Rússland og Kína: meira en hagkvæmnishjónaband

4. september, 2024

Höfundur: Glenn Diesen

Kínverska vefritið TheChinaacademy.org tók þann 19. ágúst viðtal við norska stjórnmálafræðinginn og prófessorinn  Glenn Diesen, um „strategískt samstarf“ Rússlands og Kína. Viðtalið er birt stytt, aðeins svör Diesens, eins og þau væru fyrirlestur.  Hér má horfa á það 

Úkraínustríðið 2022 var ekki það sem rauf tengsl Rússlands við Vestrið. Stóra breytingin fyrir Rússland kom 2014. Tveir hlutir voru þá að gerast samtímis: Frumkvæðið að Stærri Evrópu [sbr. öryggismálahugsun Gorbasjovs um „Sameiginlegt evrópskt heimili“ og sk. „Sáttmála nýrrar Evrópu“ frá París 1990] var að deyja, dó í febrúar 2014. Og samtímis var Stærra Evrasíu-frumkvæðið að verða til.

Rússland leitaði til Vestursins en var hafnað

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að síðustu 300 árin, allt frá Pétri mikla í byrjun 18. aldar, horfði Rússland alltaf til Vestursins eftir nútímavæðingu. Í Vestrinu fór helsta tæknivæðingin fram, Vestrið drottnaði líka á höfunum og helstu samgönguæðum sem tengdu saman heiminn í efninu. Þar var líka helsta fjármálastarfsemi heims, þannig Vestrið hafði allt. Þess vegna var það svo að samþætting og aðlögun Rússslands að alþjóðlegu efnahagskerfi, framfarir landsins og nýsköpun þýddi alltaf „evrópuvæðing“ Rússlands.

Það hafa samt alltaf verið einhverjar áhyggjur og umþenkingar út af þessu í Rússlandi – sérstaklega ef þú lest Dostojevsky eða aðra 19. aldar menntamenn sem rökstuddu það að Rússland ætti kannski að horfa meira í austur.

En alla vega, eftir Kalda stríðið, héldu Rússar áfram þessari hefð að horfa til Vestursins: til að nútímavæða efnahaginn og fylgja hinni vestrænt sinnuðu stefnu. En það sem þeir fundu út var að þessari Stærri-Evrópu var hafnað. Það var það sem útvíkkun NATO þýddi, að við [Vesturlandabúar] ætluðum að búa til Evrópu án Rússlands. Og Evrópa án Rússlands breyttist fljótlega í Evrópu gegn Rússlandi. Einfaldlega af því menn  urðu þá að keppa um hvar þessi skipting Evrópu skyldi liggja í stað þess að fjarlægja hana.

Svo vandamálið fór vaxandi, og árið 2014 var árið þegar allt brotnaði. Fram að því hugsaði margur maðurinn í Rússlandi sem svo, kannski er möguleg einhver áfangaaðlögun að Vestrinu. En þegar ríkisstjórninni í Úkraínu var steypt í valdaráni voru það skýr teikn á lofti um að Úkraína myndi ekki verða brú heldur myndi hún verða víglína. Og þegar svo Rússland tók Krím til að tryggja Svartahafsflota sinn, og allar refsiaðgerðirnar komu þá urðu þeir fáu Rússar sem enn vildu þrýsta á um Stærri-Evrópu að viðurkenna að það væri algjör útópía, það myndi ekki gerast.

Dyr opnast í austri

En það sem gerðist á sama tíma, 2013-14 var að Kína byrjaði að skapa forsendur fyrir öðru efnahagskerfi sem valkosti. Kínverjar settu á flot „Belti og braut-verkefnið“ og sýndu metnað í því að taka tæknilega forustu á heimsvísu. Kína hóf einnig að tefla fram nýjum fjármálastofnunum, svo sem Asian Infrastructure Investment Bank. Við sjáum að SCO (Shanghai Cooperation Organisation) og BRICS eru vettvangar fyrir nýja heimsskipan byggða á fjölpólun: þar sem stórveldin leitast við að láta hagsmuni hvers annars harmónera í staðinn fyrir að reka drottnunarstefnu og keppa að hnattrænum yfirráðum.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir þessu af því við í Vestrinu höfum í u.þ.b. áratug spáð því að Kína og Rússland fari að berjast um Miðasíu, en það gera þau ekki. Þau hafa tilhneigingu til að aðlagast hagsmunum hvors annars, hvorugt leitar eftir yfirráðum og þannig forðast þau líka „núllsummu“-nálgun í öryggismálum [þar sem aukið öryggi eins er á kostnað annars].

