Robert Skidelsky: Eftir hnattvæðingu – endurkoma fasisma og stríðs

Þórarinn Hjartarson
, 16. janúar, 2026

Við höfum oft heyrt að fyrirbærin fasismi og hernaðarstefna tengist efnahagskreppum. En þau tengjast líka þróun geopólitíkur, samkvæmt eftirfarandi grein.

 Í nóvember sl. ræddi norski prófessorinn Glenn Diesen á hlaðvarpi sínu við Lord Robert Skidelsky, sem er breskur prófessor, hagfræðingur og sagnfræðingur og einnig þingmaður í lávarðadeild breska þingsins. Þá er hann frjór höfundur bóka og víðkunnur fyrir þriggja binda ævisögu hagfræðingsins John Maynard Keynes. Það sem þeir Diesen einkum ræddu var sú tilhneiging á síðustu tveimur öldum [skeiði kapítalismans] að í kjölfar hnattvæðingar komi tími vígvæðingar, fasisma og stríðs. Hér má sjá samtalið eða lesa ritstýrðan útdrátt úr því hér að neðan.  Þ.Hj.

Glenn Diesen: Ég las eina af greinum þínum sem er meira en tveggja ára gömul en hún á að mínu mati bara sífellt betur við. Titill hennar er Globalization’s Latest Last Stand [síðasta orusta hnattvæðingarinnar]. Mér fannst það áhugaverð sýn af því upp úr 1990 sáum við kenningu Francis Fukuyama, þ.e.a.s. um „endalok sögunnar“, sem gerði ráð fyrir endanlegum sigri frjálslynds lýðræðis og frjálslynds hagkerfis – sem átti bara eftir að breiðast um allan heim, auðvitað undir forystu Bandaríkjanna. Við höfum margar kenningar, en þetta varð nánast að allsherjarsannleik [truism], þ.e.a.s. við erum með heila stjórnmálastétt sem hefur vaxið upp síðustu 30 árin við þessa sannfæringu. Nú virðist hins vegar þetta hafa runnið sitt skeið, og það virðist vera einhver ringulreið um það hvernig eigi að takast á við það, af því þetta var ekki bara líkan heldur heil heimsmynd sem hefur hrunið.

Góður upphafspunktur samtals gæti verið það atriði að þetta var ekki fyrsta bylgja hnattvæðingar. Við höfðum upprunalega hnattvæðingu á 19. öld, en sáum svo líka endalok hennar. Hvernig dregur þú upp hliðstæður milli þessara tveggja tímabila hnattvæðingar?

Pax Britannica frá Napóleon til 1914

Robert Skidelsky: Ja, ein leið til að draga fram hliðstæður er að skoða hvaða veldi hafði drottinvald (hegemony). Það er eitt af mjög mikilvægum atriðum sem Friedrich List, hinn mikli þýski talsmaður verndarstefnu á 19. öld, benti á. Það voru önnur atriði sem hann nefndi, en þetta er það mikilvægasta fyrir mér, þegar hann sagði að fríverslun byggðist á öryggi, eða með öðrum orðum á friðsamlegum aðstæðum. Það er erfitt að tryggja frið í heimskerfi vegna þess að við höfum enga heimsstjórn sem tryggir frið. En það hafa löngum verið til staðgenglar heimsstjórnar, og þeir eru þekktir sem ríki drottinvalds (hegemon). Á 19. öld, þegar þessi mikla útbreiðsla hnattvæðingar átti sér stað, var eitthvað til sem kallaðist „Pax Britannica“. Og Pax Britannica veitti í raun friðartryggingu á mörgum af þeim viðskiptaleiðum sem voru að þróast milli Evrópu og Asíu, Evrópu og Bandaríkjanna og Rómönsku Ameríku. En kerfið brotnaði síðan niður vegna þess að það birtist áskorun við það, frá Þýskalandi. Og þá kom fyrri heimsstyrjöldin.

