Bandarísk morð 2 – og bátaflotinn Sumud

Katjana Edwardsen
30. september, 2025

Ljósm: Kuna – Madrid

Hér neðan við er lítill bútur úr viðtali áhrifavaldsins Patrick Bet-David við Charlie Kirk. Við sjáum að framsetning Netanyahús, „Charlie var besti vinur minn!“ stenst ekki. Viðsnúningur Charlie Kirk í afstöðu til Ísrael/Palestínu var raunverulegur og hann var Ísrael óþægur ljár í þúfu. Fyrir Netanyahu snýst málið um að missa eða missa ekki ungu kynslóð pólitíska hægrisins sem verið hefur einn síðasti hornsteinn undir Ísraels-stuðningnum í USA.

Í þessum bút frá 23. október 2023 talar Kirk um grunsamlegar kringumstæður hinn örlagaríka 7. október, aðgerð Hamas og það að hún fékk að þróast klukkutímum saman áður en Ísraelsher aðhófst nokkuð og réðist til atlögu:

…ég hef oft komið til Ísraels. Allt landið er virki. Þegar ég heyrði þessa sögu fyrst … ég hef enn sömu tilfinningu og ég fékk í upphafi. Mér finnst mjög erfitt að trúa þessu. Ég hef komið að landamærunum við Gaza. Þú kemst ekki þrjá metra án þess að rekast á 19 ára ungling með AR-15 eða vélbyssu, hermann úr Ísraelsher. Allt landið er undir eftirliti. Ég held að það verði að spyrja nokkurra spurninga. Var gefin skipun um að gera ekki neitt? Var gefin skipun um að gera ekki neitt? [„was there a stand down order?“]  Þeir streyma yfirleitt drápum á gyðingum í beinni. Sagði einhver í ríkisstjórninni: „Gerið ekki neitt“. Þetta er réttmæt spurning, ekki samsæriskenning. Allt landið er Ísraelsher. ALLT LANDIÐ ER ÞAÐ. Kjarni málsins er þessi: Þetta er það líkasta helförinni sem nokkur okkar hefur upplifað. En staðreyndin er sú að nú hafa Bibi (Netanyahu) og harðlínu-hægristjórn Ísraels umboð – ég verð að fara varlega í orðavali – þeir munu reyna að framkvæma þjóðernishreinsanir á Gaza. Ég meina það – og ég nota það hugtak ekki af léttúð – þeir eru að tala um að fjarlægja í raun 2,5 milljónir manna þaðan. Allt í lagi? Þetta eru nokkrar alvarlegar spurningar, Patrick.

Þegar við sjáum meiri og meiri hrylling – árásir á Venesúela, samsekt í morðum á þátttakendum í friðarviðræðum í Katar og áframhaldandi samþykki fyrir vísvitandi slátrun á öllu fólki sem býr á Gaza – gerum við okkur grein fyrir því að „hugboð“ Charlie Kirk gæti vel staðist.

Enginn viðbjóður er, að því er virðist, of lágkúrulegur fyrir sumt fólk. Enginn viðbjóður!

Sem betur fer er lítill geisli mannúðar að brjóta sér þjáningarfulla leið eftir Miðjarðarhafinu. Eins og hópur af maríuerlum leitandi vetrarstöðva í Mið-Austurlöndum eru um 40 til 50 borgaralegir bátar, bátafloti, með blaktandi palestínskum fánum á leið til Gaza með mat, vatn og lyf. Með þúsundum þátttakenda frá meira en 44 löndum er Sumud-flotinn stærsta borgaralega skipalest sinnar tegundar í sögunni, samkvæmt Wikipedíu.

Reuters skrifar: „Ítalía og Spánn hafa sent herskip nærri bátaflotanum í björgunar- og mannúðarskyni.“ Bravó, Ítalía. Bravó, Spánn (og þökk sé gríðarlegum fjöldaagerðum og þrýstingi almennings). Því það hafa þegar verið gerðar nokkrar drónaárásir á skipaflotann. Á myndinn má sjá siglingaleið bátaflotans.

En hvað með Noreg? [skrifað í Noregi] Það eru níu Norðmenn í smáskipaflotanum. Og hvað með Þýskaland, Frakkland, Bretland? Var viðurkenningin á palestínsku ríki ekkert annað en ógleðisvaldandi hræsni? Eru leiðtogar Evrópuríkja ekkert betri en leiðtogar Bandaríkjanna, þ.e.a.s. svo viðurstyggilegir að þeir eiga skilið að vera lokaðir inni á brauði og vatni til frambúðar? Nítján refsiaðgerðapakkar gegn Rússlandi ásamt vígvæðingu og hernaðaruppbygging sem á sér ekki hliðstæðu frá seinni heimsstyrjöld, en ekkertalls ekkert til að stöðva drápsvélina í Mið-Austurlöndum. Viðbjóðslegt, hreint og beint. Veldur ógleði.

Katjana Edwardsen er norskur áhugamaður um alþjóðamál. Hún bjó í áratug á Íslandi, á þar börn og skrifar stundum greinar fyrir Neista.