„Alþjóðasamfélagið“ og þjóðarmorðið

28. október, 2024

Daglega berast fréttir af ótrúlegri grimmd Ísraelshers í landinu helga og brot á öllum alþjóðasamningum. Meðal þeirra nýjustu eru þessi:

Skipulögð hungursneyð

Ísraelsher hamlar enn hjálparstarfsfólki, meðal annars frá hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) að koma til Gaza til að færa íbúum þar nauðsynlegar vistir (sjá hér). Þetta er sérstaklega alvarlegt í ljósi nýrrar skýrslu alþjóðasamtakanna IPC sem sýnir að 1,84 milljónir íbúa Gaza glíma nú við alvarlegan næringarskort og mjög mikil hætta er á því að hungursneyð dragi fjölda fólks til bana í vetur. Ástandið er í dag, að sögn stofnunarinnar, tífalt verra en það var í fyrra, þrátt fyrir að Ísrael hafi þá í meira en áratug stundað það að telja kaloríur sem fóru til Gaza til að tryggja að þær væru einungis rétt yfir hungurmörkum (sjá nánar hér).

Einungis þrjú af tólf sjúkrahúsum í Norðurhluta Gaza eru starfhæf og þeir geta einungis sinnt lágmarksþjónustu. Ísraelsher hefur lokað á alla umferð í gegnum Rafah landamærastöðina. Þetta kemur í veg fyrir að slasað fólk geti fengið læknisþjónustu hinum megin landamæranna. Fyrir vikið hefur fréttastofa Reuters greint frá því að börn í Gaza deyi nú og þjáist vegna þess að þau komast ekki undir læknishendur.

Bandaríkin og Bretland dæla vopnum í Ísrael

Með því að rannsaka fyrirliggjandi gögn á borð við flugskrár og viðskiptagögn hefur fréttastofa Al-Jazeera sýnt fram á að Bandaríkin og Bretland beinlínis dæla vopnum til Ísraels til að styðja stríð þeirra í Palestínu og nú Líbanon. Meira en 6000 breskar og bandarískar herflugvélar hafa lent í Ísrael með vopn og vistir það sem af er árinu. Bretar sinna auk þess umfangsmiklu njósnaflugi fyrir Ísraelsher með Shadow R1 eftirlitsflugvélum til að fylgjast með hreyfingum „óvinanna“ og senda upplýsingar um hentug skotmörk til Ísraelshers. Loftbrú með vopn hefur verið komið á til Ísrael frá flugstöðvum í Bretlandi, Þýskalandi, Ítalíu, Kýpur og Grikklandi svo vopnabirgðir þorni örugglega ekki upp.

Heilbrigðisstarfsfólk, blaðamenn og hjálparstarfsfólk tekið höndum

Alls 44 af 70 starfsmenn Kamal Adwans sjúkrahússins voru teknir höndum í áhlaupi Ísraelshers á sjúkrahúsið í gær. Í áhlaupinu eyðilögðust rafkerfi og súrefnistankar. Um 160 sjúklingar sjúkrahússins voru skildir eftir án læknisaðstoðar. Þrír blaðamenn voru drepnir í árásum Ísraelshers síðasta föstudag, og er því fjöldi blaðamanna sem Ísrelsher hefur myrt kominn upp í 128 í það minnsta. Rebecca Vincent, talsmaður hjá Blaðamönnum án landamæra (Reporters without borders) segir árásirnar vísvitandi og að ríkisstjórnir á Vesturlöndum verði að bregðast við. Engin viðbrögð hafa heyrst frá þessum ríkisstjórnum. Sjúkraflutningamenn í Líbanon fullyrða að Ísraelsher ráðist vísvitandi og sérstaklega á starfsstétt sína í landinu. Fjöldi árása hefur verið gerð á sjúkraflutningamenn í landinu, eins og í Palestínu.

Vélmenni notuð til að skapa eyðileggingu

Ísraelsher er farinn að notast við fjarstýrð vélmenni fyllt sprengiefni sem valda mikilli eyðileggingu og skelfingu á stjórnarsvæðum Palestínu, samkvæmt Euromedmonitor. Þessi tegund vopna er bönnuð samkvæmt alþjóðalögum þar sem vitað er að þau geta ekki greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Á daginn hefur komið að fjöldi íbúða og vinnustaða almennra borgara hafa verið lögð í rúst með slíkum vopnum að undanförnu. Meðal þeirra staða sem lent hafa í gríðarlegum sprengingum sem koma frá þessum vélmennaárásum eru Tawam og Zahraa hverfin þar sem björgunarsveitir borgarinnar eru til húsa, Jabalia flóttamannabúðirnar og Faluja hverfið. Í sömu frétt kemur fram að allt að 400 þúsund íbúar Palestínu séu í bráðri hættu á því að svelta til bana vegna þess ástands sem skapast hefur.

Svona mætti því miður halda lengi áfram. Þetta eru einungis nokkrar af ótal fréttum af algjörri vanvirðingu Ísraelshers fyrir alþjóðlegum sáttmálum, mannréttindabrotum og ofurofbeldi gagnvart óbreyttum borgurum. Þetta er þjóðernishreinsun, þjóðarmorð, allt fyrir opnum tjöldum. Þetta vitum við nú öll. En þetta opinberar ekki einungis grimmd Síonista og vanvirðingu fyrir lífum fólks. Þetta opinberar einnig hræsni, dugleysi og sjálfsblekkingar ráðamenns okkar.