1918 – 1945, millibilsástand án drottinvalds, hnignun fríverslunar

Og á millistríðsárunum var ekkert ríki með drottinvald (hegemony).  Eins og Charles Kindleberger orðaði það: Bretar gátu ekki lengur haft drottinvald og Bandaríkin vildu það ennþá ekki. Þannig að við fengum þetta millibilsástand, og þá hnignaði fríversluninni.

Stytt og samandregið segir Skidelsky eftirfarandi: Sérstaklega áratugurinn frá 1930 til 1940 einkenndist af brotthvarfi frá hnattvæðingu og fríverslun: við fengum í staðinn blokkamyndanir, tollastríð, efnahagslega þjóðernishyggju, hernaðarstefnu, fasisma. Gyðingaandúðin og nasisminn notuðu ekki síst þau rök að alþóðlegt fjármálakerfi væri að miklu leyti gyðinglegt. Efnahagsleg þjóðernishyggja þróaðist auðveldlega yfir í gyðingaandúð, og þjóðernissósíalistar tengdu saman yfirþjóðlegan cosmópólitanisma og hið gyðinglega. Efnahagsleg þjóðernishyggja kom sem náttúruleg viðbrögð við hnattvæðingu. Og við verðum alltaf að muna eitt: að fjórði áratugurinn endaði með heimsstyrjöld.

Skidelsky heldur áfram: Svipað á sér stað nú á dögum. Ekki í formi gyðingaandúðar, frekar andúð gegn innflytjendum. Og það er ákveðinn fjandskapur gegn yfirþjólegri elítu líka – sem sést i málflutningi Trumps forseta – sú elíta er óþjóðleg og hefur útvistað framleiðslunni, en það á að flytja hana aftur heim [sbr. „America first“].

Kaldastríðið með bandarískt drottinvald, skilyrt þó

Eftir seinni heimsstyrjöld bundu margir vonir við að Sameinuðu þjóðirnar, með sín alþjóðalög og sérstaklega Öryggisráðið, yrðu eins konar heimsstjórn, en það rifnaði með upphafi Kaldastríðsins. Skidelsky fer hratt yfir sögu Kaldastríðsis:  

Það var í meginatriðum tími bandarísks drottinvalds, með Bretton Woods peningakerfinu, með dollarann sem gjaldmiðil heimsviðskipta og með „reglubundnu kerfi“ (rules based order). Efnahagslegir yfirburðir Bandaríkjanna á eftirstríðsárum voru gríðarlegir [Bandaríkin réðu yfir 50% af samanlagðri landsframleiðslu heimsins 1945] og pólitísk yfirtök þeirra sömuleiðis. En hnattvæðingin takmarkaðist samt mjög af aðstæðum kalda stríðsins, viðskipti og verslunarleiðir voru háðar samkomulagi stórvelda og skilyrtar af gagnkvæmum hótunum. Hagfræði og geopólitík höfðu áhrif hvort á annað.

Fukuyama-augnablikið eftir 1990

Robert Skidelsky: Síðan, eins og þú sagðir réttilega, fengum við „Fukuyama-augnablikið“ þegar draumurinn varð aftur sá að bandaríska forræðisríkið yrði nú drottinvald yfir öllum heiminum, eftir að skipulögð andstaða við það [austurblokkin] var hrunin. En það reyndist líka vera rangtúlkun á tímanum, því í raun var vald Bandaríkjanna þá á niðurleið, og önnur ríki voru að rísa upp, og þess vegna fengum við smám saman fjölpóla heim. En við skilyrði fjölpólunar – nema þá ef fyrir hendi er mjög sterk samvinnutilfinning – muntu fá af-hnattvæðingu, af því þú getur ekki treyst því að framtíðin verði friðsöm. Þetta er í hnotskurn, að mínu mati, sagan sem er í gangi nú um stundir.

