Hver er munurinn á Zionisma og gyðingdómi?

4. desember, 2023 Ólafur Gíslason
Frá mótmælum gyðinga gegn zionisma. Mynd: Getty.

Í umræðunni er þessum hugtökum, zionisma og gyðingdómi, stöðugt ruglað saman að því er virðist í pólitískum tilgangi. Gyðingdómur er trúarbrögð sem hafa ekkert með þjóðerni að gera, frekar en önnur trúarbrögð. Fyrirheitna landið í gyðingdómi er „hin heilaga Jerúsalem“ og þetta fyrirheitna land er það sama og „himnaríki“ í kristindómi. „Hin heilaga Jerúsalem“ er hugmynd sem á sér enga hlutstæða landfræðilega stöðu eða landamæri.

Sá „Exódus“ sem sagt er frá í 5. Mósebók er leiðin úr þrældómi og ánauð afkomenda Abrahams, Ísaks og Jakobs í Egyptalandi til hinnar himnesku vistarveru. Leiðin til algjörs frelsis, algjörra yfirráða yfir eigin örlögum og algjörrar hamingju, ferðalag sem á sér ekki landfræðilega skilgreind landamæri, heldur vistarveru sem er huglæg og óhöndlanleg í efnislegri og landfræðilegri merkingu.

Zionismi er hugmyndafræði sem felur í sér þá viðleitni að umbreyta trúarbrögðum í þjóðernishyggju, þar sem „fyrirheitna landið“ verður landfræðilegt „föðurland“ allra sem játast gyðingdómi eða eiga ættir að rekja til hans. Zionismi er þjóðernishyggja sem leitast við að gefa öllum iðkendum gyðingdóms eitt „föðurland“ án tillits landfræðilegs uppruna þeirra eða kynþáttar. Allir játendur gyðingdóms og allir afkomendur gyðinga (án tillits til trúar eða trúleysis) eiga sér ríkisborgararétt í þessu „föðurlandi“, sem Móses er sagður hafa fært þeim.

Þessi hugmynd um trúarlegar forsendur þjóðernis á sér enga hliðstæðu í samfélagi þjóðanna.

Við segjum að Frakkland sé föðurland Frakka, án tillits til trúarbragða. Ísland er ríki Íslendinga og Danmörk er ríki Dana án tillits til trúarbragða. Ísraelsríki er ekki ríki Ísraela, því það er ríki gyðinga. Þetta er staðfest í stjórnarskrá Ísraelsríkis.

Ef Ísrael væri ríki Ísraela væru allir íbúar ríkisins jafnir fyrir lögum þess. Þess vegna má ekki segja um Ísrael að það sé ríki Ísraelsmanna, því þetta hugtak er ekki viðurkennt í stjórnarskrá ríkisins. Ísrael er ríki gyðinga og undirsáta þeirra.

Þeir sem nota hugtakið Ísraelar um íbúa Ísraels eru „and-zionistar“ því þeir viðurkenna ekki ólíka réttarstöðu á forsendu trúarbragða.

Eru allir „and-zionistar“ þá „gyðingahatarar“ eins og Benjamin Netanjahu heldur fram og víða kemur fram í fréttaumfjöllun vestrænna fjölmiðla?

Nei, auðvitað ekki, en þeir eru sér meðvitaðir um muninn á hinni jarðnesku og himnesku Jerúsalem.

Þessi misskilningur veður uppi í allri umræðu og fréttamiðlun um Palestínuvandann.

Það eru ekki allir gyðingar zionistar, og zionismi er ekki trúarbrögð, heldir pólitísk stefna sem byggir á þjóðernishyggju er varð til í Evrópu á 19. öld og tengdist rómantísku stefnunni.

Þjóðernishyggja zionismans var frábrugðin þjóðernishyggju Fjölnismanna að því leyti að þeir áttu sér raunverulegt föðurland sem var fullkomlega óháð trúarskoðunum Íslendinga. Gyðingar áttu sér hvorki sameiginlegt föðurland né sameiginlega lifandi tungu á þessum tíma.

Ofsóknir Evrópuþjóða á hendur gyðingum, sem á sér aldalanga sögu, var drifkrafturinn á bak við þessa þjóðernisstefnu sem skilaði mikilvægum og merkilegum árangri í endurlífgun hebresku sem endurfæddu móðurmáli allra gyðinga. Það var vottur um aðdáunarverða samheldni á erfiðum tímum.

En hin hlutstæða Jerúsalem sem föðurland útvaldrar þjóðar er væri stofnsett sem yfirvald frumbyggjanna var pólitísk valdbeiting sem átti sér einungis fyrirmynd í nýlendustefnunni, enda naut hún fyrst og fremst stuðnings hnignandi nýlenduvelda og rísandi heimsvaldaríkja eftirstríðsáranna. Ísrael varð ekki bara aðskilnaðarríki á grundvelli trúarbragða, heldur líka „flugmóðursskip“ í valdabaráttu Bandaríkjanna um olíuauðlindir og völd í Mið-Austurlöndum.

Frelsisbarátta Palestínumanna er frelsisbarátta undirokaðrar þjóðar sem á sér hliðstæðu í frelsisbaráttu blökkumanna í Ameríku og Afríku, hún á sér hliðstæðu í þrælastríðinu, og hún á sér líka hliðstæðu í baráttu gyðinga gegn aldalöngum trúarofsóknum í Evrópu.

Sótt á Fésbókarsíðu Ólafs Gíslasonar.