Rangsnúin túlkun Trumps á tollasögu Bandaríkjanna
—
Tollapólitík Donalds Trump’s hefur valdið uppnámi á mörkuðum, jafnt meðal bandamanna hans og óvina. Öngþveitið endurspeglar þá staðreynd að meginmarkmið hans var ekki tollapólitík heldur einfaldlega það að forðast tekjuskatt á hina auðugu og fá í staðinn tolla sem helstu ríkistekjulind. Að þvinga fram efnahagslegar ívilnanir frá öðrum löndum er hluti af réttlætingu hans á skattbreytingunni og að hún bjóði með því upp á þjóðarhagsbætur fyrir Bandaríkin.
Yfirskin hans er, og jafnvel trú hans líka, að tollarnir í eigin krafti endurreisi bandarískan iðnað. En hann hefur enga áætlun um að takast á við vandamálin sem til að byrja með ollu bandarískri afiðnvæðingu. Ekki er heldur fyrir hendi viðurkenning á því hvað gerði hina upprunalegu Bandarísku iðnvæðingu svo árangursríka. Sú pólitík byggðist á hækkandi einka-iðnfjárfestingum og hækkandi launum, vörðum af tollum og sterkri opinberri reglusetningu. Stefna Trumps að skera niður og brenna er hið andstæða – að minnka hið opinbera, veikja opinbera reglusetningu, selja opinbera innviði til að hjálpa til við að borga fyrir lækkun skatta á stétt styrktaraðila hans.
Þetta er bara nýfrjálshyggjustefnan í öðru gerfi. Trump mistúlkar hana og rangfærir sem stuðning við iðnað, ekki hið gagnstæða. Leikur hans er alls ekki nein iðnaðaráætlun heldur valdatafl til að pressa út efnahagslegar ívilnanir frá öðrum löndum meðan hann sker niður skatta á hina auðugu. Beinu afleiðingarnar verða umfangsmiklar atvinnuuppsagnir, fyrirtækjalokanir og verðbólga á neysluvörum.
Inngangur
Hin ótrúlega iðnvæðing Bandaríkjanna frá lokum borgarastyrjaldarinnar fram að upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar hefur alltaf verið vandræðaleg fyrir hagfræðinga frjálsa markaðarins. Velgengni Bandaríkjanna fylgdi nákvæmlega öfugum stefnum miðað við þær sem núverandi hagfræðikenningar mæla með. Munurinn er ekki aðeins verndartollar annars vegar og fríverslun hins vegar. Bandaríkin sköpuðu blandað hagkerfi hins opinbera og einkageirans þar sem opinberar innviðafjárfestingar voru þróaðar sem „fjórði framleiðsluþátturinn“, ekki til að reka arðvænlegan rekstur heldur til að veita grunnþjónustu á lágmarksverði til að niðurgreiða bæði framfærslukostnað og viðskiptakostnað einkageirans.
Rökin að baki þessum stefnum voru þegar mótuð á þriðja áratug 19. aldar í hinu «Bandaríska kerfi» Henry Clay sem fól í sér verndartolla, innanlandsumbætur (opinberar fjárfestingar í samgöngum og öðrum grunninnviðum) og þjóðbankastarfsemi sem miðaði að því að fjármagna iðnþróun. Bandarískur hagfræðiskóli kom fram sem vegvísir um iðnvæðingu þjóðarinnar, byggður á kenningu um hagkerfi hárra launa til að auka framleiðni vinnuafls með því að bæta allmenn lífskjör með opinberum styrkjum og stuðningskerfi.

Þetta eru ekki þær stefnur sem repúblikanar og demókratar mæla með í dag. Ef Reaganomics, Thatcherism og frjálshyggjumenn Chicago-skólans hefðu stýrt efnahagsstefnu Bandaríkjanna á síðari hluta 19. aldar, hefðu Bandaríkin ekki náð yfirburðastöðu sinni í iðnaði. Því kemur varla á óvart að verndarstefnan og rökin fyrir opinberum fjárfestingum sem leiddu iðnvæðingu Bandaríkjanna hafi verið þurrkuð út úr sögu Bandaríkjanna. Þau gegna engu hlutverki í fölskum frásögnum Donalds Trump til að kynna afnám stighækkandi tekjuskatts, niðurskurð ríkisins og einkavæðingu eigna þess.
Það sem Trump dregur fram sem aðdáunarvert í iðnaðarstefnu Bandaríkjanna á 19. öld er fjarvera stighækkandi (prógressífs) tekjuskatts og svo fjármögnun ríkisins aðallega með tolltekjum.
Þetta hefur gefið honum [Trump] hugmyndina að skipta út stighækkandi tekjuskatti sem leggst á hans eigin styrktaraðilastétt – eina prósentið sem greiddi engan tekjuskatt fyrir lögsetningu tekjuskattsins árið 1913 – með tollum sem ætlað er að leggjast eingöngu á neytendur (þ.e.a.s. launafólk). Sannarlega ný Gyllta öld! (hugtak notað um tímann 1875-1905 í Bandaríkjunum).
Með því að dást að fjarveru stighækkandi tekjuskatts á tímum hetju sinnar, Williams McKinley (kjörinn forseti 1896 og 1900), er Trump að dást að efnahagslegum öfgum og ójöfnuði Gylltu aldarinnar. Sá ójöfnuður var víða gagnrýndur sem röskun á hagkvæmni og félagslegum framförum. Til að vinna gegn þeirri spillandi og áberandi auðsókn sem olli röskuninni, samþykkti þingið Sherman-lögin gegn einokun árið 1890, Teddy Roosevelt fylgdi því eftir með aðgerðum sínum gegn auðhringum, og settur var á virkilega «prógressífur», stighækkandi tekjuskattur sem lagðist nánast eingöngu á fjármagnstekjur og einokunarrentu.
