Sigur Eflingar
—
„Við lítum á þessa umframhækkun sem viðurkenningu á okkar málflutningi og kröfum um að sögulega vanmetin kvennastörf þurfi einfaldlega á þessari leiðréttingu að halda." Í viðtali við RÚV var Sólveig Anna Jónsdóttir Eflingarkona fegin og ánægð eftir undirritun kjarasamnings Eflingar – stéttarfélags og Reykjavíkurborgar þann 10. mars, eftir meira en mánaðarlangar verkfallsaðgerðir félagsmanna.
Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Sem er umtalsverður ávinningur miðað við þau 90 þúsund á lægstu laun sem um var samið í Lífskjarasamningunum. Efling hélt því alla tíð stíft fram að þörf væri á „sérstakri kjaraleiðréttingu vegna lágra heildarlauna, álags og kynbundins misréttis sem Eflingarfélagar hjá borginni búa við.“
Auk þessarar hækkunar var samið um styttingu vinnuvikunnar í takt við það sem gert hefur verið hjá öðrum hópum undanfarið. Vinnuvika vaktavinnufólks fer niður í 36 tíma og 32 tíma hjá þeim sem ganga vaktir allan sólarhringinn, leikskólastarfsfólki eru tryggðir 10 yfirvinnutímar á mánuði í formi sérgreiðslu, auk þess sem námskeiðum og fræðslu er gefið aukið vægi í launum og fleira mætti telja. Samningurinn nær til um 1.850 starfsmanna borgarinnar.
Á heimasíðu Eflingar 10. mars stóð skrifað: „Hart var tekist á í samfélagsumræðunni um kjaradeiluna. Valdamiklir sérhagsmunaaðilar á borð við Samtök atvinnulífsins leituðust við að kveða niður baráttu Eflingarfélaga með greinaskrifum, pöntuðu efni í fjölmiðlum og auglýsingaherferðum. Kannanir sýndu hins vegar eindreginn stuðning almennings við baráttu Eflingarfélaga, þar með talið verkfallsaðgerðir.“
Enn fremur var þar eftirfarandi haft eftir Sólveigu Önnu formanni eftir undirritunina: „Áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, stigu fram með sjálfsvirðinguna að vopni og skiluðu skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra… Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman. En Eflingarfélagar hjá borginni hafa fært valdastéttinni og raunar samfélaginu öllu fréttir; þegar verkafólk kemur saman í krafti fjöldans, samstöðunnar og baráttuviljans þá stöðvar það ekkert. Eflingarfélagar hjá borginni hafa skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu.“ https://efling.is/2020/03/10/sigur-i-sogulegri-kjaradeilu-vid-reykjavikurborg/
Sögulegt vægi
Í fyrri grein Neista um verkfallið þann 3. mars var slegið föstu að „verkfall Eflingar [er] mikilvægt brautryðjendastarf og sögulegt frumkvæði“ og að mikilvægasti sannleikur málsins væri að „baráttan borgar sig“. Það á enn frekar við nú þegar það liggur fyrir að verkfallið skilaði sigri. „Sögulega vanmetin kvennastörf“ fá leiðréttingu eins og Sólveig Anna segir.
Skipulagsleg hlið málsins er þó jafnvel enn þungvægari, og hefur líka sögulega þýðingu. Nokkrir hópar láglaunafólks og stéttarfélag þess tók hér mál sín í eigin hendur og knúðu fram sigur treystandi alfarið á eigin samtakamátt. Á meðan á verkföllunum stóð hélt Efling fjölda baráttufunda með virkri þátttöku félagsmanna sem stóðu þétt að baki forustunni, við verkfallsvörslu og annað tilheyrandi. Mikil samstaða, mikil þátttaka og mikill baráttuvilji félagsmanna og stuðningsfólks var það sem réði úrslitum.
Stuðningur frá stofnunum verkalýðshreyfingarinnar hefur hins vegar harla lítill verið. En sigur vannst engu að síður. Samningur Eflingar kemur eftir áratuga lágdeyðu og undanhald í kjarabaráttunni – alveg sérstaklega á almenna vinnumarkaðnum, þar sem samningagerðin hefur til margra áratuga verið falin vélgengu samningaferli innan sömu stofnana á forsendum stéttasamvinnu. Í því samhengi var mikið nýjabrum á þessari nýafstöðnu launadeilu.
Það er varla hægt að segja að þessir umræddu borgarstarfsmenn séu í einhverri kjöraðstöðu til að skapa þrýsting á vinnuveitanda sinn (borið saman við flugvirkja eða starfsmenn í keraskála álvers á uppgangstímum, til dæmis), en fyrir utan dýrmætan kjaralegan ávinning Eflingarfólks er Eflingaverkfallið merki um að meðal láglaunaðara hópa launafólks sé nú vakning til nýrrar og harðskeyttari kjarabaráttu. Manni leyfist að vona að það verði, með orðum Sólveigar Önnu „nýr kafli í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu“.