnum fyrra Intifada (1987-1993) þar sem helst áttust við símyrðandi Ísraelsher og grjókastandi palestískir unglingar. Óslóarfriðarferlið lofaði Paletínumönnum eigin ríki og réttindum en gaf þeim minna en ekki neitt og sá veruleiki ól og styrkti Hamas.

Íslamískar andspyrnuhreyfingar í Líbanon (Hizbollah), Jemen og Írak urðu til í bandarísk-síonista-drifnum hernaði gegn viðkomandi þjóðum. Hið grímulausa ofbeldi einnig þar hefur knúið andspyrnuöflin til að verja sig og þjóðir sínar sína með gagn-valdbeitingui og vopnum. Hizbollah sá um fyrstu hernaðarlegu ósigra Ísraels, 2000 og 2006.

Hinn nýlega myrti líbanski foringi Hizbollah, Hassan Nasrallah, sagði í ræðu fyrr á þessu ári, út frá reynslu baráttunnar: 

Þessi reynsla – segir Nasrallah – sýnir okkur að ef þú ert veikur þá mun veröldin ekki viðurkenna þig, ekki vernda þig. Það sem verndar þig eru þín eigin vopn.

Grimmd þeirrar gerðar sem Ísraelsríki beitir var og er einkennandi fyrir evrópska nýlendustefnu, og einkennandi fyrir síðari tíma heimsvaldastefnu líka, ekki síst þá bandarísku. Samlíking Ísraels við engilsaxnesku landnema- og þjóðarmorðsnýlendurnar  Bandaríkin, Kanada og Ástralíu á sínum tíma er nærtæk og ekki ómálefnaleg. Reynslan af viðskiptum Indverja við Breta, Hereróa og Nama í SV-Afríku við Þjóðverja, seinna viðskiptum Alsírbúa við Frakka, Angóla og Mosanbík við Portúgali, Víetnama við Frakka og seinna Bandaríkjamenn, svo nokkur slembidæmi séu nefnd, segir þessa sömu sögu.

Reynslan er þessi: Nýlendustefnan og sömuleiðis nýrri heimsvaldastefna byggjast á skipulegu og massífu ofbeldi. Ef fylgt er þeirri óskhyggju að það kúgunarkerfi verði einfaldlega fjarlægt eftir friðsamlegum leiðum, fríjum við ofbeldi, er það því miður ávísun á ófarir og ósigur í baráttunni. Framan af einkenndust stríð í nýlendunum af óskaplegum ójöfnuði m.t.t. vígbúnaðar, og þjóðarmorð nýlenduherranna gengu þeim því nokkuð vel. Á 20. öld þróuðust þjóðfrelsishreyfingar og þjóðfrelsishernaður, sbr. Kína, Indó-Kína, Afríku. Mesta ris þeirrar baráttu var á áratugunum eftir seinna stríð þegar vopnaðar þjóðfrelsishreyfingar sigruðust á og leystu upp nýlenduríkin eitt af öðru og unnu sögulega sigra á heimsvaldastefnunni. Það voru heimssöguleg skref fram á við þó svo að við tæki í mjög mörgum tilfellum ekki einhver full frelsun heldur ný-nýlendustefna og nýjar tegundir arðráns.

Í maí 1970, þegar m.a. Víetnamstríðið var í algleymingi, skrifaði Maó Tsetung ávarp til þjóða heims og gegn heimsvaldasinnum, byggða á traustri reynslu. Niðurlagið var svona (í þýðingu Brynjólfs Bjarnasonar):

Bandarísk heimsvaldastefna, sem lítur út eins og tröllsleg ófreskja er í rauninni pappírstigrísdýr og heyr nú  sitt dauðastríð á banabeði. Hverjir hræðast hverja í raun og veru, eins og nú er ástatt i heiminum? Ekki hræðist Víetnamþjóðin, Laosþjóðin, Kabódíuþjóðin, Palestínuþjóðin, Arabaþjóðirnar og þjóðir annarra landa bandarísku heimsvaldastefnuna. Hins vegar hræðist bandaríska heimsvaldstefnan fólkið í heiminum. Jafnvel þótt hún heyri aðeins skrjáf laufsins í vindinum grípur hana ofsahræðsla. Ótal staðreyndir sanna að réttur málstaður fær nóga hjálp, en rangur málstaður harla litla. Veik þjóð getur sigrað aðra sterka, lítil þjóð getur sigrað stórþjóð. Þjóð lítils lands getur vissulega sigrast á árás af hálfu stórþjóðar ef hún aðeins þorir að rísa til baráttu, þorir að grípa til vopna og taka örlög lands síns í eigin hendur. Þetta er lögmál sögunnar.

