„Lýðræðisskjöldur Evrópu“ og málfrelsi í höftum.

29. október, 2025

Á myndinni er Clare Daly. Hún er róttæk írsk stjórnmálakona sem sat á Evrópuþinginu frá 2019-2024. Hún er meðlimur flokksins Independents 4 Change í Dublin sem var stofnaður af Mike Wallace árið 2014. Hún er andvíg hernaðarhyggju Evrópusambandsins og hefur fengið á sig ýmsa kunnuglega stimpla vegna þess og var sett á svartan lista í Úkraínu. Sjálf segir hún að það sé einungis vegna þess að hún sagði að Úkraínustríðið væri proxýstríð/ staðgengilsstríð milli Nató og Rússlands og að hún hélt því fram að Evrópa tapaði meira á viðskiptaþvingununum en Rússland. Hún hefur samt lýst því yfir að hún telji innrásina hafa brotið í bága við alþjóðalög.

Skeleggar ræður Clare Daly og Mike Wallace á Evrópuþinginu vöktu mikla athygli víða um heim vegna harðrar gagnrýni á Evrópusambandið, sérstaklega fyrir afstöðu þess til þjóðarmorðsins á Gaza. Clare fór á kostum í ræðum sínum og eirði engum né neinu sem henni fannst ögra réttlætiskennd sinni. Ýmis uppnefni eru höfð eftir Clare þegar henni var heitt í hamsi.

Clare flutti nýlega ræðu á fundi Evrópuþingmanna um lýðræði og málfrelsi sem hún nefndi „Sanctions, disinformation and the death of free speech“ (refsiaðgerðir, rangupplýsingar og dauði málfrelsis). Hún gagnrýnir þar mjög lýðræðið í Evrópu sem hún telur á fallanda fæti og málfrelsið fótum troðið þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar um hið gagnstæða.

Hún tekur þar til umræðu „The European Democracy Shield“, („Lýðræðisskjöldur Evrópu“, EUDS), hugveitu sem stofnuð var árið 2024, og fellur undir sérstaka nefnd sem heitir Special Committee on the European Democracy Shield (S & D group). Þessi nefnd átti sér forvera sem hét INGE sem stofnað var árið 2020 til að taka á samfélagsmiðlum.

Yfirlýstur tilgangur EUDS er að efla baráttuna gegn upplýsingaóreiðu að utan, samræma vinnuna gegn falsfréttum og vinna með öðrum nefndum sambandsins að því að efla upplýsingalæsi, vinna að forvörnum og koma með tillögur til úrbóta. Clare telur að þessi háleitu markmið geti eða hafi beinlínis snúist upp í andstæðu sína og séu ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.

Clare gagnrýnir harðlega þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gegn fjölþáttaógnum (hybryd sanctions) sem hún telur að séu notaðar í þeim tilgangi að þagga niður í fólki með skoðanir sem séu ekki þóknanlegar stjórnmálastefnu Evrópusambandsins. Hún gagnrýnir sérstaklega þau nýmæli að í 17. refsiaðgerðapakkanum gegn Rússlandi séu lagðar þvingunaraðgerðir á fólk fyrir „falsfréttir“ og „upplýsingaóreiðu“. Hún nefnir þar dæmi um þýskan bloggara og Tyrkja búsettan í Þýskalandi sem hafi stutt málstað Palestínu og um rússneska söngkonu sem hafi haldið tónleika á Krímskaga. Þvingunaraðgerðir gegn fólki vegna skoðana þess geti ekki samræmst lýðræðishugtakinu. Hugmyndir og orð séu gerð að vopnum gegn lýðræðinu. Aðgerðir Evrópusambandsins gegn almennum borgurum í nafni lýðræðisins sé farið að nálgast alræðistilburði. Hún gengur svo langt að segja að flest það sem sambandinu líkar ekki sé túlkað sem erlend íhlutun eða rússnesk íhlutun.

