Bandarísk morð
—

Sá óviðjafnanlegi Alex Krainer skrifar: „Það sem skiptir máli er það sem fólk trúir – ekki það sem það veit“. Og sífellt fleiri í Bandaríkjunum trúa því að tvær opinberar frásagnir standist ekki skoðun. Önnur frásögnin reynir að útskýra dauða illmennis, hin varðar (eða hylmir yfir) morðið á karismatískum leiðtoga sem vissi að hann tók mikla áhættu með því að ögra Netanyahu opinberlega.
Við fáum hugsanlega aldrei að vita með vissu hvaða glæpi Jeffrey Epstein framdi, fyrir hvern og með hverjum. Okkur verður ekki sagt hver verndaði hann eða hvernig og hvers vegna lífi hans lauk í ágúst 2019.
Persónulega hefði ég aldrei velt þessu máli fyrir mér ef ekki hefði verið fyrir skyndilega og mjög óvænta holskeflu af áköfum neitunum af hálfu núverandi stjórnvalda Bandaríkjanna. Ekki aðeins er ekkert til að rannsaka, sögðu þau skyndilega (eftir að hafa lofað að ef Trump færi með sigur af hólmi, myndu þau birta „viðskiptavinalistann“), það er enginn viðskiptavinalisti til, maðurinn var bara skemmt epli og því ekki athygli okkar virði. MAGA-stuðningsmenn Trumps eru æfir, svo að Trump teflir vinsældum sínum í tvísýnu.
Þá hlýtur Epstein-málið augljóslega að vera heitt mál, heit kartafla!
Ég hefði ekki heldur pælt í Charlie Kirk – enda ég ekki kristinn, íhaldssamur bandarískur föðurlandsvinur og morð eru daglegt brauð í Bandaríkjunum – ef ekki hefði verið fyrir tengiliðinn milli mannanna tveggja, hversu óbeinn sem hann hann kann að virðast, þ.e.a.s. Ísrael.
Jafnvel hér til lands [í Noregi] höfum við heyrt um Epstein, manninn sem beitti stúlkur undir lögaldri kynferðislegu ofbeldi, a.m.k. eina þeirra „bauð“ hann Andrew prins og guð má vita hverjum öðrum sem góðgæti.
Það sem við höfum kannski ekki heyrt var að hann var vellauðugur, að auður hans var ekki arfur og engar skýringar voru á honum. Banki hans, JP Morgan Chase, afgreiddi meira en einn milljarð Bandaríkjadala fyrir hann á 15 árum, án þess að skila inn tilskyldum skýrslum um grunsamlegar athafnir (SARs). Fengu bankastjórarnir að njóta unga góðgætisins? Árið 2019 sögðu saksóknarar að við leit í húsasamstæðu hans (stærsta einbýlishúsi á Manhattan) hefðu fundist hundruð, kannski þúsundir, nektarmynda af „því sem virtist vera stúlkur undir lögaldri.“
Samkvæmt Jerusalem Post var Ehud Barak, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, tíður gestur, „nánast fastagestur“ í því húsi. Barak „vann hörðum höndum að því að endurreisa ímynd Epsteins í kjölfar fréttar í Miami Herald árið 2017“ sem kom upp um ásakanir um nauðgun, kynferðislega áreitni og mansal með stúlkur undir lögaldri, en fyrir það var Epstein loks handtekinn í júlí 2019. Hvers vegna (og hvernig) vann Ehud Barak „hörðum höndum“ að því að endurreisa ímynd Epsteins?
„Madam“ Epsteins, mansalskonan Ghislaine Maxwell, var dóttir og starfaði fyrir hinn ofstækisfulla zíonista og fjármálamann (glæpamann og grunaðan Mossad-agent) Robert Maxwell, sem lést, tilviljunarkennt, við dularfullar aðstæður.
Epstein hafði verið skráður sem „barnaníðingur“ síðan 2005.