Þjóðir veraldar, sameinist og sigrið bandarísku árásarmennina og alla sporhunda þeirra.“ (Mao Tsetung, Ritgerðir III, bls. 290)

Á Gaza er leikurinn harla ójafn m.t.t. vopna og vígbúnaðar, vegna vopnastraumsins til Ísraels frá Vestrinu og hins vegar vegna umsátursins og mikillar einangrunar Gazabúa. Þátttaka Andsyrnöxulsins í stríðinu dregur þó vissulega úr þeirri einangrun. Grundvallaratriðin um þjóðfrelsisstríð tapa ekki gildi sínu. 

Í bók sinni The Wretched of the Earthfrá 1961 skrifaði marxistinn Frantz Fanon frá frönsku nýlendunni Martinique um valdbeitingu hinna undirokuðu (bls. 94).

«Valdbeiting losar hinn innfædda við minnimáttarkennd hans, örvæntingu og óvirkni; það gerir hann óttalausan og endurreisir sjálfsvirðingu hans.»

Hamas og vopnaða baráttan

Í janúar sl. þremur mánuðum eftir Al-Aqsa flóð sendi Hamas frá sér skýrslu um þá aðgerð. Þar stendur m.a. að hreyfingin Hamas sé:

íslamísk þjóðfrelsis- og andspyrnuhreyfing… Hamas slær föstu að hreyfingin berjist gegn áætlunum síonista, ekki gegn gyðingum vegna trúar þeirra.

Og markmið Al-Aqsa flóðs voru skilgreind nánar í skýrslunni (ath. að Al-Qassam-sveitir sem framkvæmdu aðgerðina mætti kalla hernaðararm Hamas):

Aðgerðin Al-Aqsa flóð þann 7. okt. beindist gegn herstöðvum Ísraelshers og leitaðist við að handtaka hermenn óvinarins til að þrýsta á ísraelsk yfirvöld að sleppa þeim þúsundum Palestínumanna sem voru í fangelsum Ísraels gegnum fangaskipti. Aðgerðin beindist því að því að eyðileggja Gaza-deild Ísraelshers, herstöðvar Ísraelsmanna sem staðsettar voru nálægt byggðum Ísraelsmanna í kringum Gaza.

Að forðast að valda almennum borgurum skaða, sérstaklega börnum, konum og öldruðum, er trúarleg og siðferðileg skuldbinding allra vígamanna Al-Qassam-sveitanna… Á meðan lögðu palestínskir bardagamenn sig fram um að forðast að valda almennum borgurum skaða þrátt fyrir að andspyrnuöflin búi ekki yfir nákvæmum vopnum. Auk þess, ef það kom fyrir að skotið væri á almenna borgara, þá gerðist það ekki af ásetningi heldur í átökunum við hernámsliðið.

 Skv. Wikipedíu er talið að 1180 Ísraelar hafi fallið 7. október í tengslum við Al-Aqsa aðgerðina, þar af um 400 hermenn, enda beindist aðgerðin að hernaðarlegum skotmörkum. Ísraelar segjast sjálfir hafa drepið 1600 Hamasliða þennan dag. Og almennu borgararnir voru drepnir í átökunum þarna á milli (ekki síst í skothríð frá ísraelskum herþyrlum og skriðdrekum). Þetta voru sem sagt hernaðarátök, ekki einhliða hryðjuverk gegn almennum borgurum (barnadráp, fjöldanauðganir…) eins og Ísrael útmálar fyrir heiminum. Sjá hér. 

