RÚV sagði ekki frá tengslum við Bandaríska herinn

Andri Sigurðsson
19. janúar, 2026

RÚV helgaði nýlega innslag í kvöldfréttum skoðanakönnun The Economist sem fullyrti að í Venesúela væri víðtækur stuðningur við hernaðaríhlutun Bandaríkjanna og kynnti niðurstöðurnar sem staðreyndir. Það sem áhorfendum var ekki sagt er að fyrirtækið sem framkvæmdi könnunina hefur fengið yfir 5 milljónir dala frá bandaríska hernum síðan 2017 og rannsókn Wall Street Journal leiddi í ljós innri skjöl fyrirtækisins þar sem lögð var til aðstoð við upplýsingaaðgerðir fyrir bandarískar sérsveitir – hernaðarhugtak yfir það að móta skoðanir og skynjun almennings í löndum sem aðgerðirnar beinast gegn.

Könnunin, sem The Economist pantaði og gagnafyrirtækið Premise framkvæmdi, náði til 600 svarenda í gegnum snjallsímaforrit eingöngu og var framkvæmd 6 til 10 dögum eftir ránið á forseta landsins, Nicolas Maduro. Engar upplýsingar aðrar en kyn og aldur fylgdu niðurstöðum könnunarinanr og því er ekki hægt að staðfesta dreifingu svarenda eftir búsetu eða stétt. Könnunin kemur í kjölfar áratuga einhliða og ólöglegra viðskiptaþvingana Bandaríkjanna gegn Venesúela. 

Úr kvöldfréttum RÚV 16. janúar 2026



Könnunarfyrirtæki fjármagnað af hernum

Rannsókn Wall Street Journal árið 2021 leiddi í ljós innri skjöl frá Premise þar sem fjallað er um hvernig starfsmenn eigi að „hylma yfir raunverulegan tilgang“ ákveðinnar gagnasöfnunar aðgerða fyrirtækisins en snjallforrit fyrirtælkisins byggir meðal annars á því að notendur fái greitt fyrir að leysa margskonar verkefni líkt og að taka myndir og svara spurnignum. Fyrirtækið réði að auki Chertoff Group sem er undir forystu fyrrverandi innanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Michaels Chertoff, sem ráðgjafa.

Þetta er fyrirtækið sem nú kannar hvort almenningur í Venesúela styðji hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn eigin landi. Hagsmunaáreksturinn verður ekki mikið augljósari.

Aðferðafræði könnunarinnar vekur upp frekari spurningar. Niðurstöðurnar eru aðeins gefnar eftir aldri og kyni, ekki eftir svæðum eða búset, eða félagslegri stöðu. Fátækir og eldri landsmenn án snjallsíma gætu hafa verið útilokaðir frá könnun sem framkvæmd var í gegnum snjallsíma eingögnu. Þetta eru einmitt þeir íbúar sem verða fyrir mestum áhrifum af viðskiptaþvingunum og eru síst líklegir til að njóta góðs af erlendri íhlutun. Þá hafa spurningarnar í könnuninni ekki verið birtar svo hægt sé að sjá.


Niðurstöður stangast á

RÚV fullyrti að auki að almenningur í Venesúela vilji frekar friðarverðlaunahafa Nóbels, Maríu Corina Machado, sem forseta en hún hefur nú gefið Donald Trump verðlauningripinn. Skoðanakönnunum frá mismunandi fyrirtækjum ber ekki saman um stuðning við Machado en stór munur er á niðurstöðum eftir því hver framkvæmir þær.

Könnunarfyrirtæki með tengsl við stjórnina, eins og Hinterlaces og DataViva, greina frá því að stjórnarandstöðuleiðtoginn Machado hafi aðeins 9 til 11 prósent stuðning. Fyrirtæki sem styðja stjórnarandstöðuna, eins og Meganálisis og Panterra, sýna hins vegar hið gagnstæða að hún hafi 70 til 78 prósent stuðning. Datanálisis, sem Wall Street Journals sagði árið 2019 vera virt fyrirtæki á sínu sviði, skráði 18,6 prósent stuðning og 64,6 prósent andstöðu við Machado.

Hver hefur rétt fyrir sér? Heiðarlegra hefði verið fyrir RÚV að sýna niðurstöður frá báðum hliðum í stað þess að byggja umfjöllun sína eingögnu á einu fyrirtæki og fyrirtæki með augljós tengsl við Bandarísk hernaðaryfirvöld.


Að framleiða samþykki

Kannanir sem þessar geta virkað sem tæki til að skapa samþykki og lögmæti fyrir íhlutunum Bandaríkjanna líkt og dæmi eru um frá Írak, Líbýu og Sýrlandi þar sem umdeild gögn eru kynnt sem staðreyndir.

The Economist pantaði þessa könnun frá fyrirtæki með skjalfest tengsl við bandaríska herinn, sem hafði að auki lagt til aðstoð við upplýsingahernað sama hers, og sem framvæmd var með ógagnsæjum og gagnrýnisveðrum hætti. Á sama tíma er könnunum frá aðilum með tengsl við stjórnvöld sem sýna gagnstæðar niðurstöður hafnað og þær ekki birtar áhorfendum.

Að kynna þessa könnun sem staðreyndir er í besta falli vanræksla, í versta falli dæmi um vangetu Íslenskra fjölmiðla við að fjalla um utanríkismál án þess að styðja og breiða út áróður vestrænna ríkissjtórna gangrýnislaust. Áróður sem þjónar hagsmunum sem hafa lítið að gera með að upplýsa íslenskan almenning en allt að gera með að framleiða samþykki og lögmæti fyrir endalausum íhlutunum Bandarískrar heimsvaldastefnu. Það segir það sem segja þarf að RÚV birti fréttina sem heilagan sannleik án þess að minnast neitt á vafasaman uppruna heimildarinnar.