Trump er þannig að kynna einfaldaða og beinlínis ranga frásögn af því hvað gerði iðnvæðingarstefnu Bandaríkjanna á 19. öld svo árangursríka. Fyrir honum er það „gyllti“ hlutinn af Gylltu öldinni sem er frábær, ekki ríkisstýrða iðnvæðingin og félagslegu lýðræðislegu framfarirnar. Allra meina bót hans er að tollar komi í stað tekjuskatta, ásamt einkavæðingu þess sem eftir er af hlutverkum ríkisins. Það myndi gefa nýjum hópi auðjöfra frjálsar hendur til að auðgast enn frekar með minni skattlagningu og ríkisreglugerðum á þá, á sama tíma og dregið er úr fjárlagahalla með því að selja það sem eftir er af almenningseign, allt frá þjóðgörðum til póstþjónustu og rannsóknarstofa.
Hvaða stefnur leiddu hina árangursríku iðnvæðingu Bandaríkjanna?
Tollar einir og sér nægðu ekki til að skapa iðnvæðingu Bandaríkjanna, né Þýskalands og annarra þjóða sem reyndu af kappi að elta uppi/komast fyrir iðnaðarforskot og fjármálaeinokun Bretlands. Lykillinn var að nota tollvernd, nota tolltekjurnar til að niðurgreiða opinberar fjárfestingar, ásamt reglusetningu og umfram allt skattastefnu, til að endurskipuleggja hagkerfið á mörgum sviðum og móta það hvernig vinnuafl og fjármagn voru skipulögð.
Meginmarkmiðið var að auka framleiðni vinnuafls. Það krafðist sífellt hæfara vinnuafls, sem aftur krafðist batnandi lífskjara, menntunar, heilsusamlegra vinnuskilyrða, neytendaverndar og öruggrar matvælareglugerðar. Kenningin um hagkerfi hárra launa viðurkenndi, að vel menntað, heilbrigt og vel nært vinnuafl gæti undirboðið „fátækt vinnuafl“.
Vandamálið var að atvinnurekendur hafa alltaf leitast við að auka hagnað sinn með því að berjast gegn launakröfum verkafólks. Iðnvæðing Bandaríkjanna leysti þetta vandamál með því að viðurkenna að lífskjör verkafólks séu ekki aðeins afleiðing launastigs heldur einnig framfærslukostnaðar. Að því marki sem opinberar fjárfestingar, fjármagnaðar með tolltekjum, gátu greitt kostnaðinn við að uppfylla grunnþarfir gátu lífskjör og framleiðni vinnuafls batnað án þess að iðnjöfrar þyrftu að þola lækkun hagnaðar.
Helstu grunnþarfirnar voru ókeypis menntun, opinber heilbrigðisþjónusta og skyld félagsþjónusta. Opinberar innviðafjárfestingar í samgöngum (skipaskurðum og járnbrautum), fjarskiptum og annarri grunnþjónustu sem voru „náttúruleg einokun” voru einnig framkvæmdar til að koma í veg fyrir að þær yrðu að einkalénum sem sæktust eftir einokunarrentu á kostnað hagkerfisins í heild. Simon Patten, fyrsti prófessor í hagfræði við fyrsta viðskiptaháskóla Bandaríkjanna (Wharton School við Háskólann í Pennsylvaníu), kallaði opinberar fjárfestingar í innviðum „fjórða framleiðsluþáttinn“.1 Ólíkt einkafjármagni var markmið þessara fjárfestinga ekki að skila hagnaði, og alls ekki að hámarka verð eins og markaðurinn þyldi. Markmiðið var að veita opinbera þjónustu, annaðhvort á kostnaðarverði eða á niðurgreiddu verði eða jafnvel ókeypis.
Ólíkt evrópskri hefð létu Bandaríkin marga grunnþjónustu vera í einkaeigu, en settu reglugerðir til að koma í veg fyrir að einokunarrenta væri dregin út úr. Viðskiptaleiðtogar studdu þetta blandaða opinbera/einkarekna hagkerfi og sáu að það var að niðurgreiða hagkerfi með lágum kostnaði og þar með auka samkeppnisforskot þess (og þeirra) í alþjóðlegum markaði.
Mikilvægasta opinbera þjónustan, en jafnframt sú erfiðasta í innleiðingu, var peningakerfið og fjármálakerfið sem þurfti til að veita nægilegt lánsfé til að fjármagna iðnvöxt þjóðarinnar. Að skapa einkarekið og/eða opinbert pappírslánsfé krafðist þess að skipt væri út þröngri notkun á gullstöngum sem peninga. Gullstangir voru lengi notaðar sem grunnur fyrir greiðslu tolla til ríkissjóðs, sem dró þær úr hagkerfinu almennt og takmarkaði framboð þeirra til fjármögnunar iðnaðar. Iðnjöfrar mæltu með því að draga úr oftrausti á gullstangir með því að skapa þjóðlegt bankakerfi til að veita vaxandi yfirbyggingu pappírslánsfjar til að fjármagna iðnvöxtinn.2 Klassísk hagfræði leit á skattastefnu sem mikilvægasta stýritækið til að beina auðlindum og lánsfé í átt að iðnaði. Meginmarkmið stefnunnar var að lágmarka umframverð á markaði umfram raunverulegt kostnaðarverð með því að losa markaði undan rentuauðstekjum í formi landrentu, einokunarrentu og vaxta og fjármálagjalda. Frá Adam Smith í gegnum David Ricardo, John Stuart Mill, til Marx og annarra sósíalista, skilgreindi klassísk gildiskenning slíka efnahagslega rentu sem óunnar tekjur, dregnar út án þess að leggja til framleiðslu og þar af leiðandi óþarfa álögur á uppbyggingu kostnaðar- og verðs í hagkerfinu.
