Vestrið hindraði friðarsamninga vorið 2022. Skýrsla varpar ljósi á Úkraínustríðið
—
Það var hægt að koma á vopnahléi og friðarsamningi í Úkraínudeilunni strax vorið 2022, þar sem beinu stríðsaðilarnir tveir höfðu í stærstum atriðum náð saman. En NATO-veldin, fremst Bandaríkin og Bretland, vildu að stríðið héldi áfram, og rykktu viðræðunum þess vegna út af sporinu. Vestrænir þjóðarleiðtogar fundu út að klókast væri að segja okkur, lýðnum, ekkert frá þessum friðarviðræðum. Og vestræn pressa skilur hvenær hún á að þegja. Svo að hún steinþagði um viðræðurnar eins og þær hefðu aldrei farið fram. Við búum í „vernduðu“ upplýsingaumhverfi hér í Vestrinu.
Þann 10. nóvember síðastliðinn birtist í ritinu Brave New Europe greinin „Peace For Ukraine“ eftir Þjóðverjana Michael von der Schulenburg, Hajo Funke og Harald Kujat. Höfundar greinarinnar eru þungavigtarmenn – sem gerir skýrsluna enn frekar að grundvallarlesningu fyrir þá sem áhuga hafa á friði í Úkraínu: Michael von der Schulenburg er fyrrverandi aðstoðar-aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hann vann í þrjá áratugi hjá SÞ og einnig hjá ÖSSE, og hefur langa reynslu af friðarviðræðum. Hajo Funke er prófessor emeritus í stjórnmálafræði við Otto-Suhr-Institutet/ Freie Universität Berlin. Harald Kujat var hæst settur þýskra hershöfðingja í þýska hernum, Bundeswehr, og hjá NATO.
Greinin er annars vegar inngangur eftir Schulenburg sem hér birtist þýddur og hins vegar meginskýrslan eftir þá Funke og Kujat sem hér verður vísað í og birtar glefsur úr. Fyrstur til máls er sem sagt Schulenburg.
Hörmuleg afvegaleiðing friðartilrauna í byrjun Úkraínustríðs
Hér fylgir ítarleg samantekt/skýrsla af samningaviðræðunum milli Úkraínu og Rússlands í mars 2022 og tilheyrandi sáttatilraunir sem stýrt var af Naftali Bennett þáverandi forsætisráðherra Ísraels með aðstoð Erdogans Tyrklandsforseta og Gerhard Schröder fyrrverandi kanslara Þýskalands. Skýrslan er gerð af Harald Kujat yfirhershöfðingja og Hajo Funke prófesor emeritus, tveimur af höfundum nýlega kynntrar friðaráætlunar fyrir Úkraínu [sl. september, aths þýðanda]. Og það er líka í sambandi við friðaráætlun þeirra sem skýrsla þessi er svo yfirmáta mikilvæg. Hún minnir okkur á að við höfum ekki efni á að fresta vopnahléi og friðarsamningaviðræðum aftur.
Hin mannlega og hernaðarlega staða í Úkrínu versnar gríðarlega, með þeirri viðbótarhættu að stríðið stigmagnist enn frekar. Við þurfum diplómatíska lausn á þessu stríði í Evrópu og Úkraínu – og við þurfum hana núna!
Hin ítarlega skýrsla um friðarviðræðurnar í mars 2022 gefur okkur sex niðurstöður:
1. Aðeins mánuði eftir upphaf rússnesku innrásarinnar í Úkraínu höfðu rússneskir og úkraínskir samningamenn komist mjög nærri samningi um vopnahlé og uppkasti að víðtækri friðarlausn á deilunni.
2. Öfugt við stöðuna í dag hafði Zelensky forseti og stjórn hans lagt mikið á sig til að semja frið við Rússland og binda skjótan endi á stríðið.
3. Öfugt við vestrænar túlkanir urðu Úkraína og Rússland sammála um að hin áformaða NATO-útvíkkun væri orsök stríðsins. Löndin beindu þess vegna samningaviðræðunum að hlutleysi Úkraínu og afsölun NATO-aðildar. Á móti myndi Úkraína halda landsvæði sínu óskertu, fyrir utan Krím.
