Viðbrögð ríkisstjórnarinnar og stjórnmálaflokka við árásum ísraelska hersins á Gasa
—
Eðlilega var grimmdarleg árás al-Qassam-hersveitanna á ísraelska borgara, sem hófst laugardagsmorguninn 7. október, almennt fordæmd, alla vega í þeim heimshluta sem við fréttum helst frá. Þrátt fyrir skelfilegar misgjörðir Ísraels gagnvart Palestínumönnum áratugum saman fannst fæstum réttlætanlegt að ráðast á og drepa almenna borgara eins og þarna var gert. Hins vegar brá mörgum við það hversu einhliða þessi fordæming var.
Samdægurs svaraði Ísrael með árásum á Gasa. Ráðist var á Palestínuturninn svokallaða í miðri Gasa-borg á þeim forsendum að þar hefði Hamas starfsemi, en í húsinu voru líka íbúðir. Sprengjur féllu líka á tvö sjúkrahús og íbúðarhús. Gasa er háð rafmagni frá Ísrael og þennan sama dag var það tekið úr sambandi. Ríkisstjórn Ísraels boðaði aðgerðir sem á ensku kallast „Operation Iron Swords“. Það var sem sagt ljóst áður en dagur var liðinn að Ísrael mundi svara af fullri hörku. Engu að síður var fordæmingin víðast hvar á Vesturlöndum algerlega einhliða og því lýst yfir að Ísrael hefði rétt til að verja sig, í besta falli bætt við „innan ramma alþjóðalaga“. Þetta hefur löngum verið sagt til að réttlæta fólskuverk Ísraels.
Það kom ekki á óvart að bandarísk stjórnvöld lýstu yfir eindregnum stuðningi við Ísrael. En undir það tóku líka ýmsir ráðamenn í Vestur-Evrópu. Mynd af ísraelska fánanum var varpað upp á byggingu Evrópusambandsins í Brussel, bústað forsætisráðherra Bretlands (Downing Street 10), Brandenburg-hliðið í Berlín, Eiffel-turninn í París, óperuhúsið í Sydney og víðar. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, sagði sunnudaginn 8. október, þegar árásir ísraelska hersins á Gaza voru komnar á fullt skrið að hún hugsaði til allra fórnarlambanna beggja vegna víglínunnar, en það er líka ljóst, sagði hún, „að Ísrael hefur fullan rétt á að verjast því að það er Ísrael sem hefur verið ráðist á“. Ummæli Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og ýmissa þjóðarleiðtoga í Evrópu voru á svipuðum nótum. Föstudaginn 13. október sagði Vísir frá því að þrjú Evrópulönd, Frakkland, Bretland og Ungverjaland, hefðu bannað fólki að koma saman til að sýna Palestínumönnum stuðning [þar er reyndar misritað að í Ungverjalandi hafi samkomur til stuðnings Ísrael verið bannaðar]. Jafnframt hefði Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, varað við því að þeir sem noti merki samtakanna Hamas, lýsi yfir stuðningi við verk þeirra, tali fyrir frekara ofbeldi Hamas gegn Ísrael eða brenni ísraelska fánann geti átt dóm yfir höfði sér. Í fréttinni kom líka fram að Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, hefði skilning á þessu banni.
Í viðtali við Mbl 8. október vísaði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra, sem „hefur lýst afstöðu íslenskra stjórnvalda þar sem við fordæmum þessar árásir í gær“ og bætti við „eins og ég segi þá er full ástæða til að hafa miklar og þungar áhyggjur af þessari stigmögnun sem við höfum séð síðasta sólarhringinn og hún getur breiðst út.“ Daginn áður hafði Mbl eftir Þórdísi að að Ísrael væri „í fullum rétti til þess að verja sig gegn hryðjuverkunum sem hófust í nótt“.
