Öryggisógnir Íslands. Þrjár sviðsmyndir

3. apríl, 2025

Íslensk stjórnvöld ganga nú fram með mynd og frásögn af hratt vaxandi öryggisógnum á Íslandi og í okkar heimshluta, sem kalli m.a. á “endurvopnun Evrópu”.

Sama viðkvæðið er endurtekið í sífellu í nokkrum tilbrigðum – af ráðamönnum okkar og öllum stærri miðlum: “umhverfi öryggismála er gjörbreytt”, Ísland vaknar nú upp í “nýju varnarmálaumhverfi”, “gjörbreyttum heimi” eða “breyttu landslagi”. Landslagi sem er ógnvekjandi og kallar á stóraukin varnarviðbrögð

Fréttaflutningur í landinu síðustu ca. þrjá mánuði lýtur að þessu – að vekja tilfinningu þjóðarinnar fyrir óöryggi. Yfirleitt koma fréttamiðlarnir og ráðamenn sér hjá að upplýsa mikið nánar um “ógnina” sem vísað er til, hugtakið “breytt landslag” er víst mátulega dularfullt.  Undanfarna daga hafa þó verið nefnd einkum tvö dæmi um ógnir sem hægt er að tala um.

Fjöldamorði afstýrt!

Ríkislögreglustjóri blés til ráðstefnu um öryggis- og varnarmál í Reykjavík 27. mars og þar var lagt fram stöðumat um öryggisógnir á Íslandi. Karl Steinar Valson yfirlögregluþjónn vitnaði þar um áþreifanlega ógn: “fjöldamorði var hótað í Reykjavík” á síðasta ári. Hann sló föstu að hótunin sem kom frá Rúmeníu hafi haft “rússneskan uppruna”. Karl Steinar taldi að vísu að upplýsingarnar “væru falskar”, væru gabb. Hann gat sér þess til í framhaldinu að “rússnesk stjórnvöld” reyndu með þessu að “rýra trú almennings á stjórnvöldum”. Að rússnesk stjórnvöld hefðu eitthvað með málið að gera var að vísu fullyrðing sem átti eftir að sannreyna.

Þá kom til kasta RÚV, því RÚV þarf ekki miklar sannanir, nú á tímum spennuuppbyggingar. Þann 28. mars, daginn eftir öryggissmálaráðstefnuna sögðu sjónvarpsfréttir RÚV nánar frá henni og nú var ekki netgabb “Rússa” lengur gabb. Þar sagði orðrétt:

Fjöldamorð og hryðjuverk voru meðal þess sem fjallað var um á öryggismálarástefnu Ríkislögreglustjóra í gær – ógn sem  óhugnanlegt er til að hugsa að geti raungerst hér á landi en er engu að síður nokkuð sem lögreglunni tókst að afstýra á síðasta ári.

RÚV reynir að standa sig í spennubyggingunni, með krampakenndum múgsefjunarfréttum. Lögreglan afstýrði fjöldamorði! Af hverju lögreglan valdi að þegja um slíkt stórmál í eitt ár kom ekki fram. Eigum við að taka svona fréttastofu alvarlega? En sama frétt um öryggisráðstefnuna hélt svo áfram: “Hins vegar tókst þremur ríkjum að stunda hér njósnir.” Ríkin voru síðan tilgreind: Rússland, Kína og Íran. Óvinamyndin þarf að vera skýr!

Rússneska leyniþjónustan áreitti sendiráðsfólk!

Dagskipun NATO er spennuuppbygging. Og þá berast skjótlega viðeigandi kaldastríðsfréttir – frá í hitteðfyrra að vísu. Frá sendiráði Íslands í Moskvu. Breska æsifréttablaðið Daily Express flutti nýlega þær fréttir að starfsmenn íslenska sendiráðsins í Moskvu hefðu orðið fyrir “ítrekuðu og kerfisbundnu áreiti af hendi rússneskra leyniþjónustumanna”. Ekki leið á löngu áður en tveir utanríkisráðherrar okkar höfðu staðfest þetta á RÚV, Þórdís Kolbrún sagði að ekki hefði verið hægt að “tryggja öryggi sendiráðsfólks” í Moskvu. Ekkert kom fram um af hverju hún valdi að þegja um slíka hluti sumarið 2023 þegar sendiráðinu var lokað. Samkvæmt Hauki Haukssyni bárust engar kvartanir lögreglu eða yfirvöldum í Moskvu á þeim tíma. Og ennþá neita þessir tveir uitanríkisráðherrar okkar að nefna nein dæmi um mál sem hafi komið upp á.

