NATO í vígahug – Trident Juncture á Íslandi og Noregi

16. október, 2018 Þórarinn Hjartarson


Mesta NATO-heræfing við landið og á landinu síðan Kaninn fór er að hefjast: 10 herskip, 6000 sjóliðar, 400 bandarískir landgönguliðar sem æfa landgöngu á Suðurnesjum og æfa svo stríð í Þjórsárdal. Flotaæfingar NATO við Ísland eru orðnar reglulegar. Í fyrra sumar var ein slík þar sem 2-3 þúsund manns frá 9 NATO-ríkjum tóku þátt. Nú er sú tala meira en tvöfölduð. Í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Guðlaugur Þór skýrir þetta með stóraukinni umferð rússneskra kafbáta í grennd við Ísland: „jafnvel meiri umsvif en voru á dögum Kalda stríðsins“.

Kafbátaleitarsveitir NATO dvelja nú reglulega á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þar bætist við á annað eða þriðja hundrað manns sem koma þrisvar á ári vegna „loftrýmiseftirlits“. Viðveran eykst jafnt og þétt. Herstövasamningurinn við BNA er enn í gildi. Í stefnumörkun núverandi ríkisstjórnar Íslands segir: "..grunnstoðir utanríkisstefnunnar eru samstarf vestrænna ríkja, evrópskt og norrænt samstarf, aðild að Sameinuðu þjóðunum og Atlantshafsbandalaginu, varnarsamningurinn og friðar- og öryggissamstarf." Íslensk stjórnvöld taka líka fullan þátt í efnahagslegu refsiaðgerðum BNA og ESB gegn Rússum sem ég sleppi að ræða hér.

Heræfingin við og á Íslandi er einn upptaktur að gríðarlegri NATO-heræfingu í Noregi – Trident Juncture – þar sem taka þátt 50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar. Langstærsta NATO-æfing í Noregi eftir Kalda stríðið og umfangsmesta NATO-heræfing í heimi frá 2002. Noregur á landamæri að Rússlandi og Rússar (utanríkistalsmaður Maria Zakharova) hafa lýst yfir að Noregur sé með þessu að „rjúfa hið langvarandi góða nábýli við Rússland“.

Á Norðurlöndum drögumst við hægt og örugglega inn í kalt og hitnandi stríð. Noregur hefur yfirgefið NATO-skilmálana frá 1949 um að ekki yrðu leyfðar herstöðvar þar á friðartímum. Nú hafa Bandaríkin og NATO fengið tvær herstöðvar í Noregi með fasta viðveru herliðs, og Noregur er óðum að verða að framvarðstöð NATO gegn Rússum. Í farvatninu er uppsetning eldflaugaskotpalla á vegum NATO í Noregi – á norsku nefndir „rakett-skjold“ – en endanleg norsk afgreiðsla málsins hefur þó lítillega tafist. Þetta gerist samtímis því að Svíðþjóð og Finnland hafa algjörlega yfirgefið sína fyrri hlutleysispólitík, t.d. var 20 þúsund manna NATO-æfing (Aurora) í Svíþjóð í fyrra.

Hverjir valda þessum ósköpum? Jú, ástæðan fyrir öllu þessu er okkur sögð vera hin hræðilega vígvæðing Rússlands og þó einkum yfirtaka Rússa á Krímakaga 2014 – sem „breytti öllu“.

En þessi áróður er falskur. Stríðsáróður. Hver ógnar hverjum? Hver æfir stríð við landamæri hvers? Eftir að Varsjárbandalagið var lagt niður 1991 leið ekki langur tíma þar til andstæðingur þess, NATO, rúllaði sér austur sléttulöndin, allt að landamærum Rússlands. Og frá 2001 hófu NATO og Bandaríkin valdaskiptastyrjaldir í Austurlöndum nær sem þau hafa haldið úti linnulaust síðan. Þegar CIA hafði svo skipulagt valdarán í Úkraínu 2014, landi sem spannar hálf vesturlandamæri Rússlands, og NATO lýst yfir að Úkraína (og Georgía) myndu ganga í NATO, þá fyrst gripu Rússar til mótaðgerða og studdu inngöngu Krímskaga í Rússland, Krímskaga sem byggður er Rússum og hefur aðalflotastöð Rússa í suðri. Og ári síðar, 2015, hófu þeir afskipti af Sýrlandsstríðinu.

hernaðarutgjoldskifurit
Skífuritið frá SIPRI sýnir skiptingu hernaðarútgjalda milli helstu hervelda 2017.

Frumkvæðið í vígvæðingunni á öllum sviðum hafa á öllum sviðum komið vestan megin frá, og um síðir kallað á mótaðgerðir frá Rússum. Þær mótaðgerðir hafa síðan verið notaðar til að hefja á loft um allan hinn vestræna heim þá ógurlegu Rússagrýlu sem gefur gömlu Rússagrýlu Kalda stríðsins lítið eftir. Grýla þessi er sköpuð til stríðsæsinga og frekari vígvæðingar. Eftir 2014 hefur „varnarlína“ skotflauga örskammt vestan Rússlands verið byggð upp hraðar en áður, vopnaflutningar eru gríðarlegir til hinna nýju NATO-ríkja í Austur-Evrópu með tilheyrandi heræfingum undir stjórn Bandaríkjanna og NATO, mesta uppbygging herstyrks á vesturlandamærum Rússlands frá síðari heimsstyrjöld. Þeir sem fara fyrir í vígvæðingunni gegn Rússum æpa að Rússar ógni gjörvöllu Vestrinu, seilist jafnvel til valda í Bandaríkjunum!

Varðandi hina stórhættulegu vígvæðingu Rússa sem „breytir öllu“ er vert að skoða skífuritið frá sænsku rannsóknarstofnuninni SIPRI hér að ofan. Hernaðarútgjöld Rússa árið 2017 voru 8% af herútgjöldum NATO-ríkjanna. Frá árinu áður, 2016, hafði hlutur Rússa af herútgjöldum heims lækkað úr 4,1% í 3.8%. Meðan NATO-ríkin standa fyrir 55%. Þar fyrir utan eru t.d Sádar (bandamenn NATO) komnir upp fyrir Rússa. Þegar samhengi og hlutföll eru skoðuð opnum huga sést hvaðan raunverulega ógnin kemur. Sá sem æpir Úlfur! Úlfur! reynist vera úlfurinn

Trident Juncture er vestræn heimsvaldastefna á leið til stríðs. Á Alþingi Íslendinga er engin utanríkispólitísk andstaða (mögulega hjá einstaka óhamingjusömum VG-ara). Mikilvægasti stríðsæsingamiðill á Íslandi er RÚV. Hjá andheimsvaldasinnum eru verkefnin framundan ærin.