Hóprefsingu Ísraelsríkis má aldrei réttlæta með rökvillu
—
Þeir sem standa að baki árásum á íbúa Gaza, Vesturbakkans og Líbanon bera fyrir sig að um sé að ræða svar við eldflaugaárásum Hamas á landnemabyggðir Ísraela. Með þessu eru þeir, og þeir sem kaupa þessa röksemdarfærslu, að gerast sekir um mjög alvarlega stríðsglæpi, hóprefsingu, og einnig um rökvillu sem á rætur sínar að rekja til frumstæðra hvata. Alla viðleitni til að nota slíka röksemdafærslu verður að hafna hvar sem hún finnst, og þá ekki síst þegar um er að ræða réttlætingu fyrir morðum á saklausum borgurum kúgaðs fólks.
Hóprefsingar
Hóprefsingar (e. collective punishment) felast í því að refsa heilum hópi sem tengist á einhvern hátt geranda meints glæps án þess að eiga beinan þátt í tilteknum glæp. Þannig gæti verið ráðist á fjölskyldu hins meinta glæpamanns, vini, íbúa heimabæjar viðkomandi, fólk af sama kyni, stétt, litarhafti, trúarhneigðar eða jafnvel allri þjóðinni sem meintur glæpamaður tilheyrir.
Þeir sem verða fyrir sjálfri refsingunni eru gjarnan algjörlega saklausir sjálfir af þessum glæp og hafa jafnvel ekkert með hann að gera. Þetta kann að friðþægja hefndarþorsta þess sem beitir hóprefsingunni, og hefur gjarnan pólitísk markmið á borð við að hræða allan hópinn til að koma í veg fyrir frekari glæpi frá einstaklingum úr honum, en það breytir því ekki að slíkur verknaður er ekki einungis siðlaus, heldur einnig bæði rökleysa og leiðir gjarnan til andstæðrar niðurstöðu en ætlunin er. Það er ekki að ástæðulausu að hóprefsingar eru bannaðar samkvæmt Genfarsáttmálanum. Þetta er ógeðfelld iðja sem gerir stríðsástand einungis ömurlegra.
Það ríki sem síðustu áratugi hefur verið hvað duglegast við að beita áfram þessari forneskjulegu, vitlausu og illu refsingu á saklausu fólki, Ísrael, er nú í miklum ham við að sprengja þéttbýl íbúahverfi í landi sem þeir hafa annað hvort hernumið að fullu, eða haldið í gíslingu síðan eftir lok stríðsins sem hefði átt að kenna stjórnmálamönnum landsins hvert þetta getur leitt. Heilu fjölskyldurnar og barnahóparnir liggja eftir sundurtætt, heil samfélög lifa í hreinni skelfingu og ekkert útlit er fyrir að þessu linni fyrr en ráðamenn í Ísrael hafa sjálfir ákveðið að þeim fýsnum sem liggja að baki blóðbaðinu sé svalað. Þessir stjórnmálamenn hafa eflaust einhverjar undirliggjandi ástæður fyrir þessu. Kannski á að hræða Araba almennt frá því að dirfast að ráðast á þá í framtíðinni, kannski á að sýna heiminum hernaðarmátt Ísraelsríkis, kannski á að viðhalda þessu ógnarástandi til þess að einmitt koma í veg fyrir að gyðingar og arabar blandist og bindi þannig enda á hina rasísku tilraun sem liggur að baki ríkinu Ísrael, og kannski á að róa ísraelska landnema og sýna að þeir eru ekki í neinni hættu. Engar ástæðurnar sem hægt er að láta sér detta í hug eru þó neitt annað en hroka- og hatursfullar þegar öllu er á botninn hvolft, og aðferðarfræði hóprefsingarinnar sem Ísrael heldur á lofti kemur fram í öllu sínu ógeðslega veldi án þess að nokkur virðist geta stöðvað hana.
Þetta er auðvitað ekkert nýtt, einfaldlega framhaldskafli í sögu Ísraelsríkis. Stjórnmál þessa ríkis hafa fyrir löngu sannað eðli sitt og engin hróp hafa stoppað þetta framferði hingað til. Almenningur á Íslandi hefur blessunarlega lýst yfir andstöðu við þessi morð ísraelsku stríðsvélarinnar á almenningi í Palestínu. En fjölmiðlar og stjórnmálamenn víða um heim halda enn áfram að réttlæta sjálfa aðferðarfræðina sem liggur að baki hóprefsingum. Enn er talað um „átök fyrir botni Miðjarðarhafs“ og „stríðandi fylkingar“, þó að þeir sem verði fyrir refsingunum hafi ekkert með sjálfan glæpinn sem verið er að refsa fyrir að gera. Hugmyndin um að hóprefsingar séu á einhvern hátt eðlilegar er enn á lífi. Því verður að linna.