4. Það er lítill vafi á að samningaviðræðurnar mistókust vegna andstöðu frá NATO, og sérstaklega Bandaríkjanna og Bretlands. Ástæðan er að slíkur friðarsamningur hefði jafngilt ósigri fyrir NATO, endalok útvíkkunar NATO í austur og þar með endalokum draumsins um einpóla heim og drottnandi stöðu Bandaríkjanna.
5. Strand samningaviðnanna í mars 2022 leiddi til hættulegrar stigmögunar stríðsins sem hefur kostað hundruðir þúsunda manna lífið, mest ungs fólks, hefur leikið ungu kynslóðina grátt og veitt henni alvarleg andleg og líkamleg sár. Úkraína hefur orðið fyrir gríðarlegri eyðileggingu, innanlandsflótta og grasserandi fátækt. Samfara þessu er stórfelldur landflótti. Ekki bara Rússland heldur NATO og Vestrið bera mikinn hluta ábyrgðar á þessum hörmungum.
6. Samningsstaða Úkrínu er núna miklu verri en hún var í mars 2022. Úkraína mun nú missa stóra hluta af landssvæði sínu.
7. Hindrun friðarviðræðanna í það sinn hefur skaðað alla: Rússland og Evrópu – en umfram allt fólkið í Úkraínu sem greiðir með blóði sínu gjaldið fyrir metnað stórvelda og fær líklega ekkert fyrir.
Michael von der Schulenburg
Kujat og Funke: Þannig tapaðist friðarmöguleikinn í Úkraínudeilu og Vestrið valdi stríðið í staðinn
Inngangi Sculenburgs fylgir svo ítarleg skýrsla eða samantekt um samningaviðræðurnar, gerð af H. Kujat yfirhershöfðingja og pófessor H. Funke. Auk þess að semja skýrsluna eru þeir tveir fjögurra manna sem lögðu fram við þýsku ríkisstjórnina víðtækar friðartillögur í Úkraínudeilunni nú í ágúst síðastliðnum.
Fram kemur í skýrslunni að friðarþreifingar hófust í blábyrjun mars 2022, er aðeins vika var liðin frá innrás Rússaí Úkraínu. Zelensky leitaði til Naftali Bennett forsætisráðherra Ísraels um að reyna að koma á sambandi við Pútín, og Pútín bauð honum strax til Moskvu. Bennett rakti gang mála í sjónvarpsviðtali í Ísrael u.þ.b. ári síðar, viðtali sem var endursagt í Berliner Zeitung 6/2 2023. Bennett sagði að bæði stjórnvöld í Moskvu og Úkraínu hefðu virst fús til málamiðlana og: „Ég fékk þá mynd á þeim tíma að báðar hliðar hefðu mikinn áhuga á vopnahléi.“ Og viðræðunefndir frá báðum aðilum voru að störfum. Zelensky hafði einnig samband við Gerhard Schröder fyrrverandi kanslara Þýskalands sem málamiðlara, og síðan bættust stjórnvöld í Tyrklandi við, einnig sem milligöngumenn.
„Eftir aðeins mánuð frá því stríð braust út voru aðilar sammála um breiðar línur friðarsamkomulags“, segir í skýrslunni Í stystu máli gengu viðræðurnar vel, í Hvítarússlandi og Tyrklandi, og leiddu loks til friðarviðræðufundar í Istanbul í marslok. Þar voru lagðar fram tillögur í 10 liðum sem að stærstum hluta byggðu á tillögum frá Úkraínu en tóku einnig tillit til nokkurra meginkrafna frá Rússum. Mikilvægast var að Úkraína yrði utan NATO og á móti héldi Úkraína landsvæði sínu óskeretu, með sérstöku fyrirkomulagi þó fyrir Krím og Donbas. Friðartillögurnar birtust sem fréttatilkynning frá fundinum en voru þó ósamþykktar enn. Það var helst undrunarefni hvað friðarviðræðurnar höfðu gengið greiðlega. Samkomulag sýndist ekki langt undan, en Úkraína ákvað að lokum að undirrita ekki neitt að sinni.
