Lög eða regla?
—

Þegar stofnað var til Sameinuðu þjóðanna í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari var hugmyndin sú að lög og regla yrðu ekki með öllu aðskilin. Hugmyndin var nefnilega sú að Sameinuðu þjóðirnar yrðu byggðar á alþjóðlegum lögum og reglum sem ríki heims kæmu sér saman um. Einnig var rætt um sameiginlegan her. Þá mætti segja að saman rynnu í eitt íslensku hugtökin lög og regla: lögregla. Gæslusveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna urðu vissulega til en frá upphafi varð ljóst að öflugustu herveldin myndu aldrei gefa eftir spönn af eigin forræði yfir drápstólum og þeim sem þar héldu um gikkinn jafnvel þótt þeir bæru bláhjálma Sameinuðu þjóðanna.
Stórveldin gerðu með sér samkomulag um að setja sérstakt öryggisráð á laggirnar þar sem þau ein ættu fastafulltrúa. Öryggisráð Sþ væri ráðandi um allt er varðaði stríð og frið. Sú varð og niðurstaðan en í síðari tíð hafa ríki sem standa utan Öryggisráðsins viljað draga úr valdi þess en á móti auka vægi Allsherjarþingsins. Langt er í land að þau nái sínu fram. Og það sem verra er, alþjóðalög og alþjóðaréttur eiga nú svo mjög undir högg að sækja að framtíðin er óviss um allar þær hugsjónir sem Sameinuðu þjóðirnar voru reistar á, og ekki nóg með það, alþjóðlegum sáttmálum og stofnunum er nú sópað í ruslið hverri á fætur annarri.
Bandaríkin standa þar fremst í flokki og bandalagsþjóðir hlíta kalli þeirra eins og sauðahjörð smala sínum.
Sagan er löng og ofbeldi og yfirgangur aldrei fjarri. Árið 1815, eftir Napóleonsstríðin, komu fulltrúar sigursælla ríkja saman í Vínarborg til að sammælast um landamæri án þess að nokkrum þar kæmi til hugar að taka tillit til annars en hagsmuna valdhafa. Ekki batnaði það þegar stórveldi Evrópu efndu til samráðsfundar í Berlín 1884 til að sameinast um skiptingu Afríku: Við skulum ekki berjast innbyrðis, sameinumst um réttinn til þess að taka álfuna eignarhaldi og skipta henni í bróðerni!
Stofnun Sameinuðu þjóðanna var tilraun til þess að koma á fót alheimsstofnun sem stuðlaði að réttlæti í heiminum. Áður hafði Þjóðabandalagið verið stofnað eftir fyrri Heimstyrjöldina þar sem tugir milljóna manna höfðu verið drepnir auk eyðileggingar á bæði náttúru og manngerðum heimi. Aldrei aftur sögðu menn.
En svo varð aftur, aðeins tuttugu árum síðar. Þjóðabandalagið náði aldrei flugi og ástæðan eflaust sú að stærstu og frekustu herveldin töldu fyrirkomulagið ekki bjóða þeim upp á næg völd í bandalaginu. Öryggisráð Sþ var tilraun til málamiðlunar.
En nú er sem sagt komið á daginn að sú málamiðlun dugir ekki. Aðdragandinn er allnokkur. Undir síðustu aldamót sameinuðust nokkrir öfgamenn í samtökum sem nefndust Project for the New American Century. Þessum mönnum kom Bush yngri skipulega til áhrifa í forsetatíð sinni. Þeirra á meðal var Richard Perle. Hann varð lykilmaður í varnarmálaráðuneytinu, harður andstæðingur afvopnunarsamninga og sagðist myndi „þakka Guði fyrir dauða Sameinuðu þjóðanna“. Annar var John Bolton sem varð sendiherra hjá Sþ þótt hann hefði marglýst yfir fyrirlitningu sinni á heimssamtökunum; sagt þau í rauninni ekki vera til, en bætti við: „Þegar Bandaríkin stýra þá fylgja Sameinuðu þjóðirnar á eftir. Þegar það þjónar hagsmunum okkar að hafa þennan hátt á þá gerum við það.“
New American Century var ætlað að finna leiðir til þess að tryggja heimsyfirráð Bandaríkjanna: Alþjóðastofnanir ættu engu að ráða, engin alþjóðalög að gilda né alþjóðaréttur, engar Sameinuðu þjóðir eða stofnanir á þeirra vegum skyldu fá nokkru ráðið: Það gerum vér einir, setjum reglurnar, okkar reglur. Þetta er það sem á ensku nefnist rules-based world order í stað law-based order. Heimur stýrt með einhliða reglum í stað alþjóðalaga.
Allt er þetta að ganga eftir. Þegar innrásin var gerð í Írak árið 2003 lögðu bandarísk stjórnvöld mikið á sig til að sannfæra heiminn um réttmæti innrásarinnar, gereyðingarvopn voru sögð vera í Írak sem ógnuðu heimsbyggðinni.
Þegar Bandaríkjamenn gerðu nýlega árás á Íran þurfti enga lagalega réttlætingu. Trump forseti fyrirskipaði þetta einfaldlega. Íslenskir ráðherrar hneigðu sig og sögðu að Bandaríkjaforseti virtist ætla að geta komið á friði á milli Írans og Ísraels, myndi hann vera svo vænn að koma líka á friði á milli Ísraels og Palestínu. Árás á hans vegum á Íran var gleymd og grafin, stuðningurinn við þjóðarmorð á Gaza sömuleiðis. Greinilega var litið svo á að „sjarmörinn“ í Hvíta húsinu væri sá sem réði og ætti að ráða.
Bandaríkin eru búin að segja upp nánast öllum afvopnunarsamningum sem þau áttu aðild að og ofsækja alþjóðlegar stofnanir. Þannig eru dómarar Alþjóðaglæpadómstólsins beittir fjármálaþvingunum og hótað fangelsun þegar þeir dirfast að draga fyrir dóminn stríðsglæpamenn sem handgengnir eru stórveldinu.
Rutte, framkvæmdastjóri NATÓ fetar í fótspor forvera síns, Norðmannsins Stoltenbergs og beygir sig í duftið þannig að eftir er tekið. Og ríkisstjórn Íslands lýsir því yfir að hún hafi í bígerð að láta okkur skattgreiðendur fara að borga í þágu vígvæðingarí samræmi við fyrirskipanir þessara manna.
Varla verður þessu tekið þegjandi. Nema blóðið sé hætt að renna í Íslendingum.
Getur það verið?
Hefur áður birst í helgarblaði Morgunblaðsins 05/06.07.25