Skattar á iðnaðargróða og laun verkafólks bættust við framleiðslukostnað og því átti að forðast þá, en landrenta, einokunarrenta og fjármálagróði áttu að skattleggjast burt; eða að land, einokun og lánsfé gátu einfaldlega verið þjóðnýtt í almannaeigu til að lækka aðgangskostnað að fasteignum og einokunarþjónustu og draga úr fjármálagjöldum.
Þessar stefnur, byggðar á hinum klassíska greinarmun á milli innra kostnaðarverðs og markaðsverðs, eru það sem gerði iðnaðarkapítalismann svo byltingakenndann. Að losa hagkerfi undan rentuauðstekjum með harðri skattlagningu efnahagslegrar rentu miðaði að því að lágmarka framfærslukostnað og viðskiptakostnað, og einnig að minnka pólitísk völd fjármála- og landeigendaelítunnar.
Þegar Bandaríkin lögðu á sinn fyrsta stighækkandi tekjuskatt árið 1913 voru aðeins 2 prósent Bandaríkjamanna með nógu háar tekjur til að þurfa að skila skattframtali. Langstærsti hluti skattsins 1913 féll á rentuauðstekjur fjármála- og fasteignahagsmuna, og á einokunarrentuna sem auðhringarnir pressuðu út en bankakerfið skipulagði.
Hvernig nýfrjálshyggjustefna Bandaríkjanna snýr við fyrra iðnvæðingarafli landsins
Frá upphafi nýfrjálshyggjutímabilsins á níunda áratugnum hefur ráðstöfunartekjum bandarísks vinnuafls verið þrýst niður af háum kostnaði við grunnþarfir á sama tíma og framfærslukostnaður þess hefur gert það ósamkeppnishæft á heimsmarkaði. Þetta er ekki það sama og hagkerfi hárra launa. Hér koma til álögur á laun til að greiða ýmsar tegundir efnahagslegrar rentu sem hefur fjölgað og eyðilagt áður samkeppnishæfan kostnað í Bandaríkjunum. Meðaltekjur fjögurra manna fjölskyldu í dag, 175.000 dollarar, fara ekki aðallega í vörur eða þjónustu sem launþegar framleiða. Þeim er að mestu leyti veitt til fjármála-, trygginga- og fasteignageirans – og einokunarfyrirtækja efst í efnahagspíramídanum.
Skuldabyrði einkageirans ber meginábyrgð á því að núverandi laun færast frá því að hækka lífskjör og hagnaður fyrirtækja færist frá nýjum áþreifanlegum fjárfestingum, rannsóknum og framleiðsluþróun. Vinnuveitendur hafa ekki greitt starfsmönnum sínum nóg til að bæði viðhalda lífskjörum þeirra og bera þessa fjármála-, trygginga- og fasteignabyrði, sem hefur leitt til þess að bandarískt vinnuafl dregst meira og meira aftur úr.
Viðmiðunarkostnaður húsnæðis fyrir húskaupendur í Bandaríkjunum, sem hefur hækkað vegna bankalána og hækkandi skulda- og tekjuhlutfalla, er nú 43% af tekjum þeirra, sem er langt yfir fyrra staðalviðmiði sem var 25%. Alríkis-húsnæðisstofnunin tryggir húsnæðislán, til að ábyrgjast að bankar sem fylgja þessu viðmiði tapi ekki peningum, jafnvel þótt vanskil og gjaldþrot séu að ná sögulegum hæðum. Hlutfall húsnæðiseigenda féll úr yfir 69% árið 2005 í undir 63% í útburðarbylgju Obama eftir ruslveðlánakrísuna 2008. Leiguverð og húsnæðisverð hafa hækkað stöðugt (sérstaklega á tímabilinu þegar Seðlabankinn hélt vöxtum vísvitandi lágum til að blása upp eignaverð og styðja þannig við fjármálageirann, og þegar einkafé hefur keypt upp heimili sem launþegar hafa ekki efni á), sem gerir húsnæði að langstærsta útgjaldaliðnum af launatekjum.
Vanskil á skuldum eru einnig að aukast gríðarlega vegna námslána sem tekin eru til að öðlast hærra launuð störf, og í mörgum tilfellum vegna bílalána sem þarf til að geta keyrt í vinnuna. Þessu til viðbótar bætast svo kreditkortaskuldir sem safnast upp bara til að ná endum saman. Hörmung einkavædds sjúkratryggingakerfis gleypir nú 18 prósent af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna, en samt sem áður eru sjúkraskuldir orðnar ein helsta orsök persónulegra gjaldþrota. Allt þetta er þveröfugt við það sem upphaflega stefnan um hagkerfi hárra launa ætlaði bandarískum iðnaði.
Hin nýfrjálshyggjulega fjármálavæðing – fjölgun rentukrafna, verðbólga í húsnæðis- og heilbrigðiskostnaði og þörfin á að lifa á lánum umfram eigin tekjur – hefur tvenns konar áhrif. Það augljósasta er að flestar bandarískar fjölskyldur hafa ekki getað aukið sparnað sinn síðan 2008 og lifa frá launaseðli til launaseðils. Hin áhrifin eru þau að þar sem vinnuveitendur eru skyldugir til að greiða vinnuafli sínu nóg til að standa undir þessum rentukröfum, hafa framfærslulaunin fyrir bandarískt vinnuafl hækkað svo langt umfram öll önnur þjóðarhagkerfi að það er engin leið fyrir bandarískan iðnað að keppa við erlend lönd.
