Palantir – martraðafyrirtæki sem fylgist með hverju skrefi okkar fyrir heimsveldið
—
„Ef þér er illa við tilhugsunina um að styðja lögmætar aðgerðir Bandaríkjanna og stuðningsríkja þeirra í hernaðarlegu samhengi, þá skaltu ekki styðja Palantir“ (Alex Karp, stjórnparformaður Palantir í pallborðsumræðum um fyrirtækið, sjá hér).
Palantir var stofnað árið 2003 að frumkvæði þýsk/bandaríska auðkýfingsins Peters Thiel. Auk hans voru ýmsir fjárfestar, m.a. Leyniþjónusta Bandaríkjanna. Nafnið á fyrirtækinu er fengið úr Hringadróttinssögu, en í því ritverki var Palantir steinn sem gat fylgst með öllum hreyfingum og hugsunum þeirra sem í kringum hann voru og sent upplýsingar til þess sem átti steininn. Fyrirtækið sérhæfir sig í gerð og rekstri tölvukerfa, hugbúnaðar og gervigreindar sem aðstoðar ríkisstjórnir og fyrirtæki að greina gríðarlegt gagnamagn, þá einnig gögn sem eru ekki aðgengileg almenningi, til að taka ákvarðanir og skipuleggja aðgerðir.
Allt frá upphafi hafa mikilvægustu viðskiptavinir Palantirs verið hernaðarleg og tengd löggæslu, í þröngum skilningi þó. Fyrirtækinu hefur vaxið fiskur um hrygg og er nú meðal stærstu og öflugustu fyrirtækja heims. Hugbúnaður þeirra er nú orðinn gríðarlega öflugur; svo öflugur að komist hann í rangar hendur stendur allri heimsbyggðinni stórhætta að. Og hendurnar sem hann hefur lent í, Palantir-steinninn, eru Bandaríkin, Ísrael og auðugustu fyrirtæki heims.
Hvað Ísrael varðar er Palantir með víðtæka samninga við herinn og hefur komið að miklu gagni við að hafa uppi á þeim skotmörkum (fólki til að drepa) sem ísraelsk hernaðaryfirvöld óska. Þeir hafa leikið lykilhlutverk í þjóðarmorðinu sem á sér stað á Gaza og Vesturbakkanum. Meðal verkefna þeirra voru hinar ótrúlegu aðgerðir þar sem símtæki þúsunda Líbana og Palestínumanna sprungu samtímis, auk þess að hafa upp á blaðamönnum og öðrum sem voru þyrnir í augum stjórnar Netanyahus (sjá nánar hér).
Mest eru umsvif Palantirs þó í Bandaríkjunum. Þau starfa náið með Alríkislögreglunni, Leyniþjónustunni, öllum deildum hersins og þá ekki síst í sálfræðihernaðardeild hans. Auk þess hafa þeir gert samninga við öll helstu hernaðariðnaðarfyrirtæki landsins, s.s. Lockheed Martin, sem hefur tryggt þeim vægast sagt digra sjóði.

Í þágu heimsveldisins og mannréttindabrota
Palantir er á engan hátt hlutlaust hvað stjórnmál og stefnu varðar. Það þarf ekki að undra, enda var fyrirtækið stofnað sérstaklega til þess að hjálpa bandarískum yfirvöldum að stunda sitt „stríð gegn hryðjuverkum“ árið 2003; þ.e. til þess að hafa upp á og hjálpa við að drepa fólk í Írak, Afganistan og öðrum meintum óvinaríkjum. Það er kjarni fyrirtækisins. Þeir veita því einungis þjónustu þeim sem styðja vestræna heimsvaldastefnu og Ísrael og talsmenn fyrirtækisins hafa beinlínis sagt að Palantir hafi verið stofnað til þess að drepa kommúnista.
Fyrirtækið hefur á þeim rúmum 22 árum sem það hefur verið til bætt ýmsum vörum í safn sitt, t.d. gervigreindastýrða dráps-drónann Maven, stríðsvélina Titan og vélmenni sem geta drepið upp á eigin spýtur. Forsvararmenn fyrirtækisins stæra sig beinlínis af þessu. Þannig stærði formaður fyrirtækisins sig að því að vörurnar sem fyrirtækið framleiddi væri „stundum notað til að drepa fólk“.

En Palantir hjálpar ekki einungis hernum. Þeir hafa gert samninga við lögregluembætti um að góma glæpamenn áður en þeir hafa framið glæp, svokallað „predictive policing technology“. Lyfjafyrirtæki og lyfjastofnun þeirra, CDC í Bandaríkjunum, réðu Palantir til þess að greiða fyrir lyfjagjöf til fólks. Í því fólst meðal annars að safna upplýsingum um almenna borgara og sögu þeirra, þá ekki síst til þess að hafa upp á fólki sem efaðist um að þessi lyf væru örugg.
Forsvaramenn fyrirtækisins hafa lýst opinberlega að þeir séu andstæðingar opinna landamæra og það starfar nú náið með ICE sveitunum í Bandaríkjunum við að hafa upp á fátæku verkafólki og siga ofbeldissveitum á það. Þannig hefur komið í ljós að það er Palantir sem hefur skipulagt áhlaup ICE inn á vinnustaði fólks. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur nú lýst því yfir að hann vilji að Palantir setji upp gagnabanka fyrir hvern og einn einasta Bandaríkjamann, svo hægt sé að fylgjast með þeim og spá fyrir um hreyfingar þeirra.
Sama er að eiga sér stað í Bretlandi, en stjórnvöld þar gerðu nýlega risasamning við Palantir um að „koma auga á tækifæri að andvirði a.m.k. 750 milljóna punda á næstu 5 árum“. Þessu ætlar fyrirtækið meðal annars að ná fram í krafti þess að hafa fengið aðgang að sjúkraskýrslum allra borgara ríkisins. Fyrirtækið mun einnig leika lykilhlutverk í að halda stríðinu í Úkraínu gangandi. Svipað hefur gerst í öðrum ríkjum vinveittum Bandaríkjunum og Ísrael.
Palantir starfar einnig í einkageiranum og hefur gert samninga við fjölda fyrirtækja til þess að velja úr og hafna viðskiptavinum, stjórna starfsfólki og hafa áhrif á neyslu þeirra. Þetta á meðal annars við um einkarekna heilbrigðisþjónustu, fjármálastofnanir og velferðarþjónustufyrirtæki. Gervigreindarforrit Palantir vinna dag og nótt við það verkefni að hindra hin allra verst settu við að fá stuðning; að neytendur hafi rétta skoðun og hlutur viðskiptavina þeirra sé sem mestur.
Meðal bestu viðskiptavina þeirra eru risar á borð við Amazon, Meta, Tesla, stærstu bankar og risavogunarsjóðir á borð við BlackRock og Vanguard. Fyrir vikið er Palantir eitt öflugasta fyrirtæki heimsins í dag. Samkvæmt viðskiptafréttaveitunni Companies Market Cap er fyrirtækið um 408 milljarða Bandaríkjadala virði í dag, 25. stærsta fyrirtæki heims.
Í stuttu máli, Palantir er draumur allra ægistjórna, en martröð allrar andstöðu við þær.
Mynd á forsíðu fengin hér.