Árið 2005 hóf lögreglan í Palm Beach í Flórída rannsókn á Epstein eftir að foreldri tilkynnti að hann hefði beitt 14 ára dóttur hennar kynferðislegu ofbeldi. Alríkisyfirvöld bentu á 36 stúlkur, sumar allt niður í 14 ára gamlar, sem Epstein var sagður hafa beitt kynferðislegu ofbeldi [Wikipedia þann 23. sept. 2025]
Hvers vegna fékk Epstein samt að halda áfram kynferðislegri rándýrshegðun sinni til ársins 2019? Kynferðisbrot gegn börnum varða að lágmarki 15 ára fangelsi í Bandaríkjunum. Hver verndaði hann árið 2005 og hvers vegna? Hver sem það var þurfti viðkomandi, þegar ekki var lengur hægt að fela glæpi hans í minnisgötum, að koma í veg fyrir að mál hans yrði tekið fyrir dóm.
Réttarmeinafræðingur úrskurðaði að dauði hans hafi verið sjálfsvíg með hengingu. Lögfræðingar Epsteins hafa véfengt úrskurðinn og mikillar tortryggni hefur gætt meðal almennings um raunverulega dánarorsök, sem hefur leitt til fjölmargra samsæriskenninga [sama heimild].
Meginstraums fjölmiðlar vilja ekki einu sinni snerta á svokölluðum samsæriskenningum um Epstein. Hvers vegna? Hlustaðu á Tucker Carlson segja TP USA hvað hann heldur og heyrðu unga fólkið fagna! Jafnvel MAGA-stuðningsmenn Trumps eru æfir yfir því hvernig Epstein-málið hefur verið þaggað niður. Einnig er vaxandi óhugur vegna Gaza, þar sem það rennur upp fyrir fólki, þrátt fyrir ofsafengnar tilraunir til að bæla niður slíkar fréttir, að Ísraelsmenn eru í raun að drepa heila þjóð og hafa neytt forseta Bandaríkjanna til að fara að vilja sínum.
Meginstraumsmiðlar þegja einnig þunnu hljóði um efasemdir Kirks varðandi Ísrael og Netanyahu. Aftur: Hvers vegna? (Athugið að Jerusalem Post er heimild fyrir tveimur af ofanrituðum fullyrðingum mínum, sem ég fann enga staðfestingu fyrir í bandarískum fjölmiðlum).
Charlie Kirk var ráðinn af ríkum repúblikönum áður en hann hafði útskrifast úr menntaskóla – til að stofna og leiða ungliðahreyfingu, TPUSA, sem beinir sjónum sínum að háskólum og menntaskólum. Samtökin eru að mestu kristin, harðlega andsnúin „woke“-hugmyndafræði, andsnúin endurdreifingu auðs og þjóðrækin allt að því að afneita glæpum Bandaríkjanna gegn mannkyni. Það sem verra er: Þar sem styrktaraðilar samtakanna, tilheyrandi „eina prósentinu“, eru zíonistar má segja að þau hafi zíoníska (þ.e. rasíska) stefnuskrá.
TPUSA eru að öllum líkindum langstærstu ungliðasamtök sinnar tegundar í landinu, með yfir 80 milljónir dollara í ársveltu. Fjölbreytnin í allri starfsemi starfsemi þeirra er áhrifamikil: engin furða að Bandaríkin séu enn staðfastlega afturhaldssöm, viðburðir samtakanna draga að sér þúsundir þátttakenda, eins og sá örlagaríki sem haldinn var í Utah Valley háskólanum þann 10. september.
Sem forstjóri TPUSA naut Charlie Kirk góðra launa og var karismatískur ræðumaður, svo að um þrjú þúsund manns höfðu komið til að hlýða á hann. Þau urðu vitni að hræðilegu sjónarspili morðsins.
Ef tilgangurinn með því að myrða hann á svo dramatískan hátt opinberlega var að vekja hatur á andstæðingum hans – þ.e. vinstrimönnum, Palestínumönnum, svörtu fólki – gæti aðgerðin hafa misheppnast. Tveimur dögum eftir morðið birtist sprengjugrein á Greyzone. Þar mátti lesa:
Innherji í herbúðum Trumps og gamall vinur Charlie Kirk greinir The Grayzone frá því hvernig viðsnúningur hins myrta íhaldsleiðtoga varðandi áhrif Ísraels leiddi til harðra viðbragða frá bandamönnum Netanyahús sem gerðu hann reiðan og hræddan.
