Að missa mannréttindi í krafti ótta og öryggis

3. júní, 2021 Jón Karl Stefánsson



Slagorðið fyrir árið 2020 var hlýðni og í krafti sóttvarnaraðgerða voru ýmis mannréttindi afnumin tímabundið. Hversu varanlegt afnámið verður veltur á því hvort fram fari uppgjör á árinu og lýðræðisleg, skynsöm umræða um mikilvægustu réttindi okkar og hvort við séum tilbúin að láta þau af hendi varanlega.

Árið 2001 breyttist margt á Vesturlöndum. Í krafti ótta við hryðjuverk hertu ríkisstjórnir um allan heim tök sín og eftirlit með almenningi. Áþreifanlegasta birtingarmynd þess er á flugvöllum og í opinberum rýmum. Yfirvaldið hefur fyrirskipað að allur farangur skuli gegnumlýstur, fólk skal klæða sig úr fötum áður en það kemst inn á flugvöll og eyða miklum tíma í biðröðum við staði þar sem persónulegar eigur þeirra eru skoðaðar. Þá voru nokkrar hjáróma raddir sem bentu á að ef málin væru skoðuð frá raunverulegu samhengi væri þessi meinta hryðjuverkaógn ofblásin. Þessar raddir voru að mestu kæfðar í óttaboðum og áróðri. Með tímanum kom í ljós að fjöldamargar sögur sem lágu að baki hinum nýju ströngu reglum og skerðingu borgaralegra réttinda voru ýktar, sumar voru uppspuni og aðrar voru beinlínis lygi. Stríð sem hafin voru í krafti meintra hryðjuverkaárása í Bandaríkjunum og ótta við hryðjuverk um allan heim voru að sama skapi byggð á lygi. Í Írak voru engin gjöreyðingarvopn. Ekkert kvenfrelsi komst á í Afganistan, engir al Kaídamenn fundust þar heldur. Stríðið gegn hryðjuverkum var dýrt, blóði drifið blöff.

Þrátt fyrir að óttinn við hryðjuverk sé nánast gleymdur meðal almennings, og þrátt fyrir að flestir viti nú betur höfum við enn ekki endurheimt öll borgaraleg réttindi sem voru afnumin „tímabundið“ árið 2001 í nafni öryggis. Yfirvöld fylgjast með okkur og útgjöld til hernaðarmála á heimsvísu halda áfram að bólgna út. Stríð og skuggastríð hafa verið háð um allan heim í nafni þeirrar lygi sem stríðið gegn hryðjuverkum var.

Það er nefnilega þannig að þegar þeir sem vilja á annað borð hafa eftirlit og stjórn með öðru fólki fá vald til þess, þá gefa þeir þau völd ekki frá sér ótilneyddir. Reglur sem áttu bara að gilda í meintu neyðarástandi fara ekki. Borgaraleg réttindi sem tók mikil átök margs fólks í langan tíma að koma á geta horfið eins og dögg fyrir sólu og aldrei komið aftur ef við leyfum því að gerast. Það er ekki víst að við munum getað safnað liði í að sækja þessi réttindi á ný.


Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna og gildi hennar

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna birtist heiminum árið 1948 eftir mesta blóðbað sögunnar. Hún er mest þýdda skjal allra tíma, heimsstaðallinn í mannréttindamálum. Þó að yfirlýsingin sé ekki lagalega bindandi ein og sér liggur hún til grundvallar mikilvægustu reglum um mannréttindi sem fest hafa verið í lög. Við eigum öll að hafa kynnt okkur þessa yfirlýsingu og reynt að skilja mikilvægi hennar, og hana má finna út um allt (til dæmis hér).

Mannréttindi eru ekkert punt. Án þeirra geta hin valdamiklu og sterku gert það sem þeim sýnist, þegar þeim sýnist, á kostnað almennings. Sagan geymir tímabil hreinnar skelfingar. Lénsherrar fyrri alda gátu gert það sem þeim sýndist við bændur sína. Þrælahaldarar beinlínis áttu fólkið sem þeir létu vinna fyrir sig. Þessi tegund kúgunar varði í öld af öld og er enn við lýði víða um heim. Við búum á sérstökum stað á sérstökum tíma og höfum alist upp sem frjálsir borgarar að miklu leyti. Það er kannski vegna þess að við erum svo góðu vön að við áttum okkur ekki á því hvað þessi réttindi eru dýrmæt.

Þegar fólk hefur misst réttindi sem það hefur þegar fengið er ástæðan nærri ætíð sú sama: Til að tryggja öryggi. Óttinn er sterkasta stjórntæki sem til er og verði hann skynseminni yfirsterkari er voðinn vís. Þetta nýta þeir sér sem hafa hag af því að afnema þessi réttindi.

