Stríðið í Eflingu 2
—
Við fylgjumst auðvitað af mikilli athygli með stjórnarkosningum í Eflingu stéttarfélagi þessa dagana. Við höfum fylgst grannt með því félagi síðan baráttusinnar tóku þar við stjórn undir forustu Sólveigar Önnu Jónsdóttur árið 2018. Og breyttu félaginu á skömmum tíma í baráttusamtök. Með því að virkja félagsfólk til þátttöku í verkfallsaðgerðum, samninganefndum, opinni orðræðu um kjaramál, fjöldafundum o.fl. tók félagið stakkaskiptum og varð mikilvægur gerandi í samfélaginu. Þetta var verkalýðsbarátta í «nýjum anda» eða þó öllu heldur í «gömlum stíl». Það var t.d. bæði fróðlegt og uppbyggjandi, já beinlínis hjartastykjandi fyrir gamla verkalýðssinna, að fylgjast með fréttum og öðru efni á heimasíðu félagsins. «Solla og félagar hennar í stjórn Eflingar hafa lyft grettistaki í verkalýðsbaráttu láglaunafólks og breytt andlausu félagi til margra ára í það afl sem því var ætlað að vera», bloggaði samherji Sólveigar Önnu, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, ekki alls fyrir löngu. Síðan upphófust átök og væringar og nú bjóðast þrír listar til stjórnarkjörs í Eflingu.
Duggunni ruggað 2018
Tilkoma nýrrar Eflingarforustu var hluti af umtalsverðum umskiptum sem þá urðu í verkalýðshreyfingunni, einnig í forustu Alþýðusambandi Íslands, eins og frægt er orðið. Sjá hér. Andstæðar fylkingar kristölluðust ekki síst í afstöðunni til sk. SALEK-verkefnis sem þá var í undirbúningi og á mikilli siglingu undir skipstjórn Gylfa Arnbjörnssonar og þáverandi ASÍ-forustu. SALEK-hugmyndafræðin felur í stuttu máli í sér nýja og stóraukna miðstýringu: að færa afgreiðslu kjaramála frá vettvangi stéttarfélaga og sem allra mest inn í samráðsnefndir ríkisvalds/«þjóðhagsráðs» og aðila vinnumarkaðar. Hún felur í raun í sér að taka hið lýðræðislega vald stéttarfélaga, samtakaaflið úr sambandi og afhenda það sérfræðingavaldi undir merkjum stéttasamvinnunnar. Stéttarleg «afvopnun».
Margir álitu að þessu hættulega SALEK-verkefni hefði verið afstýrt með tilkomu nýs og róttækara fólks í leiðandi stöðum. En snemma á árinu 2021 vakti Eflingarforustan athygli á að vinna við innleiðingu SALEK-hugmyndafræðinnar hefði haldið áfram af skriðþunga þrátt fyrir forystuskipti í verkalýðshreyfingunni. Það gerist vissulega í breytilegum búningi eins og í «Grænbók um vinnumarkaðsmál» á snærum stjórnvalda, með þátttöku ASÍ, frumvarpi um «starfsmannalög» o.fl. Sjá hér viðvörun Eflingar um það.
Ólga í skrifstofuveldinu
Það varð mörgum nokkurt andlegt áfall þegar Sólveig Anna Jónsdóttir, holdgerfingur nýrra baráttutíma, sagði upp starfi sínu og formennsku í Eflingu 1. nóvember 2021. Og starfsbróðir hennar Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri einnig. Ástæðan reyndisrt vera «vantraust» frá starfsfólki Eflingar. Þá komu í ljós alvarleg átök milli starfsfólks á skrifstofu Eflingar og forustunnar róttæku. Sólveig Anna & co voru sökuð um samningsbrot, einelti og þaðan af verra sem þau töldu sér ófært að starfa með á herðunum, nokkuð sem leiddi til uppsaganar. Ekki skal það mál rakið hér. Aðeins bent á það sem við höfum áður um það skrifað.
Þegar Sólveig Anna sagði af sér sem einn af þremur varaformönnum ASÍ var kjörinn annar í staðinn, Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, einn dyggasti liðsmaður Gylfa Arnbjörnssonar og gömlu verkalýðshreyfingarinnar sem vill áköf endurvekja SALEK-samkomulagið í formi «Grænbókar». Í tengslum við kjör Halldóru hefur Stundin það eftir Sólveigu Önnu að «Halldóra hafi efnt til leynifundar í febrúar síðastliðnum þar sem fimmtán formönnum aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins hafi verið boðið og umræðuefnið hafi verið hvernig hægt væri að styðja við áframhaldandi vinnu við Grænbókina, án þess að taka þyrfti tillit til sjónarmiða þeirra sem andvígir væru henni innan Starfsgreinasambandsins. Sólveigu Önnu hafi ekki verið boðið á þann fund, þrátt fyrir að hafa á þeim tíma verið varaformaður Starfsgreinasambandsins.»1
Nei, ekki skal rekja hér klögumálin í Eflingu sem ganga á víxl. Það er heift í málinu og ekki spöruð sterku meðulin. Ég kýs hins vegar að líta á átök milli róttæku forustunnar og skrifstofuliðsins í stærra samhengi stéttabaráttunnar. Þá þarf m.a.s að grípa til svolítið fræðilegrar greiningar: Í þróuðum auðvaldsþjóðfélögum (sem komin eru á einokunarstig, ályktaði Lenín 1915) hefur auðvaldið í samvinnu við «hægfara» verkalýðsflokka byggt upp skrifstofuveldi utan um stéttasamvinnuna. Þessi þjóðfélagshópur hefur margs kyns fríðindi og forréttindi og tekur að sér að «annast» verkefni launþegahreyfingar og kjarabaráttunnar. Það má lýsa honum sem «uppkeyptum» hópi og efri hluti hans er mun nær auðstétt en verkafólki að þjóðfélagsstöðu. Starfshættirnir hans eru aðlagaðir langtíma stéttasamvinnu. Vegna þjóðfélagsstöðu sinnar vill hann ekki mikil «læti», vill t.d. alls ekki að verkafólk taki kjaramálin mikið í eigin hendur, það er ógn við stöðu hans sjálfs. Ekki vill hann «pólitík» heldur því verkalýðshreyfingin á fyrst og fremst að vera stofnun innan ríkjandi þjóðfélagskerfis.
