AGS sýnir sitt rétta andlit

27. mars, 2020 Jón Karl Stefánsson



Venesúela óskaði formlega eftir neyðarláni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS) að upphæð fimm milljarða bandaríkjadala til að geta brugðist við kórónaveirunni þann 17. mars s.l. Gríðarlegar efnahagsþvinganir hafa gert hagkerfi Venesúela mjög viðkvæmt og mikil hætta getur skapast af því að fá þessa óværu í landið. Svar AGS kom einungis nokkrum klukkustundum seinna: Þessi gríðarlega valdamikla stofnun sem hefur það hlutverk meðal annarra að veita lán til ríkja sem geta ekki greitt erlendar skuldir sínar svaraði beint nei. Ástæðan er sú að “ríkisstjórn landsins [er] ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu” (mbl. 18. mars 2020).

Við skulum til að byrja með láta liggja milli hluta hvort sú fullyrðing eigi rétt á sér og hvort ríkisstjórn Maduros sé góð eða slæm, enginn efi kom fram um að þetta lán yrði notað í þeim tilgangi sem settur var fram, til að bjarga heilsu og mannslífum almennings í Venesúela. AGS var þarna að hindra það að Venesúelaríki gæti hjálpað borgurum sínum og ákvörðun AGS hefur því bein og alvarleg áhrif á líf og heilsu almennings í aðildarríki sínu. Nota á þjáningu almennings til að halda áfram að beita pólitískum þrýstingi á ríkisstjórn sem hið meinta “alþjóðasamfélag” hefur vanþóknun á.

Venesúela er ekki eina ríkið sem hefur fengið þessi viðbrögð. Ríkisstjórn Írans fékk svipuð svör frá sjóðnum, en þar í landi er heilbrigðiskerfið þegar á barmi hruns vegna þessa faraldurs. Aftur er almenningur látinn gjalda fyrir pólitíska skoðun innan AGS. Önnur ríki hafa hlotið velþóknun sjóðsins. Meðal þeirra eru Pakistan (6 milljarðar bandaríkjadala) og fleiri ríki sem hafa vægast sagt vafasaman sögu í mannréttindamálum. En þau eru í náðinni hjá “alþjóðasamfélaginu”, þ.e. Bandaríkjunum og leppríkjum þeirra.

Að halda áfram að nota þjáningu almennings sem vopn til að beita pólitískum þrýstingi er í eðli sínu fullkomlega viðurstyggilegt. En það opinberar líka eðli samtakanna; þau hafa þann tilgang að knýja ríki að hlýða fyrirmælum herraþjóðanna. Almenningur ríkja sem gera það ekki fá að líða. Við skulum aldrei gleyma þessari lexíu um AGS.