Þau ábyrgu og við hin

24. ágúst, 2022 Aðalsteinn Árni Baldursson

„Óveðursskýin hrannast upp á vinnumarkaði þessa dagana. Þó svo kjaraviðræður séu ekki hafnar eru strax komnar fram hótanir um verkfallsátök og kröfur um viðamiklar aðgerðir ríkisstjórnar til að forða átökum.“ Svo mælir fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Þorsteinn Víglundsson, í grein sem hann nefnir „Vinnumarkaður í úlfakreppu” og bætir síðan við: „Þegar fíflunum fjölgar um of í kringum okkur er stundum gott að líta í spegil. “ Þorsteinn segir ennfremur að sorglegt sé að sjá hina nýju forystu verkalýðshreyfingarinnar gera hverja þá tilraun sem gerð er til umbóta á vinnumarkaði að sérstöku skotmarki sínu.“

Þvílíkur hroki og lítilsvirðing í garð kjörinna fulltrúa verkafólks á Íslandi sem eru að fylgja eftir áherslum félagsmanna í kjaramálum. Svo það sé sagt, þá er afar mikilvægt fyrir Þorstein og skoðanabræður hans að hafa það í huga að ef Seðlabankinn, fyrirtæki, stjórnvöld og verslunareigendur halda áfram að varpa öllum kostnaðarhækkunum yfir á launafólk, heimili og neytendur þá verður verkalýðshreyfingin og launafólk að bregðast við því með viðeigandi hætti. Annað er ekki í boði. Það er heldur ekki í boði að taka upp norræna samningamótelið á Íslandi sem fylgjendur auðvaldsins hafa talað fyrir til að draga vígtennurnar úr verkalýðshreyfingunni. Nær væri fyrir frændur vora á Norðurlöndunum að horfa til Íslands þar sem félagsaðild að stéttarfélögum er sú mesta í heiminum. Fyrirkomulagið á íslenskum vinnumarkaði er útflutningsvara sem ætti að vera öðrum þjóðum góð fyrirmynd.

Því miður virðist sem menn eins og Þorsteinn hafi skammtímaminni og kalli því úlfur, úlfur um leið og fulltrúar láglaunalaunafólks tala fyrir kjarabótum fyrir hönd sinna umbjóðenda. Margir eru á því að Lífskjarasamningarnir sem gerðir voru árið 2019, hafi verið með þeim merkilegri sem gerðir hafa verið í áratugi. Hinir róttæku sem Þorsteinn óttast svo mikið fóru fyrir þeim samningum. Þar á meðal sá sem þetta skrifar. Reyndar er það löngu hætt að koma á óvart að þeir sem mæla hvað harðast gegn kjarabótum séu þeir sem hæst hafa launin og búa við mestu velmegunina. Þessir sömu menn sjá ekki ástæðu til að setjast niður og skrifa greinar um ójöfnuð í þjóðfélaginu, arðgreiðslur og ofurlaun elítunar sem er án efa krabbameinið í íslensku samfélagi.

Afleiðingarnar liggja fyrir. Vaxandi ójöfnuður hefur læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur. Aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna, ekki síst barnafjölskyldna, láglaunafólks og þeirra sem minna mega sín. Hvernig er hægt að leggjast gegn því að allir þegnar þessa lands geti lifað með reisn? Það á enginn að þurfa að hokra í fátækt í okkar ríka landi. Vissulega eru sterk fjármálaöfl í þjóðfélaginu sem skauta fram hjá jöfnuði, öfl sem dásömuðu stjórnvöld þegar þau seldu nýlega hlut ríkisins í Íslandsbanka á undirverði upp á nokkra milljarða króna til valins hóps kaupsýslumanna. Þeir kættust á leið sinni í bankann, tóku snúning fyrir fyrsta hanagal og seldu hlut sinn strax aftur með ofsa gróða. Á kantinum hlógu ráðgjafarnir og struku belginn, drjúgir með sitt, enda greiddum við þeim litlar 700 milljónir svo auðmennirnir útvöldu gætu hagnast um milljarða á þessum viðskiptum. Annað gott dæmi um birtingarmynd spillingarinnar sem þrífst í samfélaginu eru þeir sem sjá ekkert að því að raka að sér peningum sem eru ekki þeirra. Ég vísa hér til viðskipta kvótagreifana svokölluðu, sem reglulega leysa til sín milljarða arðgreiðslur af sölu aflaheimilda í eigu þjóðarinnar. Já, það er sannarlega rétt hjá Þorsteini, þeir sem sjá ekki þessa græðgisvæðingu er hollt að líta í spegil, hugsanlega leynast fíflin þar.

