Aðferð Icelandair og SA gegn flugfreyjum er prófmál
—
„Icelandair hefur slitið kjaraviðræðum sínum við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) og hyggst segja upp öllum flugfreyjum og flugþjónum. Flugfélagið gerir ráð fyrir því að hefja viðræður við annan samningsaðila á hinum íslenska vinnumarkaði. Munu flugmenn félagsins frá og með næsta mánudegi starfa tímabundið sem öryggisliðar um borð í vélum, er segir í tilkynningu frá Icelandair.“ Skrifar Fréttablaðið
Stjórn Icelandair virðist hafa tryggt þátttöku flugmanna í slíkri sniðgönguaðgerð til að knésetja flugfreyjur. Jón Þór Þorvaldsson formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna hafnar ekki þessari aðferð Icelandair en segir að samkvæmt loftferðalögum beri flugmenn ábyrgð á öryggi um borð. Þau ummæli boða varla neitt gott um samstöðu þess félags með flugfreyjum/flugþjónum.
Sex til átta flugmenn verða um borð í flugvélum Icelandair frá mánudegi, segir RÚV á laugardag. Flugrekstrarstjóri félagsins segir þá hafa alla öryggisþjálfun sem krafist er. Engar flugfreyjur verða um borð í vélunum frá næsta mánudagi og sinna flugmenn hlutverki öryggisliða í farþegarými.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sem fór með samninga fyrir hönd Icelandair, segir að samtökin standi með Icelandair að ákvörðun um að slíta viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands og leita annað: „Við getum sagt að íslensk vinnulöggjöf er að mörgu leyti úr sér gengin og fyrir löngu kominn tími til að endurskoða hana, ekki bara að hluta eða í heild. Það getur verið að þessi deila komi til álita þar.“ Sjá hér
Stórauðvaldið lítur á Covid-kreppuna sem tækifæri til árása á réttindi launafólks. Yfisrlýst markmið Icelandair hefur frá byrjun verið að „auka samkeppnishæfni“ félagsins fyrir væntanlegt hlutafjárútboð. Þetta markmið réði ríkjum í samningum við flugmenn og flugvirkja. En áhlaup þetta hefur hingað til strandað á mótstöðu flugfreyja/flugþjóna
Allra augu á FFÍ
Félagsmenn FFÍ höfðu áður fellt kjarasamning félagsins við SA 8. júlí sl. með miklum meirihluta og mikilli kjörsókn. Viðræður voru teknar upp aftur þar til Icelandair sleit þeim nú á föstudag. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir ákvörðun Icelandair um að slíta einhliða viðræðum um kjarasamning vera „fyrirtækinu til skamma“. Og þessu var skjótlega fylgt eftir með samþykkt FFÍ:
„Fundur stjórnar og trúnaðarráðs FFÍ, haldinn föstudaginn 17.7 2020 samþykkir að boða allsherjarvinnustöðvun félagsmanna hjá Icelandair ehf. Vinnustöðvunin verði ótímabundin og hefjist kl. 00:01 þriðjudaginn 4.8 2020 og tekur hún til allra starfa flugfreyja og flugþjóna um borð í flugvélum Icelandair ehf. Atkvæðagreiðsla um boðun vinnustöðvunar hefjist kl. 10:00 að morgni 24.7 2020 og ljúki kl. 12:00 á hádegi 27.7 2020.“ https://www.ffi.is/
FFÍ er aðili að ASÍ og hefur stuðning þaðan: „Drífa Snædal forseti ASÍ segir algerlega ótrúlegt að verða vitni að þessum vinnubrögðum Icelandair að segja öllum flugfreyjum upp og fá flugmenn til að sinna öryggisgæslu um borð frá og með næsta mánudegi… Hún segir að Icelandair ætli að fara í félagsleg undirboð og beita lúalegum brögðum til þess að lækka með handafli laun… Drífa segir að ASÍ ætli að velta við öllum steinum í þessu máli og standi þétt að baki Flugfreyjufélagi Íslands.“ Sjá hér
Íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir hluthafar í Icelandair svo margir fletir eru á deilunni. Stærsti einstaki hluthafi er Lífeyrissjóður verslunarmanna. En stjórn VR vill nú að stjórnarmenn sem VR skipaði í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sniðgangi eða greiði atkvæði gegn þátttöku lífeyrissjóðsins í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair… „Stjórn VR getur ekki sætt sig við það að eftirlaunasjóðir launafólks séu notaðir til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hvetja til félagslegra undirboða,“ segir í yfirlýsingu VR.
Ríkisstjórnin hefur þegar lagt fram mikið fé til stuðnings Icelandair. Ef framhald verður á því samtímis áhlaupum félagsins til félagslegra undirboða er ljóst að skattfé er varið til að mölva verkalýsðhreyfinguna.
Kjaradeila Icelandair við flugfreyjur er þegar orðið að prófmáli í stéttabaráttunni. Icelandair hefur kúskað félög flugmanna og flugvirkja til verulegra kjaraskerðinga og samvinnu við sig og stefnir á að brjóta niður andstöðu FFÍ. Ef atvinnurekendum tekst þetta er það auðvitað aðeins fyrsta atlagan til félagabrota, niðurbrots á verkalýðshreyfingunni (útlenska: union busting). Að brjóta samstöðu meðal launafólks er markmið í sjálfu sér. Ef hins vegar FFÍ getur stöðvað aðför Icelandair er það mikilvægt brimbrot í þágu launafólks.