Greinin fór sem eldur í sinu um netheima. Í greininni var bent á að TPUSA hefði boðið Tucker Carlson, Megyn Kelly og and-zíoníska gyðingnum og grínistanum Dave Smith á árlegan toppfund í júlí [TPUSA Student Action Summit]. Þremenningarnir fordæmdu aðgerðir Ísraels gegn Palestínumönnum, sögðu Jeffrey Epstein vera útsendara ísraelsku leyniþjónustunnar og hæddust opinskátt að zíonískum milljarðamæringum eins og Bill Ackman fyrir að „komast upp með svindl“ þrátt fyrir að hafa „enga raunverulega hæfileika.“
Greyzone hefur rætt við fjölmarga einstaklinga sem staðfesta að eftir árlega toppfundinn hafi zíonískir styrktaraðilar beitt Charlie Kirk gríðarlegum þrýstingi til að koma honum aftur á rétta braut, að hann hafi verið hræddur og talið að jafnvel Trump væri hræddur við Netanyahu. Við vitum líka að unga fólkið sem fagnaði Tucker á TPUSA-fundinum í sumar var að snúast gegn Ísrael og að Charlie Kirk gerði ekkert til að halda þeim í skefjum. Þvert á móti: Honum ofbauð valdið sem Ísrael hefur yfir bandarískum stjórnvöldum.
Í stuttu máli sagt hafði Charlie Kirk orðið Ísrael byrði og hætta, þegar fasistastjórnin þar þurfti mest á honum að halda. Það þýðir ekki að Ísrael hafi drepið hann (hvers vegna ættu þeir annars ekki að gera það, þeir sem hiklaust drepa fólk út um allt?). Aumingja Tyler Robinson, sem FBI (og foreldrar hans) virðast staðráðnir í að koma sökinni á, virðist ólíklegur kandídat í slíkt verk. Það gæti orðið bandarískum lögregluyfirvöldum gagnlegt ef einnig hann „fremdi sjálfsmorð“ í gæsluvarðhaldi.
Ég segi ekki meir, nema að þegar ríkisstjórn þín heimtar að fá að mata þig, í sífellu, á blygðunarlausum lygum um hluti sem skipta þig máli, byrjar þú að muna eftir fyrri frásögnum sem þú efaðist um. Þú manst eftir alls kyns öðrum hlutum líka; „björgunarpökkunum“ bankanna 2008, til dæmis, þegar svo margir bandarískir millistéttarborgarar misstu heimili sín. Kannski rifjar þú jafnvel upp efasemdir um morðin á JFK, Martin Luther King, Malcom X, svo ekki sé minnst á 11. september.
Við „vitum“ ekki hver myrti JFK og Martin Luther King. Við „vitum“ ekki hver myrti Jeffrey Epstein, og það er margt sem dregur úr trúverðugleika aðferða FBI við rannsókn morðsins á Charlie Kirk. Það er heill hellingur sem við „vitum“ ekki, þótt sum okkar viti meira en við vitum ekki um virðingarleysi Bandaríkjanna fyrir alþjóðalögum, til dæmis. Flestir bandarískir borgarar eru ekki meðvitaðir um þá slóð dauða og eyðileggingar sem Bandaríkin (og Evrópa) hafa skilið eftir sig um allan heim. En morðið á Charlie Kirk er eitthvað sem þeir finna í maganum, og fyrri reynsla hneigir þá til að vantreysta opinberu frásögninni. Á einn eða annan hátt verða vandræði framundan. Ég hvet ykkur til að hlusta á þetta klukkutíma langa viðtal við Greyzone-ritstjórann Max Blumenthal. Það sem sá maður veit ekki og man ekki er ekki þess virði að vita.
Katjana Edwardsen er norskur áhugamaður um alþjóðamál. Hún bjó í áratug á Íslandi, á þar börn og skrifar stundum greinar fyrir Neista.