9. október spurði Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, utanríkisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi: „ Í fyrsta lagi: Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að fordæma opinberlega yfirlýsingar varnarmálaráðherra Ísraels um að þau muni fremja enn frekari stríðsglæpi í kjölfar þessara árása, m.a. með því að drepa almenna borgara Gaza-strandarinnar og jafna heimili við jörðu til að hefna fyrir þessa árás Hamas? Þess má geta að hefnd er ekki lögleg í þjóðarétti. Í öðru lagi: Hyggst hæstv. ráðherra fordæma lokanir Ísraels á mat, vatni, rafmagni, interneti og eldsneyti inn á Gaza-svæðið?“ Utanríkisráðherra svaraði því til að samkvæmt alþjóðalögum „hefur Ísrael rétt og ekki bara rétt heldur beinlínis skyldu til að verja sína borgara, en þær aðgerðir sem í því felast þurfa líka að byggja á alþjóðalögum.“ Og hún lauk svari sínu með þessum orðum: „Það er mitt svar til hv. þingmanns: Alþjóðalögin eru skýr og regluverkið er skýrt. Ísraelsmenn hafa rétt til að verja sig og þurfa að gera það innan alþjóðalaga.“ Af spurningum þingmannsins, Arndísar Önnu, varð hins vegar ekki annað ráðið en hún fordæmdi árásir Ísraels. Þegar þessi orðaskipti áttu sér stað á Alþingi var ljóst að ísraelski herinn hafði þegar hafið eldflaugaárásir á íbúðarhverfi á Gasa og, eins og þingmaðurinn orðaði það, hafði „varnarmálaráðherra Ísraels lýst því yfir að hernaðaraðgerðum Hamas, árásum og ofbeldi verði svarað með fordæmalausri árás á Gaza-svæðið, ekki eingöngu með varnaraðgerðum heldur árás.“
Miðvikudaginn 11. október sendu formenn landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna (NB8) frá sér yfirlýsingu sem var lesin upp á Evrópuráðsþinginu. Fundinum þar sem yfirlýsingin var samþykkt var stjórnað af fulltrúa Íslands, Bjarna Jónssyni þingmanni Vinstri grænna og varaformanni utanríkismálanefndar. Yfirlýsingin er svohljóðandi:
Formenn landsdeilda Evrópuráðsþingsins frá Íslandi, Noregi, Eistlandi, Lettlandi, Finnlandi, Litáen, Svíþjóð og Danmörku fordæma harðlega ólíðandi og ómannúðlegar árásir Hamas á Ísrael og ísraelsku þjóðina og harma mannfall saklausra borgara á báða bóga.
Formenn landsdeildanna krefjast þess að tafarlaus endir verði bundinn á árásirnar og ofbeldið og að saklausum gíslum verði sleppt úr haldi nú þegar.
Við vottum Ísraelsku þjóðinni samstöðu vegna árásanna, sem hún hefur fullan rétt á að verjast innan ramma alþjóðalaga. Þá hvetjum við til þess að áfram verði unnið að því að koma á stöðugleika til framtíðar. Einungis þannig getum við tryggt að Palestínumenn og Ísraelar geti búið við frið.
