Donroe-kenningin útskýrir árásir Trumps á Rómönsku Ameríku
—
Í þessum þætti af Geopolitical Economy Report fjallar Ben Norton um hvernig stjórn Donalds Trumps er að endurvekja Monroe-kenninguna frá 1823, sem æðstu embættismenn kalla nú Donroe-kenninguna. Þessi nýlendustefna lýsir því í raun yfir að Rómanska Ameríka sé bakgarður bandaríska heimsveldisins og að Bandaríkin hafi rétt til að ráða för um allt á vesturhveli jarðar.
Á fyrsta ári síns annars kjörtímabils hefur Trump-stjórnin drepið tugi saklausra sjómanna í Karíbahafi, lagt viðskiptaþvinganir á Kólumbíu, hótað að yfirtaka Panamaskurðinn, hert umsátur á Kúbu og skipað CIA að ræna eða myrða forseta Venesúela. Á sama tíma hefur Trump boðið bandamönnum sínum gríðarlegan fjárhagsstuðning en Argentína fékk 82 milljarða dollara til að bjarga frjálshyggjuverkefni Javier Milei og tryggja honum endurkjör.
Bandaríkin eru með þrjú meginmarkmið á svæðinu. Í fyrsta lagi vilja þau hagnýta ríkulegar náttúruauðlindir Rómönsku-Ameríku, þar á meðal olíu, jarðgas, litín (liþíum) og önnur steinefni. Í öðru lagi vilja þau rjúfa öll tengsl svæðisins við Kína, sem er nú þegar stærsti viðskiptaaðili Rómönsku Ameríku. Í þriðja lagi vilja þau steypa öllum sjálfstæðum vinstristjórnum af stóli og koma í þeirra stað hægristjórnum sem halda launum verkafólks lágum svo bandarísk fyrirtæki geti flutt framleiðslu sína frá Asíu til Rómönsku Ameríku.
Trump heldur því fram að hann sé að berjast gegn fíkniefnasmygli, en þetta er lygi sem minnir á réttlætingarnar og fullyrðingar um gereyðingarvopn sem Bandaríkin notuðu til að ráðast inn í Írak. Samkvæmt Bandarískum njósnastofnunum kemur nánast ekkert af fentanýlinu sem flæðir til Bandaríkjanna frá Venesúela. Reyndin er sú að Bandaríkin hafa í áratugi stutt verstu fíkniefnasmyglara svæðisins, eins og Álvaro Uribe, fyrrverandi forseta Kólumbíu, sem bandarísk stjórnvöld hafa vitað í áratugi að er einn öflugasti fíkniefnasmyglari Rómönsku-Ameríku en hafa engu að síður stutt af heilum hug.
Financial Times greindi frá því að raunveruleg markmið Bandaríkjanna séu að steypa stjórn Venesúela, nýta olíubirgðir landsins og rjúfa tengsl þess við Kína, Rússland og Íran. Þetta er ekki nýtt – Bandaríkin hafa steypt að minnsta kosti 41 ríkisstjórn af stóli í Rómönsku-Ameríku á árunum 1898 til 1994. Munurinn er hins vegar sá að Trump er stoltur af því að fylgja nýlendustefnu og leynir því ekki. Hann segir það sem ekki má segja upphátt og hefur með því afhjúpað bandaríska heimsveldið.
Um þessa heildarmynd fjallar Ben Norton hér á sinn skipulega hátt studdan sláandi sýnidæmum, nú þegar bandarísk árás á Venesúela verður sennilegri með hverjum degi.







