Palestínumenn gefast ekki upp
—
[Ræða Sveins Rúnars Haukssonar læknis á fundi Félagsins Ísland – Palestína 11. janúar]
Fundar menn, góðir félagar
Við skulum hefja þennan fund á mínútu þögn og minnast allra þeirra barna og mæðra sem myrt hafa verið á Gazaströnd undanfarna 15 mánuði. Við minnumst allra þeirra sem myrtir hafa verið af Ísraelsher – og í dag minnumst við sérstaklega meira en eitt þúsund lækna, hjúkrunarfólks og annarra heilbrigðisstarfsmanna sem hafa verið drepnir, margir læknanna myrtir að undangengnum pyntingum.
Þetta svokallaða stríð Ísraels gegn Hamas var frá upphafi stríð gegn börnum. Öllu heldur útrýmingarherferð gegn börnum og mæðrum sem eru stór meirihluti þeirra sem látið hafa lífið á Gaza. Það er talað um stríð þegar tveir herir takast á, eins og í Úkraínustríðinu. En hér beitir einn öflugasti her heims afli fullkomnustu vopna og leyniþjónustu gegn óbreyttum borgurum og andspyrnuhreyfingu sem talin var nema um 30 þúsund manns með fábreytt handvopn og heimatilbúnar eldflaugar. Herinn ásamt varaliði sem er virkt, telur allt að 700.000 manns.
Mannfallið samkvæmt tölum frá heilbrigðisráðuneytinu á Gaza er rúm 46 þúsund og um 110 þúsund særðir, mjög margir örkumla. Mörg þúsund börn hafa misst einn eða báða ganglimi og í þann hóp bætast að meðaltali 10 á hverjum degi. Félagið Ísland-Palestína með sitt verkefni „Gervifætur til Gaza“ síðan 2009, hefur verk að vinna, og við stefnum á að fara eins fljótt og auðið er með efni í fætur og stoðtækjasmiði. Við getum aldrei sinnt nema litlu broti af þörfinni, en það munar um hvern einasta sem rís upp og gengur að nýju. Við höfum fengið að upplifa þá gleði og vaknandi von á liðnum árum.
Í fyrradag bárust nýjar tölur af mannfalli á Gaza. Það var frá breska læknatímaritinu Lancet. Þar er talið að tölurnar frá Gaza hafi verið alltof lágar. Gerð var samantekt á fyrstu 9 mánuðum herferðarinnar og talið að mannfall hafi verið um 40% hærra en reiknað var með.
Ef til vill liggur munurinn í hversu margir liggja undir rústum heimila sinna sem ekki hefur tekist að ná til. Þá telja Save the Children eða Barnaheill, að ekki færri en tuttugu þúsund börn séu týnd, dáin, undir rústum eða á flótta án fylgdar.
Nazistarnir sem stjórna útrýmingarherferðinni á hendur palestínsku þjóðinni, hafa lagt sérstaka áherslu á að gjöreyða allri heilbrigðisþjónustu, sjúkrahúsum og heilsugæslu. Lokað er fyrir vatn, matvæli, rafmagn, aðgang að eldsneyti sem nauðsynlegt er rekstri sjúkrahúsa. Lyf og lækningatæki fást ekki flutt inn á svæðið og hafa beðið mánuðum saman Egyptalandsmegin í Rafah, ásamt matvælum og öðrum nauðsynjum. Herinn sækir sjúklinga, lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk inn á sjúkrahúsin, rænir þeim, pyntar, og ýmist sleppir fólki að því loknu eða drepur það, eftir atvikum.
Við tökum í dag undir kröfuna um að yfirlæknir Kamal Adwan sjúkrahússins á Norður Gaza sem var rænt og er á óþekktum stað, verði þegar í stað látinn laus. Hann stóð nýverið yfir líkbörum 9 ára sonar síns sem herinn hafði drepið, en hélt ótrauður störfum sínum áfram þar til honum var rænt.
Mannréttindaráð SÞ gaf út skýrslu á gamlársdag, þar sem lýst er þungum áhyggjum af markvissri áætlun sem Ísraelsher fylgir, manndrápum og eyðileggingu, til að leggja sjúkrahúsin, eina griðarstað fólksins í rúst. Nýjast dæmið er Kamal Adwan sjúkrahúsið á Norður-Gaza. Bent er á að heilbrigðisstarfsfólk og sjúkrahús eigi að njóta sérstakrar friðhelgi samkvæmt alþjóðalögum. Ísraelskir ráðamenn og herforingjar láta alþjóðlög sig engu skipta og stríðsglæpir eru framdir fyrir opnum tjöldum
Það er ekki að tilefnislausu að krafist hefur verið handtöku á foringjunum, Netanyahu og Gallant, af Stríðsglæpadómstólnum í Haag. Og áfram heldur rannsóknin hjá Alþjóða dómstólnum í Haag sem Suður-Afríka fór fram á og fleiri ríki hafa stutt. Hún snýr að þjóðarmorði Ísraels á palestínsku þjóðinni. Það var fyrirfram vitað að endanleg formleg niðurstaða lægi ekki fyrir fyrr en að 2-3 árum liðnum, en bráðabirgðarúrskurður dómstólsins bannaði Ísrael áframhaldandi hernað sem jafngilti þjóðarmorði. Ísrael sinnir því engu frekar en öðrum úrskurðum alþjóðadómstóla, ekki frekar en alþjóðalögum eða ályktunum öryggisráðs SÞ, sem eru þó bindandi fyrir allar þjóðir. Ekki Ísrael, það ríki lætur einsog það sé hafið yfir lög og rétt, og hefur alltaf gert. Það á að vera löngu búið að reka Ísrael úr Sameinuðu þjóðunum. Gerum það nú. Og okkar nýja ríkisstjórn á tafarlaust að taka undir málflutning og styðja málarekstur Suður-Afríku. Þjóðarmorð er það og þjóðarmorð skal það heita.