Einkavæðing og afreglun í bandaríska hagkerfinu hefur skyldað vinnuveitendur og vinnuafl til að bera rentukostnaðinn, þar með talið hærra húsnæðisverð og vaxandi skuldabyrði, sem eru órjúfanlegur hluti af nýfrjálshyggjustefnu dagsins í dag. Sú samkeppnishæfni í iðnaði sem hefur tapast vegna þessa er helsta hindrunin í vegi fyrir enduruppbyggingu iðnaðarins. Eftir allt saman voru það þessar rentukröfur sem afiðnvæddu hagkerfið í upphafi, gerðu það minna samkeppnishæft á heimsmarkaði og ýttu undir flutning iðnaðar úr landi (útvistun) með því að hækka kostnað við grunnþarfir og rekstur. Að greiða slíkar kröfur dregur einnig úr innlendum markaði með því að minnka getu vinnuafls til að kaupa það sem það framleiðir. Tollastefna Trumps gerir ekkert til að takast á við þessi vandamál, heldur mun hún gera þau verri með því að hraða verðbólgu.
Ólíklegt er að þessi staða breytist í bráð, því þeir sem hagnast á nýfrjálshyggjustefnu dagsins í dag – þeir sem fá þessar rentukröfur sem íþyngja bandaríska hagkerfinu – eru orðnir að pólitískum styrktaraðilaflokki [Donor Class] milljarðamæringa. Til að auka rentutekjur sínar og söluhagnað – og gera óafturkræf – er þessi endurvakta fámennisauðræði (ólígarkar) að þrýsta á um frekari einkavæðingu og sölu á opinbera geiranum í stað þess að veita niðurgreidda þjónustu til að mæta grunnþörfum hagkerfisins á lágmarkskostnaði. Stærstu opinberu almannaþjónustan sem hefur verið einkavædd er náttúruleg einokun – sem er ástæðan fyrir því að hún var upphaflega í opinberri eigu (þ.e. til að forðast rentutöku einokunar).
Yfirskinið er að einkaeignarhald sem leitast eftir hagnaði muni hafa hvata til að auka skilvirkni. Raunveruleikinn er sá að verð á því sem áður var opinber þjónusta er hækkað upp í það sem markaðurinn þolir fyrir samgöngur, fjarskipti og aðra einkavædda geira. Maður bíður spenntur eftir örlögum bandarísku póstþjónustunnar sem þingið er að reyna að einkavæða.
Hvorki aukin framleiðsla né lækkun kostnaðar er markmið núverandi sölu á eignum ríkisins. Möguleikinn á að hafa einkavædda einokun með aðstöðu til að krefjast einokunarrentu hefur leitt til þess að forstjórarnir taka lán til að kaupa upp þessi fyrirtæki og bæta þannig skuldagreiðslum við kostnað þeirra. Stjórnendurnir byrja síðan að selja fasteignir fyrirtækjanna fyrir skjótan gróða sem þeir greiða út sem sérstakan arð og leigja svo aftur þá eign sem þeir þurfa til að starfrækja fyrirtækið. Niðurstaðan er kostnaðarsöm einokun sem er mjög skuldsett með lækkandi hagnaði. Þetta er nýfrjálshyggjulíkanið allt frá dæmigerðri einkavæðingu Thames Water á Englandi til einkavæddra fjármálavæddra fyrrverandi iðnfyrirtækja eins og General Electric og Boeing.
Ólíkt uppgangi iðnaðarkapítalismans á nítjándu öld er markmiðið með einkavæðingunni á eftir-iðnaðartímabili rentufjármálakapítalisma dagsins í dag að skapa „fjármagns“-hagnað með hlutabréfum í fyrirtækjum sem áður voru í opinberri eigu en hafa verið einkavædd, fjármálavædd og afregluð. Svipuðu fjárhagslegu markmiði hefur verið fylgt á einkamarkaði, þar sem viðskiptaáætlun fjármálageirans hefur verið að skipta út sókninni eftir fyrirtækjagróða fyrir fjármagnshagnað í hlutabréfum, skuldabréfum og fasteignum.
Mikill meirihluti hlutabréfa og skuldabréfa er í eigu ríkustu 10 prósentanna, ekki neðstu 90 prósentanna. Á meðan fjármálaleg auðlegð þeirra hefur aukist gríðarlega, hafa ráðstöfunartekjur meirihlutans (eftir greiðslu rentukrafna) minnkað. Við skilyrði núverandi rentu-fjármálakapítalisma er hagkerfið að fara í tvær áttir í einu – niður á við í iðnvöru-framleiðslugeiranum, en upp á við í fjármála- og rentukröfum á vinnuafl og fjármagn þess geira.
Blandaða opinbera/einkarekna hagkerfinu sem áður byggði upp bandarískan iðnað með því að lágmarka framfærslukostnað og rekstrarkostnað hefur verið umsnúið af því sem er áhrifamesti kjósendahópur Trumps (og Demókrata líka, að sjálfsögðu) – ríkasta eina prósentinu, sem heldur áfram að leiða hersveitir sínar undir frjálshyggjufána Thatcherisma, Reaganomics og Chicago-andríkis (þ.e. andverkalýðs) hugmyndafræðinga. Þeir saka ríkisstjórnina um að stíga inn á „frjálsa markaði“ með stighækkandi tekju- og eignasköttum, fjárfestingum í opinberum innviðum og hlutverki sínu sem eftirlitsaðili til að koma í veg fyrir rándýra efnahagshegðun og pólun.