Við og hin
Ef einhver einstaklingur eða hópur hefur gerst sekur um glæp, t.d. að senda eldflaugar í íbúðabyggð, er einungis mögulega réttlætanlegt að sækja nákvæmlega þá einstaklinga eða hópa til saka fyrir verknaðinn. Þetta á við um allar tegundir glæpa, alltaf. Sú forneskjuhugsun að með því að tengjast glæpamanninum smitist meint sekt á heilan hóp, er lífsseig og verður aðeins eytt með fræðslu og hugsun. Sú hugsun er því miður föst í rökvilluforða mannshugans. Við höfum tilhneigingu til að skipta heiminum upp í hópa, sérstaklega „okkur“ (þá sem við tilheyrum, hinum betri) og „þá“ (þá sem við tilheyrum ekki, hinum verri). Þetta er á ensku kallað „in-group, out-group bias“. Við erum stillt inn á að vilja tilheyra á einhvern hátt einhverjum hópi og um leið að finnast við gera það. Sjálfkrafa verða þeir sem ekki tilheyra þessum hópi „hinir“, eða out-group. Þeim hópi má svo skipta upp í smærri einingar. Þessi „okkar“ hópur getur verið mismunandi eftir aðstæðum; okkar þjóð, okkar fótboltalið, okkar kynþáttur, okkar kyn, en við erum oftast betri og skiljum hlutina betur en „hinir“. Þessi tilhneiging er svo sterk að jafnvel þegar um er að ræða raunverulega merkingarlaus fyrirbæri kemur hún fram. Pólski sálfræðingurinn Henri Tajfel sýndi fram á það í tilraunum sem hann framkvæmdi á sjöunda og áttunda áratugnum að fólk myndar hópa meir að segja út frá fullkomlega merkingarlausum tengslum. Í einni tilrauninni, en niðurstöður hennar voru birtar í European Journal of Psychology árið 1973, lét hann flokka fólk með því að kasta tening. Annar hópurinn samanstóð af þeim sem fengu skjaldamerkið og hinn sem fengu krónuna. Jafnvel þá hóf fólk að finna til samkenndar með „sínum“ hópi og sýndi tilhneigingu til þess að hafa fordóma gegn „hinum“ (Billig og Tajfel, 1973). Svo margar svipaðar tilraunir hafa leitt til sömu niðurstöðu að fyrirbærið „minimal group paradigm“ sem rannsakar hversu ofur-lítið þarf til að kveikja á þessari tilhneigingu, er hluti af sálfræðiþekkingu nútímans. Þessi tilhneiging mun því ekki hverfa að sjálfu sér, við þurfum að vera meðvituð um þessa tilhneigingu hjá sjálfum okkur og sjá í gegnum hana.
Í tilfelli morða í Palestínu eru eflaust fleiri þættir sem koma til en tilhneigingin til að dæma heilu hópana í „hina“ sem má refsa ef einhver úr þeim hópi fremur glæp. En það er kominn tími til að fjarlægja það úr opinberri umræðu þessi mál. Það sem á sér stað í Gaza nú eru ekki „átök“ milli hópa, heldur hóprefsing, morð og glæpir gegn mannkyninu öllu. Það að einhver hafi sent flugskeyti eitthvert gefur enga réttlætanlega ástæðu til að ráðast á einn né neinn úr „sama hópi“. Börnin sem myrt voru í skóla í Gaza í gær eru algerlega saklaus af algerlega öllu og að sprengja þau er hreint morð. Þegar þessháttar morðum er lýst sem „átökum“ hefur sá glæpur fengið réttlætingu sem hefur engan rétt á sér.
Billig, M. og Tajfel, H. 1973. Social categorization and similarity in intergroup behaviour. European Journal of Social Psychology, 3, bls. 27-52. Sótt þann 18.05.2021 frá https://onlinelibrary.wiley.com/doi/abs/10.1002/ejsp.2420030103