Gagnrýni á NATO er ekki stuðningur við Pútín
—
Ný-McCarthyískar árásir á þá sem gagnrýna NATO og Bandaríkin í tengslum við stríðið í Úkraínu eru til þess að þagga niður í umræðunni og draga dul yfir ábyrgð vesturlanda.
Á meðal leiðtoga og stjórnmálamanna sem gagnrýna aðkomu NATO og Bandaríkjanna að stríðinu má nefna Jeremy Corbyn, Yanis Varoufakis fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, Lula da Silva forseta Brasilíu, og páfann í Róm. Þegar kemur að fræðimönnum má nefna Noam Chomsky, Jeffrey Sachs úr Colombia háskóla, John Bellamy Foster frá Kaliforníu háskóla, sagnfræðinginn Vijay Prashad, stjórnmálafræðingurinn Norman Finkelstein, Anatol Lieven frá King’s College London, og Richard Sakwa frá háskólanum í Kent. Allt eru þetta virtir fræðimenn en ekki neinir bjánar eða Pútínistar.
Meðal blaða og fréttamanna má benda á Chris Hedges sem lengi starfaði fyrir New York Times (þangað til hann var rekinn fyrir að mótmæla Íraksstríðinu), Pulitzer verðlaunahafann Seymour Hersh, Katrina vanden Heuvel eigandi og fyrrum ritstjóri The Nation, reynsluboltinn Robert Scheer, og fjölda sjálfstæðra blaðamanna sem hafa hrökklast frá meginstraums fjölmiðlum og neyðast til að gefa út efnið sitt sjálfir á efnisveitum líkt og Substack. Ólíkt fræðimönnum er atvinnuöryggi blaðamanna heldur ótryggt. Sérstaklega ef þú ert með skoðanir sem fara gegn hagsmunum stjórnvalda hverju sinni.
Jeffrey Sachs, prófessor hjá Columbia University, er einn þessara fræðimanna og var nýlega í þættinum Democracy Now, en það er þáttur sem hefur verið sendur út í 27 ár undir stjórn Amy Goodman. Þátturinn er kannski eini útbreiddi fréttaþátturinn í Bandarísku sjónvarpi þar sem raddir friðarsinna og róttæklinga fá enn að heyrast. Kannski vegna þess að hann hefur alltaf verið rekinn með óhagnaðardrifnum hætti og með styrkjum áskrifenda en ekki auglýsingafé.
Í þættinum ræða Sachs og Amy um stríðið og spila stutt brot úr ræðu Lula da Silva forseta Brasilíu þar sem sá síðarnefndi talar um hvaða kröfur Rússar og Úkraínumenn geti sett fram til að koma á friði. Lula da Silva segir að Pútín geti ekki gert kröfu um að halda öllum þeim landsvæðum sem Rússar hafa tekið yfir en að Selenskyy geti á móti ekki gert kröfu um að NATO verði áfram í Úkraínu. Hann segir svo að stríðið hafi dregist á langinn og undirstrikar að Brasilía styðji „territorial integrity“ eða landfræðilegt fullveldi Úkraínu og allra landa, og að Brasilía samþykki ekki innrás Rússa. Við skulum endurtaka þetta: Brasilía styður ekki innrásina. Lula da Silva er langt frá því að vera einn um þessa skoðun á stríðinu. Það er aðeins á vesturlöndum þar sem aðrar skoðanir fá varla að heyrast og eru hrópaðar niður. Við þessu öllu segir Jeffrey Sachs: „Lula forseti útskýrði þarna í einföldu máli kjarnann í því sem flestir fjölmiðlarnir okkar þora ekki að útskýra fyrir Bandarískum almenning, það er útvíkkun NATO. Þetta er stríð sem snýst í grundvallaratriðum um tilraun Bandaríkjanna til að útvíkka hernaðarbandalag, leitt af Bandaríkjunum sjálfum, inn í Úkraínu og Georgíu.“
Þarna segir Sachs það sem ekki má segja. Að vesturlönd, NATO, og Bandaríkin beri líka ábyrgð á ástandinu. Það voru Bandaríkin sem þrýstu á útvíkkun hernaðarbandalagsins þó vitað væri að það væri svokölluð rauð-lína fyrir Rússa. Með þessu er prófessorinn auðvitað ekki að réttlæta eitt eða neitt heldir aðeins að benda á augljósar staðreyndir sem verður að taka með í reikninginn til þess að skilja hvernig og hvers vegna stríðið í Úkraínu hófst.
En hvers vegna eru svo margir tilbúnir að ráðast á samborgara sína og spyrða þeim við Pútín? Ástæðan liggur líklega í þeirri einfeldningslegri trú eða kenningum um ástæðu innrásarinnar sem segir að stríðið snúist um baráttuna á milli lýðræðis og alræðis. Forsenda kenningarinnar er sú að Rússlandi sé stjórnað af einræðisherra en Úkraínu af lýðræðislega kjörnum forseta. Pútín sé raunar svo mikið illmenni að það þýði ekki einu sinni að reyna að semja við hann um frið. Af þessu leiðir að allir sem gagnrýna NATO og aðra bandamenn Úkraínu hljóti að vera undirlægjur illmennis og einræðisherra.
