Að sigra pýramídann: Um ágæti samvinnurekstrar með láréttu skipulagi
—
Í allra einföldustu mynd má skipta þátttakendum í því hagkerfi sem við búum við í tvær stéttir: þá sem eiga fyrirtækin og þá sem eiga þau ekki. Þeir sem eiga fyrirtækin eiga það sem launþegar framleiða. Allt sem gert er í fyrirtækinu, öll framleiðsla, vinnuafl og sköpunarkraftur, er í þágu eigendanna. Stækki fyrirtækið aukast völd eigendanna. Vinnuafl er uppspretta hagnaðar fyrirtækisins og þetta vinnuafl er fengið af starfsmönnum. Starfsmenn fá laun og mögulega einhver fríðindi. Laun eru kostnaður fyrir fyrirtækið. Vel heppnað fyrirtæki heldur slíkum kostnaði í lágmarki. Því minna af afrakstri fyrirtækisins sem fer í slík útgjöld, því betra fyrir þá sem eiga og stjórna fyrirtækjunum. Hagsmunir þessara stétta eru því andstæðir í þessu kerfi.
Þessi togstreita ólíkra hagsmuna veldur reglulega átökum, en í heildina standa eigendur fyrirtækjanna alltaf uppi sem sigurvegarar. Vegna þess að fyrirtækin keppast um markaðinn og vegna þess að því stærri sem þau eru og því meira vinnuafl sem þau sanka að sér, tryggir þetta eignarhaldskerfi að þeir á toppnum, eigendur fyrirtækjanna, verða alltaf ríkari og ríkari, en hlutfallslega færri og færri. Eigendur 13 stærstu fyrirtækja heims eiga nú meira en 4 milljarðar fátækustu jarðarbúa og þessi gjá fer stöðugt vaxandi. Vegna þess að þau fyrirtæki sem eru miskunnarlausust sigra í samkeppninni er öruggt að hagsmunir allra annarra fyrirbæra, meir að segja áframhaldandi tilvist lífkerfis jarðarinnar, eru látnir víkja. Krafan um arðsemi er einfaldlega miklu sterkari en nokkur stjórn sem reynt er að hafa til að hindra ágang framleiðslunnar. Fyrirtæki sem ná ekki að selja sífellt meira fara á hausinn og tapa fyrir þeim sem tekst að sýna hagnað á hverju ári. Í þessu kerfi framleiða fyrirtækin og selja meira og meira úr æ minni forða af gæðum náttúrunnar. Kerfið er beinlínis að tortíma jörðinni og þessi þróun mun halda áfram á meðan eignarhaldskerfið er eins og það er.
Pýramídasvindið
Ýmsar leiðir eru til að lagfæra grundvallarvandamálin sem snúa að eignarhaldi fyrirtækja í hagkerfinu. Ein betrumbót er sú að almenningur eða starfsmennirnir sjálfir eigi fyrirtækin, en ekki sérstök stétt eignarmanna. Þessi leið hefur lengi verið ljós, en ágreiningur hefur ríkt um það meðal gagnrýnenda hins kapítalíska hagkerfis hvernig þessu lykilmarkmiði væri best náð: t.d. með þjóðnýtingu, með atbeina frjálsra félagssamtaka eða með samvinnufélögum. Því miður komu gríðarleg fjöldamorð, heimsstyrjaldir og innri átök í veg fyrir að hægt væri að koma þessum stjórngerðum í framkvæmd á eðlilegan hátt, auk þess sem það kom á daginn að það skipti verulegu máli hvernig þetta meginmarkmið yrði sett í framkvæmd.
Annað ágreiningsefni snýst um stjórnun. Sú tegund stjórnunar sem hefur náð algjörum yfirburðum í alþjóðaefnahagskerfinu er pýramídasvindlið sem kallast stigveldi. Það felst í því að ákvörðunarvald fer ætíð ofan frá og niður og undir hverjum yfirmanni eru fleiri en yfir honum eða henni. Neðst eru maurar sem taka einungis á móti skipunum og geta einungis hreyft við mótbárum með verkalýðsbaráttu. Í þessu neðsta þrepi er fjöldinn. Á toppnum er, eðli málsins samkvæmt, fámennur en valdamikill hópur. Þegar fyrirtæki er þjóðnýtt og þessu pýramídakerfi er haldið við breytist nánast ekkert fyrir þá sem neðar eru í skipunarröðinni. Þegar ríki er undir stjórn sósíalista, en pýramídakerfið helst, er almenningur í svipuðum sporum og áður hvað frelsi og völd varðar.
Sumar tilraunir til að dreifa eignarhaldi á fyrirtækjum hafa mistekist vegna þess að pýramídakerfinu var haldið eftir. Þannig var til dæmis með flest íslensku samvinnufélögin. Jafnvel þótt eignarhald væri í höndum almennra félagsmanna var stjórnin mjög svipuð og í einkafyrirtækjunum. Fámennar klíkur réðu í raun öllu. Þetta gerði einnig mögulegt að þessi fámenna klíka hreinlega kom öllum eignum og afrakstri samvinnufyrirtækjanna í hendur ákveðinna einstaklinga. Það er því nauðsynlegt að skoða það hvers konar stjórn er í fyrirtækjum og samfélaginu; er hún lagskipt eða hafa eigendurnir, starfsfólkið eða samfélagið, raunveruleg og áþreifanleg áhrif á stjórnina.