Þarna var skyndilega  nýtt kerfi í mótun í Austrinu, þannig að þetta var gríðarlega mikilvægt sögulegt augnablik fyrir Rússland. Þegar landið snýr sér í austur hefur það ekki sömu sögulegu byrðar á herðum sér, það mætir heldur ekki sama fjandskap. Jafnvel sú staðreynd að Kína er stærst af þeim tveimur vinnur oft Rússlandi í vil.

Þess vegna var árið 2014 virkilega hin sögulegi tími umskipta. Það var þá sem Evrópa slengdi hurðinni í andlit Rússlands og það opnuðust aðrar dyr í austri sem var Kína og þar með fór evrasíski metnaðurinn að þróast.

Samhverft/ósamhverft samband ríkja

Aðalvandinn fyrir Rússland hefur alltaf verið óhagstætt, ósamhverft samband (asymmetric interdependence) við Vestrið. Við segjum gjarnan að gagntengsl (interdependence) séu af hinu góða, að þau skapi frið. Að vissu marki gera þau það. En í gagntengslum er annar aðilinn alltaf háðari hinum en öfugt. Það á við um ríki eins og um fólk. Ef við höfum mikið misræmi getur annar aðilinn notað það til að beita hinn pólitískum þrýsingi.

Tökum sem dæmi sambandið milli hins sameinaða Vesturs og Rússlands. Ef 90% af verslun Rússlands er háð Vestrinu en aðeins 3% af verslun Vestursins er háð Rússlandi, þá skapar þetta misræmi Vestrið er miklu minna háð Rússlandi en öfugt. Vestrið getur notað þetta til pólitískra ívilnana frá Rússlandi. Og þetta er það sem við héldum: Rússland væri háð Vestrinu um tæknibúnað, samtönguæðar, banka, gjaldeyri, tryggingastofnanir, allt. Það eina sem Evrópa var háð Rússlandi með var orka, og við gerðum síðan allt til að draga úr þeirri tengingu. Í ósamhverfu sambandi heldur sterkari aðilinn sjálfstæði sínu en nær samt áhrifum yfir hinum. Þannig voru skilyrðin fyrir Rússland.

Verða engum svona háður

Ef Rússar vildu halda pólitísku sjálfstæði sínu og öryggi og koma fram sem sjálfstætt veldi í fjölpóla heimi  þurftu þeir að fjölþætta samstarfið, fjölga samstarfsaðilum. Þeir þurfa strategískt sjálfstæði í greinum eins og tæknibúnaði, orkumálum, en þeir þurfa að fjölga samstarfsaðilum. Þetta hefur þeim ekki tekist fram að þessu. Hið æskilega væri náið samband Rússlands við Kína en líka við Indland, Íran, Kóreu, Japan, og einnig ESB, BNA þ.e.a.s. að hafa eins marga samstarfsaðila og hægt er svo engir geti kúgað það.

Að verða svona ofurháð Vestrinu eru mistök sem ég vil benda á og sem hafa reynst Rússlandi mjög hættuleg. Og ég færi rök fyrir því að það megi hafa aðgát til að endurtaka þetta ekki í Austrinu. Þannig að snúningur Rússlands í austur má ekki einfaldlega verða snúningur til Kína. Af því Kína er miklu, miklu sterkara, a.m.k. efnahagslega, en Rússland. Rússland hefur þörf fyrir flest frekar en það að verða fast í sambandi þar sem 95% af viðskiptunum þess væru bundin Kína en aðeins 2% af kínverskum viðskiptum væru háð Rússlandi. Það yrði aldrei jafnaðarsamband.