Spurningin er auðvitað „frjáls fyrir hvern“? Það sem þeir meina er markaður sem er frjáls fyrir hina ríku til að draga út efnahagslega rentu. Þeir hunsa bæði þörfina á að skattleggja eða á annan hátt lágmarka efnahagslega rentu til að ná samkeppnishæfni í iðnaði, og þá staðreynd að með því að skera niður tekjuskatta á hina ríku – og krefjast síðan þess að jafna fjárlög ríkisins eins og fjölskylduheimili til að forðast að falla enn dýpra í skuldir – sveltir hagkerfið af opinberri innspýtingu kaupmáttar. Án nettó opinberra útgjalda er hagkerfið knúið til að leita fjármögnunar til bankanna, þar sem vaxtagreiðslur af lánum þeirra vaxa veldisvíst og þrengja að útgjöldum til kaupa á vörum og raunverulegri þjónustu. Þetta eykur á launaþrýstinginn sem lýst var hér að ofan og kraft afiðnvæðingar.
Fjármálavæðingin skilyrðir afiðnvæðingu
Banvæn afleiðing allra þessara breytinga hefur verið sú að í stað þess að kapítalisminn iðnvæddi banka- og fjármálakerfið eins og reiknað var með á nítjándu öld, hefur iðnaðurinn verið fjármálavæddur. Fjármálageirinn hefur ekki úthlutað lánsfé sínu til að fjármagna ný framleiðslutæki, heldur til að taka yfir eignir sem þegar eru til staðar – aðallega fasteignir og starfandi fyrirtæki. Þetta skuldsetur eignirnar í ferlinu við að blása upp söluhagnaðinn þar sem fjármálageirinn lánar peninga til að bjóða upp verð á þeim.
Þetta ferli að auka fjármálavædda auðlegð bætir við efnahagslega byrði ekki aðeins í formi skulda, heldur einnig í formi hærra kaupverðs (uppblásið af bankalánum) fyrir fasteignir og iðnaðar- og önnur fyrirtæki. Og í samræmi við viðskiptaáætlun sína um að skapa söluhagnað, hefur fjármálageirinn leitast við að afskattleggja slíkan hagnað. Hann hefur einnig tekið forystu í að hvetja til niðurskurðar á fasteignasköttum til að skilja eftir meira af hækkandi staðsetningarverðmæti húsnæðis og skrifstofubygginga – leiguverðmæti þeirra – til að veðsetja fyrir bankana í stað þess að þjóna sem helsti skattstofn fyrir útsvör og þjóðleg (lands-) skattkerfi eins og klassískir hagfræðingar hvöttu til alla nítjándu öldina.
Niðurstaðan hefur verið breyting frá stighækkandi skattlagningu til stiglækkandi [regressive] skattlagningar. Rentutekjur og skuldafjármagnaður söluhagnaður hafa verið afskattlögð og skattbyrðin færð yfir á vinnuafl og iðnað. Það er þessi skattalega tilfærsla sem hefur hvatt fjármálastjóra fyrirtækja til að skipta út leitinni að hagnaði fyrirtækja fyrir söluhagnað eins og lýst er hér að ofan.
Það sem lofaði að verða samhljómur hagsmuna fyrir alla stéttir – sem átti að nást með því að auka auð þeirra með því að safna skuldum og horfa á verðið hækka á heimilum og öðrum fasteignum, hlutabréfum og skuldabréfum – hefur breyst í stéttastríð.
Nú er þetta miklu meira en stéttastríð iðnaðarauðmagns gegn vinnuafli sem við þekkjum best á nítjándu öld. Nútímaform stéttastríðsins er fjármálaauðmagn gegn bæði vinnuafli og iðnaði. Vinnuveitendur arðræna enn vinnuaflið með því að sækjast eftir hagnaði með því að greiða vinnuafli minna en þeir selja afurðir þess fyrir. En vinnuafl hefur í auknum mæli verið arðrænt af skuldum – húsnæðislánum (með „auðveldu“ lánsfé sem elur á skuldadrifinni verðbólgu húsnæðiskostnaðar), námslánum, bílalánum og kreditkortaskuldum bara til að mæta lágmarkskostnaði við að lifa af.
Að þurfa að greiða þessar skuldir eykur kostnað vinnuafls fyrir iðnaðarvinnuveitendur og takmarkar getu þeirra til að skapa hagnað. Og (eins og bent var á hér að ofan) það er slíkt afrán iðnaðar (og raunar alls hagkerfisins) af fjármálaauðmagni og öðrum rentusæknum aðilum sem hefur ýtt undir útvistun iðnaðar og afiðnvæðingu Bandaríkjanna og annarra vestrænna hagkerfa sem hafa fylgt sömu stefnu.3 Í algerri andstæðu við vestræna afiðnvæðingu stendur árangursrík iðnvæðing Kína. Í dag eru lífskjör í Kína, fyrir stóran hluta íbúanna, almennt jafn há og í Bandaríkjunum. Það er afleiðing af stefnu kínversku ríkisstjórnarinnar að veita opinberan stuðning við iðnaðarvinnuveitendur með því að niðurgreiða grunnþarfir (t.d. menntun og heilbrigðisþjónustu) og opinberar hraðlestir, staðbundnar neðanjarðarlestir og aðrar samgöngur, betri háþróaða fjarskiptatækni og aðrar neysluvörur, ásamt greiðslukerfum þeirra.
