HEIMUR Á HVERFANDI HVELI
—

Myndin sýnir þau sem í fréttum er iðulega skírskotað til sem “alþjóðasamfélagsins”. Öll þekkjum við þetta: Svo illa hafi verið komið í Írak, Kongó, Venesúela, Líbíu, að ógleymdum öllum hinum ríkjunum að “alþjóðasamfélagið” hafi verið nauðbeygt til þess að skerast í leikinn. Þetta hefur átt við víða um mörg lönd. Einhverra hluta vegna hafa landránsbyggðir í Palestínu og nú hungursneyð og þjóðarmorð á Gaza verið undanskilin fránum augum “alþjóðasamfélagsins”.
Myndin er að sjálfsögðu tekin í Hvíta húsinu í Washington í byrjun vikunnar á fundi fulltrúa nokkurra stærstu Evrópuríkja NATÓ með Donald Trump Bandaríkjaforseta til þess að ræða stríð og frið í Úkraínu. Þetta voru þau Úrsúla von der Layen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, Alexander Stubb, forseti Finnlands, Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, Friedrich Merz, kanslari Þýskalands og Mark Rutte, forstjóri NATÓ. Þarna var líka Volodomir Selensky, forseti Úkraínu.
Um flest er þetta fólk sammála, sumt þó ekki.
Svo byrjað sé á hinu jákvæða, það er að segja samkvæmt þeirra skilningi, þá eru þau öll sammála um að verja beri hærra hlutfalli en fram til þess af þjóðarframleiðslu hvers ríkis um sig í þágu vígbúnaðar. Því má skjóta inn að þetta hefur ríkisstjórn Íslands einnig fallist á en minnir á til heimabrúks að margt af þessu þyrftum við að gera hvort sem er, óháð stríðsundirbúningi. Það er hins vegar mikill munur á því að efla innviði þjóðar út frá almannahag annars vegar og hagsmunum hernaðar hins vegar. Hafnir, flugvellir og annað samgöngukerfi hannað til að taka á móti kjarnorkukafbátum og flugvélum til kjarnorkuárása er ekki sambærilegt við að nálgast viðfangsefnið á samfélagslegum forsendum. En nóg um það, tekist hefur að koma “hagkerfum Evrópu í stríðsham” eins og Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins hvatti til á dögunum. Allt er þetta í fullkomnu samræmi við kröfur bandarískra forseta, Trumps og forvera hans.
En svo er það sem ”alþjóðasamfélagið” er ósammála um. Trump vill að stríðinu í Úkraínu ljúki sem fyrst. Eftir að hann taldi sig hafa tryggt bandarískum fjárfestum – hrægömmunum eins og þeir stundum eru kallaðir á þessari síðu – aukinn aðgang að auðlindum Úkraínu ekki síðri en að evrópskum fjárfestum höfðu áður verið tryggð, og í öðru lagi að þegar sýnt var að Evrópuhluti NATÓ myndi verða við kröfum um aukin útgjöld til hervæðingar, sá Trump því ekkert til fyrirstöðu að ljúka stríðinu í Úkraínu. Hann kveðst reyndar vera þeirrar skoðunar að þetta stríð hefði aldrei átt að hefjast. Hvers vegna fara í stríð ef allt sem hugurinn girnist fæst með öðrum leiðum?
Trump gefur hins vegar lítið fyrir landamæri Úkraínu. Telur að ljúka eigi stríðinu með eftirgjöf á Krímskaganum og austastata hluta Úkraínu þar sem stríðsátökin hófust árið 2014.
Það sem vantar inn í þessa breytu eru bandarískir harðlínumenn til hægri sem vilja ekki að Úkraínustríðinu ljúki á forsendum forsetans bandaríska fremur en evrópski NATÓ armurinn sem einnig vill að barist verði til sigurs!
Svo eru það náttúrlega Rússarnir með Pútín í fararbroddi. Þeir vilja horfa til þess sem þeir segja vera undirliggjandi ástæður stríðsins, en það er ásetningur Bandaríkjamanna að koma Rússlandi á hnén. Um þetta hef ég margoft fjallað og meðal annars rakið það sem hugmyndaveitur bandaríska hergagnaiðnaðarins og hermálaráðuneytisins, Pentagon, hafa sagt opinberlega.
Í því samhengi ber að benda á skýrslu RAND Corporatin frá árinu 2019, löngu fyrir innrás Rússa árið 2022. Það sem þarna er ráðlagt hefur allt meira og minna gengið eftir. Hér má nálgast aðgengilega úttekt á skýrslunni, og einnig hér.
Svo ætla ég að ráðleggja lesendum síðunnar að gefa sér tíma til að hlusta á fyrrum æðstráðanda í bandaríska hernum, Lawrence Wilkerson, sem skilur öðrum fremur hverjar afleiðingar það hefur haft að framfylgja þeirri stefnu sem RAND-stofnunin ráðleggur. Í viðtali við norska fræðimanninn Glen Diesen kemur fram hve mjög bandaríska hershöfðingjanum óar við undrigefni Evórpuhluta NATÓ sem hlýði Washington í einu og öllu en þráist helst við ef ljúka á Úkraínustríðinu án „sigurs“.
Svo að lokum að fyrirsögninni um heim á hverfandi hveli.
Fólkið á myndinni telur sig vera „alþjóðasamfélagið“ sem áður segir. Fulltrúar alþjóðasamfélagsins eru þau að sjálfsögðu ekki. Þau eru hins vegar fulltrúar þess hluta heimsins sem um nokkurra alda skeið og vel fram á síðustu öld voru ráðandi um jarðarkringluna alla sem nýlenduherrar í löndum sem nýlenduríkin höfðu sölsað undir sig með vopnavaldi, ránum og skefjalausu ofbeldi. Nýlenduveldin evrópsku réðu þannig miklu og Bandaríkin, öflugasta ríki nýlendustefnu samtímans, ræður vissulega miklu, og það sem meira er, ætlast til þess að fá öllu ráðið og beitir til þess ofbeldi og yfirgangi.
Þetta eiga að teljast bandamenn Íslands. Megi sá dagur koma sem allra fyrst að við losnum úr þessari lágkúrulegu samfylgd.
Í helstu alþjóðastofnun heimsins, Sameinuðu þjóðunum, stendur þetta fólk sem við sjáum á myndinni gegn hinu raunverulega alþjóðsamfélagi sem vill tafarlausa viðurkenningu á Palestínu og að þjóðarmorðinu á Gasa verði hætt þegar í stað. Þau sem eru á myndinni eru hins vegar fulltrúar ríkja sem með ráðum og dáð styðja rasískan zíonisma og morðin a Gaza og fangelsa umvörpum það fólk sem þessu mótmælir. Þegar við mótmælin verður ekki lengur ráðið með ofsóknum og fangelsunum er býsnast og andvarpað yfir grimmd heimsins.
En grimmdin er þeirra, það eru þau sem eru að bregðast. Það er “alþjóðasamfélagið” í gæsalöppum sem er að bregðast; myndin yfir greininni sýnir fulltrúa ríkja sem eru að eyðileggja hið raunverulega alþjóðasamfélag. Sjá einnig hér:
Vonandi er veldi nýlenduherra, gamalla og nýrra, á hverfandi hveli. Ég er reyndar sannfærður um að svo sé.
Bara að það verði ekki of seint.