„Alþjóðasamfélagið“ sem innihaldslaus áróðursbrella

Eitt sem ætti að vekja mikla athygli hvað varðar opinbera umfjöllun um slátrunina við botn miðjarðarhafs er skortur á tali um meint alþjóðasamfélag.

Þetta hugtak „alþjóðasamfélagið“ (á ensku „the international community“) á rætur sínar að rekja til þess er forvera Sameinuðu þjóðanna, eða the League of Nations, var komið á fót í kjölfar fyrri Heimsstyrjaldarinnar. Það var svo notað til að útskýra eðli Sameinuðu þjóðanna eftir þá seinni. Með tíð og tíma hefur hugtakið hins vegar fengið á sig aðra merkingu og í raun verið notað af Vesturlöndum, þá með Bandaríkin í forystu, til að réttlæta valdbeitingu á heimsvísu sem kemur Vesturlöndum til góða. Í tilfelli árásanna á stjórnkerfi Líbýu árið 2011 var hugtakið „alþjóðasamfélagið“ notað til að lýsa einmitt einungis aðgerðum ríkja sem tilheyrðu Atlantshafsbandalaginu og konungsríkjanna við Persaflóa. Þó að öll ríki heimsálfanna Afríku, Suður Ameríku, og Asíu hafi staðið alfarið fyrir utan þær „aðgerðir“, voru hinum gríðarlegu loftárásum á Líbýu og stuðningur við öfgaöfl það ár ítrekað lýst sem aðgerðum þessa „alþjóðasamfélags“. Hið sama má segja um loftárásir Atlantshafsbandalagsins á fyrrverandi Júgóslavíu, á Sýrland, og svo íþyngjandi efnahagsárásir á Venesúela, Kúbu og fjölda annarra ríkja sem hafa valið sér stjórnvöld sem ráðamenn á Vesturlöndum líta á sem þyrna í þófum sínum. Kannski var besta dæmið um hversu fjálglega hefur verið farið með þetta hugtak árásir Bandaríkjanna og leppríkja þeirra á Írak árið 2003. Þær aðgerðir voru beinlínis í trássi við ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Það sem sýnir valkvæmni og óheiðarlega notkun hugtaksins hvað best er það áð í fjölmiðlum okkar heimshluta er hugtakið „alþjóðasamfélagið“ sjaldan eða aldrei notað um aðgerðir ríkja sem standa utan við yfirráðasvæði Vesturlanda. Fundum BRICS landanna verður líklega aldrei lýst sem fundum „alþjóðasamfélagsins“ á stóru fréttamiðlum okkar, jafnvel þótt íbúar þeirra sem nú tilheyra BRICS séu langtum fleiri en íbúar Vesturlanda og leppríkja þeirra.

Orðið er nú áróðursbragð sem tengir þessar aðgerðir við mikilvægar stofnanir og samþykktir sem meirihluti heimsbyggðarinnar ber raunverulega hlýhug til. Mannréttindasáttmáli SÞ og hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna tengjast þá í hugum fólks slíkum ofbeldis- og þvingunaraðgerðum. Vestrið hefur stolið þessu hugtaki og notar það af hentisemi.

En fyrst að valdafólk hér á Íslandi og í öðrum Vestrænum ríkjum er áþe annað borð að nota þetta hugtak, þá er hægt að gera kröfur um að þau sýni af sér lágmarksviðleitni til að viðhalda einhverjum af þeim grundvallarreglum sem tengdust hugtakinu upphaflega. Slíkum grundvallarreglum má ekki beita af hentugleika, það sama verður að ganga um alla. Hér er vísað til samþykkta á borð við Genfarsáttmálann (1949) og viðauka hans sem skilgreindu mannréttindaviðmið fyrir hernaðaraðgerðir og framkomu við almenna borgara, og svo Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem á að hafa það markmið að viðhalda alþjóðlegum friði  og öryggi, stuðla að félagslegum og efnahagslegum framförum, standa vörð um mannréttindi og efla samvinnu meðal þjóða.

Þetta nýja „alþjóðasamfélag“ kolfellur á slíku prófi. Fá dæmi eru jafn hræðilegur vitnisburður um þetta og viðbrögð þess við árásum Ísraelshers á almenning í Palestínu og Líbanon. Þó að fjölmiðlar sýni þessu þjóðarmorði æ minni áhuga, verða árásir Ísraelsher því miður ógeðslegri með hverjum deginum sem líður. Ráðamenn okkar á Íslandi hafa ekki beitt áhrifum sínum á nokkurn hátt. Ísland hefur ekki slitið stjórnmálasamstarfi við Ísrael. Árásirnar eru ekki einu sinni fordæmdar. Ríkisstjórn Íslands hefur engin viðbrögð sýnt. Við skulum muna það næst þegar hugtakið „alþjóðasamfélagið“ ber á góma hjá þessu fólki.

Mynd á forsíðu fengin frá https://x.com/DALLOULALNEDER/status/1850589426629697825?t=2y1mKEpujMQRsAq0IXk8ug&s=19