Við Björk vorum að koma frá Palestínu. Með naumindum tókst okkur að komast inn á Vesturbakkann.Við stóðum í yfirheyrslum heilan dag sem lauk með því að okkur var meinað að fara til Jerúsalem og Tel Aviv, en fengum 8 daga leyfi til að heimsækja Vesturbakkann. Hjá mér skipti ekki hvað minnstu að komast til Jenin og heimsækja vini þar, meðal annars samtökin NOT TO FORGET sem félagið styður, en þau samtök veita áfallahjálp til íbúa flóttamannabúðanna sem verða fyrir hvað mestum árásum. Vinir okkar þar báðust öll undan heimsókn. Þau eru að mestu lokuð inni vegna stöðugra árása hersins og landtökuskríls, og búa iðulega við vatns- og rafmagnsskort. Það ömurlega sem bæst hefur við er að liðssveit Abbasar forseta er komin á vígvöllinn og umkringir flóttamannabúðirnar í Jenin sem Ísraelsher ræðst svo inn í aftur og aftur. Bræðravíg eru sárari en önnur víg.
Lítil von er til þess að alvöruvopnahlé komist á með brottför Ísraelshers af Gazasvæðinu. Þetta snýst ekki bara um Netanyahu, langstærstur meirihluti Ísraelsmanna styður helförina á Gaza.
30. apríl næstkomandi verða 50 ár liðin frá sigri Víetnams yfir bandarísku heimsvaldastefnunni. Hvernig gat þessi bændaþjóð, sem var ósköp smá gagvart voldugasta herveldi heims, unnið sigur á nokkrum árum? Liðsmunurinn þá var svipaður og nú.
Ég var ekki síður upptekin af Víetnam þá en Palestínu nú. Áhugi minn var vakinn af góðum kennara í West Seattle High School þar sem ég var skiptinemi í eitt ár. Ég gleymi aldrei deginum í byrjun febrúar 1965 þegar DC Smith kom inn í kennslustofuna, titrandi af reiði, með dagblað þar sem forsíðan var undirlögð einu orði, RETALIATION – HEFND, með risaletri. Það var Tonkin flóa atvikið, upplogin árás á bandarísk herskip, sem notuð var sem átylla til að “teppaleggja” Víetnam með loftárásum B-52 risasprengjuvéla.
Netanyahu hefur ekki viljað leyfa rannsókn á atvikum 7. október 2023. Hann hefur hins vegar logið linnulaust um þann dag eins og honum einum er lagið. Hann er ekkert einn um það. Miklu hefur verið logið um þann dag og í þeim einskæra tilgangi að æra ekki bara Ísraelsmenn heldur helst allan heiminn.
Útrýming palestínsku þjóðarinnar hófst ekki eftir 7. október 2023. Hún hófst á frumbýlingsdögum innfluttra gyðinga til Palestínu, einkum frá Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar. Eftir að Sameinuðu þjóðirnar lögðu til helmingaskipti landsins milli gyðinga og Palestínumanna sem fyrir voru, harðnaði verulega í samskiptum þar til úr varð stríð, sem nágrannaríki tóku líka þátt í. Því lauk með hernaðarsigri gyðinga, sem þá höfðu stofnað Ísraelsríki og lagt undir sig 78% landsins og hrakið nærri 80 % palestínsku íbúanna frá heimilum sínum. Vopnahléð stóð frá 1949 til 1967 en þá lagði Ísrael allt landið undir sig í leifturstíði á sex dögum, einnig mikil svæði nágrannalanda. Enn hefur Ísrael ekki skilað Golan til Sýrlands, raunar verið að bæta við sig þar á síðustu vikum. Og engu hefur verið skilað til Palestínumanna af þeim 22% landsins sem alþjóðalög segja til um.
Þegar sagan er skoðuð má lesa ræður og rit helstu foringja gyðinga frá því áður en Ísrael er stofnað og á fyrstu árum þess. Davíð Ben-Gurion – sem var fyrsti forsætisráðherrann eftir að hafa leitt ein helstu hryðjuverkasamtök gyðinga – fór ekkert leynt með að nauðsynlegt væri að rýma til í landinu þegar skapa ætti Gyðingaríkið Ísrael. Um 500 palestínskum þorpum var eytt í þessu skyni.
Þeir sem komnir eru til valda í Ísrael nú tilheyra öfgaöflum, kahanistum, hreyfingu sem til skamms tíma var bönnuð bæði í Bandaríkjunum og Ísrael fyrir rasisma. Þetta á við um Ben Kvir og Smootrich, sá fyrrnefndi sérstakur áðdáandi bandaríska læknisins Baruch Goldstein sem fluttist til Ísrael, gekk í herinn og gerðist fjöldamorðingi í Abrahams moskunni í Hebron. Netanyahu er háður stuðningi þessara snillinga, annars fellur stjórn hans – og hann vísast á leið í fangelsi.
Það var gott að hitta vini á Vesturbakkanum, og einnig vini sem flúðu með börn sín frá Gaza til Kairó. Þrátt fyrir hryllilegt ástand og að ekki verði annað séð en að helförin haldi áfram, þá hafa Palestínumenn ekki gefist upp, hvorki á Gaza né á Vesturbakkanum. Og meðan Palestínumenn gefast ekki upp, þá gefumst við ekki upp. Palestína mun sigra!
Stöðvið þjóðarmorðið. Lifi frjáls Palestína.
Sveinn Rúnar Hauksson er læknir og heiðursborgari í Palestínu