Bjarni kynnti þessa yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem hún var harðlega gagnrýnd í athugasemdum. Mikil gagnrýni kom líka fram á lokuðum umræðuvettvangi Vinstri grænna á Facebook. Bjarni varðist með því að benda á að um leið og sagt væri að ísraelska þjóðin hefði fullan rétt á að verjast væri sett það skilyrði að það yrði „innan ramma alþjóðalaga“. Í viðtali við Mbl tók hann reyndar fram að aðgerðir Ísraels væru ekki innan ramma alþjóðalaga: „Viðbrögðin þurfa að vera innan ramma alþjóðalaga því við höfum virkilega áhyggjur af því sem gæti gerst. Sérstaklega þar sem er verið að tala um innrás, loka fyrir rafmagn, mat og vatn. Það er augljóslega ekki innan ramma alþjóðalaga.“ Daginn eftir brást hann svo á ný við gagnrýninni með yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni sem lýkur á þessum orðum: „Alveg eins og það er ekki hægt með nokkrum hætti að réttlæta þessi hryðjuverk Hamasliða, er ekki hægt að réttlæta þau voðaverk sem íbúar Gaza verða fyrir núna. Það verður að tryggja tveggja ríkja lausn og að Palestínumenn og Ísraelar geti búið við frið til framtíðar.“
13. október, tveim dögum eftir fund formanna landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sótti utanríkisráðherra fyrir hönd forsætisráðherra leiðtogafund Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF), en það er hernaðarleg samvinna sem Bretar leiða ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Hollandi, en Ísland gerðist aðili að þeim árið 2021. Þar var samþykkt ályktun þar sem meðal annars voru fordæmdar árásir Hamas og lýst yfir að Ísrael hefði rétt til að verjast innan ramma alþjóðalaga:
We strongly condemn the appalling terrorist attacks committed by Hamas against the Israeli people, and emphasise Israel’s right to defend itself in accordance with international law.
Þegar þessi ályktun var samþykkt hafði verið ljóst í fimm til sex daga að Ísrael var að brjóta alþjóðalög.
Síðdegis miðvikudaginn 11. október var boðað með litlum fyrirvara til útifundar á Austurvelli. Þar var haldið á fánum og áletruðum borðum og spjöldum. Þar á meðal hélt ung kona, líklega af palestínskum uppruna, á spjaldi sem á stóð: „Þórdís og Katrín!!! Palestínumenn bíða eftir samúðarkveðjum þínum.“
Líklega má segja að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé sá flokkur á Alþingi sem eindregnast hefur stutt Palestínu eins og fjölmargar ályktanir af vettvangi flokksins sýna. Samfylkingin hefur líka sýnt Palestínumönnum stuðning gegnum tíðina. 29. nóvember 2011, meðan VG og Samfylkingin voru saman í ríkisstjórn, samþykkti Alþingi stjórnartillögu borna fram af Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra um „að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967“. Sú tillaga var samþykkt með atkvæðum þingmanna VG, Samfylkingarinnar, Hreyfingarinnar og Framsóknarflokks. Sjálfstæðismenn sátu hjá. 15. desember 2011 viðurkenndi Ísland svo Palestínu samkvæmt tillögu Alþingis. Vorið 2010 fordæmdi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, árás Ísraelsmanna á skipalest með hjálpargögn, sem var á leið til Gasa. Um haustið sama ár fordæmdi hann Ísrael fyrir að meina íslenskum hjálparstarfsmönnum og sjálfboðaliðum að fara inn á Gasa með hjálpargögn og sagði það staðfesta „enn einu sinni að Ísraelsmenn eru að brjóta mannréttindi á íbúum Gaza dag hvern“. Haustið 2012 hélt Ísrael uppi árásum á Gasa og þá fordæmdi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, árásir Ísraels. Vorið 2021 urðu hörð átök í Palestínu og meðal annars gerði ísraelski herinn árásir á Gasa. Í fyrirspurnartíma á Alþingi 17. maí sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, að ríkisstjórnir allra landa, líka Íslands, þyrftu að sýna frumkvæði og hafa þor til að tjá sig gegn stríðsglæpum og spurði forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í þessum málum. Í kjölfarið tók Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, til máls og sagði meðal annars: „Við eigum að taka skýra afstöðu gegn þjóðum sem hernema aðrar þjóðir og ekki síst árásum á óbreytta borgara eins og við upplifum núna í dag á milli Ísraels og Palestínu.“ Hún vísaði til nýlegrar ályktunar þingflokks VG þar sem aðgerðir Ísraels á Gasa og landtökur og brottvísanir Palestínubúa frá heimilum sínum voru fordæmdar. Síðan spurði hún forsætisráðherra um afstöðu ríkisstjórnarinnar sem henni fannst ekki jafn skýr og afstaða VG. Kjarninn í svörum forsætisráðherra var þessi: „Okkar afstaða er algjörlega skýr: Það á að virða alþjóðalög og árásir á óbreytta borgara eru algerlega óásættanlegar.“ Daginn eftir, 18. maí, lagði Halldóra Mogensen ásamt fleiri þingmönnum Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks tillögu um að Alþingi álykti „að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir ísraelsks herliðs gegn palestínsku þjóðinni sem og landtökustefnu Ísraelsstjórnar“. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Flokks fólksins og Miðflokkins voru ekki meðal flutningsmanna. Tillagan kom aldrei til atkvæðagreiðslu en þessi litla samantekt sýnir að á undanförnum árum hafa fulltrúar annarra flokka en þessara þriggja á Alþingi sýnt Palestínumönnum samstöðu.