Í Silfrinu mánudaginn 24. mars var Árni Þór Sigurðsson, síðasti sendiherrann í Moskvu kallaður til og látinn vitna. Hann var í vanda. Hann staðfesti vissulega að með innrás Rússa í Úkraínu og gagnviðbrögðum Vesturlanda hefði “orðræðan í rússneska samfélaginu breyst” og menn hefðu þar fundið “vissar breytingar gagnvart vestrænum sendiráðsmönnum”, ennfremur að “sumir upplifa þessa hluti sem mjög óþægilega”. Það hljómar sannfærandi. Hann sagðist þó ekki sjálfur hafa “upplifað ógn eða ótta” í Moskvu. Árni Þór var spurður beint út hvort þetta svonefnda áreiti hafi verið “hluti af ástæðunni fyrir því að sendiráðinu var lokað”. Árni Þór vildi ekki staðfesta það, heldur vísaði bara í þær skýringar sem gefnar voru á lokuninni á sínum tíma. Skýringarnar þá voru þessar: “rekstur þess [sendiráðsins] samræmist ekki forgangsröðun í utanríkisþjónu Íslands”.

Sendiherrann fyrrverndi reyndi augljóslega að forðast að setja blett á íslensk stjórnvöld, bera ekki upp á þau ósannindi, en gerði það samt: umkvartanir frá íslenska sendiráðinu voru sem sagt ekki “hluti af ástæðunni” fyrir lokun sendiráðsins. Það er lygi í NATO-ráðherrunum okkar, þeim fyrrverandi og núverandi. Lokun sendiráðsins var eingöngu ákvörðun íslenskra stjórnvalda út frá ”áherslum í utanríkisþjónustunni”. Frétt Daily Express er augljóslega ekki upprunninn frá íslenska sendiráðinu í Moskvu. Hún er samin að frumkvæði íslenskra stjórnvalda, mjög líklega  með milligöngu aðila í Bretlandi, væntanlega breskri leyniþjónustu – núna þegar fyrirskipun dagsins er spennuuppbygging.

Skuggafloti Rússa

NATOmálaráðherrar okkar, síðast Þorgerður Katrín, tala leyndardómsfullir um hættuna af “skuggaflota Rússa” á okkar svæði og kafbátum þeirra smjúgandi um djúpin hér um kring. Ráðherrrnir hafa þó ekki viljað benda á áþreifanleg dæmi um slíkt. Hver þessi “skuggafloti Rússa” er er raunar alveg óljóst. Albert Jónsson varnarmálasjenkó og fyrrverandi sendiherra benti á það í nýlegri grein um Grænlandsáhuga Trumps (Vísir 29. janúar) að “hernaðarumsvif Rússa hafa orðið hverfandi í nágrenni Íslands og Grænlands”.

Þær Þórdís og Þorgerður kjósa að minnast ekki á minni umsvif Rússa og nefna helst engin dæmi, svo að betur megi halda uppi spennunni. Svo segir fréttamaðurinn venjulega: “Höfum við sofið á verðinum?” og þær svara að “allir aðrir” í Evrópu bregðist nú við hinu “breytta landslagi” í öryggismálum og séu “komnir miklu lengra en við”.

Tvær ólíkar öryggismála-heimsmyndir

Hvað um þetta “breytta landslag”, er það raunverulega breytt? Já það er breytt, a.m.k. að tvennu leyti. Annars vegar er Úkrainustríðið í reynd tapað. Hins vegar vilja  ný stjórnvöld í Washington losa Bandaríkin út úr Úkraínudeilunni. Af því Trump sér af visku sinni að óráðlegt er fyrir Bandaríkin að berjast við alla andstæðinga sína í einu. Bandaríkin hafa borið uppi “aðstoðina” við Úkraínu (lagt til 80% vopnanna), en telja sig nú þurfa að bæta samskiptin við Rússland, um sinn. Af hverju? Jú, til að geta sett fókusinn, og herstyrkinn, á Kína.  Efnahagsveldið Kína er höfuðandstæðingurinn og ”mesta ógnin” við stöðu Bandaríkjanna. Varð yfirlýstur slíkur á fyrra Trumptímabili. Í þeim herbúðum gildir slagorðið: Kínverjarnir koma!

Trump og menn hans segja nú við “Evrópu”: – Rússland er þitt vandamál. Trump talar stundum um “frið”, en það meinar hann þó greinilega ekki. – Þú verður að taka við keflinu í Úkraínu – segir hann við “Evrópu” – en til þess þarftu að auka stórkostlega framlög þín til hermála. “Evrópa” kvartar hástöfum yfir þessum nýju áherslum í Washington, en gerir síðan eins og henni er sagt og setur nú stefnuna á “endurvopnun Evrópu”.

Þó að Evrópa hlýði hafa hinar nýju áherslur Bandaríkjanna leitt af sér misklíð í herbúðum NATO, og þversagnakenndar myndir af óvininum, sem sagt ruglingslega óvinamynd. Trump og hans menn hafa nú viðurkennt að Úkraínustríðið hafi frá upphafi verið staðgengilsstríð  Bandaríkjanna og NATO á móti Rússlandi, og að innrás Rússa hafi að hluta til verið viðbrögð þeirra við ögrunum vestan frá. Sem þýðir þá að grundvöllur sé fyrir samningum við Rússa, að eitthvað sé til að semja um.

“Evrópa” (ásamt Íslandi) hins vegar heldur fast við fyrri mynd og frásögn: að stríðið sé einfaldlega afleiðing af  útþenslu- og yfirgangsstefnu Pútíns, Rússarnir koma! Og svarið er, eins og áður, að vopna Úkraínu. Berjast til síðasta Úkraínumanns. Rússneski óvinurinn er ennþá ógnvænlegri en fyrr af því “Evrópa” þarf að fást við hann án bandarískrar hjálpar.

Þessi síðarnefnda óvinamynd er evrópsku elítunni nauðsynlegt verkfæri til að koma á “endurvopnun Evrópu”, breyta þarf reglum ESB um hallafjárlög, af því vígvæðingin mikla verður á lánum! Fórna þarf velferðarkerfum Evrópu og þá einfaldlega verður óvinamyndin að vera sterk og áhrifamikil.

Báðar þessar öryggismála-heimsmyndir eru falskar. Varðandi Rússa er ógnin frá þeim öll við landamæri Rússlands og stendur auk þess í beinu hlutfalli við umsvif NATO – upp við þau landamæri. Að Kína ógni Bandaríkjunum er þó vitlausari hugmynd þar sem Kína hefur ekki háð stríð við neinn í meira en hjálfa öld.

Þriðja sviðsmynd: ógnin úr vestri

NATO-kerlingarnar herskáu sem nú stýra Íslandi halda vissulega á loft evrópsku gerðinni af öryggisógn. Þær vita þó eins og við að Ísland er á áhrifasvæði Bandaríkjanna, og þær treysta skilyrðislaust á herverndarsamninginn frá 1951. Þær vita líka að sá samningur og allar breytingar á honum eru gerðar út frá hagsmunum Bandaríkjanna einum. Eins og Kveikur sýndi 1. apríl  þurftu Bandaríkin t.d. ekki einu sinni að ræða nýtt aukið athafnafrelsi sitt á Íslandi við Alþingi Íslendinga 2017, svo mikið aukatriði voru íslenkir hagsmunir í samhenginu: “Nýjasta viðbótin við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna var hvorki rædd opinberlega né birt hérlendis þegar undir hana var ritað”.

Bandarískir ráðamenn vilja af praktískum ástæðum losna með her sinn af meginlandi Evrópu. En það á hins vegar alls ekki við um Norðurslóðir. Norðurslóðir eru grundvallaratriði í vörnum Bandaríkjanna segja menn í Washington, og segja það hærra og skýrar en áður. Ásókn þeirra í Grænland eyðir öllum efa. Það er “líklega eingöngu tímaspursmál hvenær bandarískir ráðamenn munu tala um mikilvægi þess að ráða yfir Íslandi” hefur Mogginn eftir prófessor Baldri Þórhallssyni. Þarna er einmitt á ferðinni ógn við Ísland sem líklega er hreint ekkert fölsk heldur mjög raunveruleg.

Hvernig vill Þorgerður Katrín bregðast við vaxandi áhuga Bandaríkjanna á Norðurslóðum? Jú, hún vill „skjóta fleiri stoðum” undir öryggismálin með samstarfi við “Evrópu” segir hún, sem er í samræmi vup hugmyndina um „endurvopnun Evrópu“. En hún vill þó umram allt að við aukum stórlega framlag okkar í núverandi varnarsamstarfi og sýnum hinum háu vestrænu herrum að við séum “verðugur bandamaður”: Dagskrá | RÚV Sjónvarp

[sýnum] að við erum að gera það sem við getum og erum verðugir bandamenn…  Við getum þjónustað fleira en kjarnorkukafbáta… þjónustað þá meira, getum kannski séð þá leggja upp á fleiri stöðum, hugsanlega við hafnir… ef við getum sýnt fram á það að við erum t.a.m. að spara Bandaríkjunum hundruði þúsunda dollara að þurfa ekki að sigla til Skotlands eða Noregs að fá þjónustu… [við erum] klettur í Norður-Atlantshafi sem er ákveðinn útvörður fyrir bæði Evrópu og Bandaríkin þegar kemur að öryggi, Rússarnir eru ekkert hættir.

Lestu þetta aftur, góði lesandi. Finnmurðu öryggistilfinninguna? Við þurfum að standa okkur betur, segir ráðherrann, svo þeir í Washington hafi ekkert upp á okkur að klaga. Ég hef heyrt þessi viðbrögð áður. Það var daginn eftir að Trump sagðist “þurfa Grænland og Panama” þá brást danski utanríkisráðherrann Rasmussen einmitt alveg eins við, skv. CNN:

Utanríkisráðherrann sagði líka að Danmörk væri „opin fyrir viðræðum við Bandaríkjamenn um það hvernig við gætum mögulega unnið enn nánar saman en við gerum til að tryggja að fyrirætlanir Bandaríkjamanna gangi eftir.”

Öryggismálastaða okkar Íslendinga er ekki beysin, eins og sjá má hér að ofan. Stríðsæsingar og spennuuppbygging ráða för. Og þjónslundin. Staðan er að því leyti verri en oftast áður að stjórnarandstaða í utanríkismálum okkar er engin.