Þannig að Rússland verður að fjölga viðpskiptaaðilum sínum. Það sem hefur verið þægileg reynsla fyrir Rússa er að Kína er sátt við þetta, það reynir ekki að skemma fyrir. Þetta er nýtt fyrir Rússa. Af því að í hvert sinn sem Vesturlönd eiga samskipti við t.d. Úkraínu, Mið-Asíu, Tyrkland, Armeníu, þá er almálið alltaf að reyna að aftengja þau frá Rússum. Kína hefur aldrei reynt slíkt. Hluti af ástæðnni er að Kína er sátt við fjölpóla kerfi.

Ef Kína vildi endurskapa yfirráðakerfi sem myndi að koma í stað bandarískra yfirráða mundi það reyna að skera á tengsl Rússlands við önnur lönd og gera landið háð sér. Að Kína reynir það ekki er mjög traustvekjandi fyrir Rússa. Þetta er líka vísbending, við sjáum fjölpóla kerfi myndast þar sem Kína er vissulega hið leiðandi ríki en reynir samt ekki að drottna yfir öðrum.

Ég skrifaði fyrir nærri áratug síðan bókina: Russia’s Geoeconomic Strategy for a Greater Eurasia.Þar benti ég á að slíkt jafnræði verði að vera til staðar til að stærri Evrasía fái staðist og lifað. Eins og er eru Rússar djúpt sokknir í Kínverska samstarfið og líður mjög vel með það af því þeir halda pólitísku sjálfstæði sínu. Fyrir tíu árum var þessari bók ekkert sérlega vel tekið. Fólk sagði þá: „þetta er bara hagkvæmnishjónaband.“ „Það verður heldur aldrei nein afdollarísering.“ Slíkt hljómaði eins og vísindaskáldsaga. En nú 10 árum seinna er er þetta áttin sem hlutirnir þróast í. Ríki munu leita eftir því sem ég kalla „jafnvægissamband“ eða jafnræðissamband sín á milli [ballance of dependence].

Hnattveldi sem reynir að verja yfirráð sín

Það hefur líka orðið klisja að eitt hnattveldi (Hegemon) afhendi ekki einfaldlega og friðsamlega skikkjuna til þess næsta. Það verða venjulega átök. Ég held að Bandaríkin hafi reynt allt.  Þau reyndu mjög að spilla fyrir tækniiðngreinum Kína, t.d. tölvukubba-færiböndum, þau hafa þrýst á önnur lönd til að aftengja sig frá Kína, þau geta beitt þrýstingi varðandi samgönguæðar, aðgengi að fjármagni o.s.frv. Það er afar margt sem Bandaríkin hafa gert og reynt. En ekkert af því virkar. Þau hefðu getað reynt þetta fyrir 10-20 árum, en nú er Kína of stórt, þetta er of seint.

Það er þess vegna sem Bandaríkin halla sér að því að hervæða samkeppnina, og þess vegna eru staðgenglar þeim mikilvægir. Það þarf ekki að vera Taívan. Það geta alveg  eins verið Filipseyjar. Stór heimsveldi reyna að berjast ekki beint með eigin hermönnum sín á milli. Þú berst ekki við stórveldi eins og Rússland eða Kína með þínum eigin her. Það getur  orðið mjög eyðileggjandi, þú gætir vel tapað stríðinu, og það getur stigmagnast út í kjarnorkustríð. Þess vegna er heppilegra að berjast með staðgenglum.

Ef Bandaríkin ætla að berjast við Rússland þá eru Úkraínumenn heppilegasti aðilinn til að heyja stríðið. Gegn Kína eru hins vegar Taívan eða Filipseyjar líklegustu aðilarnir, enda er það þangað sem Bandaríkin beina nú vopnasendingum sínum og hvetja til ósáttfúsrar afstöðu þeirra til Peking. Það er áttin sem Bandaríkin stefna í.

