Úr vörn í sókn

Arnþór Sigurðsson
18. desember, 2025

Fyrirhugað sameiginlegt framboð Pírata, VG og flokksbroti úr Sósíalistaflokknum í Reykjavík er merki um ótta og áhyggjur af því að niðurstaða síðustu þingkosninga endurtaki sig, að VG og Píratar þurkist út í borginni líkt og af þingi.

Samanlagt fylgi þriggja flokka, VG, Pírata og Sósíalista var 23.3% í síðustu borgarstjórnarkosningum en er nú samkvæmt skoðanakönnunum um 16%. Það er þó rétt að hafa það í huga að það er flokksbrot úr Sósíalistaflokknum sem er þarna á ferðinni og því má gera ráð fyrir að fylgið sé vel undir 16 prósentum. Í dag eru Píratar, VG og Sósíalistar með 6 borgarfulltrúa en ef fylgið fer í 11-14% þá mun fulltrúafjöldinn verða 3.

Hér er óttinn sá að fólk þori ekki að kasta atkvæði sínu í flokk sem ekki nær inn manni og af reynslunni ætla þessar þrjár fylkingar að bjóða fram einn lista í von um að fælingamátturinn sé úr sögunni og að fólk þori að kjósa sameiginlegan lista.

Það er ákveðin vegferð að setja saman lista úr þremur ólíkum áttum og getur reynst erfið og jafnvel mistekist. Átökin snúast um sætin og hver á rétt á meiru en hinir og ef mikið ójafnvægi skapast á milli hópanna þá gæti kvarnast úr og tilraunin runnið út í sandinn.

Einnig er viðkvæm jafvægislist að ná málefnalegum grundvelli. Píratar og VG eru bundin af stefnu sinna flokka og þurfa eðlilega að gefa eftir og þá er spurning hvar sársaukamörkin liggja hjá þessum flokkum en flokksbrotið úr Sósíalistaflokknum eru engin takmörk sett í þessum samningum og geta því gleypt allt hrátt frá hinum aðilunum. Það er hinsvegar ekki óalgengt að flokkar og fólk í pólitík falli frá sínum hjartans málum þegar lífróður er annarsvegar eða völd.

Undir slagorðinu Vor til vinstri ætlar þessi hópur að fylkja liði. Það gæti reynst slæm klisja í kosningum að tala um vor til vinstri með tvo aðra félagshyggjuflokka í samkeppni um atkvæðin, annarsvegar Samfykinguna sem er í grunnin jafnaðarmannaflokkur og svo með nýjan og ferskan lista Sósíalistaflokksins.

Vor til vinstri gæti verið slagorð þessara tveggja flokka líka og þá er spurning hvort að fólk treysti betur samsuðu óttabandalags eða flokka sem standa á traustum fótum með heilseypta lista.

Stærsti hópurinn í þessu fyrirhugaða bandalagi eru Píratar samkvæmt fulltrúafjölda og einnig samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Þar gæti orðið mesta brottfallið úr stuðningi bandalagsins þar sem að Píratar eru ekki skilgreindur sem vinstri flokkur og það gæti því farið fyrir brjóstið á þeirra fylgismönnum að flokkurinn þeirra hafi tekið stefnuna til vinstri.

Það er ekki á vísan að róa með fylgið eða sjálft slagorðið og framboðið gæti allt eins hlotið afhroð í kosningunum og endað með1 til 2 borgarfulltrúa.

Það sem mun þá skipta máli hvaða hópur á bestu samningamennina ef illa fer, hvaða hópur í fylkingunni lifir af kosningarnar eftir því hverjir fá sæti 1 og 2 á listanum.

Það sem hefði verið snyrtilegast í þessum sameiginlegu framboðsmálum er að allir aðilar hefðu komið saman, Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn og jafnvel Flokkur fólksins. En það er ekki að gerast heldur er upphafsmaður sameiginlegs framboðs manneskja sem hefur klofið sig frá eigin flokki í ósætti. Það er mjög sérstakt út af fyrir sig að standa í ósætti við eigin flokk einn daginn en boða sameiningu vistrimanna hinn daginn. Er það líklegt til árangurs að sá sem skellir hurðum á sína félagsmenn sé best til þess fallinn að ná samstöðu í breiðum hóp.

Ekki er framboðið komið á koppinn enda nægur tími enn fyrir samingaviðræður og ekki hafa allir sem beðið er eftir svarað kallinu um sameiginlegt framboð.

Hvort að framboðið Vor til vinstri verði að veruleika mun koma í ljós, þó svo að ekkert verði af þessu framboði þá verður samt hægt að kjósa til vinstri í Reykjavík í vor og meira segja getur fólk valið úr fleirum en einum möguleika þar sem Samfylkingin og Sósíalistaflokkurinn verða báðir með framboðslista og jafnvel VG. Vinstrið verður til staðar í vor hvað sem verður af samsettum listum.