Áður en viðræðunum lauk í Istanbul (29. mars) var annar fundur haldinn sem átti eftir að gjörbreyta stöðunni: NATO-fundur í Brussel 24. mars (mánuður liðinn frá innrás Rússa). Þar mætti Joe Biden og aðrir leiðtogar NATO-ríkja. Aðalefni hans var Úkraínudeilan. Þar var ákveðið að leggjast gegn friðartillögum þeim sem komnar voru fram og gegn öllum viðræðum fyrr en Rússar hefðu dregið allt herlið frá úkraínsku landi. Punktur.
Þessi stefnumörkun NATO drap í reynd friðarviðræðurnar. Skýrslan sýnir þó að viðsnúningur Úkraínu í málinu til samræmis við stefnu NATO varð ekki sjálfkrafa og strax. Í skýrslunni stendur:
„Zelensky og Pútín voru tilbúnir undir tvíhliða fund til að fullnusta niðurstöður viðræðnanna. Staðreynd er að helstu niðurstöður viðræðnanna voru byggðar á tillögum frá Úkraínu, og Zelensky studdi þau hetjulega í viðtali við rússneska blaðamenn 27. mars 2022, jafnvel eftir að NATO ákvað að leggjast gegn friðarviðræðunum. Zelensky hafði áður tjáð sams konar stuðning fyrirfram með undirritun sem sannar að fyrirhuguð útkoma viðræðnanna í Istanbul vissulega samræmdust hagsmunum Úkraínu.“
Samdóma ummæli sáttasemjaranna
Vitna má í ummæli helstu helstu sáttasemjaranna um viðræðurnar. Þeir eru nokkuð samdóma. Samkvæmt Berliner Zeitung mat Naftali Bennett vendingarnar í friðarviðræðunum svo: „Að mati Bennett var vopnahlé innan seilingar á þeim tíma, og báðir aðilar tilbúnir að gera verulegar málamiðlanir. En sérstaklega Bretland og Bandaríkin vildu að friðarferlið væri stöðvað og tóku stefnu á áframhald stríðsins.“
Skömmu eftir slit viðræðnanna í Istanbul sagði gestgjafinn og sáttasemjarinn Çavuşoğlu, utanríkisráðherra Tyrklands, við CNN: „Nokkur NATO-lönd vildu að Úkraínudeilan héldi áfram, til að veikja Rússland.“
Aðspurður eftir á mat Gerhard Schröder þróunina svo: „Í friðarviðræðunum í mars 2022 í Istanbul við Rustem Umerov (þáverandi öryggisráðgjafa Zelenskys, nú varnarmálaráðherra) samþykktu Úkraínumennirnir ekki samkomulagið af því þeir fengu ekki leyfi til þess. Þeir urðu að spyrja Bandaríkjamenn um allt sem þeir ræddu… En undir lokin gerðist ekki neitt. Ég fékk á tilfinninguna að ekkert kæmist áfram af því allt annað væri ákveðið í Washington. Það var alveg glatað.“
Skilaboð Boris Johnson í Kiev 9. apríl: Berjist áfram!
Zelensky og hans menn hikuðu sem sagt um stund gagnvart friðarviðræðunum. En NATO náði innan skamms að gera stefnu sína gildandi í Úkraínu. Það gerðist formlega tveimur vikum eftir NATO-fundinn með sendiför Borisar Johnson forsætisráaðherra Breta til Kiev 9. apríl þar sem hann rak stefnu NATO – og þó einkum stefnu BNA að breskum sið. Johnson lagði Zelensky línuna eins og skilmerkilega var skráð og skjalfest nokkrum vikum síðar í Ukrainska Pravda, rit sem stendur stjórnvöldum í Kiev nærri:
„Johnson kom með tvö einföld skilaboð til Kiev. Hið fyrra er að Pútín sé stríðsglæpamaður, það eigi að beita hann þrýstingi, ekki semja við hann. Það seinna er að þó að Úkraína sé tilbúin að undirrita eitthvert samkomulag við Pútín þá sé sameinað Vestrið það ekki.“
Skýrsluhöfundar hafa ekki uppi getgátur um hvort Johnson hafi beitt Zelensky fortölum, gylliboðum eða þrýstingi. Líklega trúðu margir NATO-leiðtogar á möguleikann á hernaðarlegum sigri á Rússum og samt enn frekar á áhrif hinna gífurlegu efnahagsrefsiaðgerða gegn landinu. Hvorugt tókst. Hins vegar tókst vel að láta Úkraínu snúa við blaðinu. Zenensky lét Vestrið kúska sig. Þess vegna hélt stríðið áfram af auknum ákafa. Einu og hálfu ári síðar er hernaðarstaða Úkraínu ömurleg, hún hefur kannski misst 500 þúsund hermenn, hún hefur misst milljónir íbúa úr landi og er grátt leikin á öllum sviðum.