Mikilvægast er að Kína hefur haldið bankastarfsemi og lánakerfi í opinbera geiranum sem opinberri þjónustu. Það er lykilstefnan sem hefur gert því kleift að forðast fjármálavæðinguna sem hefur afiðnvætt Bandaríkin og önnur vestræn hagkerfi.
Mikil kaldhæðni er að iðnaðarstefna Kína er merkilega svipuð þeirri sem var í iðnvæðingu Bandaríkjanna á nítjándu öld. Ríkisstjórn Kína hefur, eins og nefnt var, fjármagnað grunninnviði og haldið þeim í opinberri eigu, veitt þjónustu þeirra á lágu verði til að halda kostnaðaruppbyggingu hagkerfisins eins lágri og mögulegt er. Og hækkandi laun og lífskjör í Kína hafa sannarlega fundið hliðstæðu sína í aukinni framleiðni vinnuafls.
Það eru milljarðamæringar í Kína, en þeir eru ekki álitnir frægar hetjur og fyrirmyndir fyrir hvernig hagkerfið í heild sinni ætti að leitast við að þróast. Söfnun áberandi stórra auðæfa eins og þeirra sem hafa einkennt Vesturlönd og skapað pólitískan styrktaraðilaflokk [Donor Class] þeirra hefur verið mætt með pólitískum og siðferðilegum viðurlögum gegn notkun persónulegra auðæfa til að öðlast stjórn á opinberri efnahagsstefnu.
Þessi virkni ríkisstjórnarinnar sem bandarísk mælskulist fordæmir sem kínverskt „einræði“ hefur tekist að gera það sem vestræn lýðræðisríki hafa ekki gert: koma í veg fyrir tilkomu fjármálavædds, rentusækins fámennisauðræðis sem notar auð sinn til að kaupa stjórn á ríkisstjórninni og tekur yfir hagkerfið með því að einkavæða ríkisstarfsemi og stuðla að eigin ávinningi með því að gera aðra hluta hagkerfisins skulduga við sig á meðan það rífur niður opinbert reglugerðakerfi.
Ekki hægt að endurreisa iðnað í bandaríska hagkerfinu nema losa það undan rentutekjum
Bein áhrif tollastefnu Trumps verða atvinnuleysi vegna röskunar á viðskiptum (til viðbótar við atvinnuleysið sem hlýst af niðurskurði hans á ríkisstarfsmönnum) og hækkun neysluverðs fyrir vinnuafl sem nú þegar er undir þrýstingi vegna fjármála-, trygginga- og fasteignagjalda sem eru fyrstu kröfur á launatekjur þess. Vanskil á húsnæðislánum, bílalánum og kreditkortaskuldum eru nú þegar í sögulegu hámarki og meira en helmingur Bandaríkjamanna hefur engan sparnað – og segir í skoðanakönnunum að þeir geti ekki brugðist við neyðartilvikum sem krefjast þess að afla 400 dollara.
Það er engin leið að ráðstöfunartekjur einstaklinga muni hækka við þessar aðstæður. Og það er engin leið fyrir bandaríska framleiðslu að forðast truflanir vegna viðskiptaröskunar og uppsagna sem munu hljótast af gríðarlegum tollmúrum sem Trump hefur hótað – að minnsta kosti þar til samningaviðræðum við hvert land fyrir sig lýkur, þar sem reynt er að ná efnahagslegum ívilnunum frá öðrum löndum í skiptum fyrir að endurheimta eðlilegri aðgang að bandaríska markaðnum.
Trump hefur tilkynnt um 90 daga hlé þar sem tollar verða lækkaðir í 10% fyrir lönd sem hafa lýst yfir samningsvilja, en hann hefur hækkað tolla á kínverskar innflutningsvörur í 145%.
Kína og önnur erlend lönd og fyrirtæki hafa þegar hætt að flytja út hráefni og íhluti sem bandarískur iðnaður þarfnast. Fyrir mörg fyrirtæki verður of áhættusamt að hefja viðskipti á ný þar til óvissa í kringum þessar pólitísku samningaviðræður hefur verið leyst. Búast má við að sum lönd noti þennan tíma til að finna valkosti við bandaríska markaðinn (þar á meðal framleiðslu fyrir eigin íbúa).
Hvað varðar von Trumps um að sannfæra erlend fyrirtæki um að flytja verksmiðjur sínar til Bandaríkjanna, standa slík fyrirtæki frammi fyrir þeirri áhættu að hann haldi Damoklesarsverði yfir höfðum þeirra sem erlendra fjárfesta. Hann gæti að lokum einfaldlega krafist þess að þau selji bandaríska hluta sína til innlendra bandarískra fjárfesta, eins og hann hefur krafist að Kína geri með TikTok.
Og grundvallarvandamálið er auðvitað að vaxandi skuldabyrði bandaríska hagkerfisins, sjúkratryggingar og húsnæðiskostnaður hafa þegar gert bandarískt vinnuafl, og vörurnar sem það framleiðir, of dýrar fyrir heimsmarkaðinn. Tollastefna Trumps mun ekki leysa þetta. Raunar munu tollar hans, með því að hækka neysluverð, auka þetta vandamál enn frekar með því að hækka framfærslukostnað og þar með verð á bandarísku vinnuafli.