Fljótlega eftir að ísraelski herinn hóf árásir á Gasa þegar leið á laugardaginn 7. október síðastliðinn fóru almennir félagar í VG að láta í sér heyra á lokuðum umræðuvettvangi á Facebook og hvetja forystuna til að fordæma árásir. Stjórn svæðisfélags VG í Kópavogi þegar sendi frá sér ályktun sem hún samþykkti á fundi sínum 9. október:
Stjórn Vinstri grænna í Kópavogi fordæmir ógnarverk Hamas-samtakanna gagnvart óbreyttum borgurum í Ísrael. Slíkt verður aldrei réttlætt hvað sem á undan hefur gengið. En það má heldur ekki verða til þess að við lokum augunum fyrir því sem að baki liggur. Ísrael hefur beitt Palestínumenn ofbeldi áratugum saman með miklu mannfalli óbreyttra borgara auk annarra hörmunga. Stjórnvöld í Ísrael bera fulla ábyrgð á því ástandi sem ríkir í Palestínu. Það er ljóst að Ísrael notar nú tækifærið til harðari árása á Palestínumenn en þekkst hafa um langt skeið, jafnvel harðari en nokkru sinni, og njóta til þess fulltingis og jafnvel beinnar aðstoðar voldugra vestrænna ríkja. Því hefur aldrei verið meiri ástæða til að sýna Palestínumönnum stuðning í áratugalangri varnarbaráttu þeirra gegn ofríki og ofbeldi Ísraels. Aðgerðir Hamas að undanförnu mega ekki verða til að grafa undan þeim stuðningi.
Forysta VG á landsvísu tók sér hins vegar lengri tíma en laugardaginn 14. október sendi stjórn VG frá sér ályktun:’
Stjórn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir árásir og morð á almennum borgurum skilyrðislaust, hvar sem er í heiminum. Ein af grunnstoðum VG er alþjóðleg friðarhyggja. Ekkert er jafn skaðlegt fyrir umhverfið, velferð fólks og stöðu og réttindi kvenna og barna og hernaður. Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði Palestínu árið 2011, en hernám Ísraels á landi Palestínu hefur staðið yfir áratugum saman. Íslensk stjórnvöld eiga að tala skýrt fyrir því að alþjóðalögum sé beitt til að vernda íbúa Palestínu og fordæma framgöngu Ísraelshers – eins og hryðjuverk Hamas fyrir nokkrum dögum.