Ísland telst vera aðili að þessum þvingunaraðgerðapökkum og utanríkisráðherrar hafa skuldbundið sig til að láta allar þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins gilda hér á landi. Evrópusambandið stýrir lagakerfi sínu með því að gefa út reglugerðir og tilskipanir sem taka gildi í öllum löndum þess. Þær eru síðan líka innleiddar í löggjöf EES ríkja eftir atvikum.

Þvingunaraðgerðir Evrópusambandsins beinast gegn fólki og fyrirtækjum í mörgum löndum en síðan Úkraínustríðið hófst hafa aðgerðir gegn Rússlandi náð óþekktum hæðum og að mati sérfróðra manna skaðað Evrópulöndin miklu meira en Rússland. Þær eru mjög umfangsmiklar og nú hafa komið út 19 þvingunarpakkar sem hægt er að kynna sér á sérstöku vefsvæði Utanríkisinsráðuneytisins þar sem fjallað er um aðgerðir Íslands gagnvart Úkraínu. Einnig er hægt að fara beint inn á vefsíður Evrópusambandsins.

Í pökkunum eru settar fram ýmiss konar viðskiptaþvinganir á eldsneyti, bönn á flutningum, hafnbönn, út og innflutningsbönn, flugumferðarbönn, fjölmiðlabönn, bankaviðskiptabönn os. frv. út í hið óendanlega. Þau ná líka að hluta til Belarús (Hvítarússlands). Auðvitað eru það fyrst og fremst Rússar sem hér um ræðir en einnig aðilar búsettir í öðrum löndum sem hafa einhverja tengingu við Rússland eða aðila sem verða fyrir þvingunaraðgerðum. Clare telur að fólk verði að fara varlega við að sýna því fólki samúð því það geti þá lent í sömu sporum.

 Í 17. pakka refsiaðgerða Evrópusambandsins gegn Rússlandi er tekið á mannréttindabrotum, fjölþáttaógnum (hybrid threats) og ólöglegri yfirtöku Krímskagans og Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhia og Kherson héraðanna í Úkraínu.

Þar er bætt í aðgerðir gegn „skuggaflotanum“ (tankskip sem flytja rússneska olíu) sem telur að sögn 342 skip, þar með eru taldir einstaklingar sem á einhvern hátt gera flotanum kleift að starfa. Stórfyrirtækið Vélfag á Akureyri lenti einmitt í þessum þvingunaraðgerðum, þar sem fyrirtækin Norebo JSC og Murmansk Seafood komust á bannlistann en þau eru sögð vera hluti ríkisstyrktar herferðar Rússa sem stundi njósnir og skemmdir á innviðum, þ.m.t. neðansjávarköplum. Norebo keypti 50 % í Vélfagi á sínum tíma en núverandi stjórnendur hafna því að tengsl séu enn fyrir hendi og hafa kvartað yfir því að það sé næstum ómögulegt að fá málsmeðferð frá Evrópusambandinu til að fá þessari ákvörðun hnekkt og litla hjálp að fá frá Utanríkisráðuneytinu sem virðist hafa tilkynnt fyrirtækið að ófyrirsynju og valdið með því miklum skaða þar sem fjöldi manns hefur misst vinnuna.

Til og með 18. pakkanum höfðu yfir 2500 einstaklingar og fyrirtæki (entities) verið sett í bann. Þar er líka sett bann á að reyna að gangsetja Nordstream aftur, refsað er fyrir að flytja úkraínsk börn til Rússlands og kenna þeim hermennsku, vanvirða úkraínskan menningararf o.fl.

Í 19. pakkanum er bætt við þvingunum á stærstu olíufyrirtæki Rússlands í samvinnu við Bandaríkin, á jarðgas frá Rússlandi, skuggaflotaskipin eru orðin 557, bankar og olíufyrirtæki m.a. í Kína og Hong Kong og Kyrgistan lenda í banni, rússneskir diplómatar þurfa að tilkynna sig við komu til Evrópu og geta átt von á ýmsum þvingunum á ferðum sínum um Schengen svæðið og svo mætti lengi telja.

Það er vandséð hvernig Evrópusambandsríkin eiga að framfylgja öllum þessum höftum í frumskógi reglugerða, án þess að skaða sína eigin borgara og valda sér fjárhagslegu tjóni. Það er heldur ekki fyrirsjáanlegt að þau hafi umtalsverð áhrif á hið hörmulega stríð í Úkraínu. Kannski er það heldur ekki aðal tilgangurinn þó hinar viljugu þjóðir klifi á því.

Þvingunaraðgerðir gegn einstaklingum og fyrirtækjum fela í sér að þeir fá tilkynningu frá Evrópusambandinu um að eignir hafi verið frystar, bankakort gerð óvirk og að ferðabann taki gildi. Ef menn vilja mótmæla þurfa þeir að senda beiðni til nefndar Evrópusambandsins þar sem málið á að fá meðferð sem getur orðið eftir dúk og disk. Eingöngu er hægt að kæra til Evrópudómstóls sem getur tekið langan tíma og er hætt við að skaðinn sé skeður.  Að sögn Clare Daly getur fólk lítið sem ekkert gert til að rétta hlut sinn. Það kostar peninga að standa í málaferlum og fólk veit ekki hvert það á að snúa sér í reglugerðaþvargi Evrópusambandsins. Það má segja að fólk sé dæmt án dóms og laga til fyrirfram refsingar. Auðvelt er að finna hverjir hafa verið bannfærðir á vef EU. Algengt er að þessir einstaklingar séu stimplaðir sem Pútínistar eða Rússavinir (pro Russia) á Wikipediu eða öðrum vefsíðum. 

Það er vandrataður meðalvegurinn þegar refsiaðgerðum er beitt í stríði. Það þarf, ef vel á að vera, að gæta þess að þær komi ekki mest niður á almennum borgurum og að þær séu ekki notaðar til að gæta fjárhagslegra eða pólitískra hagsmuna þeirra sem þeim beita eins og oft hefur gerst. Bandaríkin hafa lengi beitt og eru enn grímulaust að beita þvingunaraðgerðum gegn pólitískum andstæðingum og ríkjum með annað stjórnarfar en þeim þóknast. Andstaða Evrópusambandsins gegn þvingunargerðum á Ísrael hefur líka stungið í augu á meðan Rússlandi hefur ekki verið hlíft við þeim.

Clare Daly lýkur fyrrnefndri ræðu sinni með því að leggja áherslu á nauðsyn þess að stöðva þá hættulegu vegferð sem Evrópusambandið sé komið á með því að beita pólitískum refsiaðgerðum á almenna borgara. Ekki sé hægt að spá fyrir um hverjir verði næst fyrir barðinu á óréttlátri meðferð og skerðingu á málfrelsi.

Heimildir / tenglar:

Ræða Clare Daly á Evrópuþinginu um lýðræði og höft:  LIVE: Claire Daly Calls Out EU Over Sanctions and Free Speech Suppression | World News

Lýðræðisskjöldur Evrópu: The European Democracy Shield | European Partnership for Democracy

Vefur Utanríkisráðuneytisins um viðbrögð Íslands við innrás Rússa í Úkraínu og þar undir um þvingunaraðgerðir o.fl. : Stjórnarráðið | Innrás Rússlands í Úkraínu – viðbrögð íslenskra stjórnvalda

Þvingunarpakkar EU gegn Rússlandi: Timeline – Packages of sanctions against Russia since February 2022 – Consilium

Reglugerð EU 2024/2642 um þvingunaraðgerðir gegn Rússum Regulation – EU – 2024/2642 – EN – EUR-Lex

Reglugerð EU 2024/900 um gegnsæi og skimun á pólitískri orðræðu  Regulation – EU – 2024/900 – EN – EUR-Lex

Þvingunaraðgerðir Bandaríkjanna https://geopoliticaleconomy.com/2024/08/28/economic-world-war-us-sanctions-countries/

Höfundur er bókasafns- og upplýsingafræðingur á eftirlaunum.