Í stað þess að styðja við endurreisn bandarísks iðnaðar munu áhrif tolla Trumps og annarra ríkisfjármálastefna hans verða þau að vernda og styrkja úreldingu og fjármálavædda afiðnvæðingu. Án þess að endurskipuleggja rentusækna fjármálavædda hagkerfið til að færa það aftur í átt að upprunalegu viðskiptaáætlun iðnaðarkapítalismans með mörkuðum sem eru lausir við rentutekjur, eins og klassískir hagfræðingar og aðgreining þeirra á milli gildis og verðs, og þar af leiðandi á milli leigu og iðnaðarhagnaðar, mæltu með, mun áætlun hans mistakast að endurreisa iðnað í Bandaríkjunum. Raunar hótar hún að ýta bandaríska hagkerfinu inn í kreppu – fyrir 90% íbúanna, það er að segja.
Þannig finnum við okkur að takast á við tvær andstæðar hagfræðikenningar. Annars vegar er upprunalega iðnaðaráætlunin sem Bandaríkin og flest önnur farsæl ríki fylgdu. Það er klassíska áætlunin sem byggir á opinberum innviðafjárfestingum og sterkri ríkisreglugerð, með hækkandi launum sem varin eru af tollum sem veittu opinberar tekjur og hagnaðartækifæri til að skapa verksmiðjur og ráða vinnuafl.
Trump hefur engar áætlanir um að endurskapa slíkt hagkerfi. Þess í stað talar hann fyrir gagnstæðri hagfræðikenningu: að minnka ríkið, veikja opinberar reglugerðir, einkavæða opinbera innviði og afnema stighækkandi tekjuskatta. Þetta er nýfrjálshyggjuáætlunin sem hefur aukið kostnaðaruppbyggingu iðnaðarins og aukið ójöfnuð í auði og tekjum milli lánveitenda og lántakenda. Donald Trump rangtúlkar þessa áætlun sem stuðning við iðnað, ekki andstæðu hans.
Að leggja á tolla – á meðan nýfrjálshyggjuáætluninni er haldið áfram – mun einfaldlega vernda öldrun í formi iðnaðarframleiðslu sem er íþyngd af háum kostnaði fyrir vinnuafl vegna hækkandi innlends húsnæðisverðs, sjúkratrygginga, menntunar og þjónustu sem keypt er af einkavæddum opinberum veitum sem áður veittu grunnþarfir fyrir samskipti, samgöngur og aðrar grunnþarfir á niðurgreiddu verði í stað fjármálavæddrar einokunarrentu. Það verður gullöld með ryðbletti.
Þó að Trump gæti verið einlægur í vilja sínum til að endurreisa iðnað í Bandaríkjunum, er einbeittur tilgangur hans að lækka skatta á styrktaraðila sína, og ímyndar sér að tolltekjur geti greitt fyrir þetta. En mikil viðskipti hafa þegar stöðvast. Þegar eðlilegri viðskipti hefjast á ný og tolltekjur myndast af þeim, munu víðtækar uppsagnir hafa átt sér stað, sem leiðir til þess að viðkomandi vinnuafl fellur enn frekar í vanskil á skuldum, og bandaríska hagkerfið verður í engri betri stöðu til að endurreisa iðnað.
Hið geopólitíska sjónarhorn
Samningaviðræður Trumps við hvert land fyrir sig til að ná efnahagslegum ívilnunum frá öðrum löndum í skiptum fyrir að þau endurheimti aðgan sinn að bandaríska markaðnum munu án efa leiða til þess að sum lönd láti undan þessari þvingunaraðferð. Raunar hefur Trump tilkynnt að yfir 75 lönd hafi haft samband við bandarísk stjórnvöld til að semja. En sum Asíu- og Suður-Ameríkulönd eru þegar að leita að valkosti við Bandaríkin sem hagnýta sér það hvað önnur lönd eru þeim viðskiptalega háð til að kúga fram ívilnanir. Lönd ræða möguleika á að sameinast um að skapa gagnkvæman viðskiptamarkað með fyrirsjáanlegri reglum.
Afleiðingin, ef þau gerðu það, yrði sú að stefna Trumps yrði enn eitt skrefið í kaldastríðs-göngu Bandaríkjanna til að einangra sig frá viðskipta- og fjárfestingartengslum við önnur lönd heims, þar með talið hugsanlega við sum Evrópuríki sem annars eru fylgihnettir þeirra. Bandaríkin eiga á hættu að vera kastað aftur á það sem lengi hefur verið talið mesti efnahagslegi styrkur þeirra: geta þeirra til að vera sjálfum sér næg um mat, hráefni og vinnuafl. En þau hafa þegar afiðnvætt sig og hafa lítið að bjóða öðrum löndum nema þetta: lofa að skaða þau ekki, raska ekki viðskiptum þeirra eða leggja á þau refsiaðgerðir – ef þau samþykkja að leyfa Bandaríkjunum að vera aðalþiggjandi efnahagslegs vaxtar þeirra.
Hroki þjóðaleiðtoga sem reyna að útvíkka veldi sitt er aldagamall – rétt eins og refsinornir þeirra, sem venjulega reynast vera þeir sjálfir. Við aðra innsetningarathöfn sína lofaði Trump nýrri gullöld. Heródótos (Saga, 1. bók, 53. kafli) segir söguna af Krösusi, konungi Lýdíu um 585-546 f.Kr. í því sem nú er vesturhluti Tyrklands og Jóníska strönd Miðjarðarhafsins. Krösus lagði undir sig Efesus, Míletus og nærliggjandi grískumælandi ríki, fékk skatt og herfang sem gerði hann að einum ríkasta stjórnanda síns tíma, sem sérstaklega var þekktur fyrir gullmynt sína. En þessi sigur og auður leiddi til hroka og ofmetnaðar. Krösus beindi augum sínum austur á bóginn, metnaðarfullur um að leggja undir sig Persíu, sem var stjórnað af Kýrusi mikla.