Í nýlegri grein Serbneska hagfræðingsins Branko Milanović útskýrir hann hvernig þessi barnalega kenning gangi ekki upp af margvíslegum ástæðum, ekki aðeins vegna gífurlegrar spillingar sem hafi ríkt innan Úkraínu og þings landsins, þar á meðal spillingar ólígarkanna sem studdu Zelenskyy til valda, heldur líka vegna þess að efnahagsástandið í landinu var það versta meðal fyrrum ráðstjórnarríkjanna. Straumur verkafólks hafi legið til Rússlands en ekki hina áttina til að flýja meint einræði í Rússlandi:
„[Kenningin] hunsar þó ýmsar staðreyndir, þar á meðal að stjórnarbreytingin í Úkraínu árið 2004 var afleiðing félagslegrar uppreisnar gegn ósanngjörnum kosningum á meðan breytingin 2014 var valdarán gegn löglega kjörinni ríkisstjórn. Þar að auki var Úkraína, fyrir stríðið og jafnvel fyrir 2014, ófarsælast af fyrrum ríkjum Sovétríkjanna. Ekki aðeins var spillingin á mjög háu stigi, þingið var að mestu óstarfhæft, ýmsir ólígarkar, þar á meðal þeir sem hjálpuðu Zelensky að komast til valda, voru allsráðandi, heldur var efnahagsleg frammistaða Úkraínu líklega sú versta af öllum lýðveldum fyrrum Sovétríkjanna. Þó árið 1990 hafi landsframleiðsla á mann í Rússlandi og Úkraínu verið nokkuð svipuð, í aðdraganda innrásar Rússa var landsframleiðsla Rússlands á mann meira en tvöfalt hærri en Úkraínu. Sú skoðun að Úkraína hafi á einhvern hátt átt að vera eftirsóttur valkostur við einræði í Rússlandi gengur ekki upp vegna þeirra staðreynda að: fólksflutningar voru í „ranga“ átt. Úkraínumenn fluttu til Rússlands og unnu í Rússlandi vegna þess að launin í Rússlandi voru um þrisvar sinnum hærri en í Úkraínu, frekar en að Rússar flyttust til Úkraínu.“
Milanović bætir svo við að kenningin takist ekki á við þá staðreynd að öll átökin í ráðstjórnarríkjunum eftir endalok Sovétríkjanna hafi verið átök um yfirráð yfir landsvæðum. Þau hafi ekki haft neitt með lýðræði eða einræði að gera. Hin barnalega kenning líti einnig fram hjá þeirri staðreynd að Úkraína sé í miklum og nánum samskiptum við Aserbaídsjan sem sé eitt þessara einræðisríkja sem stríðið eigi að snúast um. Milanović segir svo að kenningin sé vinsæl því hún sé svo einföld, þú þurfir í raun ekki að vita neitt um söguna, Sovétríkin, bakgrunn innrásarinnar, eða nokkuð annað. Aðeins að Pútín sé vondur einræðisherra. Þetta sé kenning byggð á fáfræði og studd af fáfræði.
Milanović ræðir ekki stöðuna í Úkraínu eftir að innrásin hófst en Zelensky notaði tækifærið skömmu eftir að hún hófst og bannaði fjölda stjórnarandstöðuflokka þar á meðal stærsta stjórnarandstöðuflokk landsins. Í raun eru stjórnarandstöðuflokkar bannaðir með öllu og allir fjölmiðlar landsins hafa verið sameinaðir undir stjórn ríkisins í kjölfar þess að herlög tóku gildi. Zelenskyy hafði áður bannaði þrjár sjónvarpsstöðvar sem taldar voru hliðhollar Rússum auk eins vinsælasta fréttavef landsins, áður en innrásin hófst. Þrátt fyrir þetta hefur einkunn Úkraínu hjá Fréttamönnum án landamæra, sem mæla á fjölmiðlafrelsi, hækkað mörgum sérfræðingum til mikillar furðu. Með þessu hefur Zelenskyy notað innrásina til að styrkja völd sín í landinu með mjög ólýðræðislegum hætti sem ekki verður útskýrt af fullu eða afsakað með vísan til innrásar Rússa.
Í ljósi þess sem ég hef farið yfir hér að ofan verður að teljast verulega ómerkilegt af stuðningsfólki NATO á Íslandi, og þeim sem vilja afneita ábyrgð vesturlanda á átökunum, að ráðast ávallt á þá sem hafa aðrar skoðanir og kalla Pútínista. Það er einfaldlega ömurlegt á allan hátt. Enda snýst þessi smjörklípa ekki um neitt annað en að þagga niður í umræðunni og draga dul yfir þá staðreynd að vesturlönd og NATO bera mikla ábyrgð á stöðunni. Þið sem takið þátt í þessum leik eruð lítið skárri en McCarthyistar síðustu aldar sem fóru um og útskúfuðu alla sósíalista og kommúnista. Þessi hegðun hefur ekkert að gera með það opna samfélag sem sósíal-demókratar, frjálslynt og borgaralega þenkjandi fólk taldi til grundvallar hugsjóna sinna. Ef það var þá einhvertíman tilfellið. Þannig hefur frjálslynda miðjan, líkt og hægrið hefur lengi gert, tekið upp vopn yfirmannsins og einræðisherrans þar sem þeir sem ekki ganga í takt við yfirvaldið eru reknir, þeir útskúfaðir og slaufað.
Það er komið nóg. Gagnrýni á NATO hefur fullan rétt á sér og það þýðir á engan hátt að við sem tökum okkur stöðu gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna séum að verja Pútín. Það er einfaldlega ósatt. Það er ekkert vandamál að að vera á móti NATO, Bandarískri heimsvaldastefnu, og gagnrýna innrás Vladimir Pútíns á sama tíma.