Markmið síðustu Lífskjarasamninga sem byggðu á krónutöluleið var meðal annars að auka jöfnuð og vinna gegn spillingu á Íslandi með sérstaka áherslu á að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar gengu að mestu leiti eftir en verða endurskoðaðar í komandi kjaraviðræðum.

Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa þegar lagt fram sína kröfugerð. Ekki þarf að koma á óvart að sambandið leggur megin áherslu á áframhaldandi hækkun lægstu launa og að tryggja kaupmátt launafólks. Við gerð síðustu kjarasamninga var horft til þess að samningarnir leiddu af sér lækkun vaxta, sú krafa stendur áfram. Sambandið mun ekki una því að vaxandi verðbólgu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í húsnæðismálum, og erlendra hækkana verði sett á herðar verkafólks. Nú eru uppi þær aðstæður í samfélaginu að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum mun skipta miklu máli við gerð þeirra. Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins taki höndum saman með samtökum launafólks að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Um þessar mundir heyrist gamalkunnuglegt væl frá Samtökum atvinnulífsins og reyndar stjórnvöldum líka um að ekkert sé til skiptanna og því ekkert um að semja í komandi kjaraviðræðum í haust. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að þeir hinir sömu séu staddir á allt öðrum stað í tilverunni og gefi sér ekki tíma til að lesa fréttir fjölmiðla þar sem sjá má þessar nýlegu fyrirsagnir:

  • Bankarnir þrír högnuðust um 17,9 milljarða
  • Sjávarútvegurinn greiddi sér 21,5 milljarða króna í arð í fyrra
  • Rekstur áliðnaðarins hérlendis hefur aldrei gengið eins vel og nú
  • Kvika hagnast um 1,7 milljarða
  • Mesti hagnaður KS frá upphafi
  • Methagnaður hjá N1, Krónunni og ELKO
  • Methagnaður hjá Skeljungi 
  • Methagnaðar útgerðarfyrirtækja
  • Best launuðu hagsmunaverðirnir með hátt í fjórar milljónir króna á mánuði í fyrra
  • Mánaðartekjur framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins hærri en árslaun þeirra lægst launuðu

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að slík fyrirtæki geti ekki hækkað laun starfsmanna á lægstu launum. Viðhorf eigenda þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut á ekki bara að snúast um að græða og græða heldur greiða mannsæmandi laun og virða þannig framlag starfsmanna á hverjum tíma til aukins hagvaxtar í landinu.

Vissulega er það ekki nýtt að atvinnurekendur og frjálshyggjuliðið hafi hátt í aðdraganda kjarasamninga. Fyrir síðustu samninga árið 2019 fór áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa á yfirsnúning. Samtök atvinnulífsins vöruðu við uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum næðu kröfur stéttarfélaganna fram að ganga. Ekkert af þessu gekk eftir. Þá var stórbrotið að lesa í blöðum og öðrum miðlum að forystumönnum í verkalýðshreyfingunni væri líkt við hryðjuverkamenn. Fyrir mér er Pútín Rússlandsforseti hryðjuverkamaður, en ekki við sem förum fyrir kjarabaráttu verkafólks.

Nýja forystan svokallaða eða hinir róttæku sem fóru fyrir síðustu Lífskjarasamningum eru ekki að kalla eftir átökum vinnumarkaði. Þau hafna hins vegar brauðmolavæðingu elítunar, nú skal skipt jafnt, við þurfum jú öll að borða. Sé tekið mið af fyrirsögnum fjölmiðla er nóg til skiptanna fyrir alla um þessar mundir og rúmlega það. Það er von mín og trú að samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendurnar byggja á. Þannig getum við stuðlað að sátt í samfélaginu. Láglaunafólk á ekki eitt að bera ábyrgð á því að halda uppi hagvexti í landinu, ekki síst á tímum þegar háar arðgreiðslur fljóta út úr fyrirtækjum til hluthafa þeirra líkt og aurskriður af verstu gerð.