Margir hafa efasemdir um þannig tegund láréttrar stjórnunar. Aðalástæðan er líklega neikvæðar tilfinningar til hinnar pýramídalöguðu samvinnuhreyfingu sem á endanum sveik alþýðuna, en einnig eru aðrir þættir sem þarf að hafa í huga. Hætta er á því að fyrirtæki með lárétta stjórnunarhætti verði hægvirkari og lami í raun starfsemina. Slíkir stjórnunarhættir krefjast mikillar ábyrgðar frá hverjum og einum þátttakanda, og slíka ábyrgð erum við ekki alltaf vön að axla. Sú félagsmótun sem við búum við undirbýr okkur fyrir að hlýða fyrirmælum kennivalds á borð við kennara, yfirmanna, lögreglu o.s.frv. Sameiginleg ábyrgð og raunveruleg lýðræðisleg ákvörðunartaka er ekki í námsskránni.
Við þurfum að læra að vinna saman, taka ábyrgð og finna jafnvægis milli valds, ábyrgðar, frelsis og virðingu fyrir öðrum. Til þess að fá völd og frelsi verðum við að axla ábyrgð og þá ábyrgð þurfum við að læra að axla. Eina raunverulega leiðin til þess er að taka þátt í raunverulegum verkefnum. Það að við þurfum að taka meiri persónulega ábyrgð í samvinnufyrirtæki er því ekki galli, heldur stór kostur sem þarf aga til að ná fram. Það fer einnig mikið eftir því hversu vel markmið fyrirtækisins eða félagsins eru skilgreind í upphafi hversu mikil tregða er í láréttri stjórn, og einnig hversu gott skipulag er á stjórnuninni. Stór samvinnufyrirtæki, m.a. í Norður Ameríku og Norður Spáni, hafa þróað aðferðir sem gera slíka stjórn að minnsta kosti jafn árangursríka og hefðbundna lóðrétta stjórn. (Í Mondragon samsteypunni í Norður Spáni eru til dæmis 257 samvinnufyrirtæki og rúmlega 74 þúsund starfsmenn, og í USFWC í Bandaríkjunum eru um 4000 starfsmenn í 160 fyrirtækjum í starfsmannaeigu). Það sem við fáum í staðin er skref í áttina að afnámi stéttskiptingar og vinnan sem fer í að læra á- og innleiða slíkt kerfi borgar sig því.
Barátta fyrir eignarhaldi og stjórn er lykilatriði
Það er ekki nóg að fjölga samvinnufyrirtækjum og skapa eyjar af starfsmannastýringu í hafi kapítalismans. Þessu ferli þarf að vera fylgt eftir með skipulagðri pólitískri baráttu sem hefur skýr markmið og skýr gildi. Áhersla á breytt eignarhalds og breytta stjórnunarhætti leiðir kannski ekki til stéttlauss samfélags ein og sér, en hún færir samfélagið alveg örugglega nær slíku marki
Í komandi kjara- og pólitískri baráttu eigum við sem þjóð að vaða beint í ræturnar. Ef einkavæða á ríkisfyrirtæki ættum við til dæmis að krefjast þess á móti að fyrirtækið verði frekar samvinnuvætt, annað hvort sem starfsmannastýrt samvinnufyrirtæki eða samfélagsstýrt. Aðrar nálganir eru til. Þannig er til dæmis hægt að vinna að því að fyrirtæki taki í meira mæli upp það sem kallað er á ensku „Employee stock ownership plan“ (ESOP), en það felst í því að starfsmenn fái í laun æ fleiri hlutabréf í fyrirtækinu sem þau vinna þar til starfsmennirnir eru orðnir raunverulegir eigendur að fyrirtækinu. Lokatakmark er samvinnueign og láréttari rekstur fyrirtækjanna.
Samvinnuvæðing sem lærir af mistökum fyrri kynslóða hefur ekki einungis þann möguleika á því að afmá eigna- og valdaójafnvægi milli eigenda og starfsmanna í samfélaginu, heldur getur hún aðstoðað við næstu skref í samfélagsbaráttunni. Með þátttöku í samvinnufyrirtækjum náum við þjálfun í lýðræðislegum fundarhöldum og sameiginlegri ákvörðunartöku. Þetta eykur líkurnar á því að við stöndum einn daginn með völdin í höndunum ásamt reynslunnar og ábyrgðarinnar sem þarf til að halda þannig samfélagi uppi. Þegar fyrirtæki okkar haga sér illa er það á okkar ábyrgð og við eigum sjálf að breyta um hegðun.
Tilgangur þessarar leiðar er að undirbúa jarðveginn fyrir frelsun alþýðunnar frá oki arðráns og stéttskiptingar og gefa fólki tækifæri á því að ná raunverulegri stjórn yfir lífum sínum. Pýramídasvindlið sem er í gildi nú er gamalt og sterkt og til að vinna bug á því og mynda nýjan heim þarf aga sem byggir á skýrum gildum og markmiðum sem byggjast á grundvallargildum raunverulegra réttlætissinna.