Mannréttindi eru ekki öllum í hag. Þau geta verið hindrun í vegi hinna sterku og valdamiklu í að koma áformum sínum í framkvæmd. Þeir geta ekki losað sig við þá sem þeir vilja, þurfa að gera ráð fyrir allskyns reglum og þurfa að eyða tíma og fé í það sem getur virkað fyrir þá sem formsatriði. Hinir stjórnsömustu geta pirrað sig á því að fólk og náttúra hagi sér ekki alveg eins og þeir vilja. Fyrir þá var allt miklu betra í gamla daga þegar valdastéttin þurfti ekki að spyrja, heldur gat bara framkvæmt. Fyrir suma er tilhugsunin um það að allt láti ekki að stjórn og sé ekki fullkomlega fyrirsjáanlegt beinlínis skelfileg. Stjórnfýsnin er sterk fyrir þá sem hana hafa. Mannréttindi tefja þá sem vilja að ákvarðanir þeirra gangi hratt fyrir sig og eru fyrir hina auðugustu bölvað vesen sem best væri að losna við. Þessir hópar hafa hag af því að geta fylgst betur með- og stjórnað öðru fólki og náttúrunni. Það er hægt að hræða fólk til þess að samþykkja að leyfa öðrum að taka við stjórninni.

Árið 2020 voru fjölmörg hefðbundin mannréttindi afnumin í öryggisskyni. Hér að neðan er stuttur listi yfir nokkrar þær greinar sem settar voru undir sóttvarnir og dæmi um hvernig þær voru brotnar.

3. grein: Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.

Þótt að margar af þeim reglum sem settar voru árið 2020 hafi verið valkvæðar var mjög langt seilst í að gefa yfirvöldum tækifæri á að fylgjast með persónulegum högum almennings. Fólk var kvatt til að setja í snjallsíma sína rakningar-app sem gat fylgst með og skráð niður ferðir þeirra og hverja þeir umgengust. Þeir sem komu erlendis frá voru skyldaðir til að nota slíkt eftirlitskerfi. Ef einhver yrði grunaður um að hafa smitast af ákveðinni tegund veiru var sá hinn sami yfirheyrður um ferðir sínar. Þeir sem sögðu ekki satt og rétt frá gátu átt í hættu á að verða fyrir refsingum fyrir. Þarna var vægast sagt seilst langt í einkalíf fólks í nafni sóttvarna. Mikil hætta er að þessar aðgerðir gefi fordæmi fyrir frekara eftirliti með einstaklingum, jafnvel þótt engu sérstöku hættuástandi hafi verið lýst yfir.

7. grein: Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar. Ber öllum jafn réttur til verndar gegn hvers konar mismunun, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áeggjan til slíkrar mismununar.

Um allan heim, einnig á Íslandi, gerðust ráðamenn sem settu íþyngjandi reglur á almenna borgara sekir um að brjóta eigin reglur án þess að hljóta þær refsingar sem aðrir fengu fyrir svipuð brot. Árið 2020 voru mörg dæmi um það að ekki eru allir jafnir fyrir lögum. Alvarlegasta árásin á vernd gegn hvers konar mismununar eru beinar áeggjanir frá gríðarlega öflugum stofnunum um slíka mismunun. Þannig er World Economic Forum nú í óða önn að æsa atvinnurekendur til þess að setja bólusetningu sem skilyrði til að halda vinnu, þrátt fyrir að það sé skýlaust brot á Nürnberg-siðareglunum.

9. grein: Enginn skal að geðþótta handtekinn, í sviptur frelsi eða gerður útlægur.

Þann 8. maí 2020 gaf Mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) út yfirlýsingu þar sem minnt var á það að „bann gegn handtöku eftir geðþótta er algert, einnig þegar samfélagslegt neyðarástand á sér stað“. Starfshópur um bann við handtöku án dóms og laga sagði ennfremur: „Að skipa fólki að fara í sóttkví, þaðan sem einstaklingur getur ekki farið undir neinum kringumstæðum, í tengslum við sóttvarnaraðgerðir er de facto frelsisskerðing og algerlega nauðsynlegt er að viðhafa strangar aðgerðir til að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir um þessi mál“. Þá þegar hafði tilkynningum um frelsisskerðingar án þess að einstaklingar hefðu framið glæpi, og einnig um aðra valdbeitingu á borð við aftökur og barsmíðar, rignt inn. Víða um heim var eins og stjórnvöld gripu tækifærið til að beita frelsisskerðingu gegn borgurum sínum án eftirlits. Því miður héldu stjórnvöld áfram þessari iðju, og gera það enn.

13. grein, 1. Allir skulu frjálsir ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis. 2. Allir skulu hafa rétt til að fara af landi burt, hvort sem er af sínu landi eða öðru, og eiga afturkvæmt til heimalands síns.“

Þrettánda grein Mannréttindayfirlýsingarinnar varð fyrir gríðarlegu áfalli árið 2020 og þessi grein er sú sem er í hvað mestri hættu á því að vera takmörkuð varanlega ef við gætum okkar ekki á næstu misserum. Á tímabili var fólki beinlínis meinað að ferðast milli landshluta og ýmsar kvaðir voru settar á sem gerðu ferðalög erlendis nærri ómöguleg fyrir meginþorra landsmanna. Í ýmsum ríkjum erlendis voru settar mun strangari og meira íþyngjandi takmarkanir á frelsi fólks til að ferðast. Á Bretlandseyjum voru til dæmis settar reglur sem kváðu á um það hversu marga kílómetra frá heimili sínu hver og einn mátti fara. Yfirvöld þar gáfu sér leyfi til að ákveða hvaða ferðir þættu „nauðsynlegar“ og hverjar óþarfar. Í ríkjum þar sem útgöngubanni var komið á var frelsi fólks takmarkað svo mikið að í raun má segja að almenningur hafi verið dæmdur í stofufangelsi.