Það kann að koma á óvart að í því að verja rétt sinn til m.a. vopnaðrar baráttu vísar  Hamas til alþjóðaréttar og samþykkta SÞ. Áðurnefnd skýrsla Hamas segir:

Við sláum föstu að viðnám gegn hernáminu með öllum meðulum þ.á.m. vopnaðri mótspyrnu sé lögmætur réttur út frá öllum viðmiðum, helgum trúarbrögðum, alþjóðalögum þ.á.m. Gefarsamningnum og fyrstu viðbótum við hann  og tilheyrandi samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 3236,  samþykktri á 29. fundi Allsherjarþingsins 22. nóvember 1974 sem staðfesti óafturkræf réttindi  palestínsku þjóðarinnar í Palestínu m.a. sjálfsákvörðunarréttinn og réttinn til að snúa aftur til „heimkynna sinna og eigna þaðan sem þeir voru reknir, hraktir á brott og rifnir upp með rótum.“

Agerðin olli straumhvörfum í andspyrnunni

Al-Aqsa flóð. Hvers konar aðgerð var þetta? Hún var djörf og örvæntingarfull aðgerð hinna langpíndu Palestínumanna. Sbr. það sem áður segir um harkalega kúgun sem vekur harkalega andspyrnu.En hún var meira en örvæntingaraðgerð. Hún var meðvituð aðgerð. Hún breytti stöðunni á Gaza úr einhliða ofbeldi í tvíhliða stríð, og stöðu Gazabúa breytti hún úr stöðu óvirks þolanda í stöðu virks geranda. Stefna og framganga Ísraels gefur þjóðhollum og frelsishollum Palestínumönnum raunar aðeins tvo valkosti, að lifa á hnjánum eða deyja standandi. Hamas valdi seinni kostinn.

Og stríð þeirra er þjófrelsisstríð, þar sem réttlætissinnar, hvar sem er í heiminum, verða að taka afstöðu, greina milli réttláts stríðs og rangláts stríps. Staða og framganga Ísraels og BNA gefur ekki kost á frelsi Palestínu án stríðs

Al-Aqsa aðgerðin var í fyrsta lagi beint svar við ógnunum af hálfu skipulegra stórhópa landræningja við Al-Aqsa moskuna í Jerúsalem með blessun yfirvalda þann 5. október, aðeins tveimur dögum fyrir aðgerð Hamas.

Aðgerðin líka viðbrögð við nýjum ytri aðstæðum

En aðgerðin neyddi líka úrlausn „Palestínuvandamálsins“ inn á dagskrá alþjóðamála. Fyrir aðgerðina var dimmt yfir málstað Palestínu. Í viðbót við kúgunina ríkti þöggunin. Ísraelsher hefur haldið Gaza í herkví frá 2007, kúgunin þar hefur verið járnhörð, stöðugt meira gyðinglegt landrán, landnemar á Vesturbakkanum nálgast 1 milljón, rán á Jerúsalem, en mannréttindaleysi Palestínumanna algjört.

Undangengin misseri og ár höfðu Bandaríkin reynt að treysta stöðu sína í Miðausturlöndum og öryggi Ísraels með því að vinna að sátt milli Ísraels og Arabaríkja, þar sem Palestínuvandamálinu var alveg ýtt til hliðar. Út úr þessu komu sk. „Abraham samningar“ (Abraham accords), friðarsamningar milli Ísraels og skjólstæðinga USA, Barein og Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna. Stærra markmið var þó að koma á slíkum samningum við Sádi-Arabíu og voru þær viðræður hafnar. Áform Bandaríkjanna með þessu voru jafnframt að byggja bandalag gegn Íran.

Í september  2023 nokkrum vikum fyrir aðgerð Hamas flaug Netanyahu til New York og hampaði þar landakorti af „Nýjum Miðausturlöndum“ hjá Allsherjarþingi SÞ þar sem hann hafði þurrkað  Palestínu algerlega út af kortinu og hæddist að sérhverri samþykkt um málið. Næðist friðarsamningur við Sáda litu áform Bandaríkjanna og Ísraels um „Ný Miðausturlönd“ vænlega út. Skömmu eftir þessa heimsókn Netanyahus lýsti öryggisfulltrúi Hvíta  hússins yfir: „Miðausturlönd eru rólegri en þau hafa verið í tvo áratugi.“

Al-Aqsa aðgerðin sprengdi umsátrið um stundarsakir, og þöggunina sprengdi hún varanlega. Aðgerðin var jafnframt meðvituð viðbrögð við víðtækum breytingum sem á undaförnum misserum og árum höfðu orðið í liðsskipan, bandalagslínum og valdahlutföllum í Austurlöndum nær (Vestur-Asíu) og raunar alþjóðastjórnmálum í heild. 

Nokkur stikkorð í þessum aðdraganda eru: a) ósigur Bandaríkjanna og NATO í Afganistan, b) sættargerð sem komst á milli Íran og Sádi Arabíu fyrir tilstilli Kína, c) vestrænt studd „uppreisn“ og staðgengilsstríð gegn Sýrlandi hafði tapast, Andspyrnuöxullinn hafði leikið þar meginhlutverk, seinna Rússland, d) auglýst hafði verið væntanleg innganga m.a. Írans, Sádi Arabiu og Sameinuðu furstadæmanna í BRICS. e) Við það bættist að Vestrið var upptekið við staðgengilsstríðið í Úkraínu og vegnaði illa, einnig í því stríði eru hnattræn yfirráð þess í húfi.

Al-Aqsa aðgerðin gerðist því í nýju geópólitísku umhverfi, umhverfi sem var mikið breytt t.d. frá tíma fyrra og seinna Íraksstríðs sitt hvoru megin við aldamótin 2000, en þá gátu Bandaríkin farið sínu fram á alþjóðavettvangi í krafti síns hernaðarlega og pólitíska yfirburðavalds. Aðgerðin sjálf olli ekki aðeins straumhvörfum í andspyrnunni gegn hernáminu, hún olli líka nýjum straumhvörfum í stjórnmálum í Austurlöndum nær.

Af andheimsvaldasinnuðum greinendum er Al-Aqsa flóði oft líkt við Tet-sókn þjóðfrelsisaflanna í Víetnam árið 1968. Sjá slíka samlíkingu hér: og hér  og hér. Í síðastnefndu greininni má lesa þetta:

Árið 1968 töpuðu Víetnamskir byltingarmenn orustunni og fórnuðu miklu af pólitísku og hernaðarlegu neðanjarðarstoðkerfi sínu sem þeir höfðu byggt af mikilli þolinmæði um árabil. Samt var Tet-sóknin lykilatriði í ósigri Bandaríkjanna – en fyrir afar hátt verð í föllnum Víetnömum. Með því að framkvæma dramatískar og áberandi árásir gegn meira en 100 skotmörkum á einum degi gátu léttvopnaðir Víetnamskir skæruliðar rifið niður blekkinguna  um sigurför sem dreift var af Johnson-stjórninni. Þetta sýndi Bandaríkjamönnum að stríðið sem þeir voru beðnir um að fórna tugþúsundum sona sinna í var óvinnanlegt.

Samlíkingin er alveg réttmæt þó margt sé ólíkt. Í baráttunni gegn Víetnamstríðinu á sínum tíma var rétt kjörorð andheimsvaldasinna að heimta Bandaríkin út úr Víetnam og styðja Þóðfrelsishreyfinguna til sigurs. Nú er rétt afstaða svipuð: Krefjast friðar, en fordæma um leið síonismann og vestræna heimsvaldastefnu og styðja andspyrnuöflinn til sigurs.

Hernaður er ekki sama sem hernaður. Það er mikilvægur áfangi í pólitískri vitund að skilja það, það sker úr um hvort við styðjum í raun baráttuna við hina illu heimsvaldastefnu og valdakerfi hennar. Einföld  friðarhyggja er ekki gagnsöm í baráttunni gegn stríði. Það þarf að skilgreina hvern hernað fyrir sig. Að berjast gegn heimsvalda- og hernaðarmaskínu vestræna veldisins er mikilvægasta verkefni okkar tíma, en það útheimtir meðal annars vopnaða baráttu. Þessi sannleikur er sígildur og hluti af baráttunni fyrir friði.