Hroki íslenskrar utanríkisstefnu í skugga hægfara endaloka vestrænna yfirburða
—
Á meðan Reagan var forseti í Bandaríkjunum (1981-89) stóðu hin svokölluðu G-7 ríki, þ.e. Bandaríkin, Þýskaland, Frakkland, Bretland, Ítalía, Japan og Kanada, fyrir um 50% af vergri heimsframleiðslu. Þessi hluti er um 28% í dag, skv. markaðssíðunni voronoi. Íbúafjöldi þessara ríkja er nú minni en 10% af íbúum heimsins. Ríkin sem kölluð hafa verið „Emerging 7“ (upp-komandi 7); þ.e. Kína, Indland, Brasilía, Indónesía, Mexíkó, Rússland og Tyrkland, hafa hins vegar aukið hlutdeild sína í vergri heimsframleiðslu frá um 20% árið 1980, til um 37% í dag, og spár gera ráð fyrir um 45% árið 2030. Hlutdeild Asíu hefur risið frá 25% til rúmlega 50% í dag á sama tíma.
Þessi breyting, eða hnignun á efnahagslegri stöðu og þróun Vesturlanda á sér einkum stað meðal hinna vinnandi stétta. Hinir ofurríku auka stöðugt auð sinn og lifa góðu lífi á Vesturlöndum. Það er einkum verkafólk sem hefur horft upp á stöðnun, verðbólgu og minni möguleika til að eignast heimili. Iðnaður hefur færst frá heimahögum fólks til annarra ríkja til að spara kostnað hjá fyrirtækjaeigendum. Iðnaðarkapítalisminn hér vestur frá, og bandaríski draumurinn í stærra samhengi, er að deyja. Við finnum það öll.
Þetta er ekki þróunin í BRICS löndunum. Þar er vöxtur, ekki síst hjá alþýðunni. „Þriðji“ heimurinn rís hratt. Þess vegna hljóma gelt og frekja Vesturlanda sífellt aumingjalegri. En ráðamenn okkar lifa og hugsa enn í þeirri fortíð þegar við gátum heimtað hlýðni frá öðrum ríkjum. Gerið það sem við segjum, annars!.. hefur verið mottóið. Enga samninga! segjum við.
Þessu þurfa íslenskir ráðamenn að fara að átta sig á. Meðan einhver Þórdís Kolbrún og einhver Þorgerður Katrín mæta í okkar nafni til að ögra hverju rísandi landinu eftir öðru, að því er virðist öruggar með sig á bakvið stóra sterka hrekkisvínið, Atlantshafsbandalagið, sekkur Ísland dýpra ofan í fen hins hnignandi heimsveldis sem hefur komið ár sinni vægast sagt illa fyrir borð. Þetta mun ekki enda vel fyrir okkur. Við erum, í heildina litið, orðin blind á það að við erum lítið annað en þrælar fyrir stóreignastéttina, sem hefur fyrir löngu komið sér fyrir langt utan við ramma Vesturlanda og undirbýr sig fyrir næsta hrun. Við höfum gleypt áróðurinn ótakmarkaða framför, lifum í sjálfsblekkingu um að vera hluti af hinum útvöldu, hinum sterku og góðu. Fyrir utan ósýnilegu múrana bíður fólk sem veit hvernig þessir útvöldu hafa hagað sér á þeirra heimaslóðum. Það er skynsamlegt að fara að koma fram við þetta fólk af virðingu.