Enn eru mjög hörð skilyrði fyrir ferðalögum og alvarlegasta nýjungin nú er krafa um að einstaklingur geti sannað hvort hann eða hún hafi fengið bólusetningu eða hafi fengið tiltekinn sjúkdóm. Bólusetningarpassi er nýjasta viðbót valdsins til að stjórna þegnum heimsins. Hafi einhver ekki þetta vottorð má beita viðkomandi ýmsum kvöðum, s.s. einskonar stofufangelsi, einangrun, ferðatakmörkunum, eftirliti og læknisfræðilegum inngripum, auk þess sem viðkomandi getur átt hættu á að vera útskúfaður úr stórum hluta samfélagsins.

19. grein: Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“

Réttur til að hafa og tjá skoðanir sínar varð fyrir miklum árásum árið 2020. Dæmi voru um að fólk missti atvinnu sína og jafnvel æru ef þeir tjáðu skoðanir opinberlega sem voru ekki í anda þeirra sem yfirvöld héldu á lofti. Um allan heim hefur fólk verið útilokað úr opinberri umræðu, fengið uppsagnir úr störfum og jafnvel verið handtekið fyrir að tjá skoðun sína á mikilvægasta máli samtímans.

20. grein: 1. Allir hafa rétt til að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum.“

Árið 2020 var rétturinn til að koma saman svo gott sem afnumin mánuðum saman. Tvö ár í röð var engin skipulögð dagskrá þann 1. maí á Íslandi, áhorfendur fengu ekki að vera til staðar á kappleikjum, tónleikar og veisluhald var bannað, miklar fjöldatakmarkanir á fundarhöldum o.s.frv. Víða um heim gengu þessar takmarkanir svo langt að einstaklingar þurftu að velja hverja úr fjölskyldu- og vinahópi sínum þeir fengu að umgangast. Takmarkanir á samkomum breyttust reglulega, en brot á þeim reglum sem settar voru gátu haft í för með sér refsingar af ýmsu tagi. Það er nú yfirvaldið sem gefur leyfi til þess að koma saman og þennan rétt er greinilega hægt að taka burt hvenær sem er, hvar sem er.

27. grein: 1. Öllum ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi samfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi ábata er af þeim leiðir.“

Nærri allt skipulagt listahald, tónleikar, æfingar o.s.frv. var sett á ís. Þegar almenningur fékk leyfi til að njóta menningar og lista var slíkt undir ströngum skilyrðum. Gestir og gjarnan flytjendur þurftu að bera grímu fyrir vitum sér, gangast undir læknisfræðileg próf, skrá komu sína á lista sem aðgengilegur var yfirvöldum og svo mætti lengi telja. Nærri allir stórir listviðburðir voru lokaðir. Yfirvöld tóku sér mikið vald til að handstýra hverjir mættu starfa, hvenær, hverjir mættu sækja viðburði og þessum reglum var breytt reglulega. Enginn sem starfar í listum og menningu gat gert áætlanir fram í tímann og urðu margir fyrir miklum fjárhagslegum skaða vegna þessa.


Einhverjar lýðræðislegar umræður?

Aðrar greinar úr mannréttindayfirlýsingunni hafa staðið veikum fótum frá því að WHO lýsti yfir heimsfaraldri vorið 2020. Ótrúlega lítil umræða hefur farið fram um það hvort eðlilegt sé að hreinlega frysta slík réttindi á þann hátt sem gert hefur verið. Ákvarðanir sem gengu svo langt að heimurinn var nærri því læstur inni voru skrifræðislegar valdboðsákvarðanir sem fóru nærri því aldrei í gegnum hefðbundin lýðræðisleg ferli. Allar lýðræðishefðir voru því gerðar undirlægjur valdsins. Hlýðni var slagorðið fyrir 2020; skilyrðislaus og algjör hlýðni við yfirvald. Þetta var beinlínis ógnvekjandi að horfa upp á.

Lítil sem engin umræða er í sjónmáli um það hversu varanlegum breytingum almenningur má búast við að verði á stöðu mannréttindamála. Munum við um alla framtíð búa við það að yfirvaldið geti fylgst með öllum ferðum fólks, vitað hverja það hittir, geta stöðvað heilar atvinnugreinar og í raun þvingað það til læknisfræðilegra inngripa? Verða þessar breytingar jafnvaranlegar og breytingarnar sem urðu í kjölfar 11. september 2001? Verða sóttvarnir að eilífu ofar mannréttindum og tekur þá sóttvarnaríki við af réttarríki? Nú er virkilega réttur tími til að hugsa sig vel og vandlega um, hvort við viljum að svo verði.