Ég hef lengi aðhyllst slíka greiningu á stöðu og hlutverki þess sem oft er nefndur «verkalýðsaðall». Og mér finnst að heift og ósáttfýsi a.m.k. hluta af skrifstofuliði Eflingar í garð nýju forustunnar frá 2018 sé staðfesting á að slík greining hafi mikið til síns máls. Heiftin stafar m.a. af því að «nýir vendir» róttæklinga ógna sérhagsmunum fólks í skrifstofubákninu og öllu starfsumhverfi. Valdabandalög og samtrygging í hreyfingunni/stofnuninni bætast þar við.
Endurkoma og mikið í húfi
Síðan er blásið er til stjórnarkjörs í Eflingu á ný. Framboðin urðu þrú. Skömmu áður en framboðsfrestur rann út steig Sólveig Anna fram á ný, nú í forustu fyrir Baráttulistanum. Ásamt Michael Braga Whalley skrifar hún grein á Vísi, og tilgreinir ástæður framboðs: einkum og sér í lagi góðan árangur hennar og hennar fólks í að reka og skipuleggja hagsmunabaráttu. Aðferðir og tól baráttusinna hafa virkað vel fyrir hina mörgu félagsmenn. Þau skrifa:2
„Stærsti lærdómurinn af baráttu Eflingarfélaga síðan 2018 er þessi: Árangur í kjarabaráttu næst þegar félagsfólk sjálft er fjölmennt, stendur saman og þorir að stíga fram. Við viljum taka sæti í stjórn Eflingar til að standa vörð um þessi beittu og máttugu vopn. Reynslan hefur sýnt að þessi vopn skila okkur árangri og þau má aldrei taka af okkur. Þess vegna bjóðum okkur fram til stjórnar Eflingar með félögum okkar á B-listanum í komandi stjórnarkosningum.“
Endurskipulagning baráttuaflanna í Eflingu er afar mikilvæg. Bæði fyrir félagsfólk Eflingar og fyrir hið brýna og breiða endurreisnarstarf í verkalýðshreyfingunni. Endurkomu Sólveigar Önnu og félaga er tekið með talsverðum skítmokstri úr ráðandi fjölmilum og líka með leðjuaustri úr skrifstofuveldi alþýðusamtakanna. En endum þetta á að tilgreina viðbrögð tveggja lykilmanna í verkalýðsbaráttunni.
Ragnar Þór Ingólfsson bloggar:
„Stórfréttir innan verkalýðshreyfingarinnar. Sólveig Anna tilkynnir framboð til formanns Eflingar… Eftir brotthvarf Sollu úr formannsstóli Eflingar myndaðist tómarúm innan hreyfingarinnar. Tómarúm sem virðist hafa glætt nýju lífi í SALEK samkomulagið sem er ætlað að draga úr vægi verkalýðshreyfingarinnar og getu hennar til að sporna við yfirgangi fjármagns og valda í íslensku samfélagi. Fyrsti vísirinn er nú þegar að raungerast með meingölluðum starfskjaralögum sem fela í sér mikla afturför í réttargæslu fyrir vinnandi fólk og stjórnarsáttmála sem felur í sér að færa völd frá stéttarfélögum til ríkissáttasemjara… Ég fagna framboði Sólveigar og hennar flotta og kraftmikla fólki.“
Vilhjálmur Birgisson, hinn staðfasti formaður Verkalýðsfélags Akraness, skrifar um framboð Sólveigar Önnu: 3
„…höfum við verið 100% samherjar í að hafna öllum áformum sem lúta að svokölluðu Salek samkomulagi sem byggist á að skerða og takmarka frjálsan samnings- og verkfallsrétt launafólks eins og áður hefur komið fram. Trúið mér það er raunveruleg hætta á að slíkt gerist og því skiptir máli að hún fái góða kosningu… Eitt verður ekki tekið af Sólveigu Önnu að hún er gegnumheil hugsjónarmanneskja er lýtur að því að vilja berjast til síðasta blóðdropa við að bæta og lagfæra kjör lágtekjufólks. Henni tókst á þessum árum sem hún var formaður Eflingar að vekja þetta stóra og öfluga stéttarfélag af þyrnirósa svefni og gerði það að alvöru stéttarfélagi, um það er ekki einu sinni hægt að deila!“