Eftir að hafa gefið alþjóðlega Delfí-hofinu í héraðinu umtalsvert gull og silfur, spurði Krösus véfréttina þar hvort hann myndi ná árangri í þeim landvinningum sem hann hafði áformað. Véfréttin, Pýþía prestkona, svaraði: „Ef þú fer í stríð gegn Persíu, muntu eyðileggja mikið heimsveldi.“
Krösus lagði bjartsýnn af stað gegn Persíu um 547 f.Kr. Hann hélt austur á bóginn og réðst á Frýgíu, fylgiríki Persíu. Kýrus hóf þá sérstaka hernaðaraðgerð til að reka Krösus til baka, sigraði her hans, tók hann til fanga og notaði tækifærið til að leggja undir sig gull Lýdíu til að koma á fót sínum eigin persnesku gullmyntum. Þannig eyðilagði Krösus sannarlega mikið heimsveldi – en það var hans eigið.
Hverfum til nútímans. Líkt og Krösus vonaðist til að öðlast auðæfi annarra landa fyrir gullmyntir sínar, vonast Trump til þess að hnattræn viðskiptaárásarstefna hans muni gera Bandaríkjunum kleift að pressa út auð annarra þjóða og styrkja stöðu dollarsins sem heimsviðskipta-gjaldmiðils gegn viðnámsviðleitni erlendis til að aftengjast dollaranum og skapa aðrar leiðir til að stunda alþjóðaviðskipti og halda erlendum varasjóðum. En árásargjörn afstaða Trumps hefur enn frekar grafið undan trausti á dollaranum erlendis og veldur alvarlegum truflunum á aðfangakeðju bandarísks iðnaðar, stöðvar framleiðslu og veldur uppsögnum heima fyrir.
Fjárfestar vonuðust eftir því að ástandið myndi færast í eðlilegt horf þegar Dow Jones vísitalan hækkaði við frestun Trumps á tollum sínum, en féll svo aftur þegar ljóst varð að hann var enn að skattleggja öll lönd um 10 prósent (og Kína um óhófleg 145 prósent). Nú er að verða ljóst að ekki er hægt að snúa við þessari róttæku röskun á viðskiptum.
Tollarnir sem Trump tilkynnti um 3. apríl, ásamt yfirlýsingu hans um að þetta væri einfaldlega hámarkskrafa hans sem ætti að semja um á tvíhliða grundvelli við hvert land fyrir sig til að ná fram efnahagslegum og pólitískum ívilnunum (háð frekari breytingum að geðþótta Trumps), hafa leyst af hólmi hefðbundna hugmynd um reglur sem eru samræmdar og bindandi fyrir öll lönd. Krafa hans um að Bandaríkin verði að vera „sigurvegarinn“ í öllum viðskiptum hefur breytt því hvernig restin af heiminum lítur á efnahagstengsl sín við Bandaríkin. Algjörlega ný pólitísk rökfræði er nú að koma fram til að skapa nýja alþjóðlega efnahagsskipan.
Kína hefur svarað með sínum eigin tollum og útflutningshömlum þar sem viðskipti þess við Bandaríkin eru frosin, hugsanlega lömuð. Það virðist ólíklegt að Kína muni aflétta útflutningshömlum sínum á mörgum vörum sem eru nauðsynlegar fyrir aðfangakeðjur Bandaríkjanna. Önnur lönd leita að valkostum við það að vera háð Bandaríkjunum í viðskiptum og endurskipulagning á alþjóðahagkerfinu er nú í samningaviðræðum, þar á meðal til að aftengjast eru þau varnarviðbrögð að aftengjast dollaranum. Trump hefur tekið risastórt skref í átt að eyðileggingu þess sem var mikið heimsveldi.
Fótnótur – á ensku
1. The three usual factors of production are labor, capital and land. But these factors are best thought of in terms of classes of income recipients. Capitalists and workers play a productive role, but landlords receive rent without producing a productive service, as their land rent is unearned income that they make “in their sleep.”
2. In contrast to the British system of short-term trade credit and a stock market aimed at making quick gains at the expense of the rest of the economy, Germany went further than the United States in creating a symbiosis of government, heavy industry and banking. Its economists called the logic on which this was based the State Theory of Money. I give the details in Killing the Host (2015, chapter 7).
3. America’s deindustrialization has also been facilitated by U.S. policy (starting under Jimmy Carter and accelerated under Bill Clinton) promoting the offshoring of industrial production to Mexico, China, Vietnam and other countries with lower wage levels. Trump’s anti-immigrant policies playing on native Americanism are a reflection of the success of this deliberate U.S policy in deindustrializing America. It is worth noting that his migration policies are the opposite of those of America’s industrial takeoff, which encouraged immigration as a source of labor—not only skilled labor fleeing Europe’s oppressive society, but also low-wage labor to work in the construction industry (for men) and the textile industry (for women). But today, by having moved directly to the countries from which immigrants performing U.S. industrial labor previously came, American industry has no need to bring them to the United States.
4. The White House has pointed out that Trump’s new 125% tariff on China is on top of the 20% IEEPA (International Emergency Economic Powers Act) tariffs already in place, making the tariff on Chinese imports an unpayably high 145%.
Greinin birtist á vefsíðu Michael Hudson 14. apríl. Hún er hér lítillega stytt.
Michael Hudson er rannsóknarprófessor í hagfræði við University of Missouri, Kansas City og Levy Economics Institute of Bard College og víðkunnur höfundur ótal bóka.