Af-hnattvæðing

Glenn Diesen: Það er áhugavert að styrkleikahlutföllin í heiminum, eins og þú bendir á, hafa áhrif á hversu mikil hnattvæðingin verður. Það var, að ég held, málið hjá Friedrich List að fríverslun er frábær innanlands, en þegar þú setur hana inn í alþjóðakerfið, verður að taka tillit til þess pólitíska raunveruleika að alþjóðakerfið skiptist í ríki sem þurfa að gæta eigin öryggis, þess vegna verða efnahagsleg samskipti að endurspegla hinn pólitíska veruleika.

Annars vegar sérðu að það verður til náttúrulegur aðdráttarkraftur í átt að einhvers konar drottnararíki vegna þess að eitt ríki er gjarnan leiðandi í tækni og framförum. Það er oft sama ríkið sem stjórnar verslunarleiðum, til dæmis siglingaleiðum – eins og Bretar og síðar Bandaríkjamenn gerðu – og einnig varð til náttúruleg einokunarstaða gegnum alþjóðleg bankaviðskipti, gjaldmiðil heimsviðskipta [olíudollar] og allt það. En á sama tíma sérðu að ríki vilja hafa meira pólitískt sjálfstæði, eins og þú nefndir vitnandi í Friedrich List, svo að þau vildu aftengjast, auka fjölbreytni í viðskiptum, þróa stefnumótandi sjálfsákvörðun, hafa nokkurt frelsi frá drottinvaldinu o.s.frv.    Lítur þú þá svo á, að hnattvæðing geti aðeins virkað undir „mildu“ drottnararíki/hegemón, í ætt við Pax Britannica eða Pax Americana, sjálfsöruggu og makindalegu drottinvaldi [yfirburðavaldi] sem þarf ekki að beita stjórnunarvaldi sínu með miklum þvingunum?

Robert Skidelsky: Já, ég held að það sé rétt. Sagan bendir til þess. Þetta var þekkt sem Fukuyama-kenningin, en það er líka til nokkuð sem kallast Kindleberger-kenningin (C,. Kindleberger, 1910-2003, áhrifmikill bandarískur hagfræðingur). Og það var nákvæmlega þessi röksemdafærsla, að hnattvæðing byggðist á tilvist ríkis með drottinvald. En á sama tíma: það að framfylgja drottinvaldi veikir smám saman drottnararíkið af því það þarf að skaffa og kosta innviði og almannagæði fyrir kerfið og það veikir drottinvaldið, en allir aðrir sníkja far ókeypis og þannig veikir drottnarinn sig með því að sinna skyldum sínum sem staðgengill heimsstjórnar.

Glenn Diesen: Þegar Bandaríkin voru almáttug og sjálfsörugg gátu þau tryggt þessi „almannagæði“, eins og Kindleberger hefði kallað það, þ.e.a.s. allir gátu nálgast tæknina, allir gátu reitt sig á iðnaðarkraft þeirra. Bandaríkin mundu tryggja að allir hefðu siglingafrelsi, gætu notað banka þeirra, notað SWIFT-kerfið. Allir gætu notað dollarann. Og með því að byggja upp þetta traust myndu allir þægilega aðlagast skipulagi undir forystu Bandaríkjanna, sem þeir myndu hagnast á. En eins og þú segir, þegar nýir valdakjarnar koma óhjákvæmilega fram á einhverjum tímapunkti, geta Bandaríkin ekki lengur hagað sér mildilega af því þá verður ekkert drottinvald lengur. Þannig að nú sérðu þau beita þvingunum, takmarka aðgang Kína að tækni, leggja hald á írönsk olíuskip, loka á SWIFT fyrir óvinveitt lönd, loka á banka, lögleiða þjófnað á gullforða, takmarka notkun dollarsins… Allar þessar tilraunir tilraunir til að koma í veg fyrir uppgang keppinauta munu einungis tryggja það að umheimurinn getur ekki lifað undir bandarísku drottinvaldi lengur.  

