Það á að gefa frítt í strætó!
—
Í umræðunni undanfarið hefur alloft komið fram sú gagnrýni að það hafi mistekist að fjölga farþegum Strætós að ráði. Sagt að sitji fast við 4% ferða. Nú hef ég ekki sjálfstæða tölfræði í höndunum, en hef hins vegar tekið strætó flesta daga undanfarin 17 ár, og ég hef einmitt tekið eftir því að undanfarin 2-3 eru mun fleiri farþegar en voru einu sinni. En reyndar sé ég aðallega tólfuna, sem ég tek oftast. Kannski eru flestir þessir farþegar hættir að taka einhverja aðra vagna.
En það vill til að það er til einföld leið til að snarfjölga í strætó: Fella niður fargjöld. Vitið þið hvað kostar stakt far með strætó? Fjögur hundruð og sextíu krónur. Það er allt of mikið. Og þótt það lækki hratt þegar maður kaupir kort og notar það mikið, er það samt of dýrt. Því hver er tilgangurinn með strætó eða almenningssamgöngum almennt? Að keyra börn og próflausar fyllibyttur? Nei, að koma alls konar fólki á milli staða án þess að það þurfi að vera hver á sínum einkabíl (eða hesti).
Koma fólki á milli staða. Það er eini tilgangurinn með strætó. Það er hagkvæmara fyrir alla að sem flestir sjái ástæðu til að taka strætó. Þess vegna þarf að vanda sig: Strætó á að aka á réttum tíma, tímatöflur og leiðakerfi þurfa að vera vönduð. Þægileikinn er ekki hégómi, heldur eitt af því sem þarf til að laða fólk að — til þess að kerfið þjóni betur tilgangi sínum. Og það á enginn að nenna ekki að taka strætó vegna þess að einkabíltúrinn kosti hvort sem er ekkert meira. Þetta er ekki samkeppnisbissness.
En kostar þetta ekki of fjár? Jajú, en gefið gaum: Strætó er eins konar galdrafyrirbæri: Hann sparar meira en hann kostar. Setjið hundrað milljónir inn í kerfið hér, fáið með því 25% fleiri farþega, og þið getið sparað 200 milljónir annars staðar. Vegna þess að því fleiri sem taka strætó, þess færri eru á einkabíl, og því minni er umferðin. Og minni umferð þýðir ekki bara minni þörf fyrir stærri og flóknari umferðarmannvirki. Hún þýðir líka minna slit á þeim sem fyrir eru. Og minni loftmengun. Og færri slys. Og færri tjón.
Þá er ótalinn lúxusinn við að geta lesið bók í umferðinni, þurfa hvorki að skafa snjó né finna bílastæði, þurfa ekki einu sinni að spenna öryggisbelti … nú, og að geta verið undir áhrifum án þess að keyra á ljósastaur.
Einar Kristjánsson hjá Strætó sagði einu sinni á fundi, þar sem ég var staddur, að það þýddi ekkert að gefa frítt í strætó, þá mundi hann bara fyllast af rónum sem leituðu í hlýjuna. Undirliggjandi var: …og ekki viljum við það. Lausnin á því hlýtur að vera að það séu til fleiri hlýir staðir heldur en strætó opnir fyrir fólki sem er kalt. Er ekki hægt að leysa það einhvern veginn?
Já en, segja þeir, Reykjavík er svo dreifð borg! Strætó borgar sig bara ekki í svona gisinni byggð! — Með þeim rökum má segja að ekkert borgi sig í gisinni byggð. Ekki sorphirðan, ekki pósturinn, og alls ekki einkabíllinn.
Áformin um Borgarlínu eru stórt skref í rétta átt. Ekki nógu stórt að mínu mati — að mínu mati ætti að ráðast strax í að byggja lestarkerfi, og jafnvel ætti að skoða alvarlega að hafa það að verulegu leyti neðanjarðar — en stórt skref í rétta átt engu að síður. En það væri hægt að komast langt miklu hraðar með því að gefa frítt í strætó. Og það væri mjög einfalt í framkvæmd.
Eitt af því sem almennileg borg þarf að hafa eru almennilegar almenningssamgöngur. Þær eru hagkvæmar og þægilegar. Þær eru rakið dæmi.