Samkvæmt prinsippinu um „eitt Kína“ eiga Bandaríkin að takmarka samskipti sín við Taívan við efnahagsleg og menningarleg tengsl við eyjuna. Í staðinn sjáum við nú að þeir senda þangað topp-pólitíkusa sína, sem er brot. Þeir senda þangað hernaðarlega þjálfara sem er brot. Þeir reyna skref fyrir skref að rífa sundur prinsippið um eitt Kína. Þeir biðja um meiri fulltrúaþátttöku frá Taívan í alþjóðastofnunum eins og SÞ. Með því er Taívan gefin staða sem fullvalda ríki sem er ekki rétt. Friður við Kína byggist á prinsippinu um að aðeins sé til eitt Kína og Taívan tilheyri Kína. Ef við yfirgefum þá stefnu lýsum við yfir stríði.

Það er ekki Kína í hag að nota hervald gegn Taívan. Ég held að Kínverjar líti svo á að eftir því sem hagkerfi Kína vex verði það fært um á friðsamlegan hátt og með efnahagslegum aðferðum að samlaga Taívan móðurlandinu, e.t.v. með hjálp vinsamlegri stjórnvalda þar.  Eina ástæðan sem ég sé til að Kína myndi beita Taívan hervaldi er ef Bandaríkin þrýsta Taívan til aðskilnaðar. Ég held að það sé „rauða  strikið“ fyrir Kína.

Kínverjar ættu að vera varkárir af því Bandaríkin eru einmitt að leita eftir staðgengilsstríði líkt og í Úkraínu. Munum að í Úkraínu gerðist þetta sama:  Rússar réðust inn af því Bandaríkin spilltu öllum friðarsamningum. Rússar fóru inn með her sinn sem var þessi „tilefnislausa árás“. Frá fyrsta degi innrásar leituðu þeir eftir friðarviðræðum við Úkraínu sem þá hófust, en þá komu Bandaríkin og spilltu viðræðunum, af því þau vildu stríð og kusu stríð. Þess vegna segi ég að menn verði að vera varkárir, til að ganga ekki í sams konar gildru út af Taívan.

Kína og Rússland hafa ólíkt samband við Washington síðustu 30 ár. Aðstaða Kína er heppilegri. Rússar bjuggu við það að hernaðarbandalag breiddi úr sér í áföngum upp að landamærum þeirra. Þeim var aldrei boðinn status quo – urðu í staðinn að horfa á NATO marséra í rólegheitum upp að landamærum sínum, með afleiðingum sem sjá mátti fyrir. Þetta var það sem gerði nauðsynlegt fyrir Rússland að „kýla ofar sínum þyngdarflokki“ [punch above it‘s weight], jafnvel umfram það sem landið réði við í verki.

Í Kína var staðan heppilegri þar sem ekkert hernaðarbandalag marséraði á landamærunum. Og Kína forðaðist að framkalla öldugang, það kallast líka „friðsamlegur uppgangur“, að draga ekki að sér of mikla athygli, sem myndi gefa Bandaríska veldinu tilefni til að ráðast gegn Kína og berja það niður.

Þetta er m.a. það sem hefur skapað Kína og Rússlandi ólíkar brautir. En nú er Kína orðið stærra en Bandaríkin þola svo að þau verða að koma út úr skápnum svo ásarhneigð sem þau eru. Svo nú er að sjá hvernig fer.

**** 

Glenn Diesen er norskur stjórnmalafræðingur og prófessor. Hann hefur í seinni tíð vakið athygli sem þáttsstjórnandi og viðmælandi á ýmsum miðlum um alþjóðamál. M.a. miðlinum The Duran. Sérsvið hans er rússnesk utanríkisstefna og geópólitík. Mikilvægar bækur eftir Diesen um Rússland/Kína eru m.a. The Ukraine War & the Eurasian World Order (2024) og Russia’s Geoeconomic Strategy for a Greater Eurasia (2017)