Þennan sama dag sendi flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar stjórnmálályktun þar sem segir meðal annars: „Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs af hálfu Ísraelshers og Hamas-samtakanna.“ Og daginn eftir, 15. október, sendi þingflokkur Samfylkingarinnar frá sér enn afdráttarlausari ályktun sem hefst svo: „Þingflokkur Samfylkingarinnar fordæmir harðlega ofbeldisverk Ísraelshers, eins öflugasta hers í heimi, gagnvart saklausum borgurum Palestínu undanfarna daga …“
En stjórn flokks forsætisráðherra, VG, sem hefur sem sagt ályktað að íslensk stjórnvöld eiga að fordæma framgöngu Ísraelshers. Enn hefur ríkisstjórnin þó ekki gert það. Fráfarandi utanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefur lýst því yfir að Ísrael hafi rétt til að verjast „innan ramma alþjóðalaga“. Fulltrúar Íslands hafa staðið að fjölþjóðlegum ályktunum með sama orðalagi. Forsætisráðherra hefur vísað til orða utanríkisráðherra. Nýr utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur ekki lýst yfir neinu öðru en því sem forveri hans hefur gert. Mjög fljótlega eftir að ísraelski herinn hóf árásir sínar á Gasa mátti öllum vera ljóst að alþjóðalög voru brotin. Að ríkisstjórn Íslands lætur eins og ekkert sé og stendur áfram við þetta orðalag er erfitt að túlka öðru vísi en sem stuðning við aðgerðir Ísraels þótt það sé ekki orðað beinlínis. Forsætisráðherra hefur vissulega lýst yfir að Ísland fordæmi árásina á al-Ahli-sjúkrahúsið að kvöldi 17. október. Bjarni Benediktsson bendir á að hér séu „undir stórir hópar fólks sem eru ekki beinir þátttakendur í átökunum og það er það sem alþjóðalögin og þar með talið mannúðarlög fjalla um, að það eigi að gera allt sem hægt er til að forða því að almennir borgarar verði fyrir mannskaða eða öðru tjóni vegna svona átaka“. Hér viðurkennir utanríkisráðherra í raun að alþjóðalög hafi verið brotin og forsætisráðherra fordæmir árásina á sjúkrahúsið en hvorugur ráðherranna nefnir Ísrael, og reyndar neitar Ísrael sök. Hér er því í besta falli umdeilanlegt hvort um sé að ræða fordæmingu á hernaðaraðgerðum Ísraels gegn Gasa.
Útifundur á Austurvelli sunnudaginn 15. október á vegum Félagsins Ísland Palestína og fleiri samtaka skoraði á forsætisráðherra og utanríkisráðherra að senda ríkisstjórn Ísraels skorinorða kröfu um að stöðva fjöldamorðin á Gaza tafarlaust:
Áskorun
Í augsýn alls heimsins er framið þjóðarmorð sem verður að stöðva.
Ísland hefur viðurkennt rétt palestínsku þjóðarinnar til að stofna eigið ríki og að palestínskir flóttamenn eigi rétt á að snúa aftur til heimkynna sinna. Það er skylda íslenskra stjórnvalda, sem lýsa yfir mikilvægi og réttmæti mannréttinda og alþjóðalaga, að liðsinna Palestínumönnum í baráttu þeirra fyrir frelsi og mannréttindum í eigin landi.
Með ofurelfi liðs og öflugum hernaðartækjum ræðst her Ísraels til atlögu gegn Palestínumönnum á Gaza. Hús eru jöfnuð við jörðu, sjúkrahús og skólar eyðilagðir og þúsundir manna drepnir. Á hverjum degi ræðst landtökufólk úr ólöglegu landtökubyggðunum á Vesturbakkanum gegn bændum og öðrum íbúum Palestínu, þeir brenna akra, höggva olífutré sem tekur áratugi að rækta, bera eld að húsum og bifreiðum – og drepa jafnt unga sem aldna.
Við skorum á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra að senda ríkisstjórn Ísraels skorinorða kröfu um að stöðva fjöldamorðin á Gaza tafarlaust!
Samþykkt á fundi á Austurvelli 15. október 2023
Ekkert hefur frést af viðbrögðum ráðherranna. Þessi áskorun verður ítrekuð á fundi sem hefur verið boðaður við Ráðherrabústaðinn þegar ríkisstjórnafundur fer fram kl. 9 að morgni föstudagsins 20.október. Í auglýsingu um fundinn segir:
Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld fordæmi opinberlega án tafar stríðsglæpi og ítrekuð fjöldamorð ísraelska hersins á Gaza og beiti sér fyrir því að ísraelsk stjórnvöld láti strax af þjóðernishreinsun sinni á Palestínu!