Robert Skidelsky: Já, ég er sammála. Hér er tvennt í gangi. Annað virðist mér óhjákvæmilegt: að veldi rísa og falla. Það er ekki hægt að gera mikið við því. Það er afleiðing hagvaxtar, afleiðing hugmynda og svo framvegis. Þannig að Kína er þarna sem eitt af leiðandi stórveldum. Og það hlaut að gerast. Það þýðir að yfirráð Bandaríkjanna yfir öllu kerfinu hlutu að veikjast, það er óhjákvæmileg staðreynd. Svo er hitt: við ættum að sætta okkur við það á friðsamlegan hátt. Ekki með stríðsátökum. Það er sjálfskaparvíti. Ég meina, sjálfskaparvítis-hlutinn er sá að við höfum flýtt fyrir þessu ferli með því að beita efnahagsþvingunum á þau lönd sem við lítum á sem mögulega eða raunverulega óvini, og það hefur flýtt fyrir upplausn alþjóðakerfisins og gert það miklu erfiðara að ná samkomulagi um samvinnu milli stórveldanna, samvinnu um framtíð kerfisins, hvernig það ætti að þróast, það brýtur upp Alþjóðaviðskiptastofnunina, það brýtur upp SWIFT-kerfið, það setur á verndartolla, það verður að vernda aðfangaleiðir sínar, það má ekki selja mögulegum óvinum tækni. Þannig að það raskar öllu kerfinu um „hlutfallslegra yfirburð“ [hugtak frá Adam Smith] sem fríverslunin sem efnahagskerfi hvílir á. Við stefnum í þessa átt.

Samtímis kemur vígbúnaðurinn

Að mínu áliti er þetta algjörlega skelfilegt af því samsvörun þessa innanlands er vígbúnaður, vígbúnaður Evrópu og annarra landa til að þróa hinar innlendu framleiðslulindir vopnanna sem við munum þurfa í hugsanlegri orrustu við óvini okkar. Þennan vígbúnað kalla ég hernaðarlegan keynesisma.

Hernaðarlegur keynesismi er í uppsiglingu. Menn kalla það aldrei keynesisma. En Eisenhower forseti lýsti því mjög nákvæmlega árið 1961 sem Heriðnaðar-samstæðunni [Military Industrial Complex]. Og hann varaði við þessu í síðustu ræðu sinni sem forseti. Og við erum að fá vaxandi heriðnaðar-samstæðu. Ef við fáum heriðnaðar-samstæðu, þá er það andstætt fríverslun.

Glenn Diesen: Það er það sem gerir nútímann svo skelfilegan, þú getur séð hvernig þetta virkar með því að horfa aftur til 19. aldar, þ.e.a.s. valdajafnvægið sem gerði hnattvæðingunni kleift að virka friðsamlega hverfur nú líkt og það gerði 1914. Þannig að þú sérð endurvakningu iðnaðarsamkeppni til að berjast um heimsframleiðsluna,  Kína gegn Bandaríkjunum, og svo sérðu þetta auðvitað snúast yfir í endurhervæðingu, og þá breytist orðræðan. Þú sérð þetta í Evrópu núna. Við erum að fara í hernaðarlegan keynesisma. Það sést engin skilningur á því hvers vegna hnattvæðingin er að líða undir lok. Í staðinn eru það alltaf þessar einföldu lausnir, vondur maður birtist í austri, svo að við þurfum bara nóg af vopnum til að tortíma honum, og þá verður allt gott á ný! Auðséð hvert stefnir. Og af þessari ástæðu: telur þú þá að einpóla augnablikið og bandaríska drottinvaldið, sem og hið víðtækara frjálslynda alþjóðahagkerfi, hafi í raun aldrei verið sjálfbært?

Robert Skidelsky: Ég er sammála, það var aldrei sjálfbært. Það var sjálfbært vegna valds, ekki vegna hugmynda. Hugmyndirnar urðu aldrei algildar, en valdið var algilt, drottinvaldið. Þegar því valdi fór hins vegar að hnigna, þá kom skorturinn á sjálfbærni í ljós.

Viðtalið birtist á hlaðvarpi Glenn Diesens 15. nóvember 2025