Nokkrir lærdómar af skýrslunni
Skýrslan og grein þýsku þremenninganna gefur miklu fyllri mynd og ítarlegri frásögn af þessum friðarviðræðum en við höfum áður heyrt (og flestir hafa ekki heyrt neitt).
Skýrslan af tilkomu og gangi viðræðnanna varpar margs konar skýru ljósi á Úkraínustríðið.
Skýrslan gefur mynd af friðarviðræðum sem hófust strax í byrjun stríðsins, mynd af stríðsaðilum sem báðir höfðu mikinn hug á að semja, mynd af friðarviðræðum sem gengu betur en menn áttu von á en fóru af vissum ástæðum skyndilega út um þúfur.
Skýrslan sýnir hverjir það voru sem vildu þetta stríð, og hvaða sömu aðilar vildu líka draga það á langinn.
Skýrslan varar ljósi á hver voru líkleg markmið Pútíns með hans „sérstöku hernaðaraðgerð“. Líklegast var það að þvinga Úkraínu til samninga. Og fljótt eftir upphaf „aðgerðarinnar“ gekk það eins og Rússar bjuggust við, Úkraína var tilbúin að semja um að vera utan NATO.
Skýrslan bendir til að þetta (stöðva NATO-útvíkkun) hafi verið aðalstríðsmarkmið Rússa. Kröfur þeirra í friðarviðræðunum voru lítið breyttar frá þeim kröfum sem þeir höfðu uppi í desember 2021, nokkrum vikum fyrir innrásina.
Skýrslan réttlætir auðvitað ekki innrás Russa, en hún bendir á að stríðsmarkmið þeirra í upphafi stríðs hafi verið takmörkuð. Hún gefur ennfremur í skyn að landakröfur Rússa verði líklega ekki jafn litlar í næstu samningaviðræðum. Einmitt vegna hinnar miklu hernaðarlegu „hjálpar“ og leiðsagnar sem Úkraína hefur fengið frá Vestrinu.
Skýrslan víkur örstutt að markmiðum Vestursins, einkum BNA, með þátttöku þeirra í þessu stríði. Vitnað er í velþekkt ummæli Lloyd Austin varnarmálaráðherra BNA frá apríl 2022. Aðspurður um stríðsmarkmiðin í Úkraínu sagði hann: „Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess háttar hluti sem það gerði með því að ráðast inn í Úkraínu.“ Og það voru Úkraínumenn – með vestrænum vopnum – sem áttu að sjá um þessa „veikingu“ Rússlands. En að veikja Rússland að einhverju gagni, það tekur tíma, miki magn vopna og mikið blóð – og of skjótir friðarsamningar eyðileggja slík plön.
Lítil lokaathugasemd
Davyd Arakhamia er formaður í flokki Zelenskys, „Þjóni fólksins“. Hann var einnig formaður úkraínsku sendinefndarinnar í umræddum friðarviðræðum við Rússana í Hvítarússlandi og Istanbul í mars 2022. Í viðtali við sjónvarpsrásina 1+1 Ukraina nú í vikunni viðurkennir hann að megináhersla Rússa í viðræðuðnum hafi verið að Úkraína yrði utan NATO. NATO ákvað hins vegar að það væri óásættanlegt, og bannaði slíkan samning. Með orðum Arakhamia: – En þegar við komum heim frá Istanbul kom Boris Johnson til Kiev og sagði: „Við undirritum ekki neitt. Við skulum heyja stríð.“ Arnaud Bertrand hjá Moon of Alabama bendir á að þetta séu söguleg ummæli frá toppmanni í Úkraínu.