Akureyri: Ögmundur Jónasson á morgunfundi Stefnu

20. apríl, 2019 Ritstjórn


Stefna félag vinstri manna á Akureyri heldur opinn morgunfund 1. maí eins og félagið hefur haft fyrir sið síðan árið 1999. Þetta er 21. slíkur fundur í röð, og hefðin því orðin sterk. Stefna leggur alltaf fram stefnugrundvöll sinn í kjörorðum, endurspeglandi baráttustefnu í stéttabaráttunni, varðstöðu um fullveldið, samstöðu með andheimsvaldabaráttu og stefnu að sósíalisma. Að þessu sinni eru kjörorðin eftirfarandi.

Styðjum baráttuöflin í verkalýsðhreyfingunni!

Aðeins samtakaaflið færir okkur sigra!

Gegn okurvöxtum og verðtryggingu!

Verjum velferðarkerfið – gegn einkavæðingu!

Verjum fullveldið í orkumálum – niður með orkupakka 3!

Félagsvæðum fjármálakerfið!

Jafnrétti kynjanna!

Fordæmum íhlutanir heimsvaldasinna í Sýrlandi og Venesúela – með stuðningi Íslands!Gegn stríðsvæðingu NATO-velda í austur – Ísland úr NATO!

Auðvaldskreppa, auðvaldsrányrkja og auðvaldsstríð… Svarið er sósíalismi!

Það eru allar forsendur fyrir góðum morgunfundi í ár. Ræðumaður er Ögmundur Jónasson fyrrum ráðherra m.m. sem situr ekki í helgum steini þótt hann sé „kominn á aldur“ og hættur á Alþingi. Hann stendur nú fyrir fundum um þörfustu baráttumál, mætir á baráttufundi í fjarlægum löndum og skrifar í sífellu greinar í fjölmiðla. Nú síðast hefur hann tekið upp kröftuga baráttu gegn markaðsvæðingu íslenskrar orku skv. línu ESB þótt allur þingflokkur VG leggist þar andstætt honum á sveif. Á sama virka hátt hefur hann gengið gegn samflokksmönnum sínum á Alþingi vegna innflutnings á hráu kjöti, vegna Venesúeladeilunnar og Sýrlandsdeilunnar. Þess má geta að Ögmundur var ræðumaður á stofnfundi Stefnu á Akureyri árið 1999.

Fleira er á dagskrá morgunfundar. Ólafur Þ Jónssom „guðfaðir“ félagsins setur samkomuna. Þór Sigurðsson, prentari og Þórarinn Hjartarson, stálsmiður syngja, Guðmundur Beck, verkamaður og Jón Laxdal, mynlistarmaður lesa upp. Fundarstjóri er Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur.