Meðan við bíðum spennt
—

Guð skipaði Gideon að fara einungis með litla hersveit ísraela gegn óvinahernum, aðeins 300 menn og aðeins vopnaða tólum til sálfræðihernaðar, hver og einn með lúður sem ætti að blása í á gefinni stund. Þetta virkaði og samblástur 300 herlúðra tvístraði óvinahernum þó hann væri af yfirburðastyrk. Mórall sögunnar var að Guð vildi sannreyna að þeir sem væru hans megin þyrftu eiginlega ekki vopn því almættið með öllum sínum styrk dygði til. Hin Guðs útvalda þjóð myndi alltaf sigra.
Í áróðursklámi vorra daga vísar Ísraelsher í þessa biblíusögu með því að nefna byrjunina á hinni „endanlegu lausn“ fyrir Gaza „Stríðsvagnar Gideons”. Aðgerðin er í sínu upphafi þessa Júróvisionhelgi. Eitthvað á annað hundrað íbúum Gaza var slátrað á fyrsta sólarhring.
Ætla má að í kvöld þegar líða tekur á úrslitakeppnina í Basel í Sviss verði gefið hraustlega í sprengjuregnið, því næturnar nýtast vel til voðaverka. Mórall biblíusögunnar hefur verið snúið á haus og í stað lúðrablásturs verður flutt ærandi tónverk innfluttra sprengja frá Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Skotmörkin eru valin með astoð reiknigetu og gerfigreindar Google og Amazon. „Óvinaherinn“ er að uppistöðu óvopnaðar konur og börn.
Ljósblossarnir munu lýsa upp himininn á sama tíma og ljósasýninginn í Basel mun trylla lýðinn í höllinni og heilla sjómvarpsáhorfendur um alla heimsbyggð. Ómur gleðinnar yfir skemmtikvöldinu mun drekkja sársaukaöskrunum í þeim sem splundrað verður á Gaza og harmagrát þeirra sem þurfa að tína saman líkamsparta barna sinna. Þegar búið er að telja eftir komandi nótt verður sigurinn mældur í barnslíkum. Sigurlagið á Gaza verður „Stríðsvagnar Gídeons“.

Ef til vill gerir „Ný dögun“, lag ísralesku söngkonunnar í Basel, gott mót – eða ekki, það skiptir engu máli fyrir Ísraelska herinn því þeim tókst ætlunarverkið og fá okkur til að horfa á skrautsýningu á meðan hann dundaði sér við að útrýma börnum í þjóðarmorði.
„Æ má maður ekki líka hafa smá gaman?“ spyr fólkið frekar fúlt yfir þessum skrifum mínum og ranghvolfir augunum yfir því að verið sé að skemma gleðina fyrir íslensku börnunum sem hafa heillast af Væb og fá auka nammi til að maula yfir sjónvarpinu. Allt snakk er á tilboði í stórmörkuðunum. Áróðurssöngkona Ísraela segir börnunum okkar að þau þurfi ekkert að hafa áhyggjur af börnum á Gaza sem hafa ekki borðað neitt dögum saman og fara svöng að sofa með nafn og númer tússað á líkamann svo að hægt sé að bæta þeim á stigatöfluna með auðkenni að morgni ef höfuðið týnist frá sundurtættum búknum.
Á Gaza er verið að útrýma kynslóðum. Ný dögun barna á Gaza er dauði á stríðsvagni Gideons með velvilja einhvers almættis sem blessar barnamorð. Við ölum okkar börn upp með þau skilaboð